Kjúklingabaka


Um daginn þegar við héldum fjölskylduafmæli fyrir hana Jóhönnu okkar á þá gerði ég þessa böku fyrir veisluna. Mér finnst hún voða góð og bakan er líka skemmtileg tilbreyting frá þessum hefðbundnu heitu brauðréttum. Það er ekkert flóknara að gera bökuna en að gera heitan brauðrétt. Ég notaði kjúklingabringur en það er líka hægt að kaupa tilbúinn heilan kjúkling og rífa hann niður. Smjördeigið sem ég nota er frá Findus, það er frosið en þiðnar fljótt. Degið er í fimm plötum, þeim er raðað þannig að brúnirnar leggjast örlítið ofan á hvor aðra og síðan flatt út með kökukefli. Það er ekkert mál að fletja smjördeigið út en það verður að hafa dálítið hveiti, bæði undir og ofan á deiginu, annars klessist það. Þessa böku er sniðugt að bera fram í veislum en það er líka hægt að nota hana sem aðalrétt og bera þá fram með henni gott salat.

Uppskrift:

 • 500 g smjördeig
 • 300 g sveppir
 • salt og pipar
 • kjúklingakrydd
 • 1 stk. rauð paprika
 • 300 g kjúklingur, steiktur
 • 200 g goudaostur
 • 50 g fetaostur í kryddlegi
 • 1 dós sýrður rjómi

Hitið ofn í 200 gráður. Fletjið smjördeigið út og setjið í eldfast form. Sneiðið sveppina niður og steikið þá upp úr smjöri á pönnu. Kryddið með salti, pipar og góðu kjúklingakryddi. Skerið paprikuna niður í teninga, bætið henni út á pönnuna og hitið með í restina. Rífið steiktan kjúkling niður og blandið honum saman við ásamt goudaosti og fetaosti. Kælið áður en sýrða rjómanum er hrært saman við. Hellið blöndunni yfir smjördeigið í forminu, bakið við 200°C í um 25 mín, eða þar til brúnirnar á smjördeiginu hafa tekið góðan lit.

9 hugrenningar um “Kjúklingabaka

 1. ohh Dröfn þú ert svooo mikið búin að redda afmælinu hjá mér um næstu helgi – held að meirihluti veitinga verði frá þér 🙂

  • Frábært að heyra! Gangi þér vel með afmælið hans Jóhanns Björgvins og endilega láttu vita ef að veitingarnar heppnuðust vel (ef ekki þarftu ekkert að láta vita! 😉 )

 2. Fór í sumarbústað með sex öðrum konum og var búin að elda tvær svona bökur sem hitaðar voru upp á föstudagskveldi þegar hópurinn mætti í hús. Vakti mikla lukku og vorum við allar sammála um að þetta væri frábær baka. Ein var nóg en hin var borðuð köld í hádeginu daginn eftir og var ekki síðri. Með þessu bar ég fram feta/jógúrtsósuna með hvítlauk og kotasælu/gulraótarbollurnar frá þér. ***** 🙂
  Takk fyrir mig og mína
  Ester

  • Mikið var þetta skemmtileg kveðja Ester! 🙂 Kærar þakkir og vonandi getur þú haldið áfram að elda góða rétti héðan! 🙂

 3. kvöldmaturinn í kvöld, með smá sveiflu. Kjúklingurinn hafði eitthvað rýrnað svo ég setti beikonkurl í staðinn, gul paprika í stað rauðrar og ísbúi í staðinn fyrir gouda, svo þurfti nauðsynlega að nota smá lús af rjómaosti sem lá undir skemmdum. Hrærði hann saman við sýrða rjómann og setti yfir,
  bíð núna með hnífapörin í hönd eftir að smakka ljúfmetið. Efast ekki um að þetta verður hnossgæti.

   • Hreinlega frábært! Tók smávegis frá og setti í lítið form til að hafa í hádeginu daginn eftir fyrir okkur vinkonurnar og það var ekki arða eftir. Meiriháttar gott…

 4. Bakvísun: Mexíkóskur brauðréttur | Eldhússögur

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.