Túnfisksalat með kotasælu og avókadó


IMG_7745Þó ég elski osta mikið þá sá ég í hendi mér að það væri kannski ekki gæfulegt að nota Gullost sem álegg í öll mál! Þetta túnfisksalat er sjúklega gott svo ekki sé minnst á hversu hollt það er. Ég skipti Gullostinum út með ánægju fyrir það – allavega í annað hvert mál! 🙂 Ég kaupi reglulega avókadó og bíð þolinmóð eftir því að þau verði passlega þroskuð. Hér skrifaði ég um hvernig hægt væri að flýta fyrir þroska þeirra (notabene þá er þetta kjúklingasalat æði!). Þegar avókadóið er passlega þroskað hræri ég í þetta salat, það tekur bara nokkrar mínútur, set það í vel þétt box inn í ísskáp og þá er alltaf hægt að næla sér í gómsætt álegg á brauðið eða hrökkbrauðið. Reyndar þá er „alltaf“ orðum aukið því salatið er ofurvinsælt að taka með sér í skóla og vinnu og stoppar stutt við á heimilinu! Best finnst mér að nota það á Minna mál hrökkbrauðið með osti og graskerafræjum

frettir_minnamal2 eða Finn Crisp hrökkbrauðið sem er miklu uppáhaldi hjá okkur Ósk.

UnknownUppskrift:

  • 1 dós túnfiskur í vatni
  • 1-2 lárperur (avókadó)
  • 1/2 lítill rauðlaukur
  • 1 stór dós kotasæla
  • ferskt kóríander
  • salt og pipar
  • 1/2 rautt chili (má sleppa)

Avókadó er skorið í fremur litla bita. Rauðlaukur saxaður mjög smátt. Kóríander saxað fremur smátt. Ef notaður er chili er hann fræhreinsaður og saxaður mjög smátt. Öllu blandað vel saman. Gott að setja á gróft hrökkbrauð með t.d. tómatsneiðum og/eða káli eða bara eitt og sér. Salatið geymist í boxi með vel þéttu loki í minnst 2-3 daga – það hefur eiginlega aldrei reynt á það hjá mér! 🙂

IMG_7739

Kanilsnúðar


IMG_7736Það er búið að vera útstáelsi á okkur hjónum undanfarin kvöld. Við fórum meðal annars á frábæra jazztónleika með Stórsveit Reykjavíkur og í bíó á myndina Django Unchained. Hvort tveggja nokkuð sem við mælum eindregið með. Næst á dagskrá hjá mér er leikshúsferð með vinkonunum um helgina á Macbeth. Ég væri alveg til í að fara á tónleika, í leikhús og í bíó í hverri viku! 🙂

Jóhanna Inga er búin að vera skoða snúða og vínarbrauð sem ég hef sett inn hér á síðuna og langaði svo óskaplega mikið til að baka eitthvað af því. Þegar ég renndi í gegnum uppskriftirnar uppgötvaði ég að ég er ekki enn búin að setja inn á síðuna uppskriftina mína af hefðbundum sænskum kanilsnúðum! Það er auðvitað eitthvað sem ég þurfti snarlega að bæta úr – ekki viljum við missa sænska ríkisborgararéttinn! Kanilsnúðar eru greiptir djúpt í þjóðarsál Svía. Þeir eru vinsælasta bakkelsið í bakaríum og á kaffihúsum, alltaf bakaðir fyrir afmæli og ómissandi þegar á að „fika“. Mér finnst best við þessa uppskrift hvað fyllingin er djúsí og góð. Ég nota sænskan perlusykur ofan á snúðana en hann fékk ég í Svíþjóð. Sá sem fæst hér er ekki sá sami, ég skrifaði um það hér.

IMG_7730

Uppskrift:

  • 800 gr hveiti
  • 1/2 tsk salt
  • 1 1/2 dl sykur
  • 1 bréf þurrger
  • 130 g smjör
  • 1/2 líter mjólk

Smjör er hitað í potti þar til það bráðnar og þá er mjólkinni bætt út í. Þurrger sett í skál og þegar vökvinn er ca. 37 gráður er honum hellt út í og pískað létt saman við gerið. Eftir smástund er þurrefnunum blandað út í. Gott er að skilja dálítið eftir af hveitinu og bæta við eftir þörfum. Ég reyni að hafa deigið eins blautt og hægt er en þó þannig að hægt sé að hnoða deigið án þess að það klessist of mikið. Deigið er hnoðað í nokkrar mínútur í vél eða aðeins lengur í höndunum. Deigið er svo látið hefast á hlýjum stað undir viskustykki í ca. 40 mínútur. Þegar sá tími er liðinn er deginu skipt í þrjá eða fjóra hluta. Hver hluti er  flattur út í fremur ílangan ferning og fyllingin borin á.

IMG_7714

Fylling:

  • 150 gr smjör við stofuhita
  • 1 1/3 dl sykur
  • 2 msk vanillusykur
  • 1 1/2 msk kanill
  • egg og perlusykur

Öllum hráefnunum hrært saman fyrir utan eggið og perlusykurinn. Þegar fyllingunni hefur verið dreift yfir deigið er því rúllað upp og rúllan skorin í sneiðar. Snúðunum er svo raðað á bökunarpappír, þeir penslaðir með eggi og stráð yfir perlusykri (honum má auðvitað sleppa). Gott er að leyfa snúðunum að hefast undir viskustykki í ca. 30 mínútur til viðbótar.

IMG_7717

Bakarofn er hitaður í 220 gráður (undir- og yfirhita) og snúðarnir bakaðir í miðjum ofni í um það bil 8-10 mínútur.

IMG_7733

Fiski-tacos Gwyneth Paltrow


IMG_7711Hún Ragga vinkona mín býr í Bandaríkjunum er listakokkur og benti mér á eina góða uppskrift úr matreiðslubókinni hennar Gwyneth Paltrow. Ég er búin að skoða þessa uppskrift í nokkra mánuði án þess að þora einhvern veginn að prófa. Ég tók mig svo taki og reyndi að sálfræðigreina hvað stoppaði mig að elda þessa máltíð sem að vinkonur mínar Ragga og Gwynna vippa fram úr erminni reglulega. Ég uppgötvaði að það væri líklega tvennt, annars vegar var það hráefni sem ég þekkti ekki og sá fram á að þurfa að eltast við. Hins vegar var það djúpsteikingin. Ég hef afar sjaldan djúpsteikt mat og set það einhvern veginn fyrir mig.

Tvennt fann ég ekki fyrir réttinn. Það voru korn-tortillur, þær eru víst rosa góðar fyrir þennan rétt, veit kannski einhver hvar þær fást? Ég notaði hveiti-tortillur í staðinn. Hins vegar var það chipotle í adobo sósu. Chipotle er reyktur jalapeño og adobo sósa er marinering gerð úr m.a. papriku, oregano og hvítlauk. Ég fann þetta ekki í Kosti en hins vegar fann ég Chipotle salsa sem ég notaði í staðinn. Ekki láta stoppa ykkur að það þurfi að búa til margt fyrir þennan rétt, þetta er allt mjög einfalt og fljótlegt að útbúa, alveg satt! 🙂

Uppskrift fyrir 6:

  • Djúpsteiktur fiskur
  • Límónu krem (lime creme)
  • Tómatsalsa (Pico de gallo)
  • Guacamole
  • „smokey“ sósa (Chipotle)
  • salatblöð
  • Korn-tortillur eða hveiti-tortillur
  • gott að bera fram með þessu límónubáta (lime) til að kreista yfir allt

Tómatsalsa (Pico de gallo):

  • 4-6 tómatar, saxaðir fremur smátt
  • ½ rauðlaukur (lítill), saxaður mjög smátt
  • 2 msk fínsaxaður kóríander
  • Maldon salt
  • Safi úr einni límónu (lime)

Öllu blandað saman í skál.

IMG_7684

Guacamole:

  • 1-2 þroskuð avacado
  • 2 msk hvítur laukur, smátt saxaður
  • 3 msk kóríander, smátt saxað
  • Safi úr einni límónu (lime)
  • maldon salt

Öllu blandað saman í skál

IMG_7685

„Chipotle mayo“ (smokey sósa)

  • 100 ml majónes (eða sýrður rjómi)
  • 2 chipotle í adobo sósu
  • 1 hvítlauksrif
  • salt

Maukað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Ég fann sem sagt ekki chipotle í adobo sósu og keypti chipotle salsa í Kosti. Við notuðum það beint upp úr krukkunni en ég blandaði það með sýrðum rjóma fyrir krakkana. Til þess að ná reykta bragðinu er líka hægt að nota bara venjulega barbeque sósu og blanda við majones/sýrðan rjóma – þá þarf ekki einu sinni að fara í Kost!

IMG_7689

Límónukrem (lime creme)

  • 150 ml majones (eða sýrður rjómi)
  • 1.5 msk límónu safi (lime)
  • salt

IMG_7693

 Djúpsteiktur fiskurOT496287S

  • Körfublómaolía eða hnetuolía fyrir djúpsteikingu (ég notaði corn oil frá Wesson úr Kosti)
  •  250 ml hveiti
  • 250 ml bjór
  • maldon salt
  • svartur pipar
  • 700 gr þorskur (eða ýsa), skorinn í fingurlanga strimla.

