Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða kjúklingasúpa


Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða sweet chili kjúklingasúpa IMG_6733Þessi réttur er býsna skemmtilegur því fyrir utan það að vera framúrskarandi gómsætur þá er hægt að útfæra hann á tvo vegu. Ég byrjaði á því að prófa mig áfram með kjúklingasúpu. Þegar ég fór að smakka hana til þá sá ég í hendi mér að núðlur færu feikilega vel með þessum súpugrunni. Ég get satt að segja ekki komist að niðurstöðu um hvor útfærslan er betri – ég elda þær alltaf til skiptis því báðar eru lostgæti. Það kemur á óvart hversu mikið núðlurnar breyta súpunni. Ég læt ykkur um að velja hvort þið viljið ljúffenga kjúklingasúpu eða kræsilegan núðlurétt.

IMG_6712

IMG_6726Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða sweet chili kjúklingasúpa f. 4

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry, afþýddar og skornar í bita
  • 2 msk ólífuolía
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 150 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1/4 – 1/2 rautt chili pipar, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 1 lítil eða ½ stór rauð paprika, skorin í bita
  • 1 lítil gul eða ½ stór paprika, skorin í bita
  • 100 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • 600 ml kjúklingakraftur (600 ml sjóðandi vatn + 3 tsk kjúklingakraftur frá Oscar)
  • 2 dl rjómi
  • 1/2 dl sweet chili dip sauce
  • 2/ 3 dl fersk steinselja, söxuð smátt
  • 1/2 -1 tsk paprika (krydd)
  • ¼ -1/2 tsk chili krydd (t.d. chili explosion eða chili duft)
  • 150 g medium egg núðlur frá Blue Dragon (ef útbúa á núðluréttinn)
  • ca 200 g brokkolí, skorið í bita
  • saltflögur og grófmalaður svartur pipar

Ólífuolía hituð í stórum potti og laukur steiktur þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er sveppum, hvítlauki, chili pipar og papriku bætt út í og steikt í smá stund. Því næst er Philadelphia ostinum, kjúklingakraftinum, rjómanum, sweet chili sósunni, steinseljunni og kryddunum bætt út í og látið malla í 2-3 mínútur. Svo er kjúklingum bætt út í, suðan látin

koma upp og látið malla í um það bil 6-8 mínútur eða þar til kjúklingur er hér um bil eldaður í gegn. Að lokum er brokkolí bætt út og látið malla í 4-5 mínútur til viðbótar. Ef útbúa á núðluréttinn er núðlunum bætt út með brokkolíinu og látið malla þar til núðlurnar eru passlega soðnar. Smakkað til með salti, pipar og papriku og chili kryddi eftir smekk.

IMG_6707

IMG_6731

Núðlusúpa með kjúklingi


Þessi núðlusúpa er ekki bara dásamlega góð heldur er hún líka afar fljótgerð sem er alltaf kostur í hversdagsamstrinu. Ef maður er búinn að skera allt hráefnið áður þá er hægt að elda þessa súpu á innan við 10 mínútum!  Súpan er afar bragðgóð, ekki of sterk og fór því vel ofan í alla meðlimi fjölskyldunnar. Reyndar eru Ósk og Alexander ekki enn komin að utan. Mér varð einmitt hugsað til þeirra í gærkvöldi, þetta er réttur sem hefði fallið þeim mjög vel í geð! Ég þarf að elda þessa súpu fyrir þau þegar þau eru komin heim en nú eru bara örfáir dagar í heimkomu þeirra beggja. Ég er ekki enn komin í þann gír að elda bara fyrir okkur fjögur og elda alltaf of mikinn mat, ég gerði t.d. þessa uppskrift tvöfalda sem var auðvitað of mikið. Hins vegar finnst mér voða gott að eiga afganga, þeir fara aldrei til spillis hér á heimilinu! Nú getum við hjónin hlakkað til að fá okkur þessa súpu í hádeginu í dag!

Uppskrift f. 3-4

  • 500 gr kjúklingabringur, skornar í strimla
  • 150 – 200 gr eggjanúðlur (bæði hægt að nota svona flatar eggjanúðlur eins og á myndinni en líka þessar hefðbundu, ég nota oftast ,,medium egg noodles“ frá Blue Dragon)
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í þunna strimla
  • 1 rauð paprika, skorin í þunna strimla
  • 2 vorlaukar, skornir í þunnar skífur
  • 1 hvítlauksrif, fínsaxað
  • 1/2 – 1 rautt chilli, kjarnhreinsað og fínsaxað
  • 1 tsk ferskt engifer, rifið fínt
  • 1,2 lítrar vatn
  • 1 dl soyasósa
  • 6 msk sæt chilisósa
  • 1 msk sesamolía
  • 1/2 límóna (lime)
  • ferskt kóríander, saxað gróft
  • salt og pipar
  • sesamfræ, ristuð á þurri steikarpönnu

Skerið kjúkling og grænmeti eins og segir til í uppskriftinni. Snöggsteikið kjúklinginn í smjöri eða olíu þar til að hann tekur dálítinn lit. Kjúklingurinn á ekki að vera steiktur alveg í gegn.

Hellið vatninu og soyasósunni í stóran pott og látið suðuna koma upp. Setjið eggjanúðlur (ósoðnar), grænmeti, engifer og chili út í og látið sjóða í 2 mínútur. Bætið þá kjúklingnum út í ásamt chilisósu, sesamolíu, safanum úr límónunni, salti og pipar.  Látið súpuna malla í 3-4 mínútur í viðbót eða þar til núðlurnar eru tilbúnar. Stráið yfir ristuðum sesamfræum og söxuðu kóríander og berið fram strax.