Mexíkóskur brauðréttur


Mexíkóskur brauðrétturÞað er aldrei of mikið framboð af góðum uppskriftum að heitum brauðréttum. Mér finnst allavega gulls ígildi að eiga margar slíkar uppskriftir í handraðanum enda er ekki hægt að halda kökuboð án slíks réttar. Ég held að flestir gestgjafar séu sammála um að heitu brauðréttirnir eru alltaf vinsælastir í afmælum eða öðrum kökuveislum og ég passa mig alltaf á að vera með nóg af þeim, helst tvær tegundir. Ég er búin að setja inn nokkrar slíkar uppskriftir hingað á síðuna, hér, hér og hér. Nú bætist ein uppskriftin við, þetta er uppskrift sem ég skellti í um helgina út frá framboðinu í ísskápnum og heppnaðist svona ljómandi vel, alveg skotheldur brauðréttur! 🙂

IMG_6250

Uppskrift:

 • 16 – 18 brauðsneiðar, skornar í teninga (ég sker það mesta af skorpunni burtu)
 • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
 • 1 blaðlaukur, hvíti hlutinn smátt saxaður
 • 250 g skinka, skorin í bita
 • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
 • 1 dós aspas (ca 400 g)
 • salt og pipar
 • góð kryddblanda (ég notaði Pasta Rossa frá Santa Maria)
 • 1 msk Oscars grænmetiskraftur
 • 1stk mexíkó ostur (150 g), skorinn niður í litla teninga
 • 1stk bóndabrie ostur (100 g), skorinn niður í litla teninga (hægt að sleppa)
 • 250 g fetakubbur (eða fetaostur án olíunnar), mulin niður
 • 2 dl rjómi
 • 2 dl  mjólk
 • 1 poki rifinn gratín ostur (200 g)
 • Doritos ostasnakk (má sleppa)

IMG_6228

Ofn hitaður í 200 gráður. Brauðteningum er dreift í smurt eldfast mót. Gott er að bleyta aðeins upp í brauðinu með aspassafanum. Sveppir, blaðlaukur, paprika og skinka steikt á pönnu og aspasnum bætt út í. Kryddað með salti, pipar, grænmetiskrafti og góðri kryddblöndu líkt og Pasta Rossa. Mexíkó osti, brieosti og fetaosti bætt út á pönnuna ásamt mjólk og rjóma. Látið malla við vægan hita þar til osturinn hefur bráðnað. Þá er blöndunni hellt yfir brauðteningana, því næst ostinum dreift yfir og Doritos flögum stungið ofan í hér og þar. Bakað við 200 gráður í 25 – 30 mínútur eða þar til osturinn hefur tekið góðan lit.

IMG_6251IMG_6257

Æðislegur brauðréttur


Æðislegur brauðréttur

Annar sunnudagur í aðventu … tíminn þýtur svo sannarlega áfram. Í dag fórum við í árlegt aðventukaffi til Ingu frænku í tilefni afmælis hennar. Að vanda bauð hún upp á gómsætar veitingar, uppskriftir að flestum þeirra er einmitt að finna hér á Eldhússögum! 🙂 Jóhanna Inga tók rafmagnsgítarinn sinn með og tróð upp með afmælissöng og jólalögum. Hún er ansi dugleg á gítarinn þrátt fyrir að hafa bara lært á hann í eina önn. Ég hins vegar er orðin liðtækur rótari og get meira að segja stillt gítarinn fullkomlega þökk sé snilldar gítarstillingar-appi á símanum mínum, eins gott að það er til, annars væri lítið gagn í mér. Því miður varð Jóhanna Inga veik í boðinu og núna er hún komin með háan hita og er slöpp, vonandi jafnar hún sig fljótt af því.IMG_1831

Fyrir utan allar gómsætu veitingarnar sem Inga útbjó sjálf þá gerði ég einn brauðrétt auk þess sem Inga keypti gómsætar vestfirskar hveitikökur (sem eru ómótstæðilegar með smjöri og reyktum silungi!) af Önnu frænku okkar, sem er snilldar konditor, ásamt ljúffengum mömmukökum . Ég mæli sannarlega með því að þið kíkið á básinn hjá Önnu konditorí í jólaþorpinu í Hafnarfirði eða í bakaríið hennar og kaupið ykkur jólagott.