Olía sett í djúpsteikingarpott eða í stóran pott, ca 5 cm (ég notaði reyndar meira) og hitað upp í 180 gráður. Það er líka hægt að prófa sig áfram með því að setja lítinn brauðbita ofan í olíuna. Ef hann verður gullinbrúnn fljótt er olían tilbúin. Á meðan olían hitnar er hveiti, bjór, dálítið af salti og pipar, pískað saman í stórri skál. Fiskinum dýpt ofan í deigið (ég notaði eldhústöng) og svo djúpsteiktur. Steiktur í 3-4 mínútur og honum snúið við á meðan. Steikt þangað til hann er orðinn fallega gylltur. Það þarf að passa að setja ekki of mikið í pottinn í einu! Fiskurinn er svo settur á grind með eldhúspappír undir og salti stráð yfir hann. Haldið áfram þar til allur fiskurinn er steiktur. Olían er látin kólna í pottinum, hún er svo sigtuð og sett aftur ofan í brúsann, hana er hægt að nota aftur.

IMG_7697

IMG_7695IMG_7699IMG_7702

Spaghettí með tómatsósu, mozzarella, klettasalati og parmaskinku


IMG_7666Í gærkvöldi nennti ég alls ekki að standa lengi í eldhúsinu. Það var orðið áliðið þegar ég byrjaði að elda og ég vildi búa til eitthvað fljótlegt. Á svona stundum getur verið freistandi að  sleppa jafnvel eldamennskunni og kaupa eitthvað tilbúið. Það er hins vegar tvennt sem stoppar mig af. Annars vegar er það kostnaðurinn. Við erum sex manna fjölskylda, þar af borða allir á við fullorðna nema yngsta skottið kannski, þá er tilbúinn matur afar dýr. Hins vegar er það að úrvalið. Mér finnst eiginlega enginn tilbúinn matur nógu góður eða vandaður. Það væri kannski einna helst Saffran en við höfum prófað mat þaðan í nokkur skipti. Ég verð reyndar að viðurkenna að það er einn skyndibiti sem mér finnst æðislegur og ég laumast einstaka sinnum í við hátíðleg tækifæri. Það er steikarborgarinn frá Búllunni! 🙂 Vá hvað hann er góður svo ekki sé talað um með bearnaise sósunni þeirra! En svo ég víki að gærkvöldinu. Ég stóð sem sagt í eldhúsinu og nennti varla að elda. Ég ákvað samt að búa til spaghettírétt sem stóð á borðinu 15 mínútum seinna og maður minn hvað hann var góður! Enn og aftur undrast maður yfir því hvað hægt er að gera góðan mat úr einföldum hráefnum og á stuttum tíma. Við hjónin dreyptum á dálitlu hvítvíni með réttinum sem gerði máltíðina að sannkölluðum hátíðarmat. Ósk sagði þennan rétt slá við öllum pastaréttum á þeim veitingastöðum sem hún hafði snætt á. Það má því með sanni segja að fjölskyldan hafi verið ánægð með matinn og þessi réttur verður klárlega eldaður reglulega héðan í frá.

Uppskrift:

  • 600 g spaghettí
  • 2 kúlur mozzarella ostur (samtals 240 g), skorinn í litla bita
  • 75 g klettasalat
  • ca. 30 g parmesan ostur, rifinn
  • parmaskinka

IMG_7650 Tómatsósa:

Ath. það er hægt að nota tilbúna góða pastasósu og bæta þá bara út í hana tómötum, svörtum ólífum, kryddum og ferskri basiliku samkvæmt uppskriftinni hér að neðan.

  • 1/2-1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 5 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • ólífuolía
  • 1.5 dl hvítvín (má sleppa)
  • 1.5 dl vatn
  • 2 dósir niðursoðnir tómatar með basiliku og oregano frá Hunts (411 g)
  • timjan
  • pipar og salt
  • 30 g basilika (1 box frá Náttúru), söxuð smátt
  • svartar ólífur
  • 250 g vel þroskaðir kokteiltómatar, skornir í tvennt (eða venjulegir tómatar, skornir smátt)

