Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða kjúklingasúpa


Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða sweet chili kjúklingasúpa IMG_6733Þessi réttur er býsna skemmtilegur því fyrir utan það að vera framúrskarandi gómsætur þá er hægt að útfæra hann á tvo vegu. Ég byrjaði á því að prófa mig áfram með kjúklingasúpu. Þegar ég fór að smakka hana til þá sá ég í hendi mér að núðlur færu feikilega vel með þessum súpugrunni. Ég get satt að segja ekki komist að niðurstöðu um hvor útfærslan er betri – ég elda þær alltaf til skiptis því báðar eru lostgæti. Það kemur á óvart hversu mikið núðlurnar breyta súpunni. Ég læt ykkur um að velja hvort þið viljið ljúffenga kjúklingasúpu eða kræsilegan núðlurétt.

IMG_6712

IMG_6726Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða sweet chili kjúklingasúpa f. 4

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry, afþýddar og skornar í bita
  • 2 msk ólífuolía
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 150 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1/4 – 1/2 rautt chili pipar, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 1 lítil eða ½ stór rauð paprika, skorin í bita
  • 1 lítil gul eða ½ stór paprika, skorin í bita
  • 100 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • 600 ml kjúklingakraftur (600 ml sjóðandi vatn + 3 tsk kjúklingakraftur frá Oscar)
  • 2 dl rjómi
  • 1/2 dl sweet chili dip sauce
  • 2/ 3 dl fersk steinselja, söxuð smátt
  • 1/2 -1 tsk paprika (krydd)
  • ¼ -1/2 tsk chili krydd (t.d. chili explosion eða chili duft)
  • 150 g medium egg núðlur frá Blue Dragon (ef útbúa á núðluréttinn)
  • ca 200 g brokkolí, skorið í bita
  • saltflögur og grófmalaður svartur pipar

Ólífuolía hituð í stórum potti og laukur steiktur þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er sveppum, hvítlauki, chili pipar og papriku bætt út í og steikt í smá stund. Því næst er Philadelphia ostinum, kjúklingakraftinum, rjómanum, sweet chili sósunni, steinseljunni og kryddunum bætt út í og látið malla í 2-3 mínútur. Svo er kjúklingum bætt út í, suðan látin

koma upp og látið malla í um það bil 6-8 mínútur eða þar til kjúklingur er hér um bil eldaður í gegn. Að lokum er brokkolí bætt út og látið malla í 4-5 mínútur til viðbótar. Ef útbúa á núðluréttinn er núðlunum bætt út með brokkolíinu og látið malla þar til núðlurnar eru passlega soðnar. Smakkað til með salti, pipar og papriku og chili kryddi eftir smekk.

IMG_6707

IMG_6731

Kjúklinganúðlur í Hoisin sósu


IMG_6667Það er gaman að segja frá því að um þessar mundir er að detta inn í matvöruverslanir veglegur bæklingur með kjúklingauppskriftum sem ég vann fyrir Rose Poultry kjúklinginn góða. Í bæklingnum eru fjölmargar einfaldar og ljúffengar kjúklingauppskriftir og verður bæklingurinn ókeypis. Ég mæli með því að þið svipist um eftir Rose Poultry kjúklingnum í frystinum í næstu búðarferðum og grípið með ykkur þennan uppskriftabækling í leiðinni. Bæklinginn er oftast nær að finna nálægt Hunts grillsósunum en svo getið þið líka náð í hann rafrænt hér! Það er dálítið misjafnt hvaða tegundir af Rose Poultry kjúklingi fæst í hvaða búðum, þ.e. bringur, úrbeinuð læri eða lundir, en í uppskriftun í bæklingnum er alltaf hægt að nota hvaða kjúklingahluta sem er. Núna er ég með dálítið æði fyrir kjúklingalundunum, þær eru svo ofsalega mjúkar og góðar. Ég varð því mjög glöð þegar ég sá að verslunin Iceland er með Rose lundirnar til sölu því þær fást ekki alltaf í öðrum verslunum. 20140522-165140 Eins og þeir vita sem fylgjast reglulega með Eldhússögum þá nota ég mikið Green Gate matarstellið og finnst það óendanlega fallegt! Í bæklingnum sést í fjölmargar tegundir af Green gate matarstellinu en slóðin á verslunina er ekki alveg rétt í bæklingnum, hún er Cupcompany.is en ekki .com í lokin eins og gefið er upp. Ég fer einmitt reglulega þangað inn og dáist að nýjasta stellinu sem er blúndustell! Það heitir Lace warm gray og er klárlega efst á óskalista mínum um þessar mundir! 🙂 Í tilefni af útkomu bæklingsins þá ætla ég að setja hér inn eina uppskrift úr honum. Þetta er ofureinfaldur kjúklingaréttur með núðlum en ó svo góður! Það er svo langt síðan að ég gerði uppskriftirnar fyrir þennan bækling að ég var búin að steingleyma þessum rétti þar til að ég sá hann núna í nýprentuðum bæklingnum. Ég var því mjög spennt að búa hann til aftur í kvöld og rifja upp hvort að hann væri jafn góður og okkur fjölskylduna minnti – sem hann var. Kjúklingur, núðlur og wokgrænmeti finnst mér alltaf svo gott saman en þá verður allt þetta þrennt að vera bundið saman með góðri asískri sósu. Í þessari uppskrift er sósan mjög einföld en að sama skapi afskaplega góð. Þessi réttur er mjög fljótlegur að útbúa, sem er alltaf kostur í dagsins önn, en líka einstaklega bragðgóður. Kjúklingalundirnar eru fljótar að þiðna. Stundum tek ég þær úr frystinum rétt fyrir matargerð, set þær í örbylgjuofn á lægstu stillinguna í örstutta stund til þess að taka mesta frostið úr þeim, sker þær svo niður hálffrosnar og þá þiðna þær á afar skömmum tíma. IMG_6668 Kjúklinganúður í Hoisin sósu f. 3-4

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri eða kjúklingalundir frá Rose Poultry
  • ólífuolía til steikingar
  • saltflögur (Falksalt)
  • grófmalaður svartur pipar
  • ca. 30 g ferskt kóríander, saxað
  • 1.5 dl hoisin sósa frá Blue Dragon
  • 2 dl chili sósa frá Heinz
  • 1/2 dl hunang
  • 2 msk ferskt engifer, rifið
  • 300 g medium egg noodles frá Blue Dragon
  • 500 g frosið wok grænmeti

Kjúklingurinn er skorinn í bita og kryddaður með salti og pipar. Hoisin sósa, chili sósa, hunang, engifer og kóríander er hrært saman í skál. Kjúklingurinn er því næst steiktur á pönnu upp úr ólífuolíu þar til hann hefur náð góðum lit. Þá er sósunni hellt á pönnuna og látið malla við vægan hita. Þegar kjúklingurinn er hér um bil eldaður í gegn er wokgrænmetinu bætt á pönnuna og látið malla þar til grænmetið og kjúklingurinn er tilbúið. Á meðan eru núðlurnar soðnar örlítið styttra en leiðbeiningar segja til um, ef uppgefinn tími er 4 mínútur passar að elda þær í 3 – 3 ½ mínútur (eldunin á þeim klárast þegar þær fara á pönnuna). Að lokum er núðlunum bætt á pönnuna og öllu blandað vel saman við meðalhita. Rétturinn er borinn strax fram þá er gott að strá yfir hann fersku kóríander. IMG_6664

Eggjanúðlur með kjúklingi og wok steiktu grænmeti


IMG_0340

Ég eldaði þennan kjúklingarétt fyrir okkur Elfar í kvöld. Börnin langaði svo ofsalega mikið í Dominos pizzur en við hjónin erum ekki hrifin af þeim. Svo enduðu krakkarnir nú öll á því að laumast aðeins í réttinn, þrátt fyrir pizzurnar, enda er hann afskaplega góður. Mér finnst oft erfitt að finna góða sósu með svona núðlukjúlingaréttum. En þessi sósa er rosalega góð! Það er hægt að nota frosið wok grænmeti en auðvitað er mikið betra að hafa það ferskt. Þessi réttur er ekki bara góður heldur afar fljótlegur að elda. Ég var jafnlengi að búa til þennan rétt eins og stóru krakkarnir voru að sækja pizzurnar, ca. 15 mínútur. Frábær réttur sem er svo gott að grípa í þegar maður vill búa til fljótlegan er samt rosalega góðan kvöldmat! 🙂

Uppskrift:

  • 600 gr kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • 2-3 gulrætur
  • góður biti af hvítkálshaus
  • 250 gr sveppir
  • lítill brokkolí haus
  • ferskt engifer, fingurstór biti
  • 4 hvítlauksrif
  • 1 pakki soðnar eggjanúðlur (250 gr)
  • 3-4 msk ólifuolía
  • 2 tsk sesamolía
  • 2 msk oystersauce
  • 5-6 msk góð sojasósa
  • 1 msk hoisin-sósa
  • 1 tsk sykur

IMG_0334

Afhýðið engifer og hvítlauk og saxið fínt. Skerið kjúklinginn í þunnar sneiðar (gott að skera hann hálffrosin). Skerið hvítkálið og gulrætur í strimla, sneiðið sveppina og skerið brokkolí í passlega bita. Hrærið saman sesamolíuna, ostron sósuna og hoisin sósuna, sojasósuna og sykur. Sjóðið núðlurnar eins og gefið er upp í leiðbeiningum.
Hitið ólífuolíuna á pönnu (wok pönnu ef þið eigið hana til) og steikið engifer og hvítlauk í örstutta stund á háum hita, bætið svo kjúklingnum út í og steikið þar til hann hefur fengið lit. Þá er hvítkáli, gulrótum og sveppum bætt út í.  Ef pannan er of lítil þá er hægt að færa allt yfir í stóran pott. Bætið nú við sósunni ásamt soðnu núðlunum og steikið saman í nokkrar mínútur þar til rétturinn er gegnumheitur.
IMG_0331