Recently Updated4

Brauðrétturinn sem ég gerði er ein af þeim uppskriftum sem var næstum því fallinn í gleymskunnar dá þótt að þetta sé „æðislegur brauðréttur“ eins og segir í titlinum. Mér finnst dálítið kjánalegt að láta einhvern rétt heita „æðislegur“ en ákvað bara að láta titilinn standa eins og hann stendur í gömlu uppskriftabókinni minni. Um daginn minnti Hildur vinkona mín mig á þennan brauðrétt og sagðist hafa fengið uppskriftina hjá mér. Hún fór að tala um að rétturinn hefði slegið í gegn hjá henni í saumaklúbbi. Ég mundi ómögulega eftir þessum brauðrétti og fletti í gegnum gömlu uppskriftabókina mína en ég hélt mig hafa fært allar uppskriftirnar hingað inn á bloggið. Svo var greinilega ekki því ég fann þessa uppskrift á snjáðri síðu í bókinni og það rifjaðist upp fyrir mér hversu vinsæll þessi brauðréttur hefur verið í veislum hjá mér í gegnum tíðina. Það er svo skemmtilegt við þennan rétt að það er ekki á honum rifinn ostur heldur þeyttar eggjahvítur með dálitlu majónesi og kryddum.

Uppskrift í fremur lítið eða meðalstórt form (á myndinni er ég með tæplega tvöfalda uppskrift í stóru formi):

 • ca. 12-14 brauðsneiðar skornar í teninga (ég sker skorpuna af)
 • 2 dl majónes
 • 1 dós sýrður rjómi
 • 200 g skinka, skorin í sneiðar
 • aspas í dós (ca. 400 gramma dós)
 • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða sett í hvítlaukspressu
 • ca 150 g sveppir, skornir í sneiðar
 • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
 • ca. 1 tsk karrí
 • 1/4 tsk cayanne pipar
 • salt & pipar

Ofan á brauðréttinn:

 • ca. 2-4 eggjahvítur (fer eftir stærð formsins)
 • 3 msk majónes
 • hnífsoddur karrí
 • hnífsoddur cayanne pipar

Ofn hitaður í 200 gráður. Brauðteningunum er dreift í smurt eldfast mót. Gott er að bleyta aðeins upp í því með aspassafanum.IMG_1806Majónesi, sýrðum rjóma, skinku, aspas, sveppum og hvítlauki er hrært saman.IMG_1809 Kryddað með cayanne pipar, karrí, salti og pipar. Gott er að byrja með minna en meira af karrí og cayanne pipar og smakka sig svo áfram. Blöndunni er svo dreift yfir brauðið.IMG_1812 Eggjahvíturnar eru stífþeyttar. Því næst er majónesi og örlítið af cayanne pipar og karrí hrært varlega saman við og blöndunni smurt yfir brauðréttinn.IMG_1820 Hitað í ofni í ca. 25-30 mínútur.

IMG_1829Borið fram heitt.IMG_1875

Rúllutertubrauð með Gullosti og skinku


Rúllutertubrauð með Gullosti og skinku

Dagarnir líða svo ótrúlega hratt hjá mér nú um mundir. Á hverjum degi finnst mér ég rétt komin á fætur þegar það er komið aftur kvöld. Ég á það til að taka að mér of mikið af verkefnum. Það er mikið að gera í aðalvinnunni minni, nóg að gera í aukavinnunni og komið að skiladögum í auka-aukavinnunni minni. Ég á erfitt með að segja nei við verkefnum og þegar ég hef tekið þau að mér þá vil ég gera þau 110% og tímarnir í sólarhringnum duga ekki til. Ég er samt að æfa mig að segja nei og tekst það öðru hverju! 🙂 Núna er sérstaklega mikið að gera því ég er að auki að undirbúa og pakka fyrir ferðalag okkar Elfars sem hefst á morgun. Hann er að fara að flytja fyrirlestur á ráðstefnu á Rhodos og ég gat ekki staðist mátið að fara með. Mikið verður gott að fara í sólina í nokkra daga eftir sólarlaust sumar hér á Íslandi! Amman og afinn eru svo góð að flytja inn til barnanna á meðan þannig að við getum notið þess að vera í fríi áhyggjulaus – mikið hlakka ég til! 🙂

