Einfaldur Snickerseftirréttur með perum

Einfaldur Snickerseftirréttur með perumÉg ætla að vera ákaflega snögg að setja inn þessa uppskrift – sem er nú reyndar létt verk því uppskriftin er afar einföld. Við hjónin erum nefnilega að drífa okkur í bíó í tilefni dagsins. Í dag eru einmitt 22 ár síðan við fórum á okkar fyrsta stefnumót en þá var 11/11 einmitt líka mánudagur og við fórum í bíó! Eftir þetta stefnumót var ekki aftur snúið og tveimur mánuðum seinna vorum við farin að búa saman! 🙂

En ef ég sný mér að uppskriftinni þá er hún að afar einföldum og góðum eftirrétti. Ég gef upp uppskrift með Snickersi og perum en eins og sjá má á myndunum þá er hægt að nota margt annað. Á myndinni hér nota ég Remi myntukex og apríkósur.

Ég prófaði reyndar líka litlu Lindubuffin en það er ekki nógu vel heppnað þar sem að þau verða of hörð, ég er alltaf hrifnust af því að nota Snickers eða Mars ásamt perum. Mikið er ég annars ánægð með nýju Kitchen aid hrærivélaskálina mína úr gleri! 🙂

Einfaldur Snickerseftirréttur með perum

Uppskrift:

 • 500 ml rjómi
 • 1 pakki með 4 litlum Mars súkkulaðistykkjum (eða Snickers – annað gott súkkulaði)
 • 1 stór dós niðursoðnar perur (eða apríkósur)
 • 1 marengsbotn (hvítur eða brúnn með púðursykri)

Perurnar eru þerraðar vel og skornar í litla bita, Snickersið er skorið í litla bita og marengsinn er mulinn niður. Rjóminn er þeyttur og öllu ofangreindu blandað út í rjómann. Hellt í eldfast mót og fryst. Tekinn út úr frysti um það bil klukkutíma áður en rétturinn er borinn fram. Rétturinn á að vera farinn að bráðna þannig að hann sé eins og mjúkur rjómaís.

Einfaldur Snickerseftirréttur með perum

8 thoughts on “Einfaldur Snickerseftirréttur með perum

 1. Til hamingju með daginn!
  Verður að frysta réttinn? Verða ekki svona ísnálar í réttinum eða?

  Elska skálina þína. Dreymi sjálf um að eignast svona grip.

  • Takk Sara! 🙂 Nei, ég hef ekki orðið vör við íssnálar í réttinum, mér finnst nauðsyn að hafa hann hálffrosin þegar hann er borinn fram! Skálinn er æði, vinkona mín benti mér á að kaupa hana í Bandaríkjunum, það er mjög hagstætt! 🙂

 2. Bakvísun: Vinsælustu eftirréttirnir | Eldhússögur

 3. Þessi varð fyrir valinu sem páskaeftirrétturinn og er alveg yndislegur og allir svo ánægðir svo líka enga stund að útbúa 🙂

Leave a Reply