Best er að byrja á tómatsósunni. Laukur og hvítlaukur er steiktur upp úr ólífuolíu þar til hann verður mjúkur án þess að taka lit. Þá er tómötum, vatni og víni bætt út í ásamt timjan og smá hluta af basilikunni. Látið malla í 10-15 mínútur en undir lokin er sósan smökkuð til með salti, pipar, og meira timjan ef vill auk þess sem restinni af basilikunni er bætt út í ásamt kokteiltómötum og svörtum ólífum. Spaghettí er soðið samkvæmt leiðbeiningum. Því er svo blandað saman (passið að hafa pastað og pastasósuna sjóðheitt því þannig bráðnar mozzarella osturinn og parmesan osturinn svo vel) við tómatsósuna, mozzarellaostinn, helminginn af rifna parmesan ostinum og klettasalatið. Borið fram með parmaskinku og rifnum parmesan osti ásamt góðu brauði. IMG_7659

Vínarbrauð


IMG_7629Þetta get ég aldrei bakað aftur, grínlaust! Ég gat ekki hamið mig í dag og gúffaði í mig alltof mörgum stykkjum, ég ræð ekkert við mig þegar þetta vínarbrauð er annars vegar! Vanillukremið, ómægod! Þessi vínarbrauð eru hrikalega góð, öll fjölskyldan var innilega sammála um það. Deigið er gert úr köldu gerdeigi og þarf ekki að hefast. Þetta er því afar fljótgerð og einföld uppskrift. Vanillukremið er dásamlega gott og er hægt að nýta fyrir pæ, ávexti og aðra eftirrétti. Ég tók eftir því að vanillustöngin sem ég notaði var með litlar hvítar doppur. Það er auðvelt að halda að hún sé mygluð eða skemmd en svo er alls ekki, þvert á móti. Það er merki um að vanillustöngin sé af góðum gæðum. Þessar hvítu doppur er vanilla sem hefur kristallast út úr stönginni.

IMG_7607

Best er að byrja á því að gera vanillukremið.

Uppskrift vanillukrem:

5 dl mjólk
1 st vanillustöng
1 1/2 dl sykur
5 st eggjarauður
1 1/2 dl maizenamjöl
50 g mjúkt smjör

Vanillustöngin klofin á lengdina og fræin skafin innan úr stönginni. Fræin og stöngin sett í pott ásamt mjólkinni og suðan látin koma upp varlega. Það þarf að gæta þess að mjólkin brenni ekki. Vanillustöngin er veidd upp úr mjólkinni.

Sykur, eggjarauður og maizenamjöl þeytt þar til blandan verður létt og ljós. Smátt og smátt er heitu mjólkinni bætt út í. Blöndunni er hellt aftur ofan í pottinn og hún hituð varlega á meðalhita, hrært á meðan með písk. Það þarf að gæta þess að blandan sjóði ekki og hafa tilbúna kalda skál til að hella kreminu í. Þegar kremið þykknar þá gerist það snöggt og þá er mikilvægt að hella kreminu strax í kalda skál. Þá er smjörinu bætt út í og því pískað saman við kremið þar til það hefur blandast vel saman. Vanillukremið er látið kólna dálítið í ísskáp.

IMG_7631

Vínarbrauð:

12 g þurrger (1 bréf)
2 dl mjólk
2 egg
150 g smjör við stofuhita
8 dl hveiti

Fylling fyrir annan helming deigsins:

75 – 100 g smjör, við stofuhita
2 dl sykur
1 tsk möndludropar

Bakarofn hitaður í 200 gráður. Ger sett í skál, kaldri mjólk bætt við og gerið leyst upp (ég pískaði þetta saman). Eggjum bætt við (ég notaði líka písk til þess). Nú setti ég deigkrókinn á hrærivélina, bætti hveitinu og smjörinu út í og hnoðaði allt saman í hrærivélinni. Deiginu er síðan skipt í tvo jafn stóra hluta. Annar hlutinn er flattur út á ofnplötu með kökukefli. Til að auðvelda það merkti ég stærð ofnplötunnar á bökunarpappír og flatti út deigið á bökunarpappírnum sem ég flutti svo yfir á ofnplötuna. Þá er vanillukreminu smurt jafnt yfir deigið. Það er í lagi þó svo að kremið sé ekki orðið alveg kalt.
Þá er hinn hluti deigsins flattur út í svipaða stærð. Smjörið, sykurinn og möndludroparnir hrært saman og smurt yfir helminginn af deiginu. Hinn helmingur deigsins er svo lagður yfir og deigið skorið í lengjur.