Áður en ég vík að uppskrift dagsins þá langar mig að benda á frábæra bók sem kom út í síðustu viku. Steingrímur Sigurgeirsson rekur vefinn Vínótek sem er dæmalaust öflugur og flottur uppskriftavefur en að auki eru þar umfjöllun og dómar um vín og veitingastaði ásamt vefverslun með til dæmis vínglösum. Steingrímur var að gefa út bókina „Vín – frá þrúgu í glas„, bók sem hefur að geyma margvíslegan fróðleik um vín. Ég hef ekkert vit á vínum, vel oftar en ekki vín út frá fallegum myndum á flöskunni, finnst sæt hvítvín best því þau bragðast eins og ávaxtasafi og býð gestum mínum blygðunarlaust upp á rauðvín af „belju“ ef því er að skipta. Botninum náði ég þó í Stokkhólmi fyrir nokkrum árum. Þá var ég að vinna á sjúkrahúsinu með íslenskum lækni sem leysti af á deildinni minni um tíma. Við buðum honum í mat og ég eldaði góða máltíð. Rétt áður en hann kom þá datt mér allt í einu í hug að kannski væri huggulegt að bjóða upp á rauðvínslögg með kjötinu. Við áttum eina ræfilslega rauðvínsflösku frá Californiu sem hafði kostað 50 sænskar krónur, sem sagt ekkert gæðavín þar á ferðinni en ég ákvað að láta það duga. Rétt áður en gesturinn mætti þá tók ég eftir því að eiginmaðurinn hafði lagt hvítvínsglös á borðið, ég ætlaði að láta hann skipta um glös en gleymdi því. Því fór svo að gestinum var boðið upp á 50 króna bandarískt rauðvín í hvítvínsglösum. Gesturinn var svo ljúfur og hógvær að hann hrósaði máltíðinni bak og fyrir og lét eins og honum hefði verið boðið eðalvín. Það var ekki fyrr en alllöngu seinna að við komumst að því að hann er einn helsti og besti hvítvínssérfræðingur landsins! Eftirleiðis þegar hann kom til okkar í mat þá lét ég hann um að koma með vínið með sér og einbeitti mér að því sem ég kann betur, að elda mat! Það mætti halda að þessi saga hefði frést út því ég fékk sent eintak af bókinni „Vín – frá þrúgu í glas“ í síðustu viku – kærar þakkir Forlagið, ég þurfti á henni að halda! 😉 Ég er heilmikið búin að lesa í bókinni sem er algjörlega frábær. Upplýsingarnar eru afar aðgengilegar, jafnvel fyrir einhvern eins og mig sem kann ekkert um vín, og settar fram á skemmtilegan hátt. Nú veit ég til dæmis hver er munurinn á Reserva og Grand Reserva! 🙂 Lesturinn æsir upp í mér enn frekar löngunina að fara í matar- og vínferð til Frakklands og Ítalíu, draumur sem ég mun láta rætast einn daginn!

IMG_0037Mér finnst rauðvínsglasahringirnir á bókakápunni og inni í bókinni svo flottir og vel til fundnir!

