Mér finnst svolítið gaman að sjá hér á blogginu hvaða leitarorð leiða lesendurna inn á síðuna mína. Þegar uppskriftunum fer fjölgandi eru fleiri og fleiri sem koma í gegnum leitarsíður inn á bloggið, mörg hundruð daglega. Stundum renni ég yfir listann og fæ innblástur af leitarorðunum. Til dæmis hafði einhver leitað að: lax + teriyaki sósu en sú leit beindi viðkomandi inn á síðuna mína. Mér fannst það hljóma svo girnilega að ég ákvað að elda teriyaki lax í kvöldmatinn! Hins vegar held ég að sá sem leitaði að „blautar sögur“ hafi orðið fyrir vonbrigðum þegar viðkomandi lenti hér inni á Eldhússögum! 😉
Rétturinn er ákaflega einfaldur að matreiða, ég notaði bara það grænmeti sem ég átti til en það er hægt að nota gulrætur, kúrbít, lauk, sveppi, blómkál eða bara það sem hugurinn girnist. Ég gef líka upp magn hér að neðan en það fer eiginlega bara eftir smekk og plássi í eldfasta mótinu. Öllum í fjölskyldunni fannst þessi laxaréttur æðislega góður og hann verður sannarlega eldaður aftur.
Uppskrift:
- 1 kíló laxaflök
- salt og pipar, eftir smekk
- ca. 100 ml teriyaki sósa, magnið fer dálítið eftir smekk (ég nota sósu frá La Choy)
- ca. 100 gr sveppir, skornir í fernt
- ca. 200 gr gulrætur, sneiddar gróft
- ca. 100 gr. brokkolí, skorið í stóra bita
- 3 fersk chili, kjarnhreinsuð og sneidd langsum
- salatblanda (ristaðar blandaðar hnetur, t.d. frá Náttúru)
- sesamfræ
Ofn hitaður í 180 gráður. Laxaflakið/flökin eru roðflett, skorin í hæfilega bita og lögð í stórt eldfast mót. Laxinn saltaður og pipraður eftir smekk. Grænmetið skorið eins og segir hér að ofan og raðað í kringum laxinn. Teriyaki sósunni helt yfir laxinn og aðeins yfir grænmetið, því næst er salatblöndunni og sesamfræunum dreift yfir. Bakað í ofni í ca 20-25 mínútur eða þar til laxinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og góðu brauði.
Haha, blautar sögur… snilld! Núna koma örugglega ennþá fleiri í vafasömum tilgangi inn á síðuna þar sem þú ert búin að skrifa „blautar sögur“ í bloggfærslu. 🙂
Og ég búin að skrifa það tvisvar sinnum í athugasemd…
Hahaha… þetta verður vinsælasta leitarniðurstaðan á Google með þessu framhaldi! 🙂
Nammi namm. Mjög gott.
Hahaha „blautar sögur“. Þú kannski skellir inn einni slíkri svo allir séu glaðir!
En rosalega girnilegur réttur. Ætla sko að prófa 🙂
Já, það væri allavega alveg nýr vinkill hjá matarbloggi og gerði það dálítið einstakt! 😉