Rice Krispies turn


img_4688

Það er afar algengt og vinsælt að bjóða upp á Rice Krispies turna í til dæmis fermingarveislum og skírnarveislum. Oft og tíðum eru Rice Krispies turnarnir hugsaðir sérstaklega fyrir yngstu gestina en ég hef tekið eftir því að hér um bil allir fullorðnir fá sér líka bita enda er svona Rice krispies biti mikið sælgæti. Hráefnið í Rice Krispies turn er ódýrt og það er auðvelt og fremur fljótgert að búa hann til. Það eina sem gæti staðið manni fyrir þrifum er að það þarf að nota sérstök form fyrir turninn, kransakökuform. Ég var svo heppin að græða gamalt og gott danskt kransakökuform frá mömmu vinkonu minnar sem var að losa sig við dót í flutningum. En ég veit að formin eru til sölu í mörgum búsáhaldaverslunum og kosta í kringum 5-6000 krónur þegar þetta er skrifað, prófið bara að gúggla kransakökuform til að finna út hvar þau eru seld.

img_4638

Ég hef prófað nokkrar uppskriftir að Rice Krispies og hef fundið það út að mér finnst langbest að nota Bónus hjúpsúkkulaði á móti Pralin karamellufylltu súkkulaði. Nú nota ég almennt súkkulaðihjúp ekki mikið, kýs yfirleitt að nota vandað suðusúkkulaði, en einhverra hluta vegna passar þetta hjúpasúkkulaði svo vel í Rice Krispies uppskriftina, það gefur voðalega góðan karamellukeim. Ég nota yfirleitt dökka hjúpsúkkulaðið en hef stundum notað eina ljósa plötu á móti tveimur dökkum.

img_4618

Það eru nokkrir hlutir sem er gott að hafa í huga við turnagerðina. Kransakökuformin eru með þremur hringum hvert en það er of þétt að nota þau öll samtímis. Það er því best að nota ysta og innsta hringinn fyrst og gera svo miðjuhringina eftir á. Annað er að þegar losað er um hringina þá hjálpar til að klæða fyrst formin plastfilmu. Ég hef stundum sleppt plastfilmunni og losa bara varlega um hringina með hníf og það hefur alltaf gengið vel.

img_4640

En ég mæli samt með plastfilmunni til að komast örugglega hjá því að hringirnir brotni þegar þeir eru losaðir. Það þarf líka að huga að stærðunum á hringjunum, þ.e. að vera viss um að maður sé að raða þeim í réttri stærðarröð í turninn. Þegar turninn er settur saman þá finnst mér ekki gott að hafa alltof mikið brætt súkkulaði á milli hringjanna og ég reyni því að nota lítið magn af brædda súkkulaðinu. Það hefur alltaf gengið vel hjá mér því hringirnir eru frekar klístraðir af sírópinu og þegar turninn fer svo í frysti þá finnst mér hann alltaf festast mjög vel saman. En þetta er smekksatriði og ég sé oft að margir nota mikið af bræddu súkkulaði á milli hringjanna, það þéttir jú líka turninn upp á útlitið að gera. En ég vil nota minna af bræddu súkkulaði til þess að Rice Krispies hringirnir njóti sín betur upp á bragðið að gera. Þarna þarf maður kannski að vega og meta útlitið/stöðugleikann á móti bragði.

img_4652

Ég nota þessa uppskrift fyrir 18 hringja turn og hún rétt sleppur fyrir þá stærð. Það er hins vegar misjafnt hversu þykka og þétta hringi fólk gerir. Ég mæli því með að þið að þið annað hvort endið á að móta stærstu hringina (og gerið þá færri hringi en 18 ef uppskriftin dugir ekki) eða aukið aðeins við uppskriftina ef þið viljið vera örugg á magninu.

