Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos


Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Í kvöld bjó ég til dæmalaust góðan kjúklingarétt úr uppáhalds hráefnunum mínum, kjúklingi og sætum kartöflum. Ég fékk hugmyndina á erlendri uppskriftasíðu en þá var uppistaðan kjúklingur í einhverskonar barbecue sósu. Ég er ekkert sérstaklega hrifin af barbecue sósum en hins vegar finnst mér kjúklingur í karrí og kókos fjarskalega góður. Ég ákvað því að útfæra réttinn eftir mínu höfði og er harla sátt við útkomuna. Það voru skiptar skoðanir við matarborðið hvort það þyrfti sósu með réttinum. Ég gerði raita-jógúrtsósu sem mér fannst koma sérlega vel út með þessum rétti en það er smekksatriði hvort þess þarf. Með því að nota sætar kartöflur verður ægilega mikið úr hráefninu, þó svo að í réttinum sé bara 700 grömm af kjúklingi þá myndi ég segja að hálf fyllt sæt kartafla dugi flestum þannig að rétturinn ætti að duga fyrir sex manns. Það eru kannski ekki allir hrifnir af þeirri tilhugsun að  borða hýðið af sætum kartöflum. Það er þó algengt, sumir nota meira að segja hýðið með í sætkartöflumús. Í þessari uppskrift er það skrúbbað vel og bakað með salti og pipar þar til það verður stökkt og gott, endilega prófið! 🙂

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Uppskrift fyrir 5-6:

  •  3 sætar kartöflur ca 500 g stykkið
  • 700 g kjúklingabringur frá Rose Poultry, skornar í fremur litla bita
  • 1 stór rauðlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 msk ólífuolía + ólífuolía til penslunar og steikingar
  • saltflögur (ég notaði Falksalt)
  • grófmalaður svartur pipar
  • 2-4 msk Thai red curry paste frá Blue dragon
  • Litil dós kókosmjólk frá Blue Dragon (165 ml)
  • 200 g rifinn ostur (ég notaði rifinn maribo á móti rifnum mozzarella osti)

IMG_6795

Ofn hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. Sætu kartöflurnar eru skrúbbaðar og þvegnar vel. Því næst eru þær skornar í tvennt langsum. Kartöflurnar eru settar á ofnplötu með flötu hliðina niður í 200 gráðu heitan ofn í um það bil 20 – 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru mjúkar í gegn. Á meðan er ein matskeið af ólífuolíu sett á pönnu eða í pott og laukurinn látinn malla við vægan hita í ca 20 mínútur (ég var með helluna á 4 af 9) þar til laukurinn hefur karamelluserast, hrærið í honum öðru hvoru á meðan.

Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og steiktur á pönnu þar til hann hefur fengið góða húð. Þá er rauða karrímaukinu bætt út á pönnuna, best er að prófa sig áfram með magnið. Ef notaðar eru 2 matskeiðar verður rétturinn fremur mildur. Þá er kókósmjólkinni bætt út á pönnuna. Látið malla í um það bil 5 mínútur. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar eru þær teknar úr ofninu og þegar þær eru nógu kaldar að hægt sé að koma við þær eru kartöflurnar skafnar innan úr hýðinu, gott er að skilja eftir um það bil 5 cm kant. Hýðið er sett aftur á ofnplötuna þannig að það snúi upp. Hýðið er penslað með ólífuolíu og kryddað með saltflögum og pipar. Sett aftur inn í ofn í ca. 12 mínútur.

IMG_6796

Á meðan eru kartöflurnar stappaðar létt og kryddaðar með salti og pipar. Því næst er tæplega helmingnum af rifna ostinum bætt út í kartöflublönduna ásamt kjúklingnum og lauknum. Öllu er blandað saman. Þá er blöndunni deilt á milli kartöfluhýðanna og afgangnum af rifna ostinu dreift yfir.

IMG_6801

IMG_6803

Bakað áfram í ofninum í ca. 12-15 mínútur. Undir lokin er hægt að stilla ofninn á grill til þess að ná góðum lit á ostinn.

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Afar gott er að bera fram með þessu ferskt salat og raita jógúrtsósu.

Raita jógúrsósa:

  • 2 dl hrein jógúrt eða grísk jógúrt
  • 1 lítil gúrka
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  •  fersk mynta, söxuð smátt – ég notaði ca. 2 msk
  • 1 tsk fljótandi hunang
  • salt og svartur pipar

Gúrkan er skoluð og rifin niður með rifjárni. Mesti vökvinn er pressaður úr gúrkunni. Henni er svo blandað saman við jógúrt, hvítlauk, myntu og hunang. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Ef notuð er grísk jógúrt er sósan þynnt með dálitlu vatni, ca. 1/2 dl, sósan á að vera fremur þunn.

