Mikið var nú gott að fá svona milt og fallegt veður um helgina, vonandi er þetta vísbending um það sem koma skal nú síðhausts. Í gærkvöldi kom stórfjölskyldan saman með ömmu og afa til þess að fagna 60 ára brúðkaupsafmæli þeirra. Allir lögðust á eitt að útbúa margrétta veislumáltíð sem var dásamlega góð. Í forrétt var salat með risarækjum sem við erum afar hrifin af, uppskriftin er hér. Í aðalrétt var grillað lambaribeye með kartöflugratíni, sveppasósu, grilluðu grænmeti og fersku salati. Í eftirrétt var dásamlega góður daimréttur sem ég var ekki lengi að fá uppskriftina að og ætla að setja hér inn á síðuna við fyrsta tækifæri.
Hér er ég að vinna í risarækjuforréttinum með líka svona fína svuntu! 🙂
Í dag fórum við á barnaleikritið Hættuför í Huliðsdal í Þjóðleikhúsinu. Afar skemmtileg sýning og ákaflega hugvitsamleg og sniðug sviðsmynd. Leikritið virðist vera sýnt í stuttan tíma þannig að endilega drífið ykkur að kaupa miða, þetta er leiksýning sem við mælum sannarlega með.
Uppskriftin sem ég ætla að gefa að sinni er mjög einföld en ofsalega góð. Mér finnst helsteiktur kjúklingur svo góður og passa svo vel sem sunnudagsmatur. Ég hef verið að nota heila kjúklinginn frá Rose Poultry, hann er mjög safaríkur og góður en svo hentar stærðin líka svo vel því hann er svo stór, ca. 1.6 kíló. Ég prófaði mig áfram með sósu með kjúklingnum og þessi sem ég gef uppskrift að hér að neðan sló í gegn hjá fjölskyldunni og hún var bókstaflega sleikt innan úr skálinni. Auk kjúklingsins og sósunnar útbjó ég ferskt salat og ofnbakaðar kartöflur og gulrætur – einföld og ljúffeng veislumáltíð!
Uppskrift:
- 1 heill kjúklingur frá Rose Poultry
- kjúklingakrydd frá Pottagöldrum
Ofn er hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. Gott er að taka kjúklinginn úr frysti kvöldið fyrir eldun og leyfa honum að þiðna inni í ísskáp. Ef skammur tími er til stefnu er hægt að þýða kjúklinginn (í umbúðunum) með því að láta hann liggja í köldu vatni sem skipt er um reglulega – það tekur um það bil 3 til 4 tíma. Þegar kjúklingurinn hefur þiðnað er hann skolaður og þerraður með eldhúspappír. Því næst er hann kryddaður vel með kjúklingakryddi. Kjúklingurinn er lagður í steikarpott eða í steikarpoka og steiktur í ofni við 200 gráður í um það bil klukkustund eða þar til hann er eldaður í gegn.
Kryddjurtarjómasósa f. ca. 4:
- soðið sem fellur til af kjúklingnum (um það bil 1-2 dl)
- 2 dl rjómi
- 1 msk sojasósa
- ca 120 g Philadelphia ostur með hvítlauk og kryddjurtum
- salt og pipar eftir smekk (gætið þess að sojasósan er sölt)
- sósujafnari (ef með þarf)
Soðið af kjúklingnum og sojasósan sett saman í pott og suðan látin koma upp. Þá er rjómanum og Philadelphia osti með hvítlauk og kryddjurtum bætt út í og leyft að malla í um það bil 10 mínútur á meðalhita. Sósan er smökkuð til með pipar og salti. Sósan þykkist vel á meðan hún mallar en ef hún er of þunn er hægt að bæta út í hana sósujafnara.
Ofnsteiktar kartöflur og gulrætur
- kartöflur
- gulrætur
- ólífuolía
- flögusalt (Falksalt með hvítlauki)
- grófmalaður svartur pipar
- ítalskt krydd eða kryddblanda (til dæmis basilika, rósmarín og oregano)
Kartöflur eru þvegnar og skornar í bita. Gulrætur eru flysjaðar og skornar í svipað stóra bita og kartöflurnar. Hvort tveggja er sett í ofnskúffu og ólífuolíu ásamt kryddi dreift yfir, blandað vel saman. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 25 mínútur.