Jólaglögg og piparkökur með gráðosti og valhnetum í hunangi


IMG_1494

Þið eruð kannski að velta vöngum yfir þessari samsetningu í fyrirsögninni og finnst hún fráleit. Sko, eitt af því allra besta sem ég veit eru mygluostar! Auðvitað er þetta nafn samt, „mygluostar“ alveg glatað og hljómar frekar ógirnilega. Uppáhaldsosturinn minn er Gullostur (það nafn hljómar hins vegar vel!) og ég held að ég borði næstum því einn á viku! Ætli það sé ekki meinhollt örugglega? Á seinni árum er ég meira að segja farin að kjósa góðan ostbita fram yfir súkkulaðibita, hversu fullorðins er það?! 😉 Miðað við þessa ostaást mína þá mætti halda að piparkökur með gráðosti væru mitt uppátæki en svo er alls ekki. Þessi samsetning er algeng og vinsæl í Svíþjóð. Þar fer maður ekki í jólaglögg án þess að fá þetta gúmmelaði með glögginni. Jólaglögg er líka afar vinsæll drykkur í Svíþjóð á aðventunni, ég hef ekki orðið eins mikið vör við það hér. Í Svíþjóð er hægt að kaupa allskonar tegundir af tilbúinni jólaglögg í Ríkinu. Hér þarf að hafa aðeins meira fyrir glögginni en það er alveg þess virði. Það er svo notalega jólalegt að sötra heita glögg með möndlum og rúsínum á köldu desemberkvöldi og gæða sér á piparkökum með góðum ostum. Þeim sem líkar ekki gráðostur geta farið í mildari samsetningu, t.d. notað brie eða Gullost. Ég mana ykkur til að prófa þessa dásemd, ég lofa því að þið lítið ekki piparkökur sömu augum eftir það! 🙂

IMG_1490

Jólaglögg:

  • 1 flaska rauðvín
  • 1 dl vodka
  • 10 kardimommu belgir
  • 1 -2 kanilstangir
  • ca 3 cm engifer skorið í bita
  • 8 negulnaglar
  • 4 appelsínusneiðar
  • 1½ dl sykur
  • möndlur & rúsínur

Öllu kryddi nema sykri blandað saman við vodka og látið standa yfir nótt við stofuhita. Þá er sykrinum blandað saman við vodkablönduna og hitað að suðu. Blandan má þó alls ekki sjóða. Því næst er kryddið sigtað frá og rauðvíni blandað saman við. Möndlur og rúsínur settar út í eftir smekk. Borið fram með gómsætum piparkökum með ostum.

gl_gg_989708c

Piparkökur með gráðosti og valhnetum í hunangi

  • piparkökur
  • gráðostur, t.d. blár kastali (og/eða jólabrie eða Gullostur)
  • valhnetur
  • gott hunang

Valhnetur hakkaðar gróft og þær settar í skál. Hunangi hellt yfir þannig að það þeki valhneturnar vel en að það renni samt ekki út um allt þegar það er sett á ostinn. Osturinn skorinn í skífur og lagður á piparkökurnar, hunangs-valhneturnar settar yfir ostinn.

IMG_1496

10 hugrenningar um “Jólaglögg og piparkökur með gráðosti og valhnetum í hunangi

    • Sæl Silla! Hreindýrið fékk ég í Blómavali Skútuvogi. Ég sá bara þetta eina, kannski eru til fleiri í Blómavali Grafarholti. …já og svo kostaði það bara 1900 krónur sem mér fannst vel sloppið! 🙂

  1. Mjög girnilegt – prófaði einmitt þessa gráðosta piparköku samsetningu fyrir nokkrum árum og þá var ekki aftur snúið! algjör snilld 🙂 Sniðugt að setja hneturnar og hunangið með.

  2. Glöggið mjög girnilegt 🙂 En ein spurning hvar færðu kardimommu belgi? Hef ekki mikið heyrt um það.

    • Þeir eru til í Þinni Verslun til dæmis, eru seldir í kryddglösum. Svo hafa þeir líka verið seldir í litlum pokum í Tiger. Ég myndi giska að þeir væru líka til í Hagkaup og örugglega fleiri verslunum. 🙂

  3. Bakvísun: Piparkökubrownies með hvítu súkkulaði | Eldhússögur

  4. Nú verð ég að forvitnast aðeins hjá þér hvar þú fékkst þetta fína laukaglas (er það orð?) undir hýasintuna? Ég gerði dauðaleit að svona glasi fyrir jólin í fyrra án árangurs. Finnst þetta svo ofsalega fínt 🙂

    • Já, mér finnst voða gaman að vera með hýasintu í svona glasi yfir aðventuna. 🙂 Ég keypti þetta glas í fyrra og minnir að það hafi verið í Blómavali frekar en Garðheimum. Ég var í Blómavali í dag og sá svipað glas undir Hýasintu, þó ekki alveg eins. Var samt ekkert að leita, kannski er þetta glas til enn.

      • Frábært, ég athuga það. Þau kláruðust snemma á aðventunni í fyrra svo ég skunda í Blómaval í morgunsárið 🙂

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.