Dandalakjúklingaréttur


IMG_6609Það eru til ótal kjúklingauppskriftir sem í er mangó chutney enda gerir mangómaukið sósuna með kjúklingnum ómótstæðilega. Ég er með þónokkrar slíkar uppskriftir á hér á síðunni og hér að neðan bætist ein afbragðsgóð í safnið. Ég skírði hana „dandalakjúklingarétt“ bara svona af því að orðið „dandala“ er svo skemmtilegt! 🙂 Á Austfjörðum (og kannski á fleiri stöðum?) talar fólk um dandalaveður þegar það er bongóblíða. Vissulega var ekki beint dandalaveður í dag en þó, börnin voru býsna glöð yfir snjónum og léku sér úti í allan dag. Ég bakaði hins vegar smákökur og játa blygðunarlaust að ég hlustaði á nokkur jólalög með MIchael Bublé á meðan – þetta lá bara einhvern veginn í loftinu í dag og svo eru nú bara 63 dagar til jóla! 🙂

Dandalakjúklingaréttur f. 3

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri frá Rose Poultry
  • saltflögur og ferskmalaður svartur pipar
  • ólífuolía til steikingar
  • 1 msk fljótandi kjúklingakraftur (eða 1 teningur)
  • 1 msk sojasósa
  • 1-2 tsk minced hot chili frá Blue Dragon eða annað chilimauk
  • 1 púrrlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 paprika (til dæmis rauð og/eða gul) skorin í bita
  • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
  • 3 msk mango chutney

Kjúklingurinn skorinn í bita og kryddaður með salti og pipar. Þá er hann steiktur upp úr olíu á pönnu þar til hann hefur tekið góðan lit. Því næst er sojasósu, kjúklingakrafti, chilimauki bætt út í, lok sett á pönnuna og látið malla við vægan hita í u.þ.b. 10 mínútur. Að lokum er púrrlauk, papriku, mango chutney og sýrðum rjóma bætt út í og látið malla í nokkrar mínútur til viðbótar. Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.

Dandalakjúklingaréttur

 

Súkkulaðirúlluterta með hnetu-Nizza og banönum


IMG_7706Nói og Siríus efndu til samkeppni um bestu uppskriftina fyrir árlega bæklinginn sinn. Ég var svo heppin að vinna annað árið í röð! 🙂 Í fyrra vann ég með þessa uppskrift en í ár var ég með útfærslu af þessari uppskrift sem var vinningsuppskriftin. Endilega verðið ykkur úti um þennan flotta bækling, ég held að hann sé rétt ókominn í búðir. Ég fékk veglegan vinning, gjafabréf út að borða, leikhúsmiða og körfu með allskonar bökunarvörum frá Nóa og Siríus. IMG_7696  Um helgina skruppum við í sunnudagskaffi til foreldra minna og eins og svo oft áður ákvað ég að búa til eitthvað gott á kaffiborðið og eins og svo oft áður var ég á síðustu stundu – mér er bara ekki viðbjargandi með það! 🙂 En 45 mínútum áður en ég var mætt heim til foreldra minna var ég ekki enn búin að ákveða hvað ég ætti að baka, það kom ekki að sök því kakan sem ég ákvað að baka er einstaklega fljótleg í bakstri. Ég mundi eftir girnilega hnetusmjörinu í gjafakörfunni og á mettíma varð þessi dásamlega góða kaka tilbúin! IMG_7701 Uppskrift:

  • 3 egg
  • 1,5 dl sykur
  • 50 g smjör, brætt
  • 2 msk mjólk
  • 2 msk kakó
  • 2 msk kartöflumjöl
  • 5 msk hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • ca. 1/2 dós Nizza hnetusmjör frá Nóa og Siríus
  • 2 meðalstórir bananar, vel þroskaðir, skornir í þunnar sneiðar.

IMG_7834 IMG_7706 Ofn hitaður í 250 gráður undir/yfirhita. Egg og sykur þeytt létt og ljóst. Mjólkinni er hellt út í brædda smjörið. Kakói, kartöflumjöli, hveiti og lyftidufti blandað saman. Því er svo bætt út í eggjablönduna á víxl við smjör/mjólkurblönduna. Þá er deiginu helt á ofnplötu klædda bökunarpappír og dreift úr deiginu þannig að það myndi ferning. Bakað við 250 gráður í ca. 4-5 mínútur. Um leið og kakan kemur úr ofninum er henni hvolft á bökunarpappír. Gott er að bíða í nokkrar mínútur eftir því að kakan kólni svolítið áður en Nizza kremið er borið á kökuna, annars bráðnar það. Þegar Nizza kreminu hefur verið dreift jafnt yfir kökuna og bananasneiðunum raðað yfir, er henni rúllað upp.

IMG_7708

,,Rocky road“ brúnkur


,,Rocky road" brúnkurÉg veit ekki hvað það var með mig í gær en frá því að ég kom heim úr vinnunni langaði mig svo óskpalega mikið að baka mjög gómsæta köku. Því fór svo, að þegar ég tók lasagna úr ofninum á kvöldmatartímanum, fór kaka inn í heitan ofninn. Ég ákvað að baka köku sem ég hef haft augastað á lengi en uppskriftin kemur frá sænska kökukrúttinu henni Leilu. Ég reyndar breytti uppskriftinni dálítið, til dæmis minnkaði sykurinn töluvert án þess að það kæmi að sök. Kremið er afar ljúffengt og það er gefið upp að notað skuli 70% súkkulaði. Það er þó ekki öllum sem geðjast slíkt súkkulaði, það er því hægt að nota hefðbundið suðusúkkulaði í staðinn eða 56% súkkulaði. Ég notaði stóra sykurpúða sem ég klippti niður en best og fallegast er að nota mini-marshmallows. Þeir fást hins vegar á fáum stöðum, það er helst að ég hafi séð þá í Söstrene Grene. Þegar kakan var tilbúin dugði mér alveg lítill biti til þess að seðja kökulöngunina. Ég ákvað því að drífa mig með kökuna í vinnuna í morgun svo að þessi ómótstæðilega kaka myndi ekki standa bara og freista mín stöðugt! 🙂

IMG_7667

Uppskrift (í 26×38 cm form)

  • 350 g mjúkt smjör
  • 4.5 dl sykur
  • 3 dl kakó
  • 1 dl ljóst síróp
  • 1/2 tsk salt
  • 6 lítil eða meðalstór egg
  • 3 dl hveiti

Karamelluglassúr:

  • 2 dl rjómi
  • 1 dl mjólk
  • 3/4 dl ljóst síróp
  • 300 g suðusúkkulaði eða 56%-70%, saxað

Rocky Road:

  • 1 poki Dumle karamellur (120 g), skornar eða klipptar í þrennt
  • ca. 1.5 dl pistasíur og/eða kasjúhnetur
  • ca. 2 dl salthnetur
  • nokkrir sykurpúðar klipptir niður eða mini-marshmallows

IMG_7658

Ofn stilltur á 175 gráður og stórt form (ca. 26×38 cm) smurt að innan. Smjör og sykur hrært þar til það verður létt og ljóst. Kakói, sírópi og salti bætt út í. Því næst er eggjum bætt út í, einu í senn. Að síðustu er hveitinu blandað út í. Deiginu er því næst hellt í bökunarformið og bakað í miðjum ofninum við 175 gráður í 30-35 mínútur, kakan á að vera fremur blaut í miðjunni. Þá er kakan látin kólna á meðan glassúrinn er búin til.

Rjómi, mjólk og síróp er sett saman í pott og hrært í pottinum á meðan suðan er að koma upp. Þegar suðan hefur komið upp er potturinn tekinn af hellunni og súkkulaðinu bætt út í, hrært þar til það hefur bráðnað. Þá er glassúrnum (ath. að blandan á að vera þunn) dreift jafnt yfir kökuna. Því næst eru hnetum, Dumle karamellum og sykurpúðum dreift jafnt yfir kremið. Kakan er sett í ísskáp í ca. tvo tíma eða þar til kremið hefur stífnað.

IMG_7675

Dásamlega fallega blúndustellið frá Green Gate

 

Ostakökudesert með hindberjasósu


Ostakökudesert með hindberjasósuÉg er búin að setja inn þónokkuð af uppskriftum að ostakökum undanfarið enda finnst mér þær hnossgæti! 🙂 Eini ókosturinn við ostakökur er að þær þarf að búa til með smá fyrirvara. Þegar við komum heim frá Bandaríkjunum í ágúst ákvað ég að hafa matarboð strax daginn eftir lendingu. Við vorum búin að vera í heilan mánuð erlendis og farin að sakna vina okkar. Elfar byrjar yfirleitt á því að fara beint á vakt þegar við komum heim úr fríi en aldrei þessu vant fékk hann helgarfrí áður en hann þurfti að mæta til vinnu. Ég ýtti því bara ferðatöskunum út í horn og blés til matarboðs. Mig langaði helst að hafa ostaköku í eftirrétt en hafi ekki tíma til þess að búa hana til. Það varð því úr að ég setti saman þennan eftirrétt á örstuttum tíma. Ótrúlega góður og ekki spillir fyrir hversu einfaldur og fljótlegur hann er.
IMG_7260
Uppskrift f. 6:
  • 2 dósir Philadelpia rjómaostur (400 g)
  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml)
  • 1 dl rjómi
  • 1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/2 dl flórsykur
  • 300 g Digestive kex
  • 300 g frosin hindber, afþýdd
  • 1.5 msk sykur
  • ber til skreytingar (t.d. hindber og bláber)
  • fersk myntublöð (má sleppa)

IMG_7257

Rjómaostur, grísk jógúrt og rjómi er þeytt saman ásamt fræjunum úr vanillustönginni, vanillusykri, flórsykri og 100 grömmum af hindberjunum þar til blandan verður kremkennd. Digestive kexið er mulið smátt. Afgangnum af hindberjunum (200 grömm) eru maukuð vel með gaffli og sykrinum bætt út í. Ef sósan verður mjög þykk er hægt að þynna hana með örlitlu vatni. Því næst er öllum hráefnunum blandað í sex skálar – einnig er hægt að setja allt í eina stóra skál. Best er að byrja á því að dreifa hluta af mulda kexinu í botinn, þá rjómaostablöndunni og loks hindberjasósunni. Þetta er endurtekið um það bil tvisvar eða þar til hráefnin eru búin. Að lokum er skeytt með berjum og jafnvel ferskum myntublöðum.
IMG_7265