Kjúklingasnitsel með parmesan- og dijonsósu


Kjúklingasnitsel með parmesan- og dijonsósuÉg og yngstu börnin erum búin að vera veik síðan um helgina. Við fengum leiðindaflensu með hita, höfuðverk, beinverkjum og tilheyrandi. Í kvöld dröslaðist ég samt í eldhúsið og eldaði afskaplega einfaldan kjúklingarétt sem öllum í fjölskyldunni þykir ákaflega góður. Meira að segja veiki hluti fjöskyldunnar tók rösklega til matar síns þrátt fyrir heilsuleysið. Rétturinn sem ég gerði er einfölduð útgáfa af Cordon bleu kjúklingi. Eins og flestir vita þá er það einskonar snitsel þar sem kjúklingabringum er vafið utan um ost og skinku. Þeim er því næst velt upp úr raspi og þær svo djúpsteiktar eða bakaðar í ofni. Oftast nær er kjúlingurinn flattur út eða það er skorin vasi inn í bringurnar og hann fylltur með skinku og osti. Ég gerði afar einfalda útgáfu af réttinum sem er ofsalega fljótleg en mér finnst alveg jafngóð og þessi sem er tímafrekari. Sósan er æðislega góð og passar svo vel með kjúklingasnitselinu.

Uppskrift:

    • 5 þykkar kjúklingabringur
    • salt & pipar
    • ca. 20 sneiðar silkiskorin soðin skinka
    • ca. 15 – 20 ostsneiðar
    • 50 g smjör
    • 140 g brauðteningar

Ofn hitaður í 180 gráður. Eldfast mót smurt að innan. Kjúklingabringurnar skornar í tvennt langsum, þess gætt að hver bitarnir verði jafnþykkir, þannig að úr verði 10 bitar. Kjúklingurinn er saltaður og pipraður og raðað í eldfasta mótið. Hver bringa er þakin með skinku og þá osti.

IMG_3881IMG_3883 Brauðteningarnir eru muldir í matvinnsluvél, smjörið brætt og blandað saman við. Brauðmylsnunni er að lokum dreift yfir kjúklinginn. Sett í ofn í um það bil 30 mínútur við 180 gráður eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með parmesan- og dijonsósu.

IMG_3898

Sósa:
  • 3 msk smjör
  • 3 msk hveiti
  • ca. 5-600 ml mjólk
  • 1.5 tsk kjúklingakraftur
  • 1/2 tsk salt
  • 1.5 msk dijon sinnep
  • 75 g ferskur parmesan ostur, rifinn

Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Því næst er mjólkinni hellt rólega saman við og hrært án afláts. Kjúklingakrafti, salti, sinnepi og rifnum parmesan osti er bætt út í. Látið malla við vægan hita þar til osturinn er bráðnaður, hrært í á meðan. Ef sósan er of þunn er hún látin malla lengur, ef hún er of þykk þá er hún þynnt með meiri mjólk.

IMG_3889

Límónu/chili kjúklingur með sætum kartöfluteningum og kóríander-kúskúsi


IMG_8586
Ég þarf að taka mig á í skipulaginu. Ég er með myndir og minningar af góðum réttum og kökum sem ég hef útbúið nýlega en ég finn ekki uppskriftirnar! Til dæmis fann ég eina góða kjúklingauppskrift á netinu um daginn, breytti henni heilmikið á meðan ég útbjó réttinn og fannst sjálfsagt að ég myndi hvaða breytingar ég gerði. Núna horfi ég á myndirnar, finn ekki upprunalegu uppskriftina (man ekki einu sinni á hvaða tungumáli hún var) og því síður man ég hvaða breytingar ég gerði! Ég var hins vegar sem betur fer svo forsjál að skrifa niður hvað ég gerði þegar ég eldaði þennan gómsæta kjúklingarétt. Eins og svo oft áður þá laumaði ég sætum kartöflum og kóríander í réttinn, það er bara svo gott! 🙂 Það er ekki óalgengt að fólk líki illa við kóríander, nokkuð sem mér finnst óskiljanlegt! Kóríander gerir flestan mat að hátíðarmat hjá mínum bragðlaukum. En fyrir anti-kóríander fólk þá get ég glatt þá hina sömu með að það verður ekkert afgerandi kóríanderbragð af kúskúsinu, bara gott bragð! Elfari til dæmis líkar ekkert sérlega vel við kóríander en fannst þó þessi réttur afar góður. Það er líka hægt að skipta kóríanderinu út fyrir aðra kryddjurt líkt og basiliku eða blaðasteinselju.
IMG_8575
Uppskrift:

