Hægeldaður kjúklingur


IMG_1024Það er með ólíkindum hversu mjúkt og safaríkt kjöt verður þegar það er hægeldað. Um helgar finnst mér fátt betra en að hægelda lambalæri eða lambahrygg. Ef ég elda nautakjöt þá elda ég það „sous vide“. Reyndar þá á ég ekki sérstakar græjur til þess en ég hef notað skothelda aðferð frá Lækninum í eldhúsinu, ég vef nautalundinni inn í plastfilmu og hægelda í ofni við 60 gráður í nokkra tíma og steiki það svo snöggt á öllum hliðum, þannig verður kjötið lungamjúkt og dásamlega gott.

Um síðastliðna helgi var ég með heilan kjúkling í matinn og fór að hugleiða hvort ég gæti ekki hægeldað hann. Ég keypti heilan frosin kjúkling frá Rose (fékk hann í Fjarðarkaup – hef líka séð hann í Hagkaup), mér hann svo mjúkur og góður en ekki síst er frábært hversu stór hann er, 1600 gr, þá þarf ég ekki að elda tvo heila kjúklinga. Ég tók kjúklinginn úr frystinum á laugardegi og setti hann inn í ísskáp. Á sunnudeginum hægeldaði ég kjúklinginn og mikið óskaplega varð hann ljúffengur! Það var dálítið fyndið að fylgjast með viðbrögðum fjölskyldunnar sem settust öll við borðið á mismunandi tíma. Þau brugðust öll nákvæmlega eins við, „ummmm“ heyrðist í þeim eftir fyrsta bita og svo spurðu þau hissa, „hvernig kjúklingur er þetta?!“ Ég mæli því óhikað með þessari eldunaraðferð ef þið viljið fá dásamlega safaríkan kjúkling. Með honum hafði ég allskonar grænmeti, meðal annars fenniku sem mér finnst svo góð með sínum milda anískeimi en það er hægt að notað hvaða rótargrænmeti sem er í þessa uppskrift.

Uppskrift:

 • 1 heill kjúklingur, ca. 1600 g (ég notaði frá Rose)
 • Kalkúnakrydd
 • 50 g smjör
 • 1/2 dl sojasósa
 • 1 appelsína, skorin í báta
 • 1 heill hvítlaukur, afhýddur
 • 1 sæt kartafla, skorin í bita
 • 8 meðalstórar kartöflur
 • 1 fennika, skorin í bita
 • 1 lítil sellerírót, skorin í bita
 • ca. 2 msk hveiti
 • 3 dl matreiðslurjómi
 • rifsberjahlaup
 • salt og pipar

IMG_1016

Bakarofn hitaður í 110 gráður við undir- og yfirhita. Kjúklingur er afþýddur, skolaður og þerraður. Þá er hann fylltur með appelsínubátum og hvítlauksrifum. Kjúklingurinn er settur í ofnpott. Smjör og sojasósa er brætt saman í potti og hellt yfir kjúklinginn og hann nuddaður vel á öllum hliðum upp úr smjörbráðinni og því næst kryddaður vel. Þá er grænmeti raðað þétt í kringum kjúklinginn. Lokið er sett yfir ofnpottinn og hann settur inn í ofn við 110 gráður í um það bil 3 klukkustundir, +/- hálftíma, fer eftir stærð kjúklingsins. Gott er að nota kjöthitamæli og stinga honum djúpt milli bringu og læris, þar eldast fuglinn seinast. Þegar hitinn er kominn í ca. 70 gráður er lokið tekið af pottinum og hitinn hækkaður í 200 gráður í ca. 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn hefur tekið fallegan lit. Þá er ofnpotturinn tekinn úr ofninum og kjúklingurin færður á disk undir álpappír. Grænmetið er veitt upp úr pottinum og vökvanum hellt í pott í gegnum sigti. Vökvinn er látinn standa í pottinum um stund þar til fitan flýtur upp á yfirborðið. Þá er hún veidd af og pískuð saman við hveiti þar til blandan verður þykk. Suðan er látin koma upp á soðinu og hveitibollan pískuð saman við á meðan. Þá er rjómanum bætt út í og sósan látin malla þar til hún hefur þykknað passlega (við þörfum er hægt að nota sósujafnara og sósulit). Gott er að smakka sósuna til með rifsberjahlaupi og salti & pipar.

diablo

Sævar Már vínþjónn mælir með því að njóta kjúklingsins með silkimjúka hvítvíninu Casillero del Diablo Chardonnay. Það er ljóssítrónugult. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Sítrus, hunangsmelóna,eik.

IMG_1023IMG_1033IMG_1042

Heilsteiktur kjúklingur með kryddjurtarjómasósu


Heilsteiktur kjúklingur með kryddjurtarjómasósu

Mikið var nú gott að fá svona milt og fallegt veður um helgina, vonandi er þetta vísbending um það sem koma skal nú síðhausts. Í gærkvöldi kom stórfjölskyldan saman með ömmu og afa til þess að fagna 60 ára brúðkaupsafmæli þeirra. Allir lögðust á eitt að útbúa margrétta veislumáltíð sem var dásamlega góð. Í forrétt var salat með risarækjum sem við erum afar hrifin af, uppskriftin er hér. Í aðalrétt var grillað lambaribeye með kartöflugratíni, sveppasósu, grilluðu grænmeti og fersku salati. Í eftirrétt var dásamlega góður daimréttur sem ég var ekki lengi að fá uppskriftina að og ætla að setja hér inn á síðuna við fyrsta tækifæri.

IMG_0280

Hér er ég að vinna í risarækjuforréttinum með líka svona fína svuntu! 🙂

 Í dag fórum við á barnaleikritið Hættuför í Huliðsdal í Þjóðleikhúsinu. Afar skemmtileg sýning og ákaflega hugvitsamleg og sniðug sviðsmynd. Leikritið virðist vera sýnt í stuttan tíma þannig að endilega drífið ykkur að kaupa miða, þetta er leiksýning sem við mælum sannarlega með.

Uppskriftin sem ég ætla að gefa að sinni er mjög einföld en ofsalega góð. Mér finnst helsteiktur kjúklingur svo góður og passa svo vel sem sunnudagsmatur. Ég hef verið að nota heila kjúklinginn frá Rose Poultry, hann er mjög safaríkur og góður en svo hentar stærðin líka svo vel því hann er svo stór, ca. 1.6 kíló. Ég prófaði mig áfram með sósu með kjúklingnum og þessi sem ég gef uppskrift að hér að neðan sló í gegn hjá fjölskyldunni og hún var bókstaflega sleikt innan úr skálinni. Auk kjúklingsins og sósunnar útbjó ég ferskt salat og ofnbakaðar kartöflur og gulrætur – einföld og ljúffeng veislumáltíð!

Uppskrift: 

 • 1 heill kjúklingur frá Rose Poultry
 • kjúklingakrydd frá Pottagöldrum

Ofn er hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. Gott er að taka kjúklinginn úr frysti kvöldið fyrir eldun og leyfa honum að þiðna inni í ísskáp. Ef skammur tími er til stefnu er hægt að þýða kjúklinginn (í umbúðunum) með því að láta hann liggja í köldu vatni sem skipt er um reglulega – það tekur um það bil 3 til 4 tíma. Þegar kjúklingurinn hefur þiðnað er hann skolaður og þerraður með eldhúspappír. Því næst er hann kryddaður vel með kjúklingakryddi. Kjúklingurinn er lagður í steikarpott eða í steikarpoka og steiktur í ofni við 200 gráður í um það bil klukkustund eða þar til hann er eldaður í gegn.

IMG_6846

Kryddjurtarjómasósa f. ca. 4:

 • soðið sem fellur til af kjúklingnum (um það bil 1-2 dl)
 • 2 dl rjómi
 • 1 msk sojasósa
 • ca 120 g Philadelphia ostur með hvítlauk og kryddjurtum
 • salt og pipar eftir smekk (gætið þess að sojasósan er sölt)
 • sósujafnari (ef með þarf)

Soðið af kjúklingnum og sojasósan sett saman í pott og suðan látin koma upp. Þá er rjómanum og Philadelphia osti með hvítlauk og kryddjurtum bætt út í og leyft að malla í um það bil 10 mínútur á meðalhita. Sósan er smökkuð til með pipar og salti. Sósan þykkist vel á meðan hún mallar en ef hún er of þunn er hægt að bæta út í hana sósujafnara.