IMG_7610IMG_7618
Þá er snúið upp á lengjurnar og þær lagðar þvers og kruss yfir vanillukremið.
IMG_7622
Penslað með eggi og bakað í ofni við 200 gráður í 20 mínútur. Það er líka hægt að sleppa því að pensla með eggi og setja glassúr á vínarbrauðið eftir baksturinn.
IMG_7626

Grískur kjúklingaréttur með tzatziki jógúrtsósu


IMG_7593Mér finnst alltaf dálítið gaman að fylgjast með tölfræðinni á síðunni minni. Langvinsælustu uppskriftirnar eru djúsí kökur og eftirréttir! Fiskur er hins vegar ekki sérlega vinsæll, sama hversu góð og girnileg uppskriftin er. 🙂 Reyndar hafa margir uppgötvað þorskuppskriftina sem mér finnst hreinasta hnossgæti og á stjörnugjöfinni og ummælunum að dæma eru flestir, ef ekki allir, sammála mér! Sú uppskrift er sjöunda mest lesna uppskriftin á blogginu sem er mjög hátt sæti miðað við að þetta sé fiskuppskrift.

Stundum koma vinsældir uppskrifta mér í opna skjöldu. Sú uppskrift sem hefur verið deilt langmest hingað til og er orðin fjórða mest lesna uppskriftin hér frá upphafi er kladdkakan með karamellukremi! Frá því að ég setti hana inn fyrir 10 dögum síðan hefur hún verið mest sótta uppskriftin á síðunni minni daglega og hefur verið deilt hátt í 700 sinnum á Facebook! Það kom mér svo sem ekki á óvart að kakan yrði vinsæl því hún er afar ljúffeng. En spurningin er af hverju það varð einmitt þessi kaka því margar aðrar eru ekki síðri? Mig grunar að það séu myndirnar af karamellukreminu sem gera hana svona girnilega! 🙂 Svo eru aðrar uppskriftir sem liggja lágt en öðlast jafnt og þétt vinsældir. Ein þeirra er skúffukakan mín. Hún er þriðja mest lesna uppskriftin hér á blogginu en hefur þó aðeins verið deilt níu sinnum á Facebook. Hún hefur hins vegar fengið einna flestu stjörnurnar og flestu ummælin af öllum uppskriftum síðunnar. Ég er frekar montin af henni því uppskriftina þróaði ég sjálf.

Ég ætla nú ekki að tala meira um þennan nördalega tölfræðiáhuga minn heldur setja inn uppskrift dagsins! Þetta er einmitt uppskrift sem hefur alla burði í að vera vinsæl því hún er hrikalega góð! Hollur og bragðgóður réttur sem er auðvelt að elda. Allir á heimilinu voru afskaplega hrifnir af þessum rétti og gefa honum fullt hús stjarna! Sem minnir mig á það að Jóhanna mín litla sagði við mig um daginn: „mamma, ég fór inn á bloggið þitt og gaf öllum uppskriftinum þínum fimm stjörnur!“ 🙂 Það þarf því að gera ráð fyrir einhverri tölulegri skekkju í stjörnugjöf uppskriftanna hér á síðunni vegna hlutdrægni fjölskyldumeðlima! 😉

Uppskrift:

  • 5 kjúklingabringur
  • ca 15 kartöflur (fer eftir stærð)
  • 3-4 gulrætur
  • ólífuolía
  • salt og pipar
  • rósmarín (eða annað gott krydd)
  • 2 rauðlaukar, skornir í báta
  • 1 askja kokteiltómatar
  • 1 gul paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 1 rauð paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 1 græn paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 200 g fetaostur (kubbur án olíu)
  • svartar ólífur

IMG_7583

Marinering

  • 2 dl olía
  • 4-5 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 tsk sambal oelek
  • 4 msk sojasósa
  • salt og pipar

Hráefninu í marineringuna blandað saman. Hver kjúklingabringa skorin í fjóra bita á lengdina og kjötið lagt í mareneringuna. Fyrir skipulagða er hægt að gera þetta kvöldið áður en ég lét kjötið bara liggja í merineringunni í ca. klukkutíma.

Bakarofn hitaður í 200 gráður. Kartöflur skornar í báta eða í tvennt ef þær eru litlar. Gulrætur eru einnig skornar í bita. Hvor tveggja sett í ofnskúffu og blandað við dálitla ólífuolíu, kryddað með salti, pipar og rósamarín. Bakað í ofni í ca 20 mínútur. Þá er ofnskúffan tekin út og losað dálítið um kartöflurnar og gulræturnar. Paprikum, lauk og kokteiltómötum bætt út í, þá er kjúklingurinn lagður ofan á (ef afgangur er af marineringunni er henni líka dreift yfir), ólífum dreift yfir og endað á því að mylja fetaostinn yfir alltsaman. Rétturinn er settur aftur inn í ofn og eldaður í ca. 30-35 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með tzatziki jógúrtsósu.

