Það er með ólíkindum hversu mjúkt og safaríkt kjöt verður þegar það er hægeldað. Um helgar finnst mér fátt betra en að hægelda lambalæri eða lambahrygg. Ef ég elda nautakjöt þá elda ég það „sous vide“. Reyndar þá á ég ekki sérstakar græjur til þess en ég hef notað skothelda aðferð frá Lækninum í eldhúsinu, ég vef nautalundinni inn í plastfilmu og hægelda í ofni við 60 gráður í nokkra tíma og steiki það svo snöggt á öllum hliðum, þannig verður kjötið lungamjúkt og dásamlega gott.
Um síðastliðna helgi var ég með heilan kjúkling í matinn og fór að hugleiða hvort ég gæti ekki hægeldað hann. Ég keypti heilan frosin kjúkling frá Rose (fékk hann í Fjarðarkaup – hef líka séð hann í Hagkaup), mér hann svo mjúkur og góður en ekki síst er frábært hversu stór hann er, 1600 gr, þá þarf ég ekki að elda tvo heila kjúklinga. Ég tók kjúklinginn úr frystinum á laugardegi og setti hann inn í ísskáp. Á sunnudeginum hægeldaði ég kjúklinginn og mikið óskaplega varð hann ljúffengur! Það var dálítið fyndið að fylgjast með viðbrögðum fjölskyldunnar sem settust öll við borðið á mismunandi tíma. Þau brugðust öll nákvæmlega eins við, „ummmm“ heyrðist í þeim eftir fyrsta bita og svo spurðu þau hissa, „hvernig kjúklingur er þetta?!“ Ég mæli því óhikað með þessari eldunaraðferð ef þið viljið fá dásamlega safaríkan kjúkling. Með honum hafði ég allskonar grænmeti, meðal annars fenniku sem mér finnst svo góð með sínum milda anískeimi en það er hægt að notað hvaða rótargrænmeti sem er í þessa uppskrift.
Uppskrift:
- 1 heill kjúklingur, ca. 1600 g (ég notaði frá Rose)
- Kalkúnakrydd
- 50 g smjör
- 1/2 dl sojasósa
- 1 appelsína, skorin í báta
- 1 heill hvítlaukur, afhýddur
- 1 sæt kartafla, skorin í bita
- 8 meðalstórar kartöflur
- 1 fennika, skorin í bita
- 1 lítil sellerírót, skorin í bita
- ca. 2 msk hveiti
- 3 dl matreiðslurjómi
- rifsberjahlaup
- salt og pipar
Bakarofn hitaður í 110 gráður við undir- og yfirhita. Kjúklingur er afþýddur, skolaður og þerraður. Þá er hann fylltur með appelsínubátum og hvítlauksrifum. Kjúklingurinn er settur í ofnpott. Smjör og sojasósa er brætt saman í potti og hellt yfir kjúklinginn og hann nuddaður vel á öllum hliðum upp úr smjörbráðinni og því næst kryddaður vel. Þá er grænmeti raðað þétt í kringum kjúklinginn. Lokið er sett yfir ofnpottinn og hann settur inn í ofn við 110 gráður í um það bil 3 klukkustundir, +/- hálftíma, fer eftir stærð kjúklingsins. Gott er að nota kjöthitamæli og stinga honum djúpt milli bringu og læris, þar eldast fuglinn seinast. Þegar hitinn er kominn í ca. 70 gráður er lokið tekið af pottinum og hitinn hækkaður í 200 gráður í ca. 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn hefur tekið fallegan lit. Þá er ofnpotturinn tekinn úr ofninum og kjúklingurin færður á disk undir álpappír. Grænmetið er veitt upp úr pottinum og vökvanum hellt í pott í gegnum sigti. Vökvinn er látinn standa í pottinum um stund þar til fitan flýtur upp á yfirborðið. Þá er hún veidd af og pískuð saman við hveiti þar til blandan verður þykk. Suðan er látin koma upp á soðinu og hveitibollan pískuð saman við á meðan. Þá er rjómanum bætt út í og sósan látin malla þar til hún hefur þykknað passlega (við þörfum er hægt að nota sósujafnara og sósulit). Gott er að smakka sósuna til með rifsberjahlaupi og salti & pipar.
Sævar Már vínþjónn mælir með því að njóta kjúklingsins með silkimjúka hvítvíninu Casillero del Diablo Chardonnay. Það er ljóssítrónugult. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Sítrus, hunangsmelóna,eik.