Þessi núðlusúpa er ekki bara dásamlega góð heldur er hún líka afar fljótgerð sem er alltaf kostur í hversdagsamstrinu. Ef maður er búinn að skera allt hráefnið áður þá er hægt að elda þessa súpu á innan við 10 mínútum! Súpan er afar bragðgóð, ekki of sterk og fór því vel ofan í alla meðlimi fjölskyldunnar. Reyndar eru Ósk og Alexander ekki enn komin að utan. Mér varð einmitt hugsað til þeirra í gærkvöldi, þetta er réttur sem hefði fallið þeim mjög vel í geð! Ég þarf að elda þessa súpu fyrir þau þegar þau eru komin heim en nú eru bara örfáir dagar í heimkomu þeirra beggja. Ég er ekki enn komin í þann gír að elda bara fyrir okkur fjögur og elda alltaf of mikinn mat, ég gerði t.d. þessa uppskrift tvöfalda sem var auðvitað of mikið. Hins vegar finnst mér voða gott að eiga afganga, þeir fara aldrei til spillis hér á heimilinu! Nú getum við hjónin hlakkað til að fá okkur þessa súpu í hádeginu í dag!
Uppskrift f. 3-4
- 500 gr kjúklingabringur, skornar í strimla
- 150 – 200 gr eggjanúðlur (bæði hægt að nota svona flatar eggjanúðlur eins og á myndinni en líka þessar hefðbundu, ég nota oftast ,,medium egg noodles“ frá Blue Dragon)
- 1/2 rauðlaukur, skorin í þunna strimla
- 1 rauð paprika, skorin í þunna strimla
- 2 vorlaukar, skornir í þunnar skífur
- 1 hvítlauksrif, fínsaxað
- 1/2 – 1 rautt chilli, kjarnhreinsað og fínsaxað
- 1 tsk ferskt engifer, rifið fínt
- 1,2 lítrar vatn
- 1 dl soyasósa
- 6 msk sæt chilisósa
- 1 msk sesamolía
- 1/2 límóna (lime)
- ferskt kóríander, saxað gróft
- salt og pipar
- sesamfræ, ristuð á þurri steikarpönnu
Skerið kjúkling og grænmeti eins og segir til í uppskriftinni. Snöggsteikið kjúklinginn í smjöri eða olíu þar til að hann tekur dálítinn lit. Kjúklingurinn á ekki að vera steiktur alveg í gegn.
Hellið vatninu og soyasósunni í stóran pott og látið suðuna koma upp. Setjið eggjanúðlur (ósoðnar), grænmeti, engifer og chili út í og látið sjóða í 2 mínútur. Bætið þá kjúklingnum út í ásamt chilisósu, sesamolíu, safanum úr límónunni, salti og pipar. Látið súpuna malla í 3-4 mínútur í viðbót eða þar til núðlurnar eru tilbúnar. Stráið yfir ristuðum sesamfræum og söxuðu kóríander og berið fram strax.
Snilldar súpa!
Gaman að heyra! 🙂 Hún er í miklu uppáhaldi hjá okkur.
Ætla að gera þessa í kvöld, hlakka til að smakka!
Þessi er í uppáhaldi á okkar heimili! 🙂
Hún heppnaðist mjög vel, sesamfræin gera heilmikið fyrir súpuna 😀
Frábært að heyra Auður! 🙂
Sjúklega góð súpa ! og nota bene frábær síða – fór alveg beint í favorites hjá mér :o)
En hvað það gleður mig Unnur! 🙂 Takk fyrir góða kveðju!
Bakvísun: Núðlusúpa með kjúklingi « The Real Housewife Of Norðlingaholt
Frábær súpa!
Fra hverjum er diskurinn þríhyrndi a myndinni.
Takk fyrir það Jón Páll! 🙂 Skálina þríhyrndu keypti ég fyrir mörgum árum í sænsku versluninni Hemtex.
Á ekki til orð yfir hvað þessi súpa er góð og get varla beðið eftir að borða afganga á morgun. Ekkert súpuslys núna eins og með tælensku sætkartöflu og kjúklingasúpuna um daginn 🙂
Frábært að heyra Jensína, takk fyrir kveðjuna! 🙂
Ein besta súpa sem við höfum smakkað, 10 ára sonur minn er mikill súpukarl og hann gaf þessari 10 stjörnur af 10 mögulegum 🙂 Takk fyrir frábæra uppskrift 🙂
En hvað það var gaman að heyra Vigdís, takk fyrir góða kveðju! 🙂
Hvað er gott að gott að hafa með þessari súpu ef ég er með hana í saumaklúbb, ætti ég t.d. að vera með súrdeigsbrauð ?
Það er ekki hefðbundið að bera fram brauð með svona asískum súpum. Hins vegar skil ég vel að þú viljir hafa eitthvað með henni svona í saumaklúbb. Ég myndi alveg hafa súrdeigsbrauð. En líklegra er að ég myndi velja nan brauðið góða. Það er ofureinfalt að baka og alltaf svo gott og vinsælt, borið fram heitt og gómsætt! 🙂 https://eldhussogur.com/2012/07/17/grillad-naan-braud/
Líst vel á þessa, en er heill dl af soyjasósu eða?
Já það passar. Og svo líka 1.2 lítrar af vatni.
Takk fyrir þetta. Maður getur auðvitað haft það minna ef maður vill ekki hafa hana mjög salta. Ætla að prófa þessa 🙂
Já, mæli með þessari! 🙂 Ég hef forðast sojasósuna frá Kikoman því mér finnst hún alltof sölt, nota núna frá La Choy, finnst hún betri.
Er ekki Tamari sósan góð líka?
hvaða chilisósu ertu að nota
Þessa hefðbundu Sweet chili sauce.