Fiskréttur með beikoni, eplum og brie


Fiskréttur með beikoni, eplum og brieÞað er vika liðin síðan ég setti inn uppskrift hér á bloggið en það er ekki þar með sagt að ég hafi verið í fríi frá eldhúsinu, síður en svo. Í dag er ég búin að vera að prófa mig áfram með ýmsa rétti fyrir fermingarveisluna hans Vilhjálms og afraksturinn mun birtast á prenti síðar í vikunni. Að vanda hefur verið nóg að gera þessa helgi sem og aðrar. Í gær fór ég á skemmtilega barna- og unglingabókaráðstefnu í Gerðubergi auk þess sem við fjölskyldan fórum á afmælistónleika í tónskóla barnanna. Í gærkvöldi gisti Jóhanna Inga hjá vinkonu sinni þannig að við hjónin notuðum tækifærið og skruppum í bíó og tókum Vilhjálm með okkur. Lunginn úr deginum í dag fór í matargerð en við mæðgur fórum líka í skemmtilega fimm ára afmælisveislu. Eins og hendi væri veifað er helginni að ljúka og mánudagur á morgun! Mér finnst tilvalið að snæða góðan fisk á mánudögum og mæli með að þið prófið þessa ljúffengu fiskuppskrift á morgun! 🙂

IMG_4204

Uppskrift:

  • 900 g góður hvítur fiskur (ég notaði þorskhnakka)
  • 4 msk hveiti
  • salt & pipar
  • chili krydd (ég notaði chili explosion)
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 3 græn epli, afhýdd og skorin í bita
  • 1 græn paprika, skorin í bita
  • 1 rauðlaukur, skorin í bita
  • ca. 10 sneiðar beikon
  • 200 g brie ostur (t.d. brie-hringur)
  • rifinn ostur

Ofn hitaður í 200 gráður. Fiskurinn er skorinn í hæfilega stóra bita. Salti, pipar og chili kryddi er bætt saman við hveitið og fisknum velt upp úr hveitiblöndunni. Fiskurinn er því næst steiktur á pönnu á báðum hliðum í örstutta stund og raðað í eldfast mót. Beikonið er skorið eða klippt í litla bita og steikt á pönnu þar til það er orðið stökkt. Þá er beikonið veitt af pönnunni. Eplin, laukurinn og paprikan er því næst steikt upp úr beikonfitunni, þegar það er farið að mýkjast þá er brie osturinn brytjaður út á pönnuna og leyft að bráðna svolítið, saltað og piprað eftir smekk.

IMG_4195Beikoninu er svo bætt út á pönnuna og allri blöndunni dreift yfir fiskinn.

IMG_4197Að lokum er rifnum osti stráð yfir réttinn og hann settur í ofn við 200 gráður í 10-15 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.

IMG_4202Þeim sem þykir sósa nauðsynleg verða ekki sviknir af því að bera fram þessa sósu með réttinum:

Jógúrtsósa með fetaosti:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • ca. 100 g fetaostur (ekki í olíu)
  • salt, pipar og smá chilikrydd

Öllu blandað vel saman með gaffli.

Þorskhnakkar með kókos og karrí


Þorskhnakkar með karrí og kókos

Ég er ákaflega spennt að setja inn hingað á Eldhússögur uppskrift að uppáhaldstertunni minni. Það er terta sem hefur fylgt fjölskyldunni frá því áður en ég fæddist og er í miklu uppáhaldi hjá okkur fjölskyldumeðlimunum. Hins vegar þá er ég búin að setja inn svo margar uppskriftir að sætmeti og kökum undanfarið að ég ákvað að geyma hana aðeins og setja inn í dag uppskrift að hollum og góðum matrétti. Það er langt síðan ég hef sett inn uppskrift að fiski hingað á síðuna og það er líka langt síðan ég eldaði fisk. Ég kom því við í fiskbúðinni á leið heim úr vinnunni og eins og svo oft áður þá freistuðu þorskhnakkarnir mín mest, þeir eru svo þykkir og girnilegir. Mig langaði í einhverskonar karrífisk og ég mundi að ég átti karrímauk og kókosmjólk heima. Ég ákvað því að reynda að spinna eitthvað úr þeim hráefnum sem ég átti. Útkoman var ægilega góð, það er eiginlega fátt sem slær góðum fiskrétti við!

IMG_7104

Uppskrift fyrir 4-5:

  • 1 kíló þorskhnakkar (eða annar hvítur fiskur)
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 paprika, skorin í bita
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 2 tsk karrí
  • salt & pipar
  • 1 tsk fiskikraftur
  • 2 msk green curry paste (grænt karrímauk)
  • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
  • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
  • 1 msk fiskisósa (fish sauce)
  • 100 g rifinn ostur
  • 1 dl kókosflögur

Ofn er hitaður í 200 gráður. Sveppir og paprika er steikt á pönnu, kryddað með salti, pipar og karríinu. Þegar grænmetið hefur náð góðri steikingarhúð er kókosmjólk, sýrðum rjóma, karrímauki, fiskikrafti og fiskisósu bætt út í og látið malla í nokkrar mínútur. Gott að smakka til með meira karrí, pipar, salti og fiskisósu við þörfum. Fyrir sterkari rétt er hægt að bæta við karrímauki. Fiskurinn er skorinn í passlega stórar sneiðar og honum raðað í eldfast mót. Sósunni er því næst hellt yfir fiskinn. Rifna ostinum og kókosflögunum er blandað saman og  að síðustu dreift yfir fiskinn. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 15-20 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og góðu salati.

IMG_7114

Pizzufiskur (eða þorskur í miðjarðarhafssósu með mozzarella!)


Ef ég fengi að ráða nafninu á þessum ljúffenga rétti þá myndi það vera ,,þorskur í miðjarðarhafssósu með mozzarella“. Yngri krakkarnir þvertóku hins vegar fyrir það, þau sögðu að nafnið pizzufiskur myndi gera réttinn girnilegan í augum allra barna! Þau eru hvorugt fyrir fisk en þegar hann er kominn í þessar umbúðir þá er ekki annað hægt en að klára af disknum sínum. Þetta er ótrúlega einfaldur réttur að matreiða og afar gómsætur. Ég kaupi varla ýsu lengur, finnst þorskurinn svo mikið betri. Í þetta sinn fékk ég mjög þykkt þorskflak og þurfti þess vegna að bæta við bökunartímann. Annars sakna ég dagsbirtunnar ógurlega mikið á kvöldmatartíma þessa dagana. Þegar ég byrjaði að blogga var júní og alltaf bjart. Ég kann ekkert í ljósmyndun er er búin að reka mig á grunnatriðið núna, það er dagsbirtan! Það er svo mikið leiðinlegra að taka matarmyndirnar þegar orðið er dimmt og það þarf að nota flass. Það jákvæða er hins vegar að ég er komin í kapphlaup við dagsbirtuna og er farin að hafa matinn fyrr, upp úr klukkan 18, helst fyrr. En ókosturinn er reyndar sá að oft sit ég ein við matarborðið til að byrja með, Elfar vinnur alltaf frameftir og oft eru eldri krakkarnir að stússast í tómstundum, íþróttum eða vinnu á þeim tíma. En hér kemur uppskriftin af pizzufisknum ( … eða þorsknum í miðjarðarhafssósunni með mozzarella!)

Uppskrift f. 4-5

  • 500 gr. tómatsósa með hvítlauk og/eða kryddjurtum (ég notað þessa sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni og örugglega á fleiri stöðum, sjá mynd)
  • fersk basilika
  • 1 kíló þorskur eða ýsa
  • pipar og salt
  • 1 msk olía
  • svartar ólífur
  • 1-2 kúlur ferskur mozzarella

Ofninn hitaður í 200 gráður. Sósan hituð í potti, basilika söxuð gróft og bætt út í sósuna. Fiskurinn skorinn í hæfilega stór stykki og kryddaður með salti og pipar. Eldfast mót smurt með olíu, fisknum raðað í formið og sósunni hellt yfir. Að lokum er ólífunum dreift yfir. Álpappir breiddur yfir mótið og það sett í ofninn í ca. 10-15 mínútur. Mozzarella osturinn skorinn í sneiðar. Eldfasta mótið tekið úr ofninum og hitinn hækkaður í 215 gráður. Álpappírinn fjarlægður og ostinum raðað ofan á. Eldfasta mótið sett aftur inn í ofninn og bakað í ca. 10 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati, jafnvel góðu brauði líka.