Þorskur með fetaosti, ólífum og tómötum.


img_3975

Eins og mér finnst gaman að standa og dunda mér í matarstússi um helgar og á öðrum frídögum þá finnst mér að matargerðin eigi að ganga fljótt og einfaldlega fyrir sig á virkum dögum. En maturinn verður samt alltaf að vera góður, lífið er alltof stutt fyrir vondan mat! 😉 Þess fyrir utan er ég stöðugt að reyna að hafa kvöldmatinn tilbúinn upp úr klukkan 18 en það gengur misvel. Einn af stóru kostunum við fiskrétti, fyrir utan það hvað íslenski fiskurinn er ofboðslega ljúffengur, er hversu auðveldir og fljótlegir þeir eru í matreiðslu. Þessi dásamlega góði fiskréttur eldar sig næstum því sjálfur skal ég segja ykkur og gómsætur er hann líka! 🙂

Uppskrift: 

  • 900 g þorskhnakkar eða þorskflök (hægt að nota annan góðan hvítan fisk)
  • salt & pipar
  • ítalskt hvítlaukskrydd (eða annað gott krydd)
  • ca. 1 msk ólífuolía
  • 1 dós tómatar með basiliku
  • 2-3 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 tsk grænmetiskraftur
  • ca. 15 g steinselja, söxuð smátt
  • ca. 15 g basilika, söxuð smátt
  • 1/2 fetaostkubbur (ca 125 g)
  • 250 g kokteiltómatar, skornir niður
  • ca. 20 svartar ólífur, saxaðar gróft

img_3972

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Þorskurinn er kryddaður vel (og ef notuð eru flök þá eru þau skorin í hæfilega bita) og honum raðað í eldfast mót. Ólífuolíunni er dreift yfir fiskinn. Tómatar í dós eru látnir malla á pönnu ásamt hvítlauki, grænmetiskrafti, steinselju og basiliku. Látið malla í nokkrar mínútur við meðalhita, sósunni er síðan hellt yfir fiskinn. Því næst er fetaosti, kokteiltómötum og ólífum dreift yfir. Bakað í ofni við 180 gráður í 15-20 mínútur (fer eftir þykkt fisksins) eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn.

img_3978img_3979

Brie-bökuð ýsa með pistasíum


IMG_8698

Það er búið að vera svo annasamt hjá mér undanfarið að ég ákvað að panta Eldum rétt í síðustu viku. Í haust leyfði ég þeim að nota nokkrar uppskriftir frá mér en að því frátöldu hef ég engum hagsmunum að gæta og pantaði bara matinn frá þeim í síðustu viku eins og hver annar. Ég vildi bara taka þetta fram því ég ætla þvílíkt að hrósa þessari dásamlegu þjónustu og frábærlega góðum mat. 🙂 Réttirnir sem við fengum voru hver öðrum betri og ég  fékk leyfi frá þeim til að birta uppskriftirnar. Ég get ekki nógsamlega dásamað hversu þægilegt það er að fá tilbúin hráefni á þennan hátt. Að þurfa ekkert að hugsa fyrir innkaupum eða hvað eigi að hafa í matinn. Að þurfa einungis að taka fram úr ísskápnum vel merktan poka þar sem öll hráefni (brakandi fersk) eru tilbúin og það er því leikur einn, fljótlegt og hreinlegt að matreiða máltíðina. IMG_8695

Skemmtilegast er þó að prófa ný hráefni og uppskriftir sem manni hefði ekki dottið í hug að gera sjálfur. Kristín kokkur hjá Eldum rétt sannarlega rétt kona á réttum stað.  Þessi fiskréttur var sá fyrsti sem við prófuðum og það má með sanni segja að hann hafi slegið í gegn hér á heimilinu. Steinseljurótarstappan var líka svo dásamlega góð með fisknum. Ég hef aðallega ofnbakað hana hingað til en ekki notað hana í stöppu – nú verður gerð bragarbót þar á. Þegar ég bjó í Svíþjóð fannst mér skrítið að Svíar borðuðu oft kartöflumús með fiski. Hins vegar er ég búin að komast að því að það er alls ekki svo galið, eiginlega er það ákaflega gott, sérstaklega að nota allskonar rótargrænmetastöppur með fiski. Hér er t.d. ein af mínum uppáhalds uppskriftum, það er einmitt fiskur og sætkartöflumús. En þar sem fiskurinn er mjúkur undir tönn líkt og kartöflustappan þá er gott að hafa eitthvað með sem gefur aðra áferð, í þessar uppskrift eru það pistasíu hnetur. Þetta er réttur sem ég ætla að elda fljótt aftur og hvet ykkur til þess að prófa – 5 stjörnu réttur!IMG_8697

