Ég bjó eiginlega til þennan rétt með hálfum hug. Ég er nefnilega ekkert of hrifin af sólþurrkuðum tómötum, finnst þeir bara góðir ef þeir eru ekki of afgerandi í uppskriftunum. Þetta er afsakaplega einfaldur réttur, mjög fljótlegt að búa hann til og það kom mér síðan skemmtilega á óvart hvað hann var góður! Elfari fannst hann afar góður líka en það sem kom kannski mest á óvart var að Alexander fannst þetta vera besti rétturinn sem ég hef nokkurn tíma gert! Það er reyndar býsna auðvelt að elda fyrir hann, honum finnst allt gott sem ég geri! 🙂 En sósan var sem sagt sú bragðbesta sem hann hefur borðað hingað til, ekki slæm einkunn það! Í upprunalegu uppskriftinni er talað um að nota krydd sem heitir ungversk paprika, það er sætara paprikukrydd en þetta hefðbundna. Það er til frá Pottagöldrum en ég átti það ekki til og notaði því bara hefðbundið paprikukrydd.
Uppskrift:
- 4 kjúklingabringur
- salt & pipar
- ungversk paprika eða venjulegt paprikukrydd
sósa:
- 6-8 sólþurrkaðir tómatar + 2 msk af olíunni
- 1-2 dl vatn
- 1 msk balsamedik
- 1 msk tómatpúrra
- 1 msk sojasósa
- 1 msk nautakraftur
- 1 dós sýrður rjómi
- 1-2 dl rjómi
- salt & pipar
- sósujafnari (eða maizenamjöl)
- 1/2- 2/3 poki af ferskri steinselju
Kjúklingabringurnar eru skornar í 3 bita og kryddaðar paprikukryddi, salti og pipar. Kjúklingabitarnir eru svo steiktir á pönnu upp úr smjöri og olíu þar til að þeir hefur náð lit á öllum hliðum. Kjúklingurinn er því næst veiddur af pönnunni og vatninu þeytt saman við feitina, sem eftir var á pönnunni, með písk. Sólþurrkuðu tómatarnir saxaðir smátt og bætt út á pönnuna ásamt tveimur matskeiðum af olíunni af sólþurrkuðu tómötunum. Því næst er tómatpúrru, sojasóusu, nautakrafti, sýrðum rjóma og rjóma bætt út í og sósan smökkuð til með salti, pipar og paprikukryddi. Dálítið af sósujafnara bætt út í til að þykkja sósuna. Kjúklingurinn er nú settur aftur út í sósuna (og safinn sem mögulega hefur runnið af honum á meðan hann beið) og látið malla í 10-15 mínútur. Steinselja er söxuð smátt og bætt út í rétt áður en rétturinn er borinn fram. Ég bar fram með réttinum ofnsteiktar kartöflur og sætar kartöflur ásamt fersku salati. Það er örugglega líka gott að bera fram hrísgrjón eða kúskús með réttinum.