Ég er smátt og smátt að fara í gegnum gömlu uppskriftabókina mína og færa uppskriftirnar þaðan yfir á þetta blogg. Þennan kjúklingarétt eldaði ég fyrir nokkuð löngu síðan en gleymdi að setja hann inn á bloggið þá. Ég hef ekki eldað þennan kjúklingarétt oft eftir að við fluttum til Íslands en þegar við bjuggum úti í Svíþjóð eldaði ég hann reglulega. Heilir kjúklingar eru ákaflega ódýrir í Svíþjóð og ég notaði hann því mikið. Hér eru reyndar heilir kjúklingar á frekar góðu verði líka, ég ætti því eiginlega að vera duglegri að elda úr heilum kjúklingi. Auk þess fær maður bringur, leggi og læri sem hentar mjög vel fyrir stóra fjölskyldu, krakkarnir vilja leggi, mér finnst lærin best og öðrum líkar best við bringurnar. Mér finnst sósan passa rosalega vel með kjúklingum. Þessi blanda, karrí, epli og ananas fer svo vel saman. Ég elda kjúkling mjög oft í steikarpokum, mér finnst hann verða svo safaríkur og meyr við það. Hins vegar er talað um að pensla kjúklinginn reglulega með mareneringu í þessari uppskrift og þá er ekki hægt að nota steikarpoka, betra að nota steikarpott. Ég sleppti reyndar að þessu sinni mareneringunni, kryddaði kjúklinginn vel með kjúklingakryddi og steikti í steikarpoka. Marineringin er samt rosalega góð, mæli með henni.
- 1 kjúklingur
- salt og pipar
- 1 msk olía
- 30 g smör, brætt
- 1 msk hunang
- 1 msk soja
- 1 gulur laukur, skorinn í bita
- 2 epli, afhýdd og skorin í bita
- 5 ananashringir, skornir í bita
- 5 dl kjúklingasoð (gerður úr kjúklingakrafti og sjóðandi vatni)
- 1,5 tsk karrí
- 1 tsk kartöflumjöl eða maísenamjöl (hægt að sleppa)
- salt og pipar
- 2 msk smjör
Ofinn settur á 200 gráður. Kjúklingurinn saltaður og pipraður. Smjöri, hunangi og sojasósu blandað saman og kjúklingurinn smurður með blöndunni. Kjúklingurinn lagður í eldfast mót og grillaður í ofni í 50-60 mínútur við 200 gráður, fer eftir stærð. Kjúklingurinn smurður reglulega með mareneringunni á meðan. Laukur, epli og ananas steiktur í smjöri í stutta stund án þess að það taki lit, þá er karrí stráð yfir og steikt í 1 mínútu til viðbótar. Kjúklingakraftinum hellt út í, suðan látin koma upp og kartöflumjöli eða maísenamjöli bætt út í til að þykkja sósuna (ath. sósan er gerð úr kjúklingakrafti og verður alltaf fremur þunn). Sósan látin malla í nokkrar mínútur, í lokin er smjöri bætt út í sósan smökkuð til með salti og pipar. Kjúklingurinn og sósan borin fram með hrísgrjónum.