Uppskrift f. 4:

  • 800 g ýsa (eða þorskur)
  • salt & pipar
  • 1 Bóndabrie (100 g)
  • 24 g pistasíur
  • 1 sítróna
  • 250 g steinseljurót
  • 300 g kartöflur
  • 100-140 g mjólk
  • ca. 70 g smjör
  • 170 grænar baunir
  • 100 g strengjabaunir
  • 2 tsk hungang
  • 2 tsk ólífuolía

Ofn hitaður í 190 gráður við blástur (eða 200 g við undir/yfirhita). Sjóðið 1 lítra vatni með saltklípu. Flysjið og skerið steinseljurót og kartöflur í litla bita. Sjóðið í vatninu í um það bil 10 mínútur eða þar til mjúkt. Fiskurinn er skorinn í bita og raðað í eldfast mót, saltaður og pipraður. Brie ostur skorinn í sneiðar og raðað yfir fiskinn. Pistasíur saxaðar og dreift yfir ásamt sítrónusafa úr 1/2 sítrónu. Smjörklípur settar hér og þar í formið. Bakað í ofni við 190 g blástur í um það bil 15 mínútur.

Vatninu hellt af rótargrænmetinu og það maukað saman með 100-140 ml af mjólki, smjöri og salti.  Strengjabaunir og baunir soðnar í ca. 2-3 mínútur. Hunang hrært saman við 2 tsk af olíu, smá salt og sítrónusafa. Baununum velt vel upp úr.

Berið fram með fisknum ásamt steinseljurótarmaukinu.

IMG_8700

Fiskréttur með beikoni, eplum og brie


Fiskréttur með beikoni, eplum og brieÞað er vika liðin síðan ég setti inn uppskrift hér á bloggið en það er ekki þar með sagt að ég hafi verið í fríi frá eldhúsinu, síður en svo. Í dag er ég búin að vera að prófa mig áfram með ýmsa rétti fyrir fermingarveisluna hans Vilhjálms og afraksturinn mun birtast á prenti síðar í vikunni. Að vanda hefur verið nóg að gera þessa helgi sem og aðrar. Í gær fór ég á skemmtilega barna- og unglingabókaráðstefnu í Gerðubergi auk þess sem við fjölskyldan fórum á afmælistónleika í tónskóla barnanna. Í gærkvöldi gisti Jóhanna Inga hjá vinkonu sinni þannig að við hjónin notuðum tækifærið og skruppum í bíó og tókum Vilhjálm með okkur. Lunginn úr deginum í dag fór í matargerð en við mæðgur fórum líka í skemmtilega fimm ára afmælisveislu. Eins og hendi væri veifað er helginni að ljúka og mánudagur á morgun! Mér finnst tilvalið að snæða góðan fisk á mánudögum og mæli með að þið prófið þessa ljúffengu fiskuppskrift á morgun! 🙂

IMG_4204

Uppskrift:

  • 900 g góður hvítur fiskur (ég notaði þorskhnakka)
  • 4 msk hveiti
  • salt & pipar
  • chili krydd (ég notaði chili explosion)
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 3 græn epli, afhýdd og skorin í bita
  • 1 græn paprika, skorin í bita
  • 1 rauðlaukur, skorin í bita
  • ca. 10 sneiðar beikon
  • 200 g brie ostur (t.d. brie-hringur)
  • rifinn ostur

Ofn hitaður í 200 gráður. Fiskurinn er skorinn í hæfilega stóra bita. Salti, pipar og chili kryddi er bætt saman við hveitið og fisknum velt upp úr hveitiblöndunni. Fiskurinn er því næst steiktur á pönnu á báðum hliðum í örstutta stund og raðað í eldfast mót. Beikonið er skorið eða klippt í litla bita og steikt á pönnu þar til það er orðið stökkt. Þá er beikonið veitt af pönnunni. Eplin, laukurinn og paprikan er því næst steikt upp úr beikonfitunni, þegar það er farið að mýkjast þá er brie osturinn brytjaður út á pönnuna og leyft að bráðna svolítið, saltað og piprað eftir smekk.

IMG_4195Beikoninu er svo bætt út á pönnuna og allri blöndunni dreift yfir fiskinn.

IMG_4197Að lokum er rifnum osti stráð yfir réttinn og hann settur í ofn við 200 gráður í 10-15 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.

IMG_4202Þeim sem þykir sósa nauðsynleg verða ekki sviknir af því að bera fram þessa sósu með réttinum:

Jógúrtsósa með fetaosti:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • ca. 100 g fetaostur (ekki í olíu)
  • salt, pipar og smá chilikrydd

Öllu blandað vel saman með gaffli.

Karrífiskur með kasjúhnetum og banönum


Karrífiskur með banönum og kasjúhnetumÍ gær kveiktum við á fyrsta kertinu, spádómskertinu, í aðventukransinum sem ég bjó til auk þess sem við kveiktum á dagatalskertinu. Þó ég sé mikið jólabarn þá slær yngsta  skottið (9 ára) mig út, hún er alveg að missa sig af jólaspenningi og hennar eina áhyggjuefni þessa dagana er að það verði ekki hvít jól. Ekki þarf hún að hafa áhyggjur af jólagjöfum, hún föndraði nefnilega jólagjafir fyrir alla stórfjölskylduna og pakkaði þeim inn í október!

IMG_1700

Ég ætla að færa inn fiskuppskrift hingað á síðuna í dag sem er svo framúrskarandi góður. Sumarið 1992 skráði ég í gömlu uppskriftabókina mína uppskrift að karrífisk sem ég fékk hjá samstarfsfélaga mínum í Íslandsbanka þar sem ég var í sumarvinnu. Í uppskriftinni er meðal annars fiskur, karrí, bananar og rjómi. Ljúffengur réttur sem Elfar hefur sérstaklega haldið upp á í gegnum tíðina. Í dag, 21 ári seinna, hef ég breytt uppskriftinni svo mikið að í raun og veru er þetta alls ekki sama uppskrift lengur en í grunninn er enn fiskur, karrí og bananar. IMG_1261

Holl og góð hráefni

Mér finnst þessi fiskréttur einkar góður. Það finnst ekki öllum gott að nota banana í heita rétti en mér finnst sérlega gott að fá sæta bananabragðið á móti karríbragðinu. Ég þreytist ekki á að dásama brakandi fersku og ljúffengu Ecospírurnar en þær eru fullkomnar sem meðlæti með svona góðum fiskrétti.

Uppskrift:

  • 1 kíló góður hvítur fiskur, hér notaði ég lönguhnakka
  • salt og pipar
  • 200 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
  • 1 rauður chili, kjarnhreinsaður og saxaður smátt
  • 1-2 tsk karrí
  • 1 msk rifið ferskt engifer
  • 1/2 límóna (lime) – safinn
  • 4 msk mango chutney
  • 1 dós kókosmjólk (ca. 400 ml)
  • 1-2 bananar, skornir í sneiðar
  • 125 kasjúhnetur
  • rifinn ostur

Ofn hitaður í 200 gráður. Eldfast mót smurt, fiskurinn skorinn í hæfilega stóra bita, hann kryddaður með salti og pipar og raðað í mótið. Olía sett á pönnu og paprika, sveppir og chili steikt þar til það verður mjúkt og kryddað með karrí. Engifer, mango chutney, limesafi og kókosmjólk bætt við á pönnuna og látið malla í stutta stund, sósan smökkuð til og ef til vill bætt við meira af mango chutney, limesafa eða kryddum.IMG_1264

Bananasneiðum raðað ofan á fiskinn, fjöldinn fer eftir smekk hvers og eins. Karrísósunni hellt ofan á (varlega svo að bananarnir haldist ofan á fisknum). IMG_1263Að lokum er rifnum osti og kasjúhnetum dreift yfir.IMG_1271 Bakað í ofni í ca. 20 mínútur (fer eftir þykkt fisksins) eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.IMG_1277Njótið!
IMG_1288

 

 

Mexíkóskur fiskréttur


Mexíkóskur fiskréttur

Ég mun seint hætta að dásama íslenska fiskinn. Eftir langa dvöl erlendis þá lærir maður sérstaklega að meta þetta einstaka hráefni sem við höfum hér á landi. Ég er alltaf að reyna að matreiða fisk á þann hátt sem öllum í fjölskyldunni líkar þar sem að yngsta barnið hefur ekki enn „séð ljósið“ eins og við hinn þegar kemur að fiski. Mig langar samt ekki að búa til barnvænar uppskriftir sem fullorðna fólkinu líkar ekki þannig að ég er stöðugt að prófa mig áfram. Þessi útfærsla af fiskrétti er í sérstöku uppáhaldi því öllum í fjölskyldunni finnst hann ákaflega góður. Ekki finnst mér síðra hversu auðveldur hann er að útbúa. Það er vissulega hægt að nota allskonar fisktegundir en ég er sérstaklega hrifin af þorski um þessar mundir og lét Elfar koma við hjá fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni á leiðinni heim úr vinnunni. Þar klikkar fiskurinn aldrei og að þessu sinni kom Elfar heim með hnausþykkan og girnilegan þorskhnakka.

Uppskrift:

  • 1 kíló þorskur, ýsa eða annar góður fiskur
  • 1 stór rauð paprika, skorin í strimla
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 rauðlaukur, skorinn í strimla
  • 1 bréf Fajitas kryddmix
  • ca. 2/3 dl hveiti
  • ca. 150 g rjómaostur
  • ca 300 g salsa sósa
  • rifinn ostur (ég nota rifinn mozzarella ost)

Ofn hitaður í 200 gráður. Hér um bil öllu fajitas kryddinu er blandað saman við hveitið, ca. 1 tsk af kryddinu er geymt þar til síðar. Fiskurinn er skorinn í hæfilega stóra bita og þeim velt mjög vel upp úr fajitas-hveitiblöndunni. Þá er fiskurinn steiktur á pönnu upp úr smjöri og/eða olíu á öllum hliðum þar til fiskurinn hefur náð fallegri steikingarhúð. Þá er fiskurinn lagður í eldfast mót.

IMG_1136 Því næst er bætt við smjöri á pönnuna og sveppir, paprika og laukur sett á pönnuna, kryddað með restinni af fajitas kryddinu. Grænmetið er steikt í smá stund og því næst dreift yfir fiskinn.IMG_1139 Þá er rjómaostinum dreift yfir grænmetið.IMG_1141

Því næst er salsa sósunni dreift yfir.

IMG_1142Að lokum er rifna ostinum dreift yfir.IMG_1143 Sett inn í ofn og bakað við 200 gráður í ca 20 mínútur eða þar til osturinn hefur náð góðum lit og fiskurinn er eldaður í gegn. (Ég var með mjög þykka þorskhnakka sem þurftu langan tíma í ofninum en það þarf að miða bökunartímann út frá þykkt fisksins hverju sinni).IMG_1157Mexíkóskur fiskréttur, hrísgrjón og gómsætar baunaspírurnar frá Ecospiru á yndislega fallegum matardisk frá Green gate.

Piparsteiktur þorskur á núðlubeði


Piparsteiktur þorskur á núðlubeðiÞað er kannski ekki hefðbundið að hafa núðlur með þorski en maður minn hvað þessi réttur var góður. Ég notaði þorskhnakka sem voru svo þykkir og djúsí. Ég hef skrifað um það áður hve hrifin ég er af þorski, mér finnst hann svo mikið betri en ýsan til dæmis. Ég verð að segja að þessi réttur kom mér skemmtilega á óvart og samsetningin var frábær, þetta er eiginlega eins og hálfgerð núðlusúpa borin fram með fiski. Ég ætla samt að passa mig betur á piparnum næst, mér fannst fiskurinn verða of sterkur fyrir minn smekk – enda sést það nú á myndunum að ég hafði ekki sparað piparinn! 🙂 Elfar hins vegar sem er afar hrifinn af piparsteikum, piparsósum og almennt öllu sterku, fannst fiskurinn alveg mátulega kryddaður og var afar hrifinn af fisknum svona vel pipruðum.

Uppskrift:

  • 800 g þorskur (ég notaði fiskhnakka), skorin í hæfilega stór stykki
  • maldon salt (ég notað Saltverks salt)
  • 3 tsk heil piparkorn
  • 1 tsk rósapipar
  • 3 stórar gulrætur, skornar í þunna stafi
  • 1 stór rauðlaukur, skorin í strimla
  • 1 stór paprika, skorin í strimla
  • 5 dl fiskikraftur
  • 1,5 msk sojasósa
  • 1,5 ts worchesters sósa
  • 1-2 ts sítrónusafi
  • ca. 1 msk balsamedik
  • núðlur
  • ólífuolía
IMG_0148
Dásamlega gott – mæli samt með að þið notið aaaðeins minna af pipar á ykkar fisk! 

Ofn hitaður í 180 gráður. Piparkornin eru ristuð á pönnu þar til þau byrja að „poppa“ aðeins. Þá eru þau mulin í morteli (eða með hnífsskafti) og sett á disk. Fiskurinn er kryddaður með dálitlu maldon salti og annarri hliðinni síðan þrýst létt á piparinn. Farið mjög varlega í piparinn og sleppið honum jafnvel fyrir börn og viðkvæma. Það er líka bara gott að salta og pipra fiskinn létt á hefðbundinn hátt. Því næst er piparhliðin steikt á pönnu upp úr smjöri þar til myndast hefur góð steikingarhúð. Svo er fiskurinn lagður í smurt eldfast mót með piparhliðina upp og bakaður í ofni við 180 gráður í ca. 10-15 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn – tíminn fer að sjálfsögðu eftir þykkt fisksins.

Á meðan er grænmetið steikt upp úr smjöri og/eða olíu í nokkrar mínútur. Best er að byrja á gulrótunum, svo bæta við lauknum og paprikunni. Því næst er fiskikrafti, sojasósu, worchesterssóu og sítrónusafa blandað saman í lítin pott og hitað upp, smakkað til með balsamedik og salti (ef með þarf). Núðlurnar eru soðnar samkvæmt leiðbeiningum og svo blandað við grænmetið á pönnuna. Borið strax fram. Best er að bera fram réttinn með því að nota djúpan disk, byrja á því að leggja núðlur og grænmeti á diskinn, þá fiskinn og ausa svo sósunni yfir.

IMG_0154

Þorskhnakkar með kókos og karrí


Þorskhnakkar með karrí og kókos

Ég er ákaflega spennt að setja inn hingað á Eldhússögur uppskrift að uppáhaldstertunni minni. Það er terta sem hefur fylgt fjölskyldunni frá því áður en ég fæddist og er í miklu uppáhaldi hjá okkur fjölskyldumeðlimunum. Hins vegar þá er ég búin að setja inn svo margar uppskriftir að sætmeti og kökum undanfarið að ég ákvað að geyma hana aðeins og setja inn í dag uppskrift að hollum og góðum matrétti. Það er langt síðan ég hef sett inn uppskrift að fiski hingað á síðuna og það er líka langt síðan ég eldaði fisk. Ég kom því við í fiskbúðinni á leið heim úr vinnunni og eins og svo oft áður þá freistuðu þorskhnakkarnir mín mest, þeir eru svo þykkir og girnilegir. Mig langaði í einhverskonar karrífisk og ég mundi að ég átti karrímauk og kókosmjólk heima. Ég ákvað því að reynda að spinna eitthvað úr þeim hráefnum sem ég átti. Útkoman var ægilega góð, það er eiginlega fátt sem slær góðum fiskrétti við!

IMG_7104

Uppskrift fyrir 4-5:

  • 1 kíló þorskhnakkar (eða annar hvítur fiskur)
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 paprika, skorin í bita
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 2 tsk karrí
  • salt & pipar
  • 1 tsk fiskikraftur
  • 2 msk green curry paste (grænt karrímauk)
  • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
  • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
  • 1 msk fiskisósa (fish sauce)
  • 100 g rifinn ostur
  • 1 dl kókosflögur

Ofn er hitaður í 200 gráður. Sveppir og paprika er steikt á pönnu, kryddað með salti, pipar og karríinu. Þegar grænmetið hefur náð góðri steikingarhúð er kókosmjólk, sýrðum rjóma, karrímauki, fiskikrafti og fiskisósu bætt út í og látið malla í nokkrar mínútur. Gott að smakka til með meira karrí, pipar, salti og fiskisósu við þörfum. Fyrir sterkari rétt er hægt að bæta við karrímauki. Fiskurinn er skorinn í passlega stórar sneiðar og honum raðað í eldfast mót. Sósunni er því næst hellt yfir fiskinn. Rifna ostinum og kókosflögunum er blandað saman og  að síðustu dreift yfir fiskinn. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 15-20 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og góðu salati.

IMG_7114

Þorskur með balsamik-lauk og sellerímús‏


 
Þorskur með balsamik-lauk og sellerímús‏
Ég hef sett inn uppskrift af þorskrétti áður sem er himneskt góður! Þá uppskrift er að finna hér. Í kvöld prófaði ég aðra uppskrift af þorskrétti sem er svipað uppbyggð en með allt öðrum hráefnum. Þessi réttur var dásamlega góður! Látið ekki laukinn hræða ykkur í burtu! Ég til dæmis borða alls ekki hráan lauk, finnst hann hræðilega vondur. En hér er búið að meðhöndla laukinn þannig að hann verður algjört hnossgæti. Það er mikilvægt að gefa sósunni smá tíma, leyfa balsamikedikinu að sjóða vel niður og líka að smakka sósuna vel til. Sellerí- kartöflumúsin er rosalega góð, skemmtileg tilbreyting að fá bragð af sellerírótinni með kartöflunum. Ég fékk sellerírót í Nettó en hún er líka stundum til í Bónus minnir mig. Svo er líka hægt að svissa aðeins í uppskriftunum, nota t.d. sætukartöflumúsina úr hinum þorksréttinum sem ég minntist á, með þessum rétti.
 

Þorskur:

  • 800 gr þorskflök, skorinn í bita
  • salt og pipar

Balsamik-laukur

  • 14-16 skarlottulaukar
  • ólífuolía
  • 2 msk sykur
  • 2 dl balsamedik
  • 2 dl fiskisoð (vatn+fiskikraftur)
  • 2 msk ósaltað smjör

Sellerí- og kartöflumús 

  • 1 sellerírót, skorin í teninga
  • 8-10 kartöflur
  • 2 msk smjör
  • mjólk
  • sykur
  • salt og pipar
Sellerírót afhýdd og skorin í tenginga sem settir eru í pott. Kartöflur einnig settar í pott, hvort tveggja soðið þar til orðið mjúkt (í sitt hvorum pottinum). Vatninu hellt af, kartöflur afhýddar. Sellerírót og kartöflum stappað saman og smjöri bætt út í. Bragðbætt með salti, pipar og sykri (ef maður kýs að gera hana sætari). Einnig er hægt að bæta örlítið af mjólk út í.
 
Ofninn hitaður í 180 gráður. Þorskurinn saltaður og pipraður, skorinn í hæfilega bita og lagður í eldfast mót. Bakaður í ofni við 180 gráður í ca 15-20 mínútur. Fiskurinn tekinn úr ofninum, álpappír lagður yfir hann í ca. þrjár mínútur áður en hann er borinn á borð.
 
Skarlottulaukurinn afhýddur og ef hann er stór er gott að skera hann í tvennt á lengdina. Laukurinn látinn malla í olíu í potti, á fremur lágum hita, þar til hann er orðinn vel mjúkur. Sykri bætt út í og hann látinn bráðna. Því næst er balsamedik bætt út í og látinn malla þar til að það er vel soðið niður (verður næstum því að sírópi). Þá er fiskisoðinu bætt út í og soðið niður þar til sósan er orðin fremur seigfljótandi. Það er mikilvægt að smakka sósuna til, ef hún er til dæmis of súr þarf að bæta við sykri, ef hún er of sölt (fiskikrafturinn) þarf að bæta við örlitlu vatni. Smjörinu er svo bætt við rétt áður en sósan er borin fram.
img_9239-1