Eins og mér finnst gaman að standa og dunda mér í matarstússi um helgar og á öðrum frídögum þá finnst mér að matargerðin eigi að ganga fljótt og einfaldlega fyrir sig á virkum dögum. En maturinn verður samt alltaf að vera góður, lífið er alltof stutt fyrir vondan mat! 😉 Þess fyrir utan er ég stöðugt að reyna að hafa kvöldmatinn tilbúinn upp úr klukkan 18 en það gengur misvel. Einn af stóru kostunum við fiskrétti, fyrir utan það hvað íslenski fiskurinn er ofboðslega ljúffengur, er hversu auðveldir og fljótlegir þeir eru í matreiðslu. Þessi dásamlega góði fiskréttur eldar sig næstum því sjálfur skal ég segja ykkur og gómsætur er hann líka! 🙂
Uppskrift:
- 900 g þorskhnakkar eða þorskflök (hægt að nota annan góðan hvítan fisk)
- salt & pipar
- ítalskt hvítlaukskrydd (eða annað gott krydd)
- ca. 1 msk ólífuolía
- 1 dós tómatar með basiliku
- 2-3 hvítlauksrif, pressuð
- 2 tsk grænmetiskraftur
- ca. 15 g steinselja, söxuð smátt
- ca. 15 g basilika, söxuð smátt
- 1/2 fetaostkubbur (ca 125 g)
- 250 g kokteiltómatar, skornir niður
- ca. 20 svartar ólífur, saxaðar gróft
Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Þorskurinn er kryddaður vel (og ef notuð eru flök þá eru þau skorin í hæfilega bita) og honum raðað í eldfast mót. Ólífuolíunni er dreift yfir fiskinn. Tómatar í dós eru látnir malla á pönnu ásamt hvítlauki, grænmetiskrafti, steinselju og basiliku. Látið malla í nokkrar mínútur við meðalhita, sósunni er síðan hellt yfir fiskinn. Því næst er fetaosti, kokteiltómötum og ólífum dreift yfir. Bakað í ofni við 180 gráður í 15-20 mínútur (fer eftir þykkt fisksins) eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn.