Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða kjúklingasúpa


Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða sweet chili kjúklingasúpa IMG_6733Þessi réttur er býsna skemmtilegur því fyrir utan það að vera framúrskarandi gómsætur þá er hægt að útfæra hann á tvo vegu. Ég byrjaði á því að prófa mig áfram með kjúklingasúpu. Þegar ég fór að smakka hana til þá sá ég í hendi mér að núðlur færu feikilega vel með þessum súpugrunni. Ég get satt að segja ekki komist að niðurstöðu um hvor útfærslan er betri – ég elda þær alltaf til skiptis því báðar eru lostgæti. Það kemur á óvart hversu mikið núðlurnar breyta súpunni. Ég læt ykkur um að velja hvort þið viljið ljúffenga kjúklingasúpu eða kræsilegan núðlurétt.

IMG_6712

IMG_6726Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða sweet chili kjúklingasúpa f. 4

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry, afþýddar og skornar í bita
  • 2 msk ólífuolía
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 150 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1/4 – 1/2 rautt chili pipar, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 1 lítil eða ½ stór rauð paprika, skorin í bita
  • 1 lítil gul eða ½ stór paprika, skorin í bita
  • 100 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • 600 ml kjúklingakraftur (600 ml sjóðandi vatn + 3 tsk kjúklingakraftur frá Oscar)
  • 2 dl rjómi
  • 1/2 dl sweet chili dip sauce
  • 2/ 3 dl fersk steinselja, söxuð smátt
  • 1/2 -1 tsk paprika (krydd)
  • ¼ -1/2 tsk chili krydd (t.d. chili explosion eða chili duft)
  • 150 g medium egg núðlur frá Blue Dragon (ef útbúa á núðluréttinn)
  • ca 200 g brokkolí, skorið í bita
  • saltflögur og grófmalaður svartur pipar

Ólífuolía hituð í stórum potti og laukur steiktur þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er sveppum, hvítlauki, chili pipar og papriku bætt út í og steikt í smá stund. Því næst er Philadelphia ostinum, kjúklingakraftinum, rjómanum, sweet chili sósunni, steinseljunni og kryddunum bætt út í og látið malla í 2-3 mínútur. Svo er kjúklingum bætt út í, suðan látin

koma upp og látið malla í um það bil 6-8 mínútur eða þar til kjúklingur er hér um bil eldaður í gegn. Að lokum er brokkolí bætt út og látið malla í 4-5 mínútur til viðbótar. Ef útbúa á núðluréttinn er núðlunum bætt út með brokkolíinu og látið malla þar til núðlurnar eru passlega soðnar. Smakkað til með salti, pipar og papriku og chili kryddi eftir smekk.

IMG_6707

IMG_6731

Kjúklinganúðlur í satay-hnetusósu


 

Ég finn pressuna magnast vegna meistararitgerðarinnar minnar! Það gengur svo sem ágætlega að skrifa en afar hægt. Elfar var að vinna alla helgina en ég náði samt að vinna í ritgerðinni fyrripartinn í gær. Seinni partinn fór ég með Jóhönnu og vinkonu hennar í Krakkahöllina. Ég ætlaði að vera voða sniðug, nýta tímann og setja saman vikumatseðil á meðan ég beið á eftir þeim. Hins vegar kom í ljós að Krakkahöllin býður ekki upp á netsamband. Ég fór því í Bónus fremur illa undirbúin en var þó með óljósar hugmyndir um hina og þessa rétti sem ég keypti í fyrir vikuna. Mér finnst reyndar gaman að reyna að elda úr því hráefni sem ég á til, það verður því skemmtileg áskorun að setja saman rétti og spinna úr því sem ég keypti í gær. Ég er búin að hugsa lengi um að búa til einhvers konar rétt úr Satay hnetusósu. Ég hef skoðað á netinu uppskriftir af slíkri sósu en í Bónus rakst ég á nýja tilbúna gerð Satay sósu sem ég ákvað að prófa. Það átti bara að bæta við vatni en ég ákvað að bæta frekar við kókosmjólk auk vorlauks, hvítlauks, engifers, spínats og papriku. Þetta var afar fljótlegur réttur og góður.

Uppskrift f. 4 

  • 6-800 gr kjúklingalundir eða kjúklingabringur, skornar í litla bita
  • góður bútur af engifer, saxað smátt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 búnt vorlaukur, saxaður smátt
  • 1 rauð paprika, skorin í þunnar strimla
  • 2 pakkar Satay sósa (sjá mynd), líka hægt að nota satay sósu í krukku
  • 2 dl kókosmjólk (það er hægt að nota alla dósina en þá verður hnetusósan bragðminni og meira kókosbragð)
  • 1/3 poki spínat
  • 250 gr eggjanúðlur

 

Eggjanúðlurnar soðnar eftir leiðbeiningum (passa þarf að ofsjóða þær alls ekki) Vorlaukur, hvítlaukur og engifer saxað smátt og steikt upp úr olíu á pönnu í ca. 1 mínútu án þess að það brenni. Blandan er svo veidd upp úr og lögð til hliðar. Kjúklingur steiktur á pönnunni þar til að hann hefur náð góðum lit og paprikunni bætt við. Því næst er laukblöndunni bætt aftur út í (ef pannan er lítil gæti verið gott að færa allt yfir í pott) Sósunni hellt út á ásamt kókosmjólkinni og látið malla í ca. 5 mínútur. Í lokin er spínatinu bætt út í. Kjúklingasósunni er svo blandað við eggjanúðlurnar og borið strax fram (ég stráði dálítið af söxuðum pistasíuhnetum yfir réttinn)