Það er skemmtileg tilviljun að rauðvínshringirnir á bókinni eru einmitt í sama lit og rétturinn sem ég ætla að gefa uppskrift að í dag – þetta er vinsæll litur! Í afmælisveislu Jóhönnu um daginn bauð ég upp á rúllutertubrauð sem ég hef ekki prófað áður en uppskriftina sá ég í Gestgjafanum og breytti henni, notaði annarskonar ost og sultu. Það verður að segjast að brauðrétturinn var ákaflega sérstakur á litinn en góður var hann. Anna vinkona benti mér pent á að brauðrétturinn og buxurnar hennar og hálsmenið voru nákvæmlega eins á litinn og ég held ég geti fullyrt að það sé sjaldgæft að afmælisgestir klæði sig í stíl við brauðrétti eða að brauðréttir séu í tískulitunum! Þrátt fyrir sérstakan lit þá var þessi brauðréttur mjög góður og skemmtileg tilbreyting í brauðréttaflóruna. Þar sem að brauðrétturinn var ekkert sérstaklega aðlaðandi fyrir myndartöku af tók ég fáar myndir af honum en hér flikkar Anna vinkona verulega upp á eina brauðréttamyndina – allt í stíl! 🙂

IMG_7001

Uppskrift:

 • 1 rúllutertubrauð
 • ca. 200 g hindberjasulta
 • skinkusneiðar (ég notaði tæpt box af silkiskorni reyktri skinku frá Ali)
 • 1 Gullostur, mjög kaldur (gott að setja í frysti í 3-4 tíma – ég mundi þetta auðvitað ekkert þannig að ég setti ostinn bara í frysti í 1 tíma og það var í lagi)

Ofn hitaður í 180 gráður. Penslið rúllutertubrauðið með sultu og leggið skinku ofan á. Skerið kalda ostana í sneiðar og leggið á rúlluna. Brauðinu er rúllað upp og hjúpnum (sjá uppskrift hér neðar) smurt á brauðið. Hitað í ofni við 180 gráður í um það bil 15 mínútur.

Rúllutertubrauð með Gullosti og skinku

Hjúpur:

 • 3 msk. bláberjasulta
 • 3 msk rjómaostur
 • 1 eggjarauða

Sultu og rjómaosti hrært vel saman í potti og hitað upp.  Því næst er blandan kæld og eggjarauðunni hrært út í.

Kjúklingabaka


Um daginn þegar við héldum fjölskylduafmæli fyrir hana Jóhönnu okkar á þá gerði ég þessa böku fyrir veisluna. Mér finnst hún voða góð og bakan er líka skemmtileg tilbreyting frá þessum hefðbundnu heitu brauðréttum. Það er ekkert flóknara að gera bökuna en að gera heitan brauðrétt. Ég notaði kjúklingabringur en það er líka hægt að kaupa tilbúinn heilan kjúkling og rífa hann niður. Smjördeigið sem ég nota er frá Findus, það er frosið en þiðnar fljótt. Degið er í fimm plötum, þeim er raðað þannig að brúnirnar leggjast örlítið ofan á hvor aðra og síðan flatt út með kökukefli. Það er ekkert mál að fletja smjördeigið út en það verður að hafa dálítið hveiti, bæði undir og ofan á deiginu, annars klessist það. Þessa böku er sniðugt að bera fram í veislum en það er líka hægt að nota hana sem aðalrétt og bera þá fram með henni gott salat.

Uppskrift:

 • 500 g smjördeig
 • 300 g sveppir
 • salt og pipar
 • kjúklingakrydd
 • 1 stk. rauð paprika
 • 300 g kjúklingur, steiktur
 • 200 g goudaostur
 • 50 g fetaostur í kryddlegi
 • 1 dós sýrður rjómi

Hitið ofn í 200 gráður. Fletjið smjördeigið út og setjið í eldfast form. Sneiðið sveppina niður og steikið þá upp úr smjöri á pönnu. Kryddið með salti, pipar og góðu kjúklingakryddi. Skerið paprikuna niður í teninga, bætið henni út á pönnuna og hitið með í restina. Rífið steiktan kjúkling niður og blandið honum saman við ásamt goudaosti og fetaosti. Kælið áður en sýrða rjómanum er hrært saman við. Hellið blöndunni yfir smjördeigið í forminu, bakið við 200°C í um 25 mín, eða þar til brúnirnar á smjördeiginu hafa tekið góðan lit.