Panna cotta með Dumle og karamelliseruðum hnetum


Panna cotta með Dumle og karamelliseruðum hnetumVið stórfjölskyldan komum oft saman við hin ýmsu tækifæri og borðum þá saman eða höldum kaffiboð. Þegar allir mæta erum við 17 manns. Oftast nær sé ég um matinn en ef að réttunum er eitthvað skipt á milli okkar þá fellur eftirrétturinn yfirleitt í mínar hendur. Mér finnst voðalega gaman að útbúa eftirrétti þar sem hver fær sina skál eða skammt, það er svo fallegt og girnilegt að bera fram þannig eftirrétti. Panna cotta er afar vinsæll eftirréttur hjá fjölskyldunni og amma veit ekkert betra! 🙂

Ég er nýbúin að uppgötva að sumir hafa aldrei notað matarlím og halda að það sé eitthvað flókið. En það er svo fjarri því að vera rétt, það er ekkert mál að nota matarlím og þarf engar flóknar kúnstir. Ég hef notað matarlím frá því að ég byrjaði að bralla í eldhúsinu og það hefur aldrei misheppnast – ég sver það! Þið sem hafið ekki þorað að nota matarlím hingað til, endilega prófið að gera panna cotta, þið munuð verða hissa á því hversu einfalt og fljótlegt það er! 🙂 Ég er með margar uppskriftir að panna cotta hér á síðunni og hér að neðan bætist enn ein í safnið. Panna cotta tekur enga stund að útbúa og það er svo hentugt að geta útbúið eftirréttinn með góðum fyrirvara – tilvalið á páskaborðið! 🙂

IMG_8050

Dumle panna cotta f. 3

·      4 dl rjómi

·      ½ dl sykur

·      2 ½  matarlímsblöð

·      1 poki Dumle orginal (120 g)

·      1/2 dl hnetur (t.d. heslihnetur og/eða kasjúhnetur)

·      1 msk sykur (fyrir hneturnar)

·      1 tsk smjör

·      ber til skreytingar

Matarlímsblöðin eru lögð í skál með köldu vatni í minnst 5 mínútur. Rjómi og sykur sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni og Dumle molunum bætt út í pottinn. Hrært þar til þeir hafa hafa bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa leyst upp. Hellt í þrjár skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Hneturnar eru settar á pönnu ásamt sykri og smöri við meðalhita, hrært stöðugt í blöndunni. Þegar sykurinn hefur brúnast og hneturnar karamelliseras er þeim hellt á bökunarpappír og leyft að kólna. Þegar hneturnar eru orðnar kaldar eru þær saxaðar niður gróft og dreift yfir panna cotta. Skreytt með berjum að vild.

IMG_8052