Ein hugmynd sem ég vil koma á framfæri er að ég gerði eitt sinn svona turn fyrir fermingarveislu og það var bara gert ráð fyrir fyrir einum turni og því bara til skreytingar fyrir einn turn. Á síðustu stundu fóru veisluhaldara að hafa áhyggjur yfir því að einn turn myndi ekki duga. Ég gerði því eina og hálfa uppskrift og gerði einn og hálfan turn. Ég mótaði 8 eða 9 hringja turn úr minnstu hringjunum og hafði hann inni í 18 hringja turninum þannig að þegar hann var hálfnaður í veislunni þá kom annar minni turn í ljós inni í hinum. Það getur verið sniðug lausn ef maður er ekki öruggur með að einn turn dugi en finnst tveir of margir.

img_4663

Uppskrift:

  • 300 g Bónus hjúpsúkkulaði (dökkt)
  • 200 g Pralín karamellufyllt súkkulaði
  • 454 g síróp í grænu dósinni (lítil)
  • 160 g smjör
  • 300 g Rice Krispies
  • 100-200 g dökkt hjúpsúkkulaði eða suðusúkkulaði til að festa hringina saman
  • skreytingar á turninn
  • (gott er að nota silikonhanska og Pam sprey þegar hringirnir eru mótaðir)

Kransakökuformin eru klædd með plastfilmu. Hjúpsúkkulaði og Pralín súkkulaði er brytjað ofan í pott ásamt sírópi og smjöri. Allt brætt við meðalhita og hrært í á meðan (blandan má alls ekki brenna). Þegar blandan er orðin þykk og karamellukennd er henni blandað mjög vel saman við Rice Krispies (gætið þess að það verði engar ”skellur” eftir, þ.e. súkkulaðilaust Rice Krispies inn í miðri blöndunni).

img_4620+img_4625

img_4629

img_4634

Á meðan blandan er enn heit eru hringirnir mótaðir í formin, einungis ysti og innri hringurinn í fyrstu umferðinni. Gott er að móta hringina með fingrunum og það er gott að vera með silikon hanska og Pam sprey til þess að forðast að blandan festist ekki við fingurnar. Mér finnst gott að reyna að hafa hringina dálítið slétta að ofan þannig að þeir leggist síðar vel saman. Það er jafnvel hægt að leggja eitthvað þungt ofan á hringinga, t.d. bók (með smjöpappír á milli) til að ná jöfnu og flötu formi. Hringirnir eru svo settir í frysti í 10-15 mínútur. Þá eru hringirnir losaðir varlega, settir á bökunarpappír og geymdir áfram í frysti á meðan miðjuhringirnir eru mótaðir og frystir í ca. 15 mínútur. Því næst er súkkulaðið, sem notað er til að festa hringina saman, brætt í örbylgjuofni. Hringirnir eru teknir úr frysti, lagðir á bökunarpappír og raðað í stærðarröð. Stærsti hringurinn er lagður á disk, það er gott að bera dálítið brætt súkkulaði undir hringinn til að hann festist á disknum. Þá er dálítið brætt súkkulaði borið á hringinn, næsti lagður á og svo koll af kolli. Það getur þurft að bræða súkkulaðið aftur ef það fer að storkna. Hér skreytti ég turninn með fiðrildum (úr Allt í köku) og ég festi þau með bræddu súkkulaði.

img_4643

img_4667

img_4679

 

Ostakaka með hvítu súkkulaði og mangó


img_4601

Ég held að ég geti með fullvissu sagt að ostakaka er uppáhalds eftirrétturinn minn. Ég er ekki ein um það. Hér á heimilinu hefur nefnilega ríkt ostakökuæði, allir í fjölskyldunni elska ostakökur! Við höfum aldeilis gert vel við okkur undanfarið því ég hef bakað þrjár ostakökur á jafnmörgum vikum. Meira að segja elsta dóttirinn, sem er að jafnaði ekki hrifin af kökum, finnst ostakökur æðislegar. Fyrstu tvær ostakökurnar sem ég bakaði voru okkar uppáhalds, bökuð ostakaka með hindberjum, algjört sælgæti. Núna síðast ákvað ég hins vegar að gera smá tilraun, nota eftirlætishráefnin mín,  mangó og hvítt súkkulaði, en hafa ostakökuna ekki bakaða heldur bara kælda með matarlími. Þessi ostakaka sló ekki síður í gegn hjá fjölskyldunni og það hefur verið tilhlökkunarefni okkar Elfars að gæða okkur á einni sneið á kvöldin þessa vikuna. Þessi ostakaka verður nefnilega betri með hverjum deginum og ég held svei mér þá að bitinn í kvöld, á fjórða degi, hafi verið bestur! Ég mæli sannarlega með þessari köku! 🙂

img_4616

Uppskrift:

Botn:

  • 250 gr Digestive kex
  • 100 gr smjör
  • 2 tsk kanill

Fylling:

  • 2 dl rjómi
  • 600 gr Philadelphia rjómaostur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 dl flórsykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 100 g hvítt súkkulaði
  • 5 blöð matarlím matarlím
  • 1 límóna (lime) – safi og börkur
  • 1 msk vatn

Ofan á:

  • 2 blöð matarlím
  • 250 g mangó (frosið eða ferskt)
  • 1 límóna (lime)
  • 1 msk vatn

Aðferð:

Botn: Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið og kanil. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin er settur í kæli á meðan fyllingin er búin til.

Fylling: Rjómi þeyttur og lagður til hliðar. 5 matarlímsplötur eru settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur, þær eiga að verða mjúkar og þykkar. Rjómaosturinn, sýrði rjóminn, flórsykur og vanillusykur er hrært saman í hrærivél. Hvíta súkkulaðið er saxað niður og brætt varlega í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði, því er svo bætt út í rjómaosblönduna. Safinn úr límónu ásamt 1 msk af vatni er sett í pott og hitað. Matarlímsblöðin eru tekin úr vökvanum, vatnið kreist úr þeim og þau sett út í heitan vökvann. Hrært þar til matarlímið hefur bráðnað saman við vökvann. Þá er matarlímsblöndunni hellt út í rjómaostablönduna. Því næst er þeytta rjómanum bætt út í og hrært í stutta stund. Börkurinn af límónunni er rifinn fínt (þess gætt að fara ekki ofan í hvíta lagið undir því græna) og honum bætt út að síðustu. Blöndunni er hellt ofan á botninn og kakan kæld í minnst 4 klukkustundir áður en mangóið er sett ofan á.

Ofan á: þegar kakan hefur stífnað nægilega eru 2 matarlímsblöð sett í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Mangóið er afþýtt, ef það er frosið, og svo maukað í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Safinn úr límónunni ásamt vatninu er sett i pott og hitað. Matarlímsblöðin eru tekin úr vökvanum, vatnið kreist úr þeim og þau sett út í heitan vökvann. Hrært þar til matarlímið hefur bráðnað saman við vökvann. Þá er matarlímsblöndunni hellt út í maukaða mangóið og því svo dreift yfir ostakökuna, hún er síðan kæld. Ostakakan er best daginn eftir að hún hefur verið gerð og batnar bara með hverjum deginum.

img_4607img_4611

 

Þorskur með fetaosti, ólífum og tómötum.


img_3975

Eins og mér finnst gaman að standa og dunda mér í matarstússi um helgar og á öðrum frídögum þá finnst mér að matargerðin eigi að ganga fljótt og einfaldlega fyrir sig á virkum dögum. En maturinn verður samt alltaf að vera góður, lífið er alltof stutt fyrir vondan mat! 😉 Þess fyrir utan er ég stöðugt að reyna að hafa kvöldmatinn tilbúinn upp úr klukkan 18 en það gengur misvel. Einn af stóru kostunum við fiskrétti, fyrir utan það hvað íslenski fiskurinn er ofboðslega ljúffengur, er hversu auðveldir og fljótlegir þeir eru í matreiðslu. Þessi dásamlega góði fiskréttur eldar sig næstum því sjálfur skal ég segja ykkur og gómsætur er hann líka! 🙂

Uppskrift: 

  • 900 g þorskhnakkar eða þorskflök (hægt að nota annan góðan hvítan fisk)
  • salt & pipar
  • ítalskt hvítlaukskrydd (eða annað gott krydd)
  • ca. 1 msk ólífuolía
  • 1 dós tómatar með basiliku
  • 2-3 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 tsk grænmetiskraftur
  • ca. 15 g steinselja, söxuð smátt
  • ca. 15 g basilika, söxuð smátt
  • 1/2 fetaostkubbur (ca 125 g)
  • 250 g kokteiltómatar, skornir niður
  • ca. 20 svartar ólífur, saxaðar gróft

img_3972

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Þorskurinn er kryddaður vel (og ef notuð eru flök þá eru þau skorin í hæfilega bita) og honum raðað í eldfast mót. Ólífuolíunni er dreift yfir fiskinn. Tómatar í dós eru látnir malla á pönnu ásamt hvítlauki, grænmetiskrafti, steinselju og basiliku. Látið malla í nokkrar mínútur við meðalhita, sósunni er síðan hellt yfir fiskinn. Því næst er fetaosti, kokteiltómötum og ólífum dreift yfir. Bakað í ofni við 180 gráður í 15-20 mínútur (fer eftir þykkt fisksins) eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn.

img_3978img_3979

Caprese kjúklingur


img_3587

Í þessu vorveðri sem ríkt hefur undanfarið höfum við fjölskyldan verið upptekin af því að hugleiða hvernig við viljum verja sumarfríinu. Það varð ofan á að prófa húsaskipti. Við höfum reyndar gert húsaskipti allavega sex sinnum áður en þá alltaf við vinafólk. Núna skráðum við okkur á alþjóðlega húsaskiptasíðu. Þegar við skoðuðum heimilin á síðunni, sem eru út um allan heim, þá leið okkur dálítið eins og að koma að hlaðborði sem svignar af kræsingum. Það var um svo ótal margt að velja, marga áfangastaði og margskonar hús. Ég lá yfir síðunni kvöld eftir kvöld, skoðaði og spekúleraði. Eftir að hafa spáð í flug og fleira fórum við að senda öðrum fjölskyldum boð um skipti. Eftir ýmisskonar samningaviðræður enduðum við á því að festa húsaskipti við indæla fjölskyldu í Montpellier í Suður-Frakkalandi. Við munum eyða þar rúmum tveimur vikum í fallegu húsi með sundlaug. Á leiðinni heim ætlum við að stoppa nokkra daga í París og erum búin að bóka Airbnb íbúð þar. Við erum ákaflega spennt fyrir væntanlegu ferðalagi og hlökkum mikið til! 🙂

En að uppskrift dagsins sem er ofsalega einfaldur og góður kjúklingaréttur. Caprese er þekktur ítalskur réttur, oftast forréttur, með ferskum mozzarellaosti, tómötum, basiliku, ólífuolíu, salti og pipar. Hér eru þessi hráefni notuð með kjúklingi og úr verður fljótgerður og gómsætur kjúklingaréttur.

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur
  • Pasta Rossa krydd frá Santa Maria (eða annað gott krydd)
  • salt & pipar
  • 2 msk ólívuolía
  • 4 hvítlauksrif (pressuð)
  • 250 g kokteiltómatar, skornir í tvennt
  • 1 msk balsamedik
  • ca. 20-30 g fersk basilika, laufin söxuð gróft.
  • 240 g ferskur mozzarella ostur (2 kúlur), skorinn í fremur þunnar sneiðar

Kjúklingabringurnar kryddaðar með pastakryddinu, salti og pipar. Um það bil 1 msk af olíu er hituð á pönnunni og kjúklingurinn steiktur báðum megin þar til hann hefur fengið góða steikingarhúð og er hér um bil steiktur í gegn. Þá eru kjúklingabringurnar veiddar af pönnunni og settar til hliðar. Því næst er 1 msk af olíu bætt á pönnuna og tómatar og hvítlaukur látið malla í ca. 5 mínútur ásamt balsamediki. Nú er basiliku bætt á pönnuna auk þess sem kjúklingabringurnar eru settar aftur á pönnuna. Mozzarellasneiðunum er raðað ofan á kjúklingabringurnar. Lok er sett á pönnuna og öllu leyft að malla í nokkrar mínútur þar til að kjúklingurinn er fulleldaður og osturinn hefur bráðnað. Saltað og piprað við þörfum.

img_3572img_3583img_3591