Núðlur með kjúklingi og sveppum


 

Þessi réttur er einn af þeim sem er í uppáhaldi hjá öllum í fjölskyldunni, meira að segja hjá yngsta barninu sem er líklega á toppi ferils síns í matvendni (vonandi!)! Henni finnst fiskur vondur, allt dökkt kjöt, skyr, jógúrt, bananar, hún er lítið hrifin af brauði, borðar ekki smjör … þetta er svona það sem ég man í svipinn! Hins vegar er það fremur óvenjulegt að hún er hrifin af flestu grænmeti og toppurinn á tilverunni hjá henni er ekki að fara á nammibarinn heldur á salatbarinn í Hagkaup! 🙂 Reglan hér á heimilinu er að enginn er neyddur til að borða en það verður að smakka allan mat, þó ekki sé nema einn bita. Við reynum að eyða ekki mikilli orku í matvendnina, ég hef nefnilega séð þróunina á eldri börnunum. Frá því að þau vilji ekki borða þetta og hitt, að matnum megi ekki blanda saman og svo framvegis þar til að smekkurinn breytist smátt og smátt og þau borði allan mat. En þetta er allavega skotheldur réttur jafnt fyrir matvandna sem og aðra! Ekki skemmir fyrir að hann er mjög fljótlegur.

Uppskrift f. 3

 • 2 msk olía
 • 1 rauðlaukur
 • 2-3 cm bútur af engifer
 • 2-3 hvítlauksgeirar
 • 2 kjúklingabringur
 • 250 gr sveppir
 • 2 msk sojasósa
 • 2 pakkar núðlur með nautakjötsbragði (,,instant“ núðlurnar)
 • kryddið úr núðlupökkunum
 • 2 hnefafyllir af spínati

Skerið rauðlaukinn í tvennt og hvorn helming um sig síðan í þunnar sneiðar. Saxið engifer og hvítlauk mjög smátt. Skerið kjúklingabringurnar í mjög þunnar sneiðar þvert yfir. Skerið sveppina í sneiðar. Hitið pönnu vel og setjið 1 msk af olíu á hana. Steikið rauðlauk, engifer og hvítlauk í 1-2 mínútur við góðan hita en takið það svo af pönnunni með gataspaða og setjið á disk. Bætið 1 msk af olíu á pönnuna. Setjið svo kjúklingasneiðarnar á pönnuna og  steikið þar til þær hafa allar tekið lit og hrærið oft á meðan til að snúa þeim. Bætið sveppunum á pönnuna og steikið í 1-2 mínútur í viðbót. Setjið laukblönduna aftur á pönnuna, ásamt sojasósunni, stráið kryddinu úr núðlupökkunum yfir, hellið smáskvettu af vatni á pönnuna og látið sjóða við meðalhita í 2-3 mínútur. Á meðan, setjið núðlurnar í skál, hellið sjóðandi vatni yfir og látið standa í um 3 mínútur. Hellið þá núðlunum í sigti og látið renna vel af þeim. Setjið spínatið á pönnuna, hrærið og látið standa í mínútu. Hvolfið núðlunum í skál, hellið öllu af pönnunni yfir og blandið vel.

Besta skúffukakan


Ég er dálítið spennt að setja þessa uppskrift hérna inn! Ég fer sjaldnast nákvæmlega eftir mataruppskriftum og breyti þeim oft og iðulega. En kökuuppskriftir eru viðkvæmari fyrir breytingum og ekki oft sem ég breyti þeim mikið. Ég hef hins vegar verið að prófa mig áfram með skúffukökur. Allir vilja eiga eina feiknagóða uppskrift af skúffuköku og ég hef prófað margar slíkar til að finna hina einu og sönnu, en án árangurs. Vissulega eru margar skúffukökur ljómandi góðar en undanfarið hef ég verið að prófa mig áfram með mína eigin uppskrift og er loksins komin niður á eina sem ég er mjög ánægð með. Þessi skúffukaka er bragðgóð og mjúk, sú besta sem ég hef smakkað hingað til. Ég held að einn af göldrunum við hana sé súrmjólkin með karamellubragði!

Jóhanna Inga yngsta skottið okkar átti 8 ára afmæli um daginn og þá var auðvitað bökuð skúffukaka. Reyndar var ég ekki búin að fullþróa uppskriftina mína þá, það gerðist nú bara í gær! En ágætis skúffukaka var þó bökuð á afmælinu og í ár var yngsta barnið með afar þægilega ósk um afmælistertu. Engar flóknar fígúrur eða kastalar, brúðarterta skyldi það vera! 🙂 Hún átti að vera með hvítu kremi, blómum og skrauti. Jóhanna Inga valdi sjálf af kostgæfni allt skrautið á tertuna og við mæðgur hjálpuðumst að með að skreyta brúðarterturnar! Þær voru tvær, önnur fyrir 20 stelpna bekkjarafmæli og hin fyrir fjölskylduafmælið.