IMG_7589

Tzatziki jógúrtsósa:

  • 350 g grísk jógúrt
  • 1 agúrka
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt eða pressuð
  • 1 msk ólífuolía
  • nýmalaður pipar
  • salt

Skerið agúrkuna á lengdina og hreinsið fræin innan úr henni, gott að nota teskeið til að skafa fræin úr. Rífið svo gúrkuna niður á grófustu hlið rifjárnsins. Blandað saman við grísku jógúrtina ásamt hvítlauk, engifer og ólífuolíu. Saltið, piprið og setjið sósuna í ísskáp áður en hún er borin fram.

IMG_2529

Epla- og hindberjabaka


IMG_7602Ég er svo hrifin af pæjum eða bökum, þó sérstaklega og aðallega eplabökum. Mér finnst líka hindber sjúklega góð, ég er því búin að horfa lengi á þessa uppskrift og ætla að prófa hana. Þessi baka var ofsalega góð og krökkunum fannst hún himnesk! Svona bökur eru svo þægilegar að gera, þær eru fljótlegar og oftast á maður allt hráefnið til. Ég mæli með þessari fyrir bóndann á morgun! 🙂

Uppskrift:

  • 100 g smjör, skorið í teninga
  • 100 g muscovadosykur eða púðursykur
  • 75 g haframjöl
  • 100 g pecan hnetur, saxaðar smátt
  • 1 tsk vanillusykur
  • ½ tsk kanill

IMG_7599

Fylling:

  • 4-5 epli, afhýdd og skorin í litla jafnstóra teninga
  • ca 2 dl hindber (hægt að nota fryst hindber sem hafa verið afþýdd)
  • Safi úr 1/4-1/2 sítrónu

Eplin eru sett í bökuform ásamt hindberjunum og sítrónusafanum dreift yfir. Þá er restinni af hráefnunum blandað saman í höndunum og dreift yfir eplin og hindberin. „Crumble“-ið (hvað kallast það á íslensku??) er hægt að gera með góðum fyrirvara og geyma í ísskáp. Bakan er bökuð í miðjum ofni við 180 gráður í 20-25 mínútur. Borið fram heitt með þeyttum rjóma eða vanilluís.

IMG_7603

Kjúklingur með sætum kartöflum og mangósósu


IMG_7576Ég las langt fram yfir háttatíma Jóhönnu í kvöld og er loksins sest núna fyrir framan tölvuna. Við vorum að klára bókina Steinskrípin, hún var svo spennandi á endasprettinum að við gátum ekki hætt! Frábær bók, bæði spennandi og frumleg, við mæðgur mælum með henni!

Í gærkvöldi bjó ég til rétt sem sló í gegn hjá allri fjölskyldunni, „geðveikt gott“ var samdóma álit okkar allra. Þar sem ég bý alltaf til svo mikinn mat þá gerði ég tvær útfærslur af réttinum í gær, í sitt hvoru eldfasta mótinu, til að prófa mig áfram. Ég tók bara myndir af fyrri útfærslunni en gef uppskrift af þeirri seinni því mér fannst hún aðeins betri. Þá blandaði ég jógúrt við mangó chutney sósuna.

Uppskrift f. 6

  • 2 sætar kartöflur (ca. 400 g stykkið)
  • 6 kjúklingabringur
  • ólífuolía
  • 1 dós fetaostur í olíu
  • ca 3/4 dl balsamedik
  • 4-5 hvítlauksrif
  • 3-4 cm engiferrót
  • 100 gr spínat
  • 2 dl mango chutney
  • 2 dl grísk jógúrt (eða hrein jógúrt)
  • salt og pipar
  • fræblanda (t.d. hörfræ, furuhnetur, graskersfræ eða önnur tilbúin fræblanda)

IMG_7565Olíunni af fetaostinum blandað saman við balsamedikið og kjúklingabringunum velt vel upp úr blöndunni. Bringurnar látnar liggja í blöndunni á meðan sætu kartöflurnar eru útbúnar, helst lengur ef tími gefst. Bakarofn hitaður í 200 gráður. Sætar kartöflur afhýddar og skornar í bita, þær lagðar stórt eldfast mót eða ofnskúffu og góðri skvettu af ólífuolíu blandað saman við. Saltað og piprað. Sett inn í ofn við 200 gráður í ca. 20 mínútur. Á meðan eru kjúklingabringurnar steiktar á pönnu. Reynið að veiða sem mest af vökvanum sem bringurnar liggja í, á pönnuna með þeim. Bringurnar steiktar nokkrar mínútur á báðum hliðum þar til þær eru hálfeldaðar. Eldfasta mótið með sætu kartöflunum er tekið út úr ofninum eftir ca. 20-25 mínútur, hvítlaukur og engifer rifið (með rifjárni eða í matvinnsluvél) eða saxað smátt og því blandað vel saman við kartöflurnar ásamt spínatinu. Kjúklingabringurnar lagðar ofan á kartöflunnar. Jógúrt og mangó chutney er hrært saman og dreift yfir bringurnar. Því næst er fetaostinum dreift yfir ásamt fræblöndunni. Allt sett aftur inn í ofn í ca. 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með mangósósu og fersku salati.

