Þetta get ég aldrei bakað aftur, grínlaust! Ég gat ekki hamið mig í dag og gúffaði í mig alltof mörgum stykkjum, ég ræð ekkert við mig þegar þetta vínarbrauð er annars vegar! Vanillukremið, ómægod! Þessi vínarbrauð eru hrikalega góð, öll fjölskyldan var innilega sammála um það. Deigið er gert úr köldu gerdeigi og þarf ekki að hefast. Þetta er því afar fljótgerð og einföld uppskrift. Vanillukremið er dásamlega gott og er hægt að nýta fyrir pæ, ávexti og aðra eftirrétti. Ég tók eftir því að vanillustöngin sem ég notaði var með litlar hvítar doppur. Það er auðvelt að halda að hún sé mygluð eða skemmd en svo er alls ekki, þvert á móti. Það er merki um að vanillustöngin sé af góðum gæðum. Þessar hvítu doppur er vanilla sem hefur kristallast út úr stönginni.

Best er að byrja á því að gera vanillukremið.
Uppskrift vanillukrem:
5 dl mjólk
1 st vanillustöng
1 1/2 dl sykur
5 st eggjarauður
1 1/2 dl maizenamjöl
50 g mjúkt smjör
Vanillustöngin klofin á lengdina og fræin skafin innan úr stönginni. Fræin og stöngin sett í pott ásamt mjólkinni og suðan látin koma upp varlega. Það þarf að gæta þess að mjólkin brenni ekki. Vanillustöngin er veidd upp úr mjólkinni.
Sykur, eggjarauður og maizenamjöl þeytt þar til blandan verður létt og ljós. Smátt og smátt er heitu mjólkinni bætt út í. Blöndunni er hellt aftur ofan í pottinn og hún hituð varlega á meðalhita, hrært á meðan með písk. Það þarf að gæta þess að blandan sjóði ekki og hafa tilbúna kalda skál til að hella kreminu í. Þegar kremið þykknar þá gerist það snöggt og þá er mikilvægt að hella kreminu strax í kalda skál. Þá er smjörinu bætt út í og því pískað saman við kremið þar til það hefur blandast vel saman. Vanillukremið er látið kólna dálítið í ísskáp.

Vínarbrauð:
12 g þurrger (1 bréf)
2 dl mjólk
2 egg
150 g smjör við stofuhita
8 dl hveiti
Fylling fyrir annan helming deigsins:
75 – 100 g smjör, við stofuhita
2 dl sykur
1 tsk möndludropar
Bakarofn hitaður í 200 gráður. Ger sett í skál, kaldri mjólk bætt við og gerið leyst upp (ég pískaði þetta saman). Eggjum bætt við (ég notaði líka písk til þess). Nú setti ég deigkrókinn á hrærivélina, bætti hveitinu og smjörinu út í og hnoðaði allt saman í hrærivélinni. Deiginu er síðan skipt í tvo jafn stóra hluta. Annar hlutinn er flattur út á ofnplötu með kökukefli. Til að auðvelda það merkti ég stærð ofnplötunnar á bökunarpappír og flatti út deigið á bökunarpappírnum sem ég flutti svo yfir á ofnplötuna. Þá er vanillukreminu smurt jafnt yfir deigið. Það er í lagi þó svo að kremið sé ekki orðið alveg kalt.
Þá er hinn hluti deigsins flattur út í svipaða stærð. Smjörið, sykurinn og möndludroparnir hrært saman og smurt yfir helminginn af deiginu. Hinn helmingur deigsins er svo lagður yfir og deigið skorið í lengjur.
Þá er snúið upp á lengjurnar og þær lagðar þvers og kruss yfir vanillukremið.
Penslað með eggi og bakað í ofni við 200 gráður í 20 mínútur. Það er líka hægt að sleppa því að pensla með eggi og setja glassúr á vínarbrauðið eftir baksturinn.
Líkar við:
Líka við Hleð...