Ég mun seint hætta að dásama íslenska fiskinn. Eftir langa dvöl erlendis þá lærir maður sérstaklega að meta þetta einstaka hráefni sem við höfum hér á landi. Ég er alltaf að reyna að matreiða fisk á þann hátt sem öllum í fjölskyldunni líkar þar sem að yngsta barnið hefur ekki enn „séð ljósið“ eins og við hinn þegar kemur að fiski. Mig langar samt ekki að búa til barnvænar uppskriftir sem fullorðna fólkinu líkar ekki þannig að ég er stöðugt að prófa mig áfram. Þessi útfærsla af fiskrétti er í sérstöku uppáhaldi því öllum í fjölskyldunni finnst hann ákaflega góður. Ekki finnst mér síðra hversu auðveldur hann er að útbúa. Það er vissulega hægt að nota allskonar fisktegundir en ég er sérstaklega hrifin af þorski um þessar mundir og lét Elfar koma við hjá fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni á leiðinni heim úr vinnunni. Þar klikkar fiskurinn aldrei og að þessu sinni kom Elfar heim með hnausþykkan og girnilegan þorskhnakka.
Uppskrift:
- 1 kíló þorskur, ýsa eða annar góður fiskur
- 1 stór rauð paprika, skorin í strimla
- 250 g sveppir, skornir í sneiðar
- 1 rauðlaukur, skorinn í strimla
- 1 bréf Fajitas kryddmix
- ca. 2/3 dl hveiti
- ca. 150 g rjómaostur
- ca 300 g salsa sósa
- rifinn ostur (ég nota rifinn mozzarella ost)
Ofn hitaður í 200 gráður. Hér um bil öllu fajitas kryddinu er blandað saman við hveitið, ca. 1 tsk af kryddinu er geymt þar til síðar. Fiskurinn er skorinn í hæfilega stóra bita og þeim velt mjög vel upp úr fajitas-hveitiblöndunni. Þá er fiskurinn steiktur á pönnu upp úr smjöri og/eða olíu á öllum hliðum þar til fiskurinn hefur náð fallegri steikingarhúð. Þá er fiskurinn lagður í eldfast mót.
Því næst er bætt við smjöri á pönnuna og sveppir, paprika og laukur sett á pönnuna, kryddað með restinni af fajitas kryddinu. Grænmetið er steikt í smá stund og því næst dreift yfir fiskinn.
Þá er rjómaostinum dreift yfir grænmetið.
Því næst er salsa sósunni dreift yfir.
Að lokum er rifna ostinum dreift yfir.
Sett inn í ofn og bakað við 200 gráður í ca 20 mínútur eða þar til osturinn hefur náð góðum lit og fiskurinn er eldaður í gegn. (Ég var með mjög þykka þorskhnakka sem þurftu langan tíma í ofninum en það þarf að miða bökunartímann út frá þykkt fisksins hverju sinni).
Mexíkóskur fiskréttur, hrísgrjón og gómsætar baunaspírurnar frá Ecospiru á yndislega fallegum matardisk frá Green gate.
Jæks, fyrst steikja á pönnu og baka svo í 25 mínútur? Er fiskurinn ekki ónýtur eftir þetta? Mér finnst eiginlega hámark að elda fisk í 10 mínútur, eftir það stefnir allt niður á við. Getur ekki verið að það sé betra að setja þetta einfaldlega á grill í 5 mínútur? Annars rosalega girnilegt hjá þér!
Ég var með hnausþykka þorskhnakka, svo þykka að þeir þurftu alveg 25 mínútur áður en þeir voru eldaðir í gegn Hólmfríður. Það er mjög erfitt að gefa upp lengd á eldun á fiski. Ef þú notar þunn ýsustykki þá þarf bara örstuttan tíma. Ég reyni því að skrifa alltaf „þar til fiskurinn er eldaður í gegn“ í fiskuppskriftum hjá mér og vona að fólk almennt meti tímann sjálft. Í þessari uppskrift skrifaði ég að ég hefði notað mjög þykkan þorskhnakka og gaf upp tímann miðað við það! 🙂
Flott eldfasta fatið. Hvar kaupi ég svona?
Já, þetta er æðislegt eldfast mót. Þau koma tvö saman í pakka, þetta og svo annað minna. Stellið er frá danska merkinu Green Gate og fæst hjá http://www.cupcompany.is. Hér er slóðin: http://www.cupcompany.is/product/eldfost-mot-2-stk-beige-dot
Ein spurning varðandi stellið þitt! Ertu að blanda línunum saman?
Kveðja Helena
Sæl Helena! Já, ég er með allar línurnar í bland! Það var mér lífs-ómögulegt að velja á milli. 🙂
Þessi er svakalega góður 🙂 takk fyrir uppskriftina.
Gaman að heyra það Fjóla, takk sömuleiðs fyrir kveðjuna! 🙂
Þessi fiskréttur fær min bestu meðmæli … rosalega góður .
Frábært að heyra það Elsa, kærar þakkir! 🙂
Prufaði þennan áðan, nema að ég sleppti grænmetinu í réttinn sjálfan þar sem börnin mín borða ekki eldað grænmeti. Ég setti soðin hýðisgrjón í botninn á eldfasta mótinu áður og fiskinn þar ofan á. Þetta er alveg svakalega gott! Bar fram með fersku salati og mais! Sló í gegn.
Ég eldaði svona í kvöld en notaði kjúklingabringur í staðinn fyrir fiskinn, algert æði 🙂 takk fyrir frábæra uppskrift
En frábært að heyra þetta Vigdís! 🙂 Ég þarf að prófa að nota kjúkling í þessa uppskrift! 🙂
Er hægt ad hafa sósu
Þessi er mjög góður, ég bætti Tortilla flögum oná með ostinum og var mjög gott 🙂
Gaman að heyra Sesselja, takk fyrir kveðjuna! 🙂
Gerði þennan í gær fyrir fjölskylduna og hann sló alveg í gegn, var borðaður upp til agna 😉
Eldaði þennan í gær og hann sló alveg í gegn, prentaði uppskriftina út, hélt að það væri bara eitt blað eða svo en það voru fullt af blaðsíðum, öll commentin og risa myndir 🙂 Ætla að senda mömmu uppskriftina til að prófa líka, takk fyrir að deila. Kv. frá Manchester.
Gaman að heyra! 🙂 Varðandi prentun þá fylgir jú allt með í einum pakka. En þegar maður prentar þá kemur fyrst upp prentaraviðmót þar sem maður hefur ýmsa valmöguleika. Þar getur maður hakað í „custom“ undir „pages“ og valið bara að prenta ákveðnar síður, t.d. 2,3 og þá prentast bara þær síður sem maður velur og þannig er auðvelt að velja bara þær síður sem hafa sjálfa uppskriftina að geyma, ekki myndir og komment.