Það er vika liðin síðan ég setti inn uppskrift hér á bloggið en það er ekki þar með sagt að ég hafi verið í fríi frá eldhúsinu, síður en svo. Í dag er ég búin að vera að prófa mig áfram með ýmsa rétti fyrir fermingarveisluna hans Vilhjálms og afraksturinn mun birtast á prenti síðar í vikunni. Að vanda hefur verið nóg að gera þessa helgi sem og aðrar. Í gær fór ég á skemmtilega barna- og unglingabókaráðstefnu í Gerðubergi auk þess sem við fjölskyldan fórum á afmælistónleika í tónskóla barnanna. Í gærkvöldi gisti Jóhanna Inga hjá vinkonu sinni þannig að við hjónin notuðum tækifærið og skruppum í bíó og tókum Vilhjálm með okkur. Lunginn úr deginum í dag fór í matargerð en við mæðgur fórum líka í skemmtilega fimm ára afmælisveislu. Eins og hendi væri veifað er helginni að ljúka og mánudagur á morgun! Mér finnst tilvalið að snæða góðan fisk á mánudögum og mæli með að þið prófið þessa ljúffengu fiskuppskrift á morgun! 🙂
Uppskrift:
- 900 g góður hvítur fiskur (ég notaði þorskhnakka)
- 4 msk hveiti
- salt & pipar
- chili krydd (ég notaði chili explosion)
- smjör og/eða olía til steikingar
- 3 græn epli, afhýdd og skorin í bita
- 1 græn paprika, skorin í bita
- 1 rauðlaukur, skorin í bita
- ca. 10 sneiðar beikon
- 200 g brie ostur (t.d. brie-hringur)
- rifinn ostur
Ofn hitaður í 200 gráður. Fiskurinn er skorinn í hæfilega stóra bita. Salti, pipar og chili kryddi er bætt saman við hveitið og fisknum velt upp úr hveitiblöndunni. Fiskurinn er því næst steiktur á pönnu á báðum hliðum í örstutta stund og raðað í eldfast mót. Beikonið er skorið eða klippt í litla bita og steikt á pönnu þar til það er orðið stökkt. Þá er beikonið veitt af pönnunni. Eplin, laukurinn og paprikan er því næst steikt upp úr beikonfitunni, þegar það er farið að mýkjast þá er brie osturinn brytjaður út á pönnuna og leyft að bráðna svolítið, saltað og piprað eftir smekk.
Beikoninu er svo bætt út á pönnuna og allri blöndunni dreift yfir fiskinn.
Að lokum er rifnum osti stráð yfir réttinn og hann settur í ofn við 200 gráður í 10-15 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.
Þeim sem þykir sósa nauðsynleg verða ekki sviknir af því að bera fram þessa sósu með réttinum:
Jógúrtsósa með fetaosti:
- 2 dl grísk jógúrt
- 1 hvítlauksrif, pressað
- ca. 100 g fetaostur (ekki í olíu)
- salt, pipar og smá chilikrydd
Öllu blandað vel saman með gaffli.
En hvað þessi er ótrúlega girnilegur! Bríe og beikon getur varla klikkað.. Hlakka til að prófa 🙂
Já, þessi er sko ekki slæmur Helena! 🙂 Takk fyrir kveðjuna!
Geðveikt gott 🙂
Er ekki hrifin af fisk, en finnst hann i lagi i fiskréttum.
Besti fiskréttur sem eg hef smakkað.
Vá, en frábært að heyra Þórunn, takk fyrir góða kveðju! 🙂
Var með þennan rétt nú í kvöld og allir voru ótrúlega ánægðir. Það varð svo mikið úr þessu að ég hélt að það yrði mikill afgangur en svo varð ekki. Var með eina 11. ára í mat sem fékk sér þrisvar á diskinn.
En gaman Anna Guðný! 🙂 Ég tek það sem miklu hrósi þegar börnin eru hrifin af matnum! 🙂
Gerði þennan rétt í gær og sló algjörlega í gegn, takk fyrir 🙂
En gaman! 🙂 Takk fyrir að skilja eftir kveðju!
svoooo gooott 😉
🙂
Gerði þennan rétt á þriðjudaginn, hann sló algjörlega í gegn. Takk fyrir frábæra uppskrift 🙂
Gaman að heyra það Guðbjörg, takk fyrir að skilja eftir kveðju! 🙂
Þessi var algjört sælgæti ég var að enda við að klára að borða hann og hann sló aldeilis í gegn! Ég er hárgreiðslukona og sjálfsögðu deildi ég síðunni þinni á Facebook síðunni minni, þannig að fleiri geta komið og kíkt á þessa stórkostlegu heimasíðu sem þú ert með. Gangi þér vel. – Togga.
Vá hvað það er gaman að fá svona góða kveðju Togga, kærar þakkir!! 🙂
Það var lítið. Þetta er frábær síða hjá þér!
Alveg einstaklega góður réttur sem rann vel ofan í alla fjölskylduna, mjög gott að hafa brie ostinn og allt einhvernveginn small svo vel saman 🙂
Gaman að heyra Halla Björk. Ég var einmitt svo mikið að hugsa um þennan rétt í dag, þarf að elda hann sem fyrst! 🙂