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Límónu/chili kjúklingur með sætum kartöfluteningum og kóríander-kúskúsi


IMG_8586
Ég þarf að taka mig á í skipulaginu. Ég er með myndir og minningar af góðum réttum og kökum sem ég hef útbúið nýlega en ég finn ekki uppskriftirnar! Til dæmis fann ég eina góða kjúklingauppskrift á netinu um daginn, breytti henni heilmikið á meðan ég útbjó réttinn og fannst sjálfsagt að ég myndi hvaða breytingar ég gerði. Núna horfi ég á myndirnar, finn ekki upprunalegu uppskriftina (man ekki einu sinni á hvaða tungumáli hún var) og því síður man ég hvaða breytingar ég gerði! Ég var hins vegar sem betur fer svo forsjál að skrifa niður hvað ég gerði þegar ég eldaði þennan gómsæta kjúklingarétt. Eins og svo oft áður þá laumaði ég sætum kartöflum og kóríander í réttinn, það er bara svo gott! 🙂 Það er ekki óalgengt að fólk líki illa við kóríander, nokkuð sem mér finnst óskiljanlegt! Kóríander gerir flestan mat að hátíðarmat hjá mínum bragðlaukum. En fyrir anti-kóríander fólk þá get ég glatt þá hina sömu með að það verður ekkert afgerandi kóríanderbragð af kúskúsinu, bara gott bragð! Elfari til dæmis líkar ekkert sérlega vel við kóríander en fannst þó þessi réttur afar góður. Það er líka hægt að skipta kóríanderinu út fyrir aðra kryddjurt líkt og basiliku eða blaðasteinselju.
IMG_8575
Uppskrift:

  • 600 g kjúklingabringur
  • 1/2 – 1 sæt kartafla (ca. 300 g)
  • gott kjúklingakrydd
  • salt & pipar
  • 1 msk ólífuolía
  • 6 msk sojasósa
  • 4 msk sykur
  • 1/2 – 1 tsk chili krydd
  • 1 límóna (lime), safinn
  • börkurinn af 1 límónu, finrifinn
  • ferskur kóríander (má sleppa)

Kjúklingurinn er skorinn í bita og kryddaður með kjúklingakryddi, salti og pipar. Sæta kartaflan er skræld og skorin í litla teninga Því næst er hvor tveggja steikt á pönnu í olíunni þar til kjúklingurinn er ekki bleikur lengur og sætu kartöflurnar hér um bil tilbúnar. Þá er kjúklingurinn og kartöflurnar veiddar af pönnunni og lagt til hliðar.
Sojasósu, sykri, chili, límónusafa og límónuberki er hrært saman þar til sykurinn leysist upp. Þá er blöndunni hellt í pott og suðan látin koma upp. Sósan látin malla í 3-4 mínútur þar til hún hefur soðið dálítið niður. Þá er kjúklingnum og sætu kartöflunum bætt út í sósuna og leyft að malla í sósunni í nokkrar mínútur, hrært á meðan til þess að sósan blandist vel við og gefi kjúkling og kartöflum góðan gljáa. Áður en rétturinn er borinn fram er gott að dreifa fersku kóríander yfir hann. Borið fram með kóríander-kúskúsi.

Kóríander-kúskús
  • 500 ml kjúklingasoð
  • 250 g kúskús
  • 30 g ferskt kóríander, saxað
Til þess að útbúa kjúklingasoð er vatn og kjúklingakraftur sett í pott og suðan látin koma upp. Þá er kúskúsi bætt út og potturinn tekinn af hitanum. Látið standa í ca. 5 mínútur. Þá er kóríander blandað út í kúskúsið (hrært vel) og borið fram með kjúklingaréttinum.
IMG_8573

Límónukjúklingur með sætum kartöflum


IMG_8492

Ég er veik fyrir kjúklingi og ég er veik fyrir sætum kartöflum. Best finnst mér þegar þessi tvö hráefni eru tvinnuð saman! Þessi kjúklingaréttur með sætum kartöflum er ekki bara ljúffengur heldur líka einstaklega fjlótlegur og einfaldur að útbúa. Ég bjó þennan rétt til í fyrrakvöld en sjálf átti ég að vera mætt á námskeið hjá SAMFOK á kvöldmatartíma þannig að ég rétt náði að henda réttinum inn í ofn áður en ég rauk út. Ég vonaði innilega að fjölskyldan myndi ekki klára matinn! Mér varð að ósk minni og gat hitað mér upp afganginn í hádeginu daginn eftir, dásamlega gott! Ég skildi Elfar og Ósk eftir með það verkefni að taka myndir af matnum. Þau voru nú ekkert himinlifandi með það verkefni og voru áhyggjufull yfir því að ég myndi ekki vera sátt við myndirnar. Elfar tók verkið að sér, vandaði sig mikið við að raða matnum fallega á diskinn og tók þessar fínu myndir! Ég kannski fer að láta hann um myndartökuna öðru hvoru svo það sé ekki alltaf ég sem fæ kaldan mat vegna matar-myndartökunnar! 🙂

Uppskrift.

  • 1 kíló kjúklingabringur
  • 1 msk smjör
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd
  • 1 1/2 – 2 límónur (lime), safi og börkur
  • ca 500 g sætar kartöflur
  • 4 dl sýrður rjómi
  • 2 msk ferskt engifer, fínrifið
  • 1/2 tsk cayenne pipar (meira fyrir þá sem vilja sterkari rétt)

IMG_8466

Ofninn stilltur á 225 gráður, undir- og yfirhita. Kjúklingabringurnar skornar í meðalstóra bita,  kryddaðar með salti, pipar og kjúklingakryddi. Kjúklingabitarnir eru því næst steiktir á pönnu upp úr smjöri þar til þeir hafa tekið dálítinn lit en eru ekki steiktir í gegn. Þá eru þeir lagðir í eldfast mót og límónusafanum hellt fyrir bitana. Sætu kartöflurnar eru afhýddar og rifnar með fremu grófu rifjárni. Börkurinn af límónunum er rifinn fínt og honum blandað saman við rifnu sætu kartöflurnar, rifið engifer, sýrðan rjóma og cayenne pipar auk salts. Sætu kartöflublöndunni er dreift yfir kjúklingabitana og rétturinn eldaður í ofni við 225 gráður í 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

IMG_8501

Kjúklingur með sætum kartöflum og mangósósu


IMG_7576Ég las langt fram yfir háttatíma Jóhönnu í kvöld og er loksins sest núna fyrir framan tölvuna. Við vorum að klára bókina Steinskrípin, hún var svo spennandi á endasprettinum að við gátum ekki hætt! Frábær bók, bæði spennandi og frumleg, við mæðgur mælum með henni!

Í gærkvöldi bjó ég til rétt sem sló í gegn hjá allri fjölskyldunni, „geðveikt gott“ var samdóma álit okkar allra. Þar sem ég bý alltaf til svo mikinn mat þá gerði ég tvær útfærslur af réttinum í gær, í sitt hvoru eldfasta mótinu, til að prófa mig áfram. Ég tók bara myndir af fyrri útfærslunni en gef uppskrift af þeirri seinni því mér fannst hún aðeins betri. Þá blandaði ég jógúrt við mangó chutney sósuna.

Uppskrift f. 6

  • 2 sætar kartöflur (ca. 400 g stykkið)
  • 6 kjúklingabringur
  • ólífuolía
  • 1 dós fetaostur í olíu
  • ca 3/4 dl balsamedik
  • 4-5 hvítlauksrif
  • 3-4 cm engiferrót
  • 100 gr spínat
  • 2 dl mango chutney
  • 2 dl grísk jógúrt (eða hrein jógúrt)
  • salt og pipar
  • fræblanda (t.d. hörfræ, furuhnetur, graskersfræ eða önnur tilbúin fræblanda)

IMG_7565Olíunni af fetaostinum blandað saman við balsamedikið og kjúklingabringunum velt vel upp úr blöndunni. Bringurnar látnar liggja í blöndunni á meðan sætu kartöflurnar eru útbúnar, helst lengur ef tími gefst. Bakarofn hitaður í 200 gráður. Sætar kartöflur afhýddar og skornar í bita, þær lagðar stórt eldfast mót eða ofnskúffu og góðri skvettu af ólífuolíu blandað saman við. Saltað og piprað. Sett inn í ofn við 200 gráður í ca. 20 mínútur. Á meðan eru kjúklingabringurnar steiktar á pönnu. Reynið að veiða sem mest af vökvanum sem bringurnar liggja í, á pönnuna með þeim. Bringurnar steiktar nokkrar mínútur á báðum hliðum þar til þær eru hálfeldaðar. Eldfasta mótið með sætu kartöflunum er tekið út úr ofninum eftir ca. 20-25 mínútur, hvítlaukur og engifer rifið (með rifjárni eða í matvinnsluvél) eða saxað smátt og því blandað vel saman við kartöflurnar ásamt spínatinu. Kjúklingabringurnar lagðar ofan á kartöflunnar. Jógúrt og mangó chutney er hrært saman og dreift yfir bringurnar. Því næst er fetaostinum dreift yfir ásamt fræblöndunni. Allt sett aftur inn í ofn í ca. 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með mangósósu og fersku salati.

IMG_7578

Mangósósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 2 dl mangó (frosið eða ferskt)
  • 3 msk mango chutney
  • safi úr 1/2 límónu (lime)
  • salt og pipar

Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Gott að smakka sósuna til með meiri límónusafa, mangó, mangó chutney og/eða salti og pipar eftir þörfum.