Ég las langt fram yfir háttatíma Jóhönnu í kvöld og er loksins sest núna fyrir framan tölvuna. Við vorum að klára bókina Steinskrípin, hún var svo spennandi á endasprettinum að við gátum ekki hætt! Frábær bók, bæði spennandi og frumleg, við mæðgur mælum með henni!
Í gærkvöldi bjó ég til rétt sem sló í gegn hjá allri fjölskyldunni, „geðveikt gott“ var samdóma álit okkar allra. Þar sem ég bý alltaf til svo mikinn mat þá gerði ég tvær útfærslur af réttinum í gær, í sitt hvoru eldfasta mótinu, til að prófa mig áfram. Ég tók bara myndir af fyrri útfærslunni en gef uppskrift af þeirri seinni því mér fannst hún aðeins betri. Þá blandaði ég jógúrt við mangó chutney sósuna.
Uppskrift f. 6
- 2 sætar kartöflur (ca. 400 g stykkið)
- 6 kjúklingabringur
- ólífuolía
- 1 dós fetaostur í olíu
- ca 3/4 dl balsamedik
- 4-5 hvítlauksrif
- 3-4 cm engiferrót
- 100 gr spínat
- 2 dl mango chutney
- 2 dl grísk jógúrt (eða hrein jógúrt)
- salt og pipar
- fræblanda (t.d. hörfræ, furuhnetur, graskersfræ eða önnur tilbúin fræblanda)
Olíunni af fetaostinum blandað saman við balsamedikið og kjúklingabringunum velt vel upp úr blöndunni. Bringurnar látnar liggja í blöndunni á meðan sætu kartöflurnar eru útbúnar, helst lengur ef tími gefst. Bakarofn hitaður í 200 gráður. Sætar kartöflur afhýddar og skornar í bita, þær lagðar stórt eldfast mót eða ofnskúffu og góðri skvettu af ólífuolíu blandað saman við. Saltað og piprað. Sett inn í ofn við 200 gráður í ca. 20 mínútur. Á meðan eru kjúklingabringurnar steiktar á pönnu. Reynið að veiða sem mest af vökvanum sem bringurnar liggja í, á pönnuna með þeim. Bringurnar steiktar nokkrar mínútur á báðum hliðum þar til þær eru hálfeldaðar. Eldfasta mótið með sætu kartöflunum er tekið út úr ofninum eftir ca. 20-25 mínútur, hvítlaukur og engifer rifið (með rifjárni eða í matvinnsluvél) eða saxað smátt og því blandað vel saman við kartöflurnar ásamt spínatinu. Kjúklingabringurnar lagðar ofan á kartöflunnar. Jógúrt og mangó chutney er hrært saman og dreift yfir bringurnar. Því næst er fetaostinum dreift yfir ásamt fræblöndunni. Allt sett aftur inn í ofn í ca. 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með mangósósu og fersku salati.
Mangósósa:
- 2 dl grísk jógúrt
- 2 dl mangó (frosið eða ferskt)
- 3 msk mango chutney
- safi úr 1/2 límónu (lime)
- salt og pipar
Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Gott að smakka sósuna til með meiri límónusafa, mangó, mangó chutney og/eða salti og pipar eftir þörfum.