Ofnsteiktar kartöflur og gulrætur

 • kartöflur
 • gulrætur
 • ólífuolía
 • flögusalt (Falksalt með hvítlauki)
 • grófmalaður svartur pipar
 • ítalskt krydd eða kryddblanda (til dæmis basilika, rósmarín og oregano)

Kartöflur eru þvegnar og skornar í bita. Gulrætur eru flysjaðar og skornar í svipað stóra bita og kartöflurnar. Hvort tveggja er sett í ofnskúffu og ólífuolíu ásamt kryddi dreift yfir, blandað vel saman. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 25 mínútur.

IMG_6869

Heilsteiktur kjúklingur með karrí- og eplasósu


IMG_0194Ég er smátt og smátt að fara í gegnum gömlu uppskriftabókina mína og færa uppskriftirnar þaðan yfir á þetta blogg. Þennan kjúklingarétt eldaði ég fyrir nokkuð löngu síðan en gleymdi að setja hann inn á bloggið þá. Ég hef ekki eldað þennan kjúklingarétt oft eftir að við fluttum til Íslands en þegar við bjuggum úti í Svíþjóð eldaði ég hann reglulega. Heilir kjúklingar eru ákaflega ódýrir í Svíþjóð og ég notaði hann því mikið. Hér eru reyndar heilir kjúklingar á frekar góðu verði líka, ég ætti því eiginlega að vera duglegri að elda úr heilum kjúklingi. Auk þess fær maður bringur, leggi og læri sem hentar mjög vel fyrir stóra fjölskyldu, krakkarnir vilja leggi, mér finnst lærin best og öðrum líkar best við bringurnar. Mér finnst sósan passa rosalega vel með kjúklingum. Þessi blanda, karrí, epli og ananas fer svo vel saman. Ég elda kjúkling mjög oft í steikarpokum, mér finnst hann verða svo safaríkur og meyr við það. Hins vegar er talað um að pensla kjúklinginn reglulega með mareneringu í þessari uppskrift og þá er ekki hægt að nota steikarpoka, betra að nota steikarpott. Ég sleppti reyndar að þessu sinni mareneringunni, kryddaði kjúklinginn vel með kjúklingakryddi og steikti í steikarpoka. Marineringin er samt rosalega góð, mæli með henni.

IMG_0166 Uppskrift:

 • 1 kjúklingur
 • salt og pipar
 • 1 msk olía
 • 30 g smör, brætt
 • 1 msk hunang
 • 1 msk soja
 • 1 gulur laukur, skorinn í bita
 • 2 epli, afhýdd og skorin í bita
 • 5 ananashringir, skornir í bita
 • 5 dl kjúklingasoð (gerður úr kjúklingakrafti og sjóðandi vatni)
 • 1,5 tsk karrí
 • 1 tsk kartöflumjöl eða maísenamjöl (hægt að sleppa)
 • salt og pipar
 • 2 msk smjör

IMG_0203

Ofinn settur á 200 gráður. Kjúklingurinn saltaður og pipraður. Smjöri, hunangi og sojasósu blandað saman og kjúklingurinn smurður með blöndunni. Kjúklingurinn lagður í eldfast mót og grillaður í ofni í 50-60 mínútur við 200 gráður, fer eftir stærð. Kjúklingurinn smurður reglulega með mareneringunni á meðan. Laukur, epli og ananas steiktur í smjöri í stutta stund án þess að það taki lit, þá er karrí stráð yfir og steikt í 1 mínútu til viðbótar. Kjúklingakraftinum hellt út í, suðan látin koma upp og kartöflumjöli eða maísenamjöli bætt út í til að þykkja sósuna (ath. sósan er gerð úr kjúklingakrafti og verður alltaf fremur þunn). Sósan látin malla í nokkrar mínútur, í lokin er smjöri bætt út í sósan smökkuð til með salti og pipar. Kjúklingurinn og sósan borin fram með hrísgrjónum.

IMG_0167