Ég veit ekki hvað það var með mig í gær en frá því að ég kom heim úr vinnunni langaði mig svo óskpalega mikið að baka mjög gómsæta köku. Því fór svo, að þegar ég tók lasagna úr ofninum á kvöldmatartímanum, fór kaka inn í heitan ofninn. Ég ákvað að baka köku sem ég hef haft augastað á lengi en uppskriftin kemur frá sænska kökukrúttinu henni Leilu. Ég reyndar breytti uppskriftinni dálítið, til dæmis minnkaði sykurinn töluvert án þess að það kæmi að sök. Kremið er afar ljúffengt og það er gefið upp að notað skuli 70% súkkulaði. Það er þó ekki öllum sem geðjast slíkt súkkulaði, það er því hægt að nota hefðbundið suðusúkkulaði í staðinn eða 56% súkkulaði. Ég notaði stóra sykurpúða sem ég klippti niður en best og fallegast er að nota mini-marshmallows. Þeir fást hins vegar á fáum stöðum, það er helst að ég hafi séð þá í Söstrene Grene. Þegar kakan var tilbúin dugði mér alveg lítill biti til þess að seðja kökulöngunina. Ég ákvað því að drífa mig með kökuna í vinnuna í morgun svo að þessi ómótstæðilega kaka myndi ekki standa bara og freista mín stöðugt! 🙂
Uppskrift (í 26×38 cm form)
- 350 g mjúkt smjör
- 4.5 dl sykur
- 3 dl kakó
- 1 dl ljóst síróp
- 1/2 tsk salt
- 6 lítil eða meðalstór egg
- 3 dl hveiti
Karamelluglassúr:
- 2 dl rjómi
- 1 dl mjólk
- 3/4 dl ljóst síróp
- 300 g suðusúkkulaði eða 56%-70%, saxað
Rocky Road:
- 1 poki Dumle karamellur (120 g), skornar eða klipptar í þrennt
- ca. 1.5 dl pistasíur og/eða kasjúhnetur
- ca. 2 dl salthnetur
- nokkrir sykurpúðar klipptir niður eða mini-marshmallows
Ofn stilltur á 175 gráður og stórt form (ca. 26×38 cm) smurt að innan. Smjör og sykur hrært þar til það verður létt og ljóst. Kakói, sírópi og salti bætt út í. Því næst er eggjum bætt út í, einu í senn. Að síðustu er hveitinu blandað út í. Deiginu er því næst hellt í bökunarformið og bakað í miðjum ofninum við 175 gráður í 30-35 mínútur, kakan á að vera fremur blaut í miðjunni. Þá er kakan látin kólna á meðan glassúrinn er búin til.
Rjómi, mjólk og síróp er sett saman í pott og hrært í pottinum á meðan suðan er að koma upp. Þegar suðan hefur komið upp er potturinn tekinn af hellunni og súkkulaðinu bætt út í, hrært þar til það hefur bráðnað. Þá er glassúrnum (ath. að blandan á að vera þunn) dreift jafnt yfir kökuna. Því næst eru hnetum, Dumle karamellum og sykurpúðum dreift jafnt yfir kremið. Kakan er sett í ísskáp í ca. tvo tíma eða þar til kremið hefur stífnað.
Dásamlega fallega blúndustellið frá Green Gate
Frábær kaka fékk mér bita af henni í dag í vinnunni. Takk fyrir mig kæra Dröfn.
Það var nú lítið mín kæra! 🙂
Á myndinni virkar kakan svo stór, er þetta þá tvöföld uppskrift sem þú notar þar? Mjög girnileg kaka .
Þetta er einföld uppskrift á myndinni en uppskriftin er stór, passar í minni skúffu. Formið sem ég notaði er 26 cm x 38 cm.
Ekkert smá girnileg kaka en mini-marshmallows fást líka í Kosti 😉