Kjúklingabringur fylltar með döðlum, beikoni og fetaosti


IMG_1246

Ég tók í mig fyrir nokkru að mig langaði svo mikið í einhverskonar kjúklingarétt með döðlum og beikoni. Síðan þá hef ég prófað mig áfram með nokkrar útgáfur. Til dæmis pófaði ég að vefja slíkri fyllingu upp í úrbeinuðum kjúklingalærum ásamt fleiri tilraunum. Það var ekki fyrr en að mér datt í hug að bæta við fetaosti og lauki við blönduna og setja hana inn í vasa á kjúklingabringu að mér fannst rétturinn smella saman. Satt best að segja finnst mér þetta einn besti kjúklingaréttur sem ég hef fengið lengi og vona að ég sé ekki ein um það! 🙂 Mér finnst alveg nauðsynlegt að hafa sætkartöflumúsina og fetaosta- og hvítlaukssósuna með réttinum, það setur punktinn yfir i-ið.

IMG_1254

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur (ég notaði Rose Poultry)
  • 200 g beikon, skorið í bita
  • 1 meðalstór rauðlaukur, saxaður smátt
  • 200 g döðlur, saxaðar fremur smátt
  • 180 g fetaostur (fetaostakubbur)
  • salt & pipar
  • chiliflögur
  • 1 dós tómatar í dós (ca. 411 g)
  • 1 1/2 msk tómatmauk
  • 1 1/2 tsk paprikukrydd

Ofn hitaður í 200 gráður. Djúpur vasi er skorinn í kjúklingabringurnar og þess gætt að þær séu ekki gataðar. Bringurnar eru svo kryddaðar með salti, pipar og chiliflögum. Fyrir þá sem vilja er hægt að snöggsteikja bringurnar, ca. 1 mínútu á hvorri hlið á þessum tímapunkti, til þess að þær fái steikingarhúð.

Beikon er steikt á pönnu og þegar það nálgast að verða stökkt er lauk og döðlum bætt út á pönnuna og allt steikt í ca. 3-4 mínútur. Að lokum er fetaosturinn mulinn út á pönnuna og öllu blandað saman. Helmingurinn af blöndunni er tekinn af pönnunni, skipt á milli kjúklingabringanna og vasarnir á þeim fylltir. Því næst er tómötum í dós bætt á pönnuna út í restina af döðlu- og beikonblönduna. Þá er tómatmauki og paprikukryddi bætt út í og leyft að malla í 3-4 mínutur. Að lokum er tómatmaukblöndunni hellt í botninn á eldföstu móti og kjúklingabringunum raðað ofan á. Hitað í ofni við 200 gráður í um það bil 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn hefur eldast í gegn. Borið fram með sætkartöflumús og fetaosta- og hvítlaukssósu.

Fetaosta- og hvítlaukssósa:

  • 70 g fetaosturinn (restin af fetaostakubbinum)
  • 1 dós sýrður rjómi 18% (180 g)
  • 1-2 hvítlauksrif
  • salt og pipar

Öllum hráefnunum er blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél og smakkað til með salti og pipar.

IMG_1252IMG_1258

Kjúklingabaka


Um daginn þegar við héldum fjölskylduafmæli fyrir hana Jóhönnu okkar á þá gerði ég þessa böku fyrir veisluna. Mér finnst hún voða góð og bakan er líka skemmtileg tilbreyting frá þessum hefðbundnu heitu brauðréttum. Það er ekkert flóknara að gera bökuna en að gera heitan brauðrétt. Ég notaði kjúklingabringur en það er líka hægt að kaupa tilbúinn heilan kjúkling og rífa hann niður. Smjördeigið sem ég nota er frá Findus, það er frosið en þiðnar fljótt. Degið er í fimm plötum, þeim er raðað þannig að brúnirnar leggjast örlítið ofan á hvor aðra og síðan flatt út með kökukefli. Það er ekkert mál að fletja smjördeigið út en það verður að hafa dálítið hveiti, bæði undir og ofan á deiginu, annars klessist það. Þessa böku er sniðugt að bera fram í veislum en það er líka hægt að nota hana sem aðalrétt og bera þá fram með henni gott salat.

Uppskrift:

  • 500 g smjördeig
  • 300 g sveppir
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd
  • 1 stk. rauð paprika
  • 300 g kjúklingur, steiktur
  • 200 g goudaostur
  • 50 g fetaostur í kryddlegi
  • 1 dós sýrður rjómi

Hitið ofn í 200 gráður. Fletjið smjördeigið út og setjið í eldfast form. Sneiðið sveppina niður og steikið þá upp úr smjöri á pönnu. Kryddið með salti, pipar og góðu kjúklingakryddi. Skerið paprikuna niður í teninga, bætið henni út á pönnuna og hitið með í restina. Rífið steiktan kjúkling niður og blandið honum saman við ásamt goudaosti og fetaosti. Kælið áður en sýrða rjómanum er hrært saman við. Hellið blöndunni yfir smjördeigið í forminu, bakið við 200°C í um 25 mín, eða þar til brúnirnar á smjördeiginu hafa tekið góðan lit.