IMG_7578

Mangósósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 2 dl mangó (frosið eða ferskt)
  • 3 msk mango chutney
  • safi úr 1/2 límónu (lime)
  • salt og pipar

Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Gott að smakka sósuna til með meiri límónusafa, mangó, mangó chutney og/eða salti og pipar eftir þörfum.

Hægeldaður lambahryggur með rauðvínssósu og hunangsgljáðu grænmeti


IMG_7549Á meðan ég sat yfir ritgerðinni minni þá dagdreymdi mig um ýmiss verkefni hér heima fyrir sem mig langaði svo mikið meira að gera en að sitja og skrifa alla daga. Ég dundaði mér við að búa til „to do“ lista yfir öll þessi geysispennandi verkefni. Efst á þeim lista var að fara í gegnum alla fataskápa heimilisins. Ég get staðfest það hér með að þetta verkefni var mun meira spennandi í dagdraumum mínum en í veruleikanum! Ofarlega á lista var líka endurskipulag á barnaherbergjunum. Ég hef því undanfarið verið að selja gamlar hillur og slíkt sem henta ekki lengur þar sem að krakkarnir hafa elst, dótinu fækkað og það breyst. Í kjölfarið hafa ófáar ferðir verið farnar í Íkea undanfarið. Ósk fékk líka dálitla yfirhalningu á sínu herbergi og um helgina fann ég þetta fallega stafrófs-sængurver sem var punkturinn yfir i-ið í herberginu hennar. Það er úr nýrri, tímabundinni línu hjá Íkea, Fjälltåg, margt skemmtilegt í þeirri línu hjá þeim.

Fjalltag

En að uppskrift dagsins. Á sunnudaginn fyrir rúmri viku var ég með þetta gómsæta hægeldaða lambalæri. Það var svo gott að ég ákvað að endurtaka leikinn að hluta til með því að hægelda lambahrygg í gær. Ekki var það síðra en lærið! Að þessu sinni var ég með rauðvín í ofnpottinum sem gaf góðan grunn í sósuna.

IMG_7540

Uppskrift, lambahryggur fyrir ca. 4-5:

  • 1 lambahryggur (2 kíló)
  • 2 dl rauðvín
  • 1 laukur, afhýddur og skorinn í stóra bita
  • 1 hvítlaukur (ég notaði solo hvítlauk), afhýddur og skorinn í báta
  • 4 tómatar, skornir í tvennt
  • 5 lárviðarlauf
  • ólífuolía
  • salt og pipar
  • gott krydd, t.d. rósmarín (ég notaði Best á allt frá pottagöldrum)

Ofninn er hitaður í 100 gráður. Hryggurinn er snyrtur ef þarf, skolaður og þerraður. Því næst er hann, nuddaður með ólífuolíu og kryddaður með salti og pipar. Rauðvíni er hellt í ofnpottinn og hryggurinn settur ofan í ásamt, lauk, hvítlauk, tómötum og lárviðarlaufum. Því næst er kryddað yfir allt með rósmarín eða Best á allt. Lokið er sett á ofnpottinn og hryggurinn eldaður við 100 gráður í ca 5 tíma fyrir 2 kílóa hrygg. Best er að nota kjöthitamæli og stinga honum þar sem vöðvinn er þykkastur. Hryggurinn er tilbúinn þegar hitinn er komin í ca. 62-65 gráður. Þegar ca. 10 mínútur eru eftir af tímanum er ofnpotturinn tekinn út úr ofninum, vökvanum hellt af í skál. Ofninn er hitaður í 220 gráður á grillstillingu. Hryggurinn er settur aftur ofan í ofnpottinn án loks og hann hitaður í ofninum í ca. 6-8 mínútur (áfram á grillstillingu og sama hita) eða þar til puran verður dökkbrún – fylgist vel með hryggnum. Þá er hryggurinn tekinn út og leyft að jafna sig áður en hann er skorinn niður. Á meðan þessu stendur er sósan útbúin.