  • 600 g kjúklingabringur
  • 1/2 – 1 sæt kartafla (ca. 300 g)
  • gott kjúklingakrydd
  • salt & pipar
  • 1 msk ólífuolía
  • 6 msk sojasósa
  • 4 msk sykur
  • 1/2 – 1 tsk chili krydd
  • 1 límóna (lime), safinn
  • börkurinn af 1 límónu, finrifinn
  • ferskur kóríander (má sleppa)

Kjúklingurinn er skorinn í bita og kryddaður með kjúklingakryddi, salti og pipar. Sæta kartaflan er skræld og skorin í litla teninga Því næst er hvor tveggja steikt á pönnu í olíunni þar til kjúklingurinn er ekki bleikur lengur og sætu kartöflurnar hér um bil tilbúnar. Þá er kjúklingurinn og kartöflurnar veiddar af pönnunni og lagt til hliðar.
Sojasósu, sykri, chili, límónusafa og límónuberki er hrært saman þar til sykurinn leysist upp. Þá er blöndunni hellt í pott og suðan látin koma upp. Sósan látin malla í 3-4 mínútur þar til hún hefur soðið dálítið niður. Þá er kjúklingnum og sætu kartöflunum bætt út í sósuna og leyft að malla í sósunni í nokkrar mínútur, hrært á meðan til þess að sósan blandist vel við og gefi kjúkling og kartöflum góðan gljáa. Áður en rétturinn er borinn fram er gott að dreifa fersku kóríander yfir hann. Borið fram með kóríander-kúskúsi.

Kóríander-kúskús
  • 500 ml kjúklingasoð
  • 250 g kúskús
  • 30 g ferskt kóríander, saxað
Til þess að útbúa kjúklingasoð er vatn og kjúklingakraftur sett í pott og suðan látin koma upp. Þá er kúskúsi bætt út og potturinn tekinn af hitanum. Látið standa í ca. 5 mínútur. Þá er kóríander blandað út í kúskúsið (hrært vel) og borið fram með kjúklingaréttinum.
IMG_8573

Kjúklingur í himneskri sósu


Ég bjó eiginlega til þennan rétt með hálfum hug. Ég er nefnilega ekkert of hrifin af sólþurrkuðum tómötum, finnst þeir bara góðir ef þeir eru ekki of afgerandi í uppskriftunum. Þetta er afsakaplega einfaldur réttur, mjög fljótlegt að búa hann til og það kom mér síðan skemmtilega á óvart hvað hann var góður! Elfari fannst hann afar góður líka en það sem kom kannski mest á óvart var að Alexander fannst þetta vera besti rétturinn sem ég hef nokkurn tíma gert! Það er reyndar býsna auðvelt að elda fyrir hann, honum finnst allt gott sem ég geri! 🙂 En sósan var sem sagt sú bragðbesta sem hann hefur borðað hingað til, ekki slæm einkunn það! Í upprunalegu uppskriftinni er talað um að nota krydd sem heitir ungversk paprika, það er sætara paprikukrydd en þetta hefðbundna. Það er til frá Pottagöldrum en ég átti það ekki til og notaði því bara hefðbundið paprikukrydd.

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur
  • salt & pipar
  • ungversk paprika eða venjulegt paprikukrydd

sósa:

  • 6-8 sólþurrkaðir tómatar + 2 msk af olíunni
  • 1-2 dl vatn
  • 1 msk balsamedik
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1 msk sojasósa
  • 1 msk nautakraftur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 1-2 dl rjómi
  • salt & pipar
  • sósujafnari (eða maizenamjöl)
  • 1/2- 2/3 poki af ferskri steinselju

Kjúklingabringurnar eru skornar í 3 bita og kryddaðar paprikukryddi, salti og pipar. Kjúklingabitarnir eru svo steiktir á pönnu upp úr smjöri og olíu þar til að þeir hefur náð lit á öllum hliðum. Kjúklingurinn er því næst veiddur af pönnunni og vatninu þeytt saman við feitina, sem eftir var á pönnunni, með písk. Sólþurrkuðu tómatarnir saxaðir smátt og bætt út á pönnuna ásamt tveimur matskeiðum af olíunni af sólþurrkuðu tómötunum. Því næst er tómatpúrru, sojasóusu, nautakrafti, sýrðum rjóma og rjóma bætt út í og sósan smökkuð til með salti, pipar og paprikukryddi. Dálítið af sósujafnara bætt út í til að þykkja sósuna. Kjúklingurinn er nú settur aftur út í sósuna (og safinn sem mögulega hefur runnið af honum á meðan hann beið) og látið malla í 10-15 mínútur. Steinselja er söxuð smátt og bætt út í rétt áður en rétturinn er borinn fram.  Ég bar fram með réttinum ofnsteiktar kartöflur og sætar kartöflur ásamt fersku salati. Það er örugglega líka gott að bera fram hrísgrjón eða kúskús með réttinum.