Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða kjúklingasúpa


Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða sweet chili kjúklingasúpa IMG_6733Þessi réttur er býsna skemmtilegur því fyrir utan það að vera framúrskarandi gómsætur þá er hægt að útfæra hann á tvo vegu. Ég byrjaði á því að prófa mig áfram með kjúklingasúpu. Þegar ég fór að smakka hana til þá sá ég í hendi mér að núðlur færu feikilega vel með þessum súpugrunni. Ég get satt að segja ekki komist að niðurstöðu um hvor útfærslan er betri – ég elda þær alltaf til skiptis því báðar eru lostgæti. Það kemur á óvart hversu mikið núðlurnar breyta súpunni. Ég læt ykkur um að velja hvort þið viljið ljúffenga kjúklingasúpu eða kræsilegan núðlurétt.

IMG_6712

IMG_6726Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða sweet chili kjúklingasúpa f. 4

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry, afþýddar og skornar í bita
  • 2 msk ólífuolía
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 150 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1/4 – 1/2 rautt chili pipar, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 1 lítil eða ½ stór rauð paprika, skorin í bita
  • 1 lítil gul eða ½ stór paprika, skorin í bita
  • 100 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • 600 ml kjúklingakraftur (600 ml sjóðandi vatn + 3 tsk kjúklingakraftur frá Oscar)
  • 2 dl rjómi
  • 1/2 dl sweet chili dip sauce
  • 2/ 3 dl fersk steinselja, söxuð smátt
  • 1/2 -1 tsk paprika (krydd)
  • ¼ -1/2 tsk chili krydd (t.d. chili explosion eða chili duft)
  • 150 g medium egg núðlur frá Blue Dragon (ef útbúa á núðluréttinn)
  • ca 200 g brokkolí, skorið í bita
  • saltflögur og grófmalaður svartur pipar

Ólífuolía hituð í stórum potti og laukur steiktur þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er sveppum, hvítlauki, chili pipar og papriku bætt út í og steikt í smá stund. Því næst er Philadelphia ostinum, kjúklingakraftinum, rjómanum, sweet chili sósunni, steinseljunni og kryddunum bætt út í og látið malla í 2-3 mínútur. Svo er kjúklingum bætt út í, suðan látin

koma upp og látið malla í um það bil 6-8 mínútur eða þar til kjúklingur er hér um bil eldaður í gegn. Að lokum er brokkolí bætt út og látið malla í 4-5 mínútur til viðbótar. Ef útbúa á núðluréttinn er núðlunum bætt út með brokkolíinu og látið malla þar til núðlurnar eru passlega soðnar. Smakkað til með salti, pipar og papriku og chili kryddi eftir smekk.

IMG_6707

IMG_6731

Kjúklingasúpa með karrí, eplum og ananas


Kjúklingasúpa með karrí, eplum og ananas

Ég veit að þetta er klisjukennt en ég get svarið það, mér finnst stöðugt vera helgi – tíminn líður svo hratt! Núna eru haustveikindi skollin á hérna í Kleifarselinu. Greyið Vilhjálmur minn fékk yfir 40 stiga hita í marga daga og það kom í ljós að hann var kominn með bæði lungnabólgu og eyrnabólgu. Nú krossleggjum við fingur að restin af fjölskyldunni sleppi við svona leiðindarveikindi. Eiga ekki einmitt kjúklingasúpur að vera svo góðar fyrir veikt fólk? Ég bjó til svo góða kjúklingasúpu í vikunni sem leið. Þó svo að hún hafi ekki náð ein og sér að lækna lungnabólgu þá nutu allir fjölskyldumeðlimar þessarar ljúffengu súpu. Súpan er dálítið sterk (styrkleikinn fer þó eftir smekk) og þá finnst mér afar gott að hafa eitthvað sætt með í súpunni, að þessu sinni notaði ég epli og ananas í súpuna og fannst það súpergott!

IMG_0522

Uppskrift:

  • ca 700 g kjúklingur (lundir, bringur eða úrbeinuð læri), skorinn í litla bita
  • smjör til steikingar
  • salt og pipar
  • 1 msk karrí
  • 1  meðalstór rauðlaukur, saxaður fínt
  • 1 stórt epli, afhýtt, kjarnhreinsað og skorið í litla bita
  • lítil dós ananashringir (227 gramma dós), skornir í litla bita + safinn
  • 1/2 -1 rauður chili pipar, saxaður fínt (gott að prófa sig áfram með magnið, chili piparinn getur verið misstór og missterkur)
  • 1 dós niðursoðnir tómatar (411 g – ég notaði frá Hunts með basilku, hvítlauk og oregano)
  • 1 dós kókosmjólki (400 ml)
  • 2-3 dl rjómi
  • 1 msk + 1/2 msk kjúklingakraftur
  • ferskt kóríander, saxaður(má sleppa)
  • sýrður rjómi til að bera fram með súpunni

Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og steiktur upp úr smjöri á pönnu. Á meðan hann er steiktur er 1/2 msk af kjúklingakrafti dreift yfir kjúklinginn. Hann er svo steiktur þar til hann hefur náð góðum steikingalit. Þá er hann tekinn af pönnunni og settur til hliðar. Smjör og/eða olía er set í stóran pott. Eplabitar, ananasbitar, laukur, karrí og chili pipar sett út í pottinn og steikt á meðlahita þar til laukurinn er orðin mjúkur. Þá er tómötum í dós, kókosmjólk, ananassafanum og rjóma ásamt 1 msk af kjúklingakrafti bætt út í og súpan látin malla í 10 mínútur. Í lokinn er kjúklingnum bætt út og súpan smökkuð til með salti og pipar (og jafnvel chilidufti eða flögum fyrir þá sem vilja sterkari súpu). Súpan er borin fram með ferskum kóríander og sýrðum rjóma. Ekki er verra að bera fram með súpunni nýbakað Naanbrauð!

IMG_0530

Tælensk kjúklinga- og sætkartöflusúpa


IMG_9654

Ég tók eftir því um daginn að nú býður WordPress upp á að setja inn skoðanakannanir hingað á síðuna. Ég er dálítið veik fyrir svoleiðis! Ég vissi svo sem ekkert hvað ég átti að kanna en ég varð samt að prófa. Nú getið þið sagt til um hvaða uppskriftir þið viljið sjá á síðunni, það er hægt að krossa við fleiri en einn valmöguleika.

Ég er voðalega spennt að setja þessa uppskrift inn í dag. Þessi tælenska kjúklinga- og sætkartöflusúpa er algjört æði! Ein sú einfaldasta súpa sem ég hef gert en með þeim allra bestu. Ég mæli algjörlega með þessari! 🙂

IMG_9651

Uppskrift:

  • olía til steikingar
  • 3 hvítlauksrif, söxuð
  • 1 ferskur rauður chili, fræhreinsaður og saxaður
  • 1 msk ferskt engifer, rifið
  • 30 g ferskt kóríander, stilkar og blöð saxað í sitt hvoru lagi
  • 4 tsk karrímauk, rautt eða grænt (curry paste)
  • 1200 ml kjúklingasoð (gert úr 3 kjúklingateningum)
  • 1 dós kókosmjólk
  • ca. 800 g sætar kartöflur, flysjaðar og skornar í bita
  • 800 g kjúklingabringur, skornar í bita
  • 1 ½  límóna, safinn (lime)
  • 2 tsk sykur
  • 2 tsk fiskisósa (fish sauce)
  • grófmalaður svartur pipar

IMG_9644

Olía hituð í stórum potti og hvítlauki, chili, engifer og kóríander stilkum ásamt karrímauki  bætt út í pottinn og steikt í um það bil 2 mínútur. Því næst er kjúklingasoði, kókosmjólk og sætu kartöflunum bætt út og soðið í 10-15 mínútur eða þar til sætu kartöflurnar eru tilbúnar. Þá er súpan maukuð í matvinnsluvél eða með töfrasprota þar til áferðin er mjúk og kekklaus.  Svo er kjúklingnum bætt út í súpuna og hún látin malla þar til hann er soðinn í gegn. Að lokum er kóríander bætt út í ásamt límónusafa og súpan smökkuð til með sykri, fiskisósu og pipar.

IMG_9652

Sætkartöflusúpa með kjúklingi


IMG_8803

Við áttum góða helgi með frábærri fermingarveislu, ljúfum kvöldverði með góðum vinum á veitingastaðnum Mar og sundferð. Svo slökuðum við bara almennt vel á í dásamlega veðrinu sem hér hefur verið undanfarið og ekkert lát er á. Ósk er hins vegar á ferðalagi um Þýskaland og Pólland með Versló. Hún er í valáfanga sem heitir Helförin og þau eru að skoða útrýmingarbúðir meðal annars í Auschwitz. Þetta er örugglega einstök upplifun fyrir krakkana.

Ég rak augun í að Snickerskakan hér á síðunni er komin yfir tvö þúsund deilingar, „2K“, það er alveg með ólíkindum! Það er klárt mál að vinsælustu uppskriftirnar á síðunni minni eru alltaf girnilegar kökuuppskriftir. Ég ætla nú samt „bara“ að koma með uppskrift af súpu í dag! Þessi súpa er svolítið skemmtileg því hún er búin til úr kjúklingaleggjum. Grunnurinn er hollur og góður úr meðal annars sætum kartöflum og gulrótum. Þetta er afar bragðgóð og saðsöm súpa sem sló gegn hér heima, við mælum með henni! 🙂

Uppskrift:

  • 6 kjúklingaleggir (ca. 600 g)
  • 1 stór kartafla, afhýdd og skorin í litla bita
  • 2-3 gulrætur, skornar í litla bita
  • 1 gulur laukur, skorin í litla bita
  • 5 hvítlauksrif
  • 1 sæt kartafla (ca. 400 g), afhýdd og skorin í litla bita
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í bita
  • ferskur engifer, ca. 3 cm, skorin í litla bita
  • ca. 1 líter vatn
  • smjör
  • 3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 3 kjúklingatengingar
  • 1 tsk karrí
  • 1 tsk Ground Cumin
  • 1/2 stk hvítlauksduft
  • 1 tsk meiram (marjoram) – krydd
  • 1 tsk oregano
  • salt og pipar

IMG_8799

Góður biti af smjöri bræddur í stórum potti og karrí, cumin og hvítlaukskryddi bætt út í þannig að það steikist í örstutta stund. Þá er kjúklingaleggjunum bætt út í og þeir steiktir í smástund þar til kryddin fara að ilma dásamlega, hrært vel í þeim á meðan. Þá er öllu grænmetinu bætt út í fyrir utan hvítlaukinn og steikt í stutta stund. Því næst er vatni hellt út í pottinn þannig að það nái yfir grænmetið og kjúklinginn, ég notaði ca. 1.2 líter. Þá er hvítlauknum bætt út ásamt engiferbitunum auk þess sem oregano og meiram er bætt út í ásamt kjúklingateningum. Látið malla þar til kjúklingurinn fer að losna af beinunum (þá má bæta við vatni ef súpan verður of þykk).

Þá eru kjúklingaleggirnir veiddir upp úr og kjötið losað frá beinunum og það skorið í minni bita ef með þarf.  Súpan með grænmetinu er maukuð með töfrasprota eða í matvinnsluvél þar til súpan er slétt og bitalaus. Þá er kjúklingabitunum bætt út í ásamt rjómanum og súpunni leyft að malla í smástund í viðbót. Smökkuð til með salti, pipar og fleiri kryddum ef þarf.  Súpan er borin fram með grófsöxuðu kóríander eða steinselju.

IMG_8805

Kjúklingasúpa með eplum, karrí og engifer


Ég skrifaði hér á blogginu um daginn að ég væri engin sérstakur aðdáandi súpa. Þannig að ef að ég set uppskrift af súpum hingað inn þá eru þær einstaklega góðar að mínu mati! Fiskisúpan að vestan er til dæmis dásamlega góð og einn af mínum uppáhaldsréttum. Núna bjó ég til súpu sem klárlega kemst með tærnar þar sem fiskisúpan hefur hælana! Þetta er kjúklingasúpa með eplum, karrí, engifer, chili, kókosmjólk, rjóma og fleira góðgæti. Maður sér í hendi sér að þessi blanda getur varla annað en orðið góð. Sú varð líka raunin, allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir, meira að segja yngstu börnin, þetta er dásamlega góð súpa! Mér finnst mikilvægt með súpur að leyfa þeim að malla frekar lengi, lengur en gefið er upp í uppskriftunum venjulega. Ef þær eru bornar fram sjóðandi heitar og hafa bara fengið að malla stutt þá er hráefnið alls ekki farið að njóta sín og súpurnar geta þá stundum verið bragðdaufar. Nokkrir fjölskyldumeðlimir komu seint heim í kvöldmatinn, þá hafði súpan fengið að standa á hellunni, á mjög lágum hita, í hálftíma. Þá var súpan orðin enn betri, bragðið af hráefnunum fékk að njóta sín og hafði bundist góðum böndum og súpan var passlega heit þannig að hægt væri að njóta hennar án þess að brenna sig á tungunni! Ég mæli því með því að leyfa súpunni að standa drjúga stund áður en hún er borin fram. Mér finnst kóríander alltaf betra og betra, eiginlega finnst mér allur matur sem í er kóríander verða að hátíðarmat. Ekki sleppa kóríandernum í súpunni ef þið eruð jafn hrifin af því og ég! Brauðbollurnar eru með gulrótum og kotasælu og uppskriftina er að finna hér.

Uppskrift f. 4 svanga:

  • 1 msk smjör til steikingar
  • 1 lítill laukur, saxaður fínt
  • 1-2 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 1/4 – 1/2 rautt chili, kjarnhreinsað og saxað fínt
  • 1 msk ferskt engifer, saxað fínt
  • 3 gulrætur, rifnar gróft
  • 2  græn epli, flysjuð og rifin gróft
  • 3 tsk karrí
  • 7 dl kjúklingasoð (3 tsk kjúklingakraftur leystur upp í sjóðandi heitu vatni)
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 dós hakkaðir tómatar (gjarnan bragðbættir með basiliku)
  • 1 ferna matreiðslurjómi (5 dl)
  • 900 gr kjúklingabringur
  • hvítur pipar
  • salt
  • kóríander, blöðin söxuð gróft

Hráefnið er saxað og rifið eins og gefið er upp hér að ofan. Kjúklingakraftur útbúinn með því að leysa kjúklingakraft upp í sjóðandi heitu vatni. Laukur steiktur upp úr smjöri í stórum potti þar til að hann er orðin mjúkur. Þá er hvítlauk, chili og engifer bætt út í og steikt með lauknum í stutta stund. Því næst er gulrótum, eplum og karrí bætt út og steikt í um það bil mínútu. Nú er kjúklingasoði bætt út í ásamt niðursoðnum hökkuðum tómötum, suðan látin koma upp og súpan síðan látin malla í 10-15 mínútur.

Á meðan eru kjúklingabringur skornar í jafnstóra bita. Kjúklingi, kókosmjólk og matreiðslurjóma er svo bætt við út í súpupottinn, súpan látin ná suðu og síðan leyft að malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Súpan er smökkuð til með karrí, hvítum pipar, salti og jafnvel cayenna pipar eða chili fyrir þá sem vilja sterkari súpu. Áður en súpan er borin fram er kóríander bætt út í.

Núðlusúpa með kjúklingi


Þessi núðlusúpa er ekki bara dásamlega góð heldur er hún líka afar fljótgerð sem er alltaf kostur í hversdagsamstrinu. Ef maður er búinn að skera allt hráefnið áður þá er hægt að elda þessa súpu á innan við 10 mínútum!  Súpan er afar bragðgóð, ekki of sterk og fór því vel ofan í alla meðlimi fjölskyldunnar. Reyndar eru Ósk og Alexander ekki enn komin að utan. Mér varð einmitt hugsað til þeirra í gærkvöldi, þetta er réttur sem hefði fallið þeim mjög vel í geð! Ég þarf að elda þessa súpu fyrir þau þegar þau eru komin heim en nú eru bara örfáir dagar í heimkomu þeirra beggja. Ég er ekki enn komin í þann gír að elda bara fyrir okkur fjögur og elda alltaf of mikinn mat, ég gerði t.d. þessa uppskrift tvöfalda sem var auðvitað of mikið. Hins vegar finnst mér voða gott að eiga afganga, þeir fara aldrei til spillis hér á heimilinu! Nú getum við hjónin hlakkað til að fá okkur þessa súpu í hádeginu í dag!

Uppskrift f. 3-4

  • 500 gr kjúklingabringur, skornar í strimla
  • 150 – 200 gr eggjanúðlur (bæði hægt að nota svona flatar eggjanúðlur eins og á myndinni en líka þessar hefðbundu, ég nota oftast ,,medium egg noodles“ frá Blue Dragon)
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í þunna strimla
  • 1 rauð paprika, skorin í þunna strimla
  • 2 vorlaukar, skornir í þunnar skífur
  • 1 hvítlauksrif, fínsaxað
  • 1/2 – 1 rautt chilli, kjarnhreinsað og fínsaxað
  • 1 tsk ferskt engifer, rifið fínt
  • 1,2 lítrar vatn
  • 1 dl soyasósa
  • 6 msk sæt chilisósa
  • 1 msk sesamolía
  • 1/2 límóna (lime)
  • ferskt kóríander, saxað gróft
  • salt og pipar
  • sesamfræ, ristuð á þurri steikarpönnu

Skerið kjúkling og grænmeti eins og segir til í uppskriftinni. Snöggsteikið kjúklinginn í smjöri eða olíu þar til að hann tekur dálítinn lit. Kjúklingurinn á ekki að vera steiktur alveg í gegn.

Hellið vatninu og soyasósunni í stóran pott og látið suðuna koma upp. Setjið eggjanúðlur (ósoðnar), grænmeti, engifer og chili út í og látið sjóða í 2 mínútur. Bætið þá kjúklingnum út í ásamt chilisósu, sesamolíu, safanum úr límónunni, salti og pipar.  Látið súpuna malla í 3-4 mínútur í viðbót eða þar til núðlurnar eru tilbúnar. Stráið yfir ristuðum sesamfræum og söxuðu kóríander og berið fram strax.