Korma kjúklingur með eplum, tómötum og spínati


img_1095
Þegar kemur að indverskum réttum þá er ég alltaf sérstaklega hrifin af korma kjúklingi. Hérna setti ég saman einfaldan og ljúffengan korma kjúklingarétt með mörgum af mínum uppáhaldshráefnum, sætum kartöflum, eplum, tómötum og fleiru. Með honum bar ég fram raita jógúrtsósu, naan brauð, ferskt kóríander og svo banana með kókosi – frábærlega gott meðlæti með indverskum mat finnst mér.
Mér finnst alltaf svo gaman að búa til svona pottrétti, þeir eru yfirleitt fljótgerðir og svo er þægilegt að geta gengið frá í eldhúsinu í rólegheitum á meðan þeir malla í pottinum.  Annar stór kostur er að pottréttir eru oft enn betri daginn eftir og henta því ákaflega vel í matarboxið fyrir vinnuna eða skólann. Allt ofangreint á sannarlega við um þennan rétt, fljótlegur og gómsætur korma kjúklingur, ég mæli með að þið prófið! 🙂

 

Uppskrift:

  • 1 msk olía
  • 700 g kjúklingalundir (ég notaði frá Rose Poultry), skornar í bita
  • 1 lítill laukur, saxaður smátt
  • 1/2 dós korma spice paste (150 g) frá Patak’s
  • 1/2 dl vatn
  • 1 rautt epli, skorið í bita
  • 2 tómatar, skornir í bita
  • 1 sæt kartafla (ca 250 g) skorin í bita
  • 200 ml kjúklingasoð
  • 2 dl matreiðslurjómi (hægt að skipta út fyrir kókosmjólk)
  • 100 g spínat
  • ferskt kóríander

    Laukur steiktur á pönnu í olíunni í nokkrar mínútur. Þá er korma maukinu bætt út í, steikt í 1-2 mínútur og svo er vatninu bætt út í. Því næst er epli, tómatar og sætar kartöflur sett út í og allt saman steikt. Fært yfir í stóran pott. Olíu bætt á pönnuna og kjúklingurinn steiktur þar til hann hefur náð steikingarhúð, honum er þá bætt út út í pottinn ásamt steikingarsafanum. Kjúklingasoði og rjóma bætt út í, látið malla undir loki í 20-30 mín eða þar til sætu kartöflurnar og eplin eru orðin mjúk. Í lokin er spínatinu bætt út í og borið fram með fersku kóríander ásamt bananasneiðum velt upp úr kókos, raita sósu, góðum hrísgrjónum og naan brauði.
Raita jógúrsósa:
 
  • 2 dl hrein jógúrt eða grísk jógúrt
  • 1 lítil gúrka
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  •  fersk mynta, söxuð smátt – ég notaði ca. 2 msk
  • 1 tsk fljótandi hunang
  • salt og svartur pipar
Gúrkan er skoluð og rifin niður með rifjárni. Mesti vökvinn er pressaður úr gúrkunni. Henni er svo blandað saman við jógúrt, hvítlauk, myntu og hunang. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Ef notuð er grísk jógúrt er sósan þynnt með dálitlu vatni, ca. 1/2 dl, sósan á að vera fremur þunn.

img_1096

Marengsterta með súkkulaðirúsínum og eplum


img_4036-6

Í síðasta mánuði átti yngsta barnið í fjölskyldunni 12 ára afmæli.

img_4047

Hún hefur alltaf haft ákveðnar skoðanir á því hvernig afmælisveislurnar eigi að vera og það hefur alltaf verið eitthvað þema í gangi. Í ár var þemað til fyrir tilviljun þegar við mæðgur byrjuðum á því að kaupa servíettur sem við féllum fyrir, okkur fannst þær svo fallegar. Í kjölfarið ákváðum við að það yrði bara einhverskonar fallegt pastel þema.

Ég bað Önnu frænku hjá Önnu konditori að gera uppáhaldstertu afmælisbarnsins (svampbotnar, hindber og karamellukrókant) og hafa hana í stíl við servíetturnar. Það var ekki að spyrja að því, þessi listakona bjó til frábærlega fallega tertu sem skreytt var með blómum og hjóli með blómakörfu, alveg í stíl við servíetturnar.

img_4043img_4031

Ég bjó til súkkulaðiköku og skreytti hana í pastellitum. Ég notaði skúffukökuuppskrift og hafði botnana fjóra (smjörkrem á milli), þá verður kakan fallega há. Hins vegar er ekki gott að skera hana þannig því sneiðarnar verða alltof stórar. Ég hafði því harðspjald á milli botnanna (tveir botnar með kremi á milli – kringlótt harðspjald – tveir botnar með kremi á milli) þannig að fyrst var efsta lag kökunar skorið og síðan sú neðri, mjög praktísk og einföld lausn ef maður vill hafa kökur háar. Ég hef stundum hreinlega líka notað botninnn úr lausbotna kökuforminu og haft hann á milli ef ég hef ekkert annað.

img_4040img_4041

Ein tertan sem ég var með var marengsterta og ég ákvað að gera tilraun og setja eitthvað nýtt í rjómann. Ég notaði súkkulaðirúsínur og græn epli, ótrúlega ferskt og gott. Ég mæli sannarlega með þessari bombu í næstu veislu! 🙂

img_4037

Uppskrift:

Marengs:

  • 3 dl sykur
  • 5 eggjahvítur
  • 3 bollar Rice Krispies

Ofn hitaður í 120 gráður við blástur (ef baka á báða botnana samtímis) eða 130 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur þeyttar og sykri bætt út í smátt og smátt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Rice Krispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er um það bil 23 cm. í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann
 settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í um það bil 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

Rjómafylling:

  • 5 dl rjómi
  • 3-4 græn epli (fer eftir stærð), skorin smátt
  • 150 g súkkulaðirúsínur

Rjóminn er þeyttur og eplum ásamt súkkulaðirúsínum er blandað út í rjómann. Rjómablandan er svo sett á milli marengsbotnanna þegar þeir eru orðnir kaldir.

img_4033

Súkkulaði krem: 

  • 5 eggjarauður
  • 5 msk flórsykur
  • 100 g Síríus pralín súkkulaði með karamellu
  • 100 g suðusúkkulaði

Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Pipp og suðursúkkulaði er brotið niður í skál og brætt yfir vatnsbaði. Ef súkkulaðiblandan er of þykk er hægt að bæta örlítilli mjólk eða rjóma út í. Þegar súkkulaðið hefur bráðnað og kólnað örlítið er þvi bætt varlega út í eggjarauðu- og flórsykurblönduna. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðaberjum, bláberjum, hindberjum, rifsberjum og blæjuberjum. Tertan er geymd í ísskáp og er líka góð daginn eftir.

img_4035-5