Heimilisfaðirinn sem er liðtækur á grillinu en er ekkert mikið í eldamennskunni annars átti sína 15 mínútna frægð við afmælisundirbúninginn! Honum var afhent melóna ásamt skurðarhníf og gefinn fyrirmæli um útskurð. Verandi fjarska góður skurðlæknir fórst honum þetta verk auðvitað snilldar vel úr hendi og út kom þessi skemmtilegi broddgöltur:

Þessi krúttulegi broddgöltur fer inn í hugmyndabankann fyrir afmæli sem er hér.

Uppskriftin af skúffukökunni hér að neðan passar í bökunarform sem er ca. 25 x 35 cm. Ég myndi gera uppskriftina eina og hálfa, jafnvel tvöfalda fyrir stóra ofnskúffu. Ég notaði uppskriftina af kökukreminu fyrir líka fyrir hvítu brúðartertuna hennar Jóhönnu, ég sleppti bara kakóinu og setti dálítin vanillusykur í staðinn þar sem að hún vildi hvítt krem. Ég vil taka það fram að kökuuppskriftin er mín en uppskriftina af kökukreminu fékk ég úr Gestgjafanum.

Uppskrift (fyrir form sem er 25×35 cm, fyrir ofnskúffu þarf 1 1/2 uppskrift):

 • 2 dl sykur
 • 2 dl púðursykur
 • 2 egg
 • 170 gr smjör, brætt
 • 5 dl hveiti
 • 1 tsk. matarsódi
 • 1 tsk. lyftiduft
 • 3 tsk. vanillusykur
 • 1 dl. kakó, sigtað
 • 2 1/2 dl súrmjólk með karamellu
 • 1 dl vatn, sjóðandi heitt

Byrjið á því að taka út úr ísskáp smjör í kökukremið svo það verði mjúkt.

Hitið ofninn í 200 gráður. Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins. Smjöri, púðursykri og sykri hrært mjög vel saman. Þá er eggjum bætt út í, einu og einu. Því næst er þurrefnunum blandað saman í skál annars vegar og súrmjólk og sjóðandi heitu vatni í aðra skál hins vegar. Um það bil helmingur af blöndunum úr hvorri skál fyrir sig er bætt út í deigið og hrært í stutta stund, þá er restinni úr báðum skálunum bætt út í deigið og hrært. Athugið að hræra eins stutt og hægt er, bara þar til hráefnin hafa blandast saman, ekki lengur. Deiginu er hellt í smurt smurt bökunarform eða ofnskúffu (þessi uppskrift passar í bökunarform sem er ca. 25 x 35 cm, fyrir ofnskúffu þarf að gera eina og hálfa uppskrift) og bakið í miðjum ofni í ca 20 mínútur eða þar til kakan hefur losnað frá köntunum og er bökuð í gegn í miðjunni.

Kökukrem:

 • 150 gr smjör, mjúkt
 • 200 gr flórsykur
 • 4,5 msk kakó
 • 2 msk síróp

Hrærið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Sigtið flórsykur og kakó saman og blandið því síðan smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við örlítilli mjólk. Hrærið að lokum sírópi saman við. Smyrjið kreminu á kalda kökuna.

Osta-quesadillur með chili og súperhollt salsa – óvænt ástarsamband!


Í gærkvöldi var saumaklúbbur hjá einum skemmtilegasta klúbb landsins þó víða væri leitað! Þar flæddi heilsueflandi hormón, endorfín, allt kvöldið! Samkvæmt rannsókn breska tannlæknafélagsins gefur hlátur jafn mikla ánægju og það að borða 2.000 súkkulaðistykki! Sé það satt þá var jafngildum mörg þúsund súkkulaðistykkja sporðrennt í gærkvöldi! 🙂 Auk þess komu þessar gæðakonur með ýmiskonar gúmmelaði í klúbbinn. Sá skemmtilegi atburður gerðist á hlaðborðinu að það upphófst óvænt ástarsamband milli réttanna sem við Ragnhildur komum með! Hún Ragga, sem hæglega gæti haldið úti girnilegu matarbloggi (hvet hana til þess hér með!),  býr í Bandaríkjunum. Þegar hún er hér á landi þá kynnir hún okkur oft fyrir ýmsum girnilegum bandarískum vörum eða réttum. Til dæmis kynnti hún okkur eitt sinn fyrir sjúklega góðu og hollu snakki, Multigrain, sem er gert úr hörfræjum, sólblómafræjum og brúnum hrísgrjónum. Það fæst stundum í Kosti. Berið það fram með ofboðslega góðri ídýfu:

 • 2 dósir sýrður rjómi
 • 2 dl sweet chilisósa

Blandað saman og borið fram með Multigrain snakkinu.

Í gærkvöldi kom Ragga með feyki gott og hollt salsa sem hún bar fram með þessum mexíkósku skálum, Tostios Scoops (einungis 7% fita) sem fást oft í Kosti og Hagkaup. Salsasósan er súperholl og var einstaklega góð í þessum skálum. Ég hins vegar bjó til heitar Quesadillur með chili, fetaosti og mozzarellaosti. Fyrir mistök setti ein okkar salsað hennar Röggu á quesadillurnar mínar og viti menn, þetta passaði eins og flís við rass (sem er kannski ósmekkleg samlíking þegar um mat er að ræða en á samt svo vel við 😉 )! Þarna var því kominn nýr og girnilegur partýréttur: ,,Osta-quesadillur með chili og súperhollu salsa“!

Súper hollt salsa, uppskrift:

 • 1 stór dós kotasæla
 • 8 tómatar
 • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
 • 1/2 lime
 • ferskt kóríander, saxað fremur smátt
 • 1 rautt chili, saxað smátt
 • salt og pipar

Skerið tómatana í helminga og hreinsið úr þeim aldinkjötið, það er ekki notað. Skerið skelina af tómötunum smátt. Kotasælu, tómötum, chili, lauk og kóríander blandað saman. Smakkað til með limesafa, salti og pipar. Salsað látið brjóta sig í ísskáp í 15-30 mínútur áður en það er borið fram.

Osta-quesadillur með chili:

 • 2 rauð chili
 • 200 gr mozzarella ostur, rifinn
 • 100 gr fetaostur
 • 12-16 grænar ólífur, steinlausar (ég átti þær ekki til og notaði í staðinn 1 avókadó)
 • 2-3 msk ferskt kóríander, saxað
 • 8 hveititortillur
 • 4 msk ólífuolía
 • 1/2 – 1 tsk paprikuduft

Hitið ofninn í 200 gráður. Fræhreinsið og saxið chili-aldinin og setjið þau í matvinnsluvél ásamt mozzarella osti, fetaosti, ólífum (eða avókadó) og kóríander og látið vélina ganga þar til allt er orðið að grófgerðu mauki. Einnig má saxa allt smátt og hræra saman í skál. Setjið 4 tortillur á pappírsklædda bökunarplötu, skiptið ostamaukinu jafnt á þær og leggið hinar tortillurnar ofan á (ég notaði orginal wrap tortillas frá Santa María, þær eru það stórar að ég varð að nota tvær bökunarplötur). Blandið saman ólífuolíu og paprikudufti og penslið tortillurnar vel. Leggið álpappírsörk yfir og bakið í miðjum ofni í um 5 mínútur. Fjarlægið þá álpappírinn og bakið áfram í um 5 mínútur eða þar til tortillurnar eru að byrja að taka lit á brúnunum. Takið þær þá út og skerið þær í fjóra til átta geira hverja. Berið þær fram heitar eða volgar, t.d. sem léttan aðalrétt með salati, á hlaðborð eða sem partýrétt. Og gjarnan með súperholla salsanu hennar frú Röggu Bree sem eldar bara á háhæluðum! 🙂

Baka með sætum kartöflum


Sætar kartöflur eru í raun alls óskyldar venjulegum kartöflum. Þær eru upprunnar frá Suður Ameríku og hafa verið ræktaðar í nokkur þúsund ár. Þær eru stútfullar af C- og E-vítamíni auk beta-karótíns og eru þar með ríkar af andoxunarefnum. Að auki hafa sætar kartöflur lágan blóðsykurstuðul. En síðast en ekki síst eru þær afar bragðgóðar og það er hægt að matreiða þær á margvíslegan hátt. Þessi ljúffenga sætukartöflubaka er það matarmikil að hana er hægt að flokka sem grænmetisrétt og hún passar afar vel sem aðalréttur með góðu salati. En við fyrsta bita þá hugsaði ég samt strax um kalkún! Auðvitað fara sætar karöflur og kalkúnn saman eins og hönd í hanska og þó svo að rétturinn sé á mörkunum að vera of matarmikill til að hægt sé að flokka hann sem meðlæti þá ætla ég samt að prófa hann með kalkún við fyrsta tækifæri. Það tækifæri kemur reyndar fyrr en varir þar sem Elfar og kollegar ásamt mökum halda kalkúnaboð árlega og í ár verður boðið hjá okkur. Þó enn séu rúmir tveir mánuðir í boðið er ég strax farin að skipuleggja í huganum forrétt, meðlæti og eftirétti! 🙂

Uppskrift:

 • 2-3 sætar kartöflur
 • 1 pakki smjördeig, afþýtt
 • 200 gr sýrður rjómi
 • 1 egg
 • 1 eggjarauða
 • 1/2 tsk salt
 • 1 krukka fetaostur
 • 2-3 msk salatblanda (hnetu- og fræblanda)
 • nýmalaður pipar
 • 4 msk parmesanostur, rifinn
 • 2 msk olía

