
Þessi fiskréttur er einn af þeim réttum sem ég gerði um daginn og var svo góður en ég finn ekki uppskriftina af. Ég sem sagt týndi miðanum sem ég hafði skrifaði uppskriftina á! Mjög pirrandi því þessi fiskréttur var ljúffengur. Ég er hins vegar búin að rýna í myndirnar og reyna að muna. Og viti menn, smátt og smátt rifjast þetta upp! Ég ætla því að skrifa niður þessa uppskrift eftir minni, vona að það takist. En fyrst ætla ég að skrifa til gamans hvað ég er búin að borða í dag fram að kvöldmatnum.
Dagurinn byrjaði á AB-mjólk og heimatilbúnu múslí. Ég er með uppskriftina af því hér og í þeirri færslu mæri ég þetta múslí mikið, enda er það dásamlega gott!

Í hádeginu fékk ég mér svona eggjaköku. Mér finnst eggjakökur svo geggjað góðar og ég fæ mér oftast eina slíka ef ég er heima í hádeginu. Ég er dálítið vanaföst, mér finnst best að hafa í henni brokkolí og sveppi. Svo finnst mér afar gott og eiginlega nauðsynlegt að bera fram með henni Gullost, melónu eða einhvern annan ávöxt og/eða avókadó.

Í kaffitímanum fékk ég mér gróft brauð, Dinkelbergerbrauð, með skinku, káli, avókadó og kiwi. Ef þið hafið ekki smakkað gróft brauð með skinku, káli og kiwi þá eruð þið að missa af miklu! 🙂

Sem betur fer þá bjargaði Ali mér algjörlega rétt eftir að við fluttum til Íslands. Í Svíþjóð var skinkan silkiskorin og ljúffeng ofan á brauð. Hér á Íslandi var bara til (og er enn) þykk og hlaupkennd skinka sem okkur finnst alveg óæt. En nokkrum mánuðum eftir að við fluttum til landsins rættist úr þessu skinkuástandi og Ali fór að framleiða silkiskorna skinku, bæði reykta og soðna sem er mun skárri en þessi þykka og hlaupkennda. Langbest er þó skinkan úr Pylsumeistaranum Laugalæk. Ég nota alltaf tækifærið þegar ég fer þar framhjá og kaupi gómsæta, ekta skinku.

Þetta í glasinu er einn af mínum löstum, kók light! Jamm, ég er kókisti! Ég hef reynt að hætta og var hætt í hálft (leiðinlegt) ár en byrjaði svo aftur. Mér þætti mikið meira töff að við hlið disksins væri glas með ljúffengu latte, það væri smart! En mér finnst kaffi bara svo hrikalega vont, ég get ekki vanist því. Samt vantar mig koffeinið. Hvað á kona að gera í því annað en að fá sér kók light!? Kók er nú samt ekkert alslæmt og ég gerði meira að segja ljúffenga köku eitt sinn úr kóki. Hún var ekki bara skemmtileg í útliti heldur líka safarík og afar bragðgóð!

Ég get hins vegar gortað mig af því að kókið er líklega það eina óholla sem ég innbyrti í dag. Ég get vel farið í gegnum daginn án sætmetis. En líklega mun ég samt fá mér í kvöld nokkra mola af Marabou súkkulaðinu með hnetum og rúsínum sem ég hef falið vel hér heima! 🙂
En hér kemur fiskuppskriftin góða.
Uppskrift:
- 600 g þorskhnakkar
- 1 msk rósapipar, mulinn
- salt og grófmalaður svartur pipar
- safi úr 1/2 sítrónu
- smjör til steikingar
- 1 dós niðursoðnir tómatar
- 150 g sveppir, niðursneiddir
- 1 lítill rauðlaukur, saxaður fínt
- 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
- 1 dl hvítvín
- mozzarella ostur, rifinn
- 1 egg

Ofninn er hitaður í 200 gráður og stilltur á grill. Fiskurinn er kryddaður með rósapipar, salti, pipar og sítrónusafanum dreift yfir fiskinn. Fiskurinn er steiktur á pönnu upp úr smjörinu á báðum hliðum þar til hann hefur náð góðum lit á báðum hliðum. Þá er hann tekinn af pönnunni og lagður í smurt eldfast mót. Sveppum, lauk og hvítlauk bætt út á pönnuna. Þetta er steikt í smástund (smjöri bætt við eftir þörfum) og þá er tómötum og hvítvíni bætt út á pönnuna, saltað og piprað. Sósan er látin malla í ca. 10 mínútur. Þá er henni hellt yfir fiskinn.

Eggi er blandað saman við mozzarella ostinn og því næst er honum dreift yfir réttinn. Hitað í ofni sem er stilltur á grill við 200 gráður í um það bil 15 mínútur eða þar til osturinn hefur náð lit og fiskurinn er eldaður í gegn.

Líkar við:
Líkar við Hleð...