IMG_7561

Sósa:

  • vökvinn úr ofnpottinum
  • 1 tsk nautakraftur
  • 1 tsk sojasósa
  • 2-3 dl rjómi
  • 1 tsk hunang
  • salt og pipar
  • sósujafnari

Vökvinn úr ofnpottinum er sigtaður og tær vökvinn settur í pott. Mesta fitan er veidd ofan af vökvanum. Suðan látin koma upp og vökvinn látinn malla kröfuglega í ca. 10-15 mínútur eða þar til hann hefur soðið niður um allavega 1/3. Þá er restinni af hráefnunum bætt út og suðan látin koma aftur upp, sósan látin malla þar til hún er hæfilega þykk. Þá er sósan smökkuð til með kryddum.
riojaSævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með spænska rauðvíninu Campo Viejo Gran Reserva með þessum rétti og svona er því lýst: Dökkkirsuberjarautt. Þétt meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungs tannín. Skógarber, plóma, krydd, jörð, eik.

Hunangsgljáð grænmeti:

  • 6-8 gulrætur, flysjaðar og skornar í bita
  • 1/2 ferskur brokkolí-haus, skorin í bita
  • 150 gr sveppir, skornir í bita
  • 1 paprika, skorin í bita
  • smjör eða olía til steikingar
  • grænmeti frá steikarpottinum
  • 1 msk hunang
  • 1/2 tsk nautakraftur
  • salt og pipar
  • sesamfræ

Vatn sett í pott og suðan látin koma upp. Gulrætur og brokkolí sett út í vatnið og látið sjóða í örfáar mínútur þar til það er hálfsoðið. Sveppir steikir á pönnu upp úr smjöri/olíu og nautakrafti, ásamt papriku. Þá er hálfsoðna brokkolíinu og gulrótunum bætt út á pönnuna ásamt lauknum og tómötunum úr steikarpottinum. Hunangi bætt út í og kryddað örlítið með salti og pipar auk þess sem sesamfræum er stráð yfir. Grænmetinu leyft að malla í nokkrar mínútur við meðalhita.

IMG_7542

Hummus á hrökkbrauði með tómötum og avókadó


IMG_7515Hummus er mauk búið til úr kjúklingabaunum. Kjúklingabaunir, sem einnig eru nefndar kíkertur á íslensku, eru fræ af runnanum Cicer arietinum og hafa því ekkert með kjúkling að gera.  Á ensku nefnist baunin chickpea en þaðan er heitið komið úr frönsku, chiche, sem er dregið af latneska heitinu. Enska orðið chick er meðal annars yfir kjúkling og aðra fuglsunga og þess vegna hefur þýðingin kjúklingabaun orðið til á íslensku.

IMG_7506Tahini er notað í hummus. Það verður til þegar sesamfræ eru notuð til að búa til sesamsmjör, líkt og hnetur eru notaðar til að búa til hnetusmjör. Það eru til tvær gerðir af Tahini, hvítt og dökkt. Hvíta tahinið er búið til með því að mauka sesamfræin, eftir að þau hafa verið lögð í bleyti yfir nótt og þau létt marin til að opna þau, þar til þau eru orðin að þykkni eða smjöri. Dökkt tahini er búið ti á sama hátt nema þá hafa sesamfræin verið ristuð áður, það er því aðeins bragðmeira. Tahini er mjög góður kalkgjafi og næringarríkt. Tahini er hægt að nota ofan á brauð í staðin fyrir smjör eða hnetusmjör. Ef það er sett í blandara með vatni fæst úr því sesammjólk. Það er líka hægt að nota tahini í buffdeig eða bökur sem bindiefni í staðin fyrir egg og hveiti og í pottrétti í stað kókosmjólk til að mýkja og þykkja. Að auki er það notað í hummus.

Þetta hummus er rosalega gott, sérstaklega á hrökkbrauð ásamt avókadó og tómötum og örlitið af grófmuldum svörtum pipar. Eða sem grænmetisídýfa, Jóhönnu Ingu finnst það gott!

IMG_7536

  • 1 dós (240 g án vökvans) soðnar/niðursoðnar kjúklingabaunir/kíkertur
  • 1-2 msk vökvi frá baununum
  • 2 límónur (lime)
  • 1 msk Tahini
  • 2 hvítlauksrif, söxuð
  • 1 msk fersk steinselja, söxuð gróft
  • 4-6 msk ólífuolía
Vökvanum er hellt af kjúklingabaununum og honum haldið til haga. Hýðið rifið af annarri límónunni. Kjúklingabaunirnar settar í matvinnsluvél ásamt hýðinu af límónunni, safanum úr báðum límónunum, hvítlauk, steinselju, tahini og ólífuolíu. Öllu blandað saman þar til orðið að mauki. Þá er vökvanum frá kjúklingabaununum bætt út í þannig að maukið verði passlega þykkt.
IMG_7510