Hitið ofninn í 200 gráður. Pakkið sætu kartöflunum í álpappír og bakið þær í 40 mínútur eða þar til þær eru næstum bakaðar í gegn. Þar sem ég er óþolinmóð og alltaf í tímaþröng þá skar ég hverja kartöflu í ca. þrjá bita og bakaði þær þannig, þá gat ég stytt bökunartímann. Ef þið notið Findus smjördeig, 5 plötur, þá eru þær afþýddar, lagðar á hveitstráð borð og samskeytin lögð ofan á hvert annað. Deigið er svo flatt út dálítið þannig að það passi í eldfast mót. Fóðrið botn og hliðar á eldfasta mótinu (20×30 cm) með smjördeiginu, látið 3 cm deigkant vera allan hringinn. Blandið sýrðum rjóma, eggi, eggjarauðu og salti saman. Smyrjið blönduna yfir deigið. Afhýðið kartöflurnar, skerið í bita og setjið ofan á blönduna. Sigtið olíuna frá fetaostinum og dreifið honum yfir kartöflurnar. Sáldrið salatblöndu, nýmöldum pipar og parmesanosti ofan á. Penslið deigkantana með olíu. Bakið í um það bil 25 mínútur eða þar til deigið er orðið gullið. Berið fram með góðu salati.

Gullterta með vanillukremi og hindberjamauki


Amma bakar stundum köku sem hún kallar gulltertu. Það eru tveir svampbotnar bakaðir með marengs ofan á sem eru síðan lagðir saman með rjóma á milli. Mér hefur alltaf fundist þetta svo góð terta og hef verið að hugsa um það undanfarið að baka svipaða tertu. Ég ákvað að bæta við tveimur hráefnum sem eru afar sænsk, það er vanillukrem annars vegar og hindberjamauk hinsvegar. Vanillukrem og vanillusósur eru eiginlega uppstaðan í bakelsi hjá Svíum. Þessi svampbotn afar gómsætur og ekkert líkur svampbotnum sem hægt er að kaupa tilbúna. Það þarf að skipta honum í þrjá hluta en ég er ægilegur klaufi að skera beint! Það kom sér því vel að ég hafði keypt fyrir nokkru voða sniðugt og einfalt tæki til þess einmitt að skera tertubotna (í Íkea) og það þrælvirkaði. Mér fannst þessi terta ljúffeng og mér skilst að sama hafi átt við um þá sem nutu hennar með mér!

Uppskrift:

Svampbotn:

 • 3 egg
 • 2 dl sykur
 • 1 dl kartöflumjöl
 • 1 dl hveiti
 • 1 tsk lyftiduft

Hitið ofninn í 175 gráður. Þeytið saman egg og sykur þar til það verður létt og ljóst. Bætið við kartöflumjöli, hveiti og lyftidufti. Hellið deginu í smurt smelluform (ég notaði 20 cm form til að fá hæð í kökuna) og bakið við 175 gráður í ca. 35 mínútur. Látið botninn kólna og skiptið honum svo í þrjá hluta.

Vanillukrem:

Heimatilbúið vanillukrem á sænska vísu er hrikalega gott og til margvíslegra nota. Kremið er afar einfalt að búa til, það mikilvægasta er að láta það ekki sjóða eða brenna við botninn.

 • 2 eggjarauður
 • 3 dl mjólk
 • 3 msk sykur
 • 1 msk kartöflumjöl
 • 1 vanillustöng

Kljúfið vanillustöng í tvennt, skafið fræin innan úr og setjið í lítinn pott. Bætið í restinni af hráefnunum út í pottinn. Pískið stöðugt á meðan suðan kemur upp og kremið er að þykkna. Kremið má alls ekki sjóða og það þarf að passa að það brenni ekki við botninn. Þegar passlegri þykkt er náð (þannig að kremið sé hægt að setja á kökubotn án þess að það leki) er kreminu helt úr pottinum og það látið kólna. Þetta vanillukrem er hægt að nota á kökur, í tertur og í snúða svo eitthvað sé nefnt.

Hindberjamauk:

 • 3 dl hindber (afþýdd)
 • 2 msk flórsykur
 • 1 msk kartöflumjöl

Setjið öll hráefnin í pott á meðalhita og hrærið þar til að blandan er orðin að föstu mauki. Látið kólna.

Marengs:

 • 3 eggjahvítur
 • 1/2 tsk edik
 • 1/2 tsk salt
 • 1 dl sykur
 • +1 peli rjómi, þeyttur

Skiptið svampbotninum í þrjá hluta. Setjið vanillukremið á neðsta botninn og setjið miðjubotninn yfir. Ofan á hann er svo sett hindberjamaukið. Ofan á hindberjamaukið er settur þeyttur rjómi. Eggjahvíturnar eru þeyttar ásamt ediki og salti. Sykri bætt við smátt og smátt og þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Efsti hluti svampbotnsins er lagður á ofnplötu með smjörpappír á og marengsinn er settur yfir botninn. Gerið toppa í marengsinn hér og þar. Bakið í ofni við 175 gráður í 8-10 mínútur eða þar til marengsinn hefur fengið smá lit. en hann á að vera mjúkur í miðjunni. Þegar marengsbotninn hefur kólnað er hann lagður ofan á tertuna. Þetta er terta sem er jafnvel enn betri daginn eftir.

Salat með lambafille og piparrótarsósu


Nú eru loksins allir í fjölskyldunni komnir heim eftir ævintýri sumarsins. Alexander var í löngu og skemmtilegu ferðalagi um Japan en Ósk var á Krít og í Stokkhólmi. Báðum systkinunum langaði í eitthvað sérstaklega gott í kvöldmatinn eftir langa fjarveru. Mest langaði Alexander í gott kjöt enda búinn að lifa á hrísgrjónum, sushi og innmat (Japanir eru víst voða hrifnir af lifrum, hjörtum, görnum, nýrum og öðru slíku góðgæti!) síðastliðinn mánuð. Ég er búin að hugsa lengi um að gera einhvern góðan rétt úr lambalundum eða lambafille og nú var komið gott tækifæri til að láta verða úr því. Ég dró fram nokkur ,,Bestu uppskriftir Gestgjafans“ blöð en þau eru í uppáhaldi hjá mér! Til dæmis nota ég blaðið frá 2003 afar mikið, þar eru margar mjög góðar uppskriftir. Þessa uppskrift fann ég hins vegar í blaðinu frá 2009.

Að vanda fylgdi ég nú ekki uppskriftinni út í ystu æsar. Ég notaði minna af balsamik edik og olíu en uppgefið var og útbjó í staðinn piparrótarsósu til að bera fram með réttinum. Hér í fjölskyldunni eru sósur flokkaðar með drykkjarföngum og því ekkert sérstaklega vinsælt að bera fram kjöt án vænnar sósuslettu! Ég notaði líka ristaðar kasjúhnetur í stað furuhneta en ég er eiginlega alveg hætt að nota furuhnetur. Ég hef nefnilega tvisvar lent í ,,pine mouth syndrome“ sem er afar hvimleitt að lenda í. Það lýsir sér þannig að einum degi eftir að hafa borðað furuhnetur finnur maður málkennt, vont bragð í munni af öllum mat, drykk og meira að segja tannkreminu! Þetta getur varað í allt að fjórar vikur. Ég lagðist í rannsóknarvinnu um þetta vandamál og komst að því að það er algengt. Það er ekki enn búið að finna ástæðuna en samkvæmt rannsóknum matvælastofnun Svíþjóðar virðist þetta tengjast uppskerubresti á furuhnetum í Asíu. Þá fóru ræktendur að notast við aðra tegund af furuhnetum sem geta haft þessi áhrif. Ég vil ekki taka áhættuna að lenda í þessu aftur og nota því varla furuhnetur lengur! Ég breytti tvennu til viðbótar í uppskriftinni, ég notaði klettasalat til viðbótar við spínatið og lambasalatið. Að auki notaði ég grillaðar paprikur frá Sacla í stað bakaðra tómata. Þetta heppnaðist býsna vel og öllum fannst rétturinn ljúffengur!

Uppskrift f. 3-4

 • 2 lambafille eða lambaprime
 • 2 msk olía
 • salt og pipar

Penslið lambið með olíunni. Grillið á útigrilli ca. 5-7 mínútur á hvorri hlið. Mikilvægt er að fylgjast vel með kjötinu þannig að það verði ekki ofgrillað. Það þarf einnig að hafa í huga að kjötið heldur áfram að steikjast í eigin hita eftir að það er tekið af grillinu. Þegar kjötið er tekið af grillinu er það saltað og piprað og leyft að jafna sig áður en það er skorið. Eldun í ofni: Hitið ofninn í 175 gráður. Penslið lambið með olíunni og steikið á pönnu þar til það er brúnað á öllum hliðum. Setjið í ofninn í 10 mínútur. Saltið og piprið.

 • 2 eggaldin
 • 2-3 msk olía
 • 1 tsk salt
 • 200 gr lambasalat
 • 150 gr ferskt spínat
 • 1 krukka bakaðir tómatar frá Sacla (Oven Rosted Tomatoes) eða grilluð paprika (Char-Grilled Capsicum)
 • 2-3 msk furuhnetur, ristaðar (eða kasjúhnetur)
 • 2-3 msk basilika, smátt söxuð
 • 6 msk góð ólifuolía
 • 2 msk hindberja- eða balsamedik

Skerið eggaldin í ca 2 cm þykkar sneiðar og steikið í olíunni eða grillið þar til þær eru vel brúnaðar, saltið. Leggið lambasalat og spínat á fat. Skerið eggaldin í minni bita og raðið ofan á. Skerið lambafille í sneiðar og raðið þar ofan á. Dreifið tómötum (eða papriku), furuhnetum og basiliku yfir. Blandið saman olíu og hindberjaediki og dreifið yfir salatið. Saltið og piprið með nýmöldum pipar.

Í piparrótarsósuna er notað piparrótarmauk. Það er yfirleitt að finna hjá kryddunum í verslunum og lítur svona út:

Piparrótarsósa: 

 • 1 dós sýrður rjómi
 • 3 msk majónes
 • 1 pakki piparrótarmauk
 • 1 msk sítrónusafi
 • 1 msk hunang
 • 1 tsk salt

Ostakaka með mangó og ástaraldin


Ég setti inn um daginn uppskrift af bakaðri ostaköku. Þá talaði ég um að mér þætti þær eiginlega betri en óbakaðar ostakökur en ég veit ekki lengur, ég get bara ekki gert upp á milli þeirra! Ég prófaði nefnilega óbakaða ostaköku með mangó og ástaraldin og hún var afar ljúffeng! Ég sló saman tveimur uppskriftum af ostakökum. Annars vegar úr sænsku kökubókinni Lomelinos Tårtor, sú ostakaka er borin fram frosin og þess vegna ekki með matarlími. Mér finnst hins vegar frekar snúið að bera fram frosnar tertur í veislum, oft eru þær of frosnar og harðar í byrjun veislunnar en orðnar of linar í lokin. Mér fannst hins vegar mjög spennandi í þessari uppskrift hvernig mangói var blandað við sjálfa ostakökuna (já, ég elska mangó!). Hins vegar notaði ég uppskrift af óbakaðri ostaköku (með matarlími) sem borin er fram með ástaraldin (sem mér finnst næstum því jafn gott og mangó!). Þó ég segi sjálf frá þá var ég nú bara býsna ánægð með útkomuna af þessum samankurli úr tveimur uppskriftum!

Stundum, þegar þeyttur rjómi er í uppskrift, finnst fólki óljóst hvaða mælieiningu er um að ræða. Ef í uppskriftinni er einn desilíter rjómi, þeyttur, er það þá óþeyttur desilíter eða þeyttur? Það magn sem gefið er upp í uppskriftum er alltaf óþeyttur rjómi (nema annað sé tekið fram). Í þessari uppskrift er einn peli rjómi og þá er sem sagt verið að tala um einn pela af óþeyttum rjóma sem verður svo auðvitað meira magn að umfangi þegar búið er að þeyta hann.

Uppskrift:

Botn:

 • 250 gr Digestive kex
 • 100 gr smjör
 • 1 msk sykur

Fylling

 • 300 gr Philadelphia rjómaostur
 • 250 gr. ricotta ostur (má nota rjómaost)
 • 1 peli rjómi
 • 50 gr sykur
 • 3 msk appelsínusafi (eða annar safi)
 • 4 stk matarlím
 • 250 gr mangó (ferskt eða frosið)
 • 6 stk ástaraldin (passion fruit)

Aðferð:

 1. Ofn stilltur á 175 gráður. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið og sykur. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna.
 2. Þeytið rjóma og geymið í ísskáp.
 3. Vinnið Philadelphia ost, ricotta ost og sykur þar til osturinn er orðinn mjúkur.
 4. Leggið matarlímsblöðin eitt í einu í skál með vel köldu vatni og látið liggja í 5-10 mínútur. Þegar tíminn er liðinn eru blöðin orðin mjúk og þykk. Takið þau úr vökvanum og kreistið vatnið úr þeim. Hitið ávaxtasafann í potti eða örbylgjuofni, setjið matarlímið út  í heitan vökvann. Hrærið þar til matarlímið hefur bráðnað saman við og hellið matarlímsblöndunni út í ostablönduna. Því næst er þeytta rjómanum bætt út í.
 5. Ef notað er frosið mangó þá er það afþýtt. Mangó er maukað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Blandið mangómaukinu saman við ostablönduna, en bara lauslega þannig að það myndist marmaraáferð í ostablöndunni.
 6. Hellið ostablöndunni yfir kexbotninn og kælið vel í 4-6 tíma, en best er kakan daginn eftir.
 7. Ástaraldin skorin í tvennt, aldinið skafið innan úr þeim og því dreift yfir kökuna áður en hún er borin fram.

Núðlusúpa með kjúklingi


Þessi núðlusúpa er ekki bara dásamlega góð heldur er hún líka afar fljótgerð sem er alltaf kostur í hversdagsamstrinu. Ef maður er búinn að skera allt hráefnið áður þá er hægt að elda þessa súpu á innan við 10 mínútum!  Súpan er afar bragðgóð, ekki of sterk og fór því vel ofan í alla meðlimi fjölskyldunnar. Reyndar eru Ósk og Alexander ekki enn komin að utan. Mér varð einmitt hugsað til þeirra í gærkvöldi, þetta er réttur sem hefði fallið þeim mjög vel í geð! Ég þarf að elda þessa súpu fyrir þau þegar þau eru komin heim en nú eru bara örfáir dagar í heimkomu þeirra beggja. Ég er ekki enn komin í þann gír að elda bara fyrir okkur fjögur og elda alltaf of mikinn mat, ég gerði t.d. þessa uppskrift tvöfalda sem var auðvitað of mikið. Hins vegar finnst mér voða gott að eiga afganga, þeir fara aldrei til spillis hér á heimilinu! Nú getum við hjónin hlakkað til að fá okkur þessa súpu í hádeginu í dag!

Uppskrift f. 3-4

 • 500 gr kjúklingabringur, skornar í strimla
 • 150 – 200 gr eggjanúðlur (bæði hægt að nota svona flatar eggjanúðlur eins og á myndinni en líka þessar hefðbundu, ég nota oftast ,,medium egg noodles“ frá Blue Dragon)
 • 1/2 rauðlaukur, skorin í þunna strimla
 • 1 rauð paprika, skorin í þunna strimla
 • 2 vorlaukar, skornir í þunnar skífur
 • 1 hvítlauksrif, fínsaxað
 • 1/2 – 1 rautt chilli, kjarnhreinsað og fínsaxað
 • 1 tsk ferskt engifer, rifið fínt
 • 1,2 lítrar vatn
 • 1 dl soyasósa
 • 6 msk sæt chilisósa
 • 1 msk sesamolía
 • 1/2 límóna (lime)
 • ferskt kóríander, saxað gróft
 • salt og pipar
 • sesamfræ, ristuð á þurri steikarpönnu

Skerið kjúkling og grænmeti eins og segir til í uppskriftinni. Snöggsteikið kjúklinginn í smjöri eða olíu þar til að hann tekur dálítinn lit. Kjúklingurinn á ekki að vera steiktur alveg í gegn.

Hellið vatninu og soyasósunni í stóran pott og látið suðuna koma upp. Setjið eggjanúðlur (ósoðnar), grænmeti, engifer og chili út í og látið sjóða í 2 mínútur. Bætið þá kjúklingnum út í ásamt chilisósu, sesamolíu, safanum úr límónunni, salti og pipar.  Látið súpuna malla í 3-4 mínútur í viðbót eða þar til núðlurnar eru tilbúnar. Stráið yfir ristuðum sesamfræum og söxuðu kóríander og berið fram strax.

Kotasæluklattar


Í dag er fyrsti skóladagurinn hjá yngstu börnunum. Ég er eiginlega ekki tilbúin, mér finnst sumrinu vera lokið þegar skólarnir byrja og ég er enn að sætta mig við hvað sumrin hér á Íslandi eru stutt! Þegar við bjuggum í  Svíþjóð fannst mér vera þar sumar frá apríl og alveg fram í lok september. En það er nú reyndar ekki hægt að kvarta yfir þessu dásamlega sumri sem við fengum á Íslandi í ár, það mætti bara vera lengra! 🙂

En eftir allar matarveislur sumarsins er kannski tími til komin að huga að hollustu! Mér finnst reyndar voðalega leiðinlegt að pæla allt of mikið í svoleiðis hlutum og reyni að forðast öfga í mataræðinu. Ég elda mat úr ferskum og fjölbreyttum hráefnum, nota mikið grænmeti, forðast unna matvöru og finnst það vera heilbrigð hollusta. Ég er ekki hlynnt algjörlega kolvetnislausu fæði en ég finn samt að það gerir mér gott að sneiða hjá miklum kolvetnum. Ég byrjaði því núna síðsumars að minnka brauðát. Það getur verið snúið að finna eitthvað í stað brauðsins. Ég fæ mér oft eggjaköku í hádeginu og borða með henni ávexti og grænmeti, finnst það  afskaplega gott. En fyrir nokkru síðan sá ég uppskrift af kotasæluklöttum sem eru meira og minna kolvetnislausir. Það sem stoppaði mig í að prófa uppskriftina var að í henni er ,,fiberhusk“. Ég vissi að þetta var einhverskonar trefjaviðbætir til að halda saman deiginu, sem er án hveitis, en fann það ekki í hefðbundnum búðum. Ég komst svo að því að þetta trefja husk fæst til dæmis í Heilsuhúsinu, í apótekum og í mörgum heilsuhornum frá Now meðal annars. Þá var ekkert því til fyrirstöðu að prófa klattana. Mér fannst dálítið erfitt að steikja klattana fyrst um sinn, deigið virtist afar linnt og það var eins og klattarnir næðu ekki að steikjast almennilega. Ég þurfti að ,,sópa“ þeim svolítið saman með steikarspaðanum til að þeir héldu forminu. En eftir smátíma og eftir að ég hækkaði aðeins hitann á pönnunni gekk þetta betur og ég fékk þessa fínu kotasæluklatta.

Uppskrift (2 klattar):

 • 125 gr. kotasæla
 • 3/4 msk trefjahusk  (mér skilst að hægt sé að nota 1.5 msk af muldu haframjöli í staðinn – hef ekki prófað það sjálf).
 • 1 egg
 • örlítið salt
 • 1 msk olía til steikingar, gott að nota kókosolíu

Maukið allt hráefnið saman með töfrasprota og látið standa í mínútu eða tvær. Setjið feiti á pönnuna, best er að nota teflonpönnu. Hitið olíuna á fremur háum hita á pönnunni, ausið svo deiginu á pönnuna í tvær ,,hrúgur“. Lækkið hitann niður í meðalhita (ég steikti á 5 af 9). Steikið í nokkrar mínútur og ýtið klöttunum saman með steikarspaðanum öðru hvoru ef þeir renna mikið til. Steikið þar til klattarnir eru orðnir nægilega stökkir þannig að hægt sé að snúa þeim við. Ég snéri þeim síðan við nokkrum sinnum, setti svo á milli þeirra mozzarella og skinku og leyfi því aðeins að bráðna saman við klattana á pönnunni. Ekki er verra að bæta líka við ferskri basiliku og tómötum og grilla svo klattasamlokuna í samlokugrilli!

Ofnbakaður skötuselur í karrí-mangósósu með kúskús


Í gær var Fiskbúð Hólmgeirs með tilboð á skötusel, þeim ófagra en ljúffenga fisk! Þrátt fyrir að skötuselurinn sé almennt ekkert ódýr (frekar en annar fiskur hér á landi) þá er hann stundum kallaður humar fátæka mannsins enda afar þéttur og bragðgóður fiskur. Þessi uppskrift er einkar fljótleg en feykilega góð. Ég velti svolítið fyrir mér bökunartímanum en í flestum skötuselsuppskriftum er gefinn upp 10 mínútna bökunartími í ofni. Mér fannst það frekar stuttur tími, sérstaklega fyrir þykkustu bitana. Vissulega er mjög mikilvægt að ofelda ekki skötusel sem og aðra fiska, þá verður hann seigur. En sama gildir ef hann er ekki nægilega eldaður, ef hann er hrár þá er hann líka seigur og óspennandi. Bitarnir voru frekar þykkir og ég endaði á að hafa fiskinn í ofninum í 17 mínútur (eftir að hafa kíkt á fiskinn öðru hvoru) og það passaði fínt. Það er líka gott að sjá til þess að kaupa svipuð stór stykki af fisknum til þess að þau þurfi öll jafn langan eldurnartíma. Það er hægt að kaupa hvaða ,,currypaste“ sem er og hvaða mango chutney sem er, fer bara eftir smekk viðkomandi. Ég notaði milt karrýmauk en sterkt mango chutney í þessa uppskrift og okkur fannst það koma mjög vel út.

Uppskrift:

 • 800 gr. skötuselur
 • nokkrar gulrætur, skornar í litla bita
 • 1/2 kúrbítur, skorinn í litla bita
 • 3 msk. karrímauk (curry paste)
 • 3 msk. mangó-chutney
 • 2 msk. ferskt kóríander
 • 1 stór hvítlauksgeiri
 • grænmetiskraftur (ég muldi einn tening út í)
 • 1 peli rjómi (hægt að skipta út fyrir kókosmjólk)
 • olía
 • salt og  pipar

Aðferð:

Hitið ofninn í 200 gráður. Hreinsið skötuselinn (hann kemur oftast hreinsaður úr fiskbúðum)  og skerið í jafna bita.  Skerið grænmetið í bita. Hrærið saman karrýmauki og mango chutney og saxið kóriander út í maukið. Afhýðið hvítlauk, saxið smátt og bætið út í maukið ásamt grænmetiskrafti og rjóma. Hitið olíu á pönnu og steikið skötuselinn í um 1 mínútu á hvorri hlið á vel heitri pönnunni. Kryddið með salti og pipar.

Raðið skötuselnum í smurt eldfast mót, stráið kúrbít og gulrótunum yfir og hellið svo maukinu yfir allt saman. Bakið í 10-17 mínútur við 200 gráður (fer eftir þykkt skötuselsins).

Berið fram með kúskús eða hrísgrjónum og  góðu salati (og hvítvíni ef þannig liggur á manni!)