Súkklaðimús með karamelliseruðum perum


IMG_9047

Gleðilega páska kæru lesendur! Páskadagurinn hefur verið sólríkur og ljúfur. Flestir eru væntanlega búnir njóta góðrar páskadagsmáltíðar. Ég get séð á tölfræðinni á blogginu mínu hver virðist vera vinsælasti maturinn í dag. Hægeldað lambalæri, lambahryggur og hamborgarhryggur á vinninginn ásamt góðum kartöflum! Þetta eru sem sagt vinsælustu leitarorðin á leitarvélum, til dæmis á Google, sem leiða inn á síðuna mína þennan dásamlega páskadag. Það væri gaman að heyra hvaða páskamatur var á ykkar borðum í dag! 🙂

wordpress

Í gærkvöldi nutum við stórfjölskyldan páskamáltíðar saman heima hjá foreldrum mínum. Í matinn voru gómsæt lambafille. Ég útbjó eftirrétt sem hlaut góðar undirtektir, svo góðar að meira að segja Símon bróðir sem er ekki hrifinn af eftirréttum var búinn með sinn skammt áður en flestir höfðu byrjað á sínum! 😉

páskar

Mér finnst alltaf svolítið skemmtilegt að bera eftirrétti fram í litlum skálum fyrir hvern og einn, það er einhvern veginn meiri lúxus tilfinning yfir því. Ég gerði 16 eftirrétti og þá gildir að eiga nægilega mikið af skálum og pláss í ísskápnum!

IMG_9049

Uppskrift fyrir 6:

  • 4 perur (best að nota harðar perur)
  • 2 msk smjör
  • 3 msk sykurIMG_9039
  • 3 dl rjómi
  • 150 g súkkulaði (ég blandaði mjólkursúkkulaði og suðusúkkulaði til helminga)
  • 3 eggjarauður
  • rifið súkkulaði til skrauts
Perurnar eru afhýddar og skornar í bita. Smjörið og sykurinn hitað á pönnu þar til það byrjar að brúnast og mynda karamellu. Þá er perunum velt upp úr karamellunni á meðalhita í nokkrar mínútur þar til perurnar hafa mýkst og fengið karamelluhúð. Perunum er skipt í sex glös eða skálar.
IMG_9043
Rjóminn er þeyttur og geymdur í ísskáp. Þá er súkkulaðið brætt yfir vatnsbaði á meðan eggjarauðurnar eru þeyttar í skál með handþeytara eða við hægan hraða í hrærivél. Þegar brædda súkkulaðið hefur kólnað dálítið er því bætt út í eggjarauðurnar og þeytt vel á meðan. Þá er þeytta rjómanum blandað vel saman við súkkulaðiblönduna. Súkkulaðimúsinni er dreift jafnt yfir perurnar í skálarnar sex. Skreytt með rifnu súkkulaði og geymt í ísskáp þar til borið fram.
IMG_9051

Chili-hakk í salatvefju


IMG_9033

Ég er býsna spennt yfir þeirri matargerð sem bíður mín næstu vikurnar. Ég pantaði nefnilega 1/4 af nautaskrokk beint frá býli. Ég hef gert það áður og það er svo mikill munur á gæðum kjötsins, sérstaklega nautahakkinu, miðað við það sem er keypt hjá stórmörkuðunum. Ég pantaði kjöt frá Mýranauti. Þeir eru með svo góða þjónustu. Í fyrsta lagi er hægt að biðja um að þau geri hamborgara úr hluta af nautahakkinu gegn mjög vægri greiðslu. Í öðru lagi er hægt að fá snitsel úr klumpinum og flatsteikinni, sem annars nýtist kannski ekki sérlega vel. Í þriðja lagi þá er hægt að panta hakkið og gúllasið í þeim stærðarpakkningum sem maður óskar. Og í fjórða lagi er kjötið keyrt beint heim til manns! Ég fékk kjötið heim rétt fyrir páska og þar leyndust afar girnilegir bitar, nautalund, sirloin steik, ribeye, entrecote og fleira. Ég held að kalkúninn á páskadag sé mögulega að víkja fyrir gómsætri nautasteik! 🙂

IMG_8845IMG_8850

Ég prófaði nautahakkið strax í dag, það var afar ljúffengt. Ég gerði nokkurs konar smárétt eða tapasrétt sem var mjög bragðgóður, skemmtilegt að útbúa og enn skemmtilegra að borða. Frábær og fljótlegur smáréttur með köldum bjór eða sniðugur réttur á hlaðborð. Eins gæti þetta verið góður réttur til að bera fram með fleiri mexíkóskum smáréttum. Ég ákvað að búa til guacamole með þessum rétti, mér fannst það voða gott með, eins bar ég fram með þessu nachos fyrir þá sem vildu dálítið af kolvetnum! 😉 Salatið fæst í Hagkaup, mér finnst það ómissandi með þessum rétti en það er líka hægt að nota venjulegar tortillakökur.

IMG_9036

Uppskrift:

  • 800 g nautahakka
  • salt & pipar
  • olífuolía
  • 1-2 rauður chili
  • 2 hvítlauksrif
  • 5 cm biti af fersku engifer
  • 3 vorlaukar
  • 1 msk sesamolía
  • 1 msk púðursykur
  • 1 tmsk fiskisósa (fish sauce)
  • hýði af 1 límónu (lime)
  • safi frá ½ límónu
  • hjartasalat (fæst m.a. í Hagkaup)
Hakkið steikt á pönnu upp úr ólífuolíunni, saltað og piprað vel. Steikt á fremur háum hita til þess að hakkið nái góðum lit. Þegar hakkið er steikt í gegn er því hellt í sigti þannig að öll fita renni af því.
Chili, hvítlaukur og engifer er fínsaxarð og steikt upp úr sesamolíunni. Þá er sykrinum bætt út á pönnuna og því næst er hakkinu bætt út í ásamt fiskisósunni, límónuhýðinu og límónusafanum. Vorlaukarnir eru saxaðir niður og þeim bætt út í lokin.
IMG_9016
Sósa:
  • 1 tsk púðursykur
  • 1 tsk sojasósa
  • safi frá ½ límónu (lime)
  • ½ chili, saxað
  • 1-2 tsk fiskisósa (fish sauce)
  • ferskt kóríander eftir smekk, saxað (ég notaði 1/2 30 gramma box)
  • 1 msk ólífuolía

Öllum hráefnunum er blandað vel saman. Hakkið er borið fram í hjartasalatsblöðunum og sósunni dreift yfir.

IMG_9025

Bruschetta með mozzarella, tómötum og basiliku


IMG_8860

Gleðilega páska kæru lesendur! Skírdagur var ljúfur hjá okkur fjölskyldunni. Við reyndum að njóta dagsins út í hið ýtrasta þar sem að þetta er eini frídagur Elfars yfir páskana. Hann verður á vakt frá og með morgundeginum fram á annan í páskum. Þá fer hann í viku vinnuferð til Stokkhólms. Allir sváfu vel út og því næst var farið í páskaeggjainnkaup. Það tók dálítinn tíma því það er um svo mörg páskaegg að velja. Jóhanna Inga var í stökustu vandræðum því hana langaði í hefðbundið Nóa og Siríus egg en sætasti páskaunginn var á Rís páskaegginu. Þetta var mikil klemma sem tók langan tíma að greiða úr! 🙂

Við fórum svo í bíó á The Croods og skemmtum okkur konunglega, mjög skemmtileg mynd. Kvöldmaturinn var ljúffengi karríkjúklingurinn með sætum kartöflum. Ég var með saumaklúbb í gær og bauð upp á þennan rétt. Að vanda elda ég fyrir heilan her. Það var því einföld eldamennskan þegar við komum heim úr bíóinu, rétturinn bara hitaður upp fyrir okkur fjögur en elstu krakkarnir eru í útlöndum. Ég held svei mér þá að rétturinn sé jafnvel enn betri daginn eftir!

Heimilið er komið í einfaldan páskabúning. Það er nú ekkert auðvelt að finna fallegt páskaskraut en mér finnst páskaliljur, túlípanar og perluliljur (eða heita þær perlu-hyasintur?) svo falleg blóm og nota þau til þess að fá páska- og vortilfinningu inn á heimilið.

IMG_8939

Diskurinn á stofuborðinu kominn í páskabúning

IMG_8927

Það er svo notalegt svona snemmvors að geta notið dagsbirtunnar lengi en samt geta kveikt á kertum á kvöldin.

IMG_8933

Túlípanar eru mín uppáhaldsblóm. Það eru til nokkur góð ráð til að láta túlípana standa lengi. Í fyrsta lagi læt ég þá standa í vasanum í vatni, í plastinu sem þau koma í, í nokkra klukkutíma. Það gerir það að verkum að þeir standa svona þráðbeinir. Svo passa ég að hafa ekki mikið vatn en bæti köldu vatni á þá reglulega og set stundum klaka út í vatnið, þá standa þeir lengur.

IMG_8898IMG_8913

Páskaliljur eru ómissandi og sæt/ljótu páskaungarnir fá að kúldrast í vasa! 🙂

IMG_8907

Páskagrenið er alveg ómissandi um páskana.

IMG_8917IMG_8919

Í gærkvöldi í saumaklúbbnum var ég með einfaldan bragðauka fyrir matinn, bruchetta með mozzarella, tómötum og basiliku. Þessar snittur eru einfaldar að útbúa en afar gómsætar.

Uppskrift:

  • 1 snittubrauð
  • 2 hvítlauksrif
  • ólífuolía
  • 1 msk balsamic edik
  • 1 askja kokteiltómatar eða 3-4 tómatar
  •  fersk basilika eftir smekk (ég notaði ca. 1/3 af 30 gramma boxi)
  • 1 kúla Mozzarella ostur
  • salt og pipar
  • ca. 1/2 dl parmesan ostur, rifinn

Bakarofn stilltur á 200 gráður, undir- og yfirhita. Brauðin eru sneidd í mátulega þykkar sneiðar, dálítið á ská þannig að sneiðarnar verði stærri. Sneiðunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og hver og ein sneið pensluð með ólífuolíu. Brauðin bökuð við 200 gráður í nokkrar mínútur þar til þau hafa tekið smá lit. Þá eru þau tekin út og leyft að kólna á meðan tómatablandan er útbúin.

Tómatarnir skornir í litla bita, basilikan söxuð, mozzarella kúlan skorinn í bita og hvítlaukurinn pressaður. Þessu síðan öllu blandað í skál ásamt ediki, rifnum parmesan osti, salti og pipar. Blandan er sett ofan á brauðin og þau sett inn í ofn við 200 gráður í ca. 8-10 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður.

IMG_8855

Þorskhnakkar i Miðjarðarhafssósu


IMG_8748

Þessi fiskréttur er einn af þeim réttum sem ég gerði um daginn og var svo góður en ég finn ekki uppskriftina af. Ég sem sagt týndi miðanum sem ég hafði skrifaði uppskriftina á! Mjög pirrandi því þessