Nói og Siríus efndu til samkeppni um bestu uppskriftina fyrir árlega bæklinginn sinn. Ég var svo heppin að vinna annað árið í röð! 🙂 Í fyrra vann ég með þessa uppskrift en í ár var ég með útfærslu af þessari uppskrift sem var vinningsuppskriftin. Endilega verðið ykkur úti um þennan flotta bækling, ég held að hann sé rétt ókominn í búðir. Ég fékk veglegan vinning, gjafabréf út að borða, leikhúsmiða og körfu með allskonar bökunarvörum frá Nóa og Siríus.
Um helgina skruppum við í sunnudagskaffi til foreldra minna og eins og svo oft áður ákvað ég að búa til eitthvað gott á kaffiborðið og eins og svo oft áður var ég á síðustu stundu – mér er bara ekki viðbjargandi með það! 🙂 En 45 mínútum áður en ég var mætt heim til foreldra minna var ég ekki enn búin að ákveða hvað ég ætti að baka, það kom ekki að sök því kakan sem ég ákvað að baka er einstaklega fljótleg í bakstri. Ég mundi eftir girnilega hnetusmjörinu í gjafakörfunni og á mettíma varð þessi dásamlega góða kaka tilbúin!
Uppskrift:
- 3 egg
- 1,5 dl sykur
- 50 g smjör, brætt
- 2 msk mjólk
- 2 msk kakó
- 2 msk kartöflumjöl
- 5 msk hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- ca. 1/2 dós Nizza hnetusmjör frá Nóa og Siríus
- 2 meðalstórir bananar, vel þroskaðir, skornir í þunnar sneiðar.
Ofn hitaður í 250 gráður undir/yfirhita. Egg og sykur þeytt létt og ljóst. Mjólkinni er hellt út í brædda smjörið. Kakói, kartöflumjöli, hveiti og lyftidufti blandað saman. Því er svo bætt út í eggjablönduna á víxl við smjör/mjólkurblönduna. Þá er deiginu helt á ofnplötu klædda bökunarpappír og dreift úr deiginu þannig að það myndi ferning. Bakað við 250 gráður í ca. 4-5 mínútur. Um leið og kakan kemur úr ofninum er henni hvolft á bökunarpappír. Gott er að bíða í nokkrar mínútur eftir því að kakan kólni svolítið áður en Nizza kremið er borið á kökuna, annars bráðnar það. Þegar Nizza kreminu hefur verið dreift jafnt yfir kökuna og bananasneiðunum raðað yfir, er henni rúllað upp.
Mjög girnilegt, og til hamingju með vinninginn hef prófað báðar þessar kökur og eru alveg dásamlegar. Þú átt sko alveg skilið að vinna annað árið í röð ert með svo góðar uppskriftir 🙂
Æ takk fyrir það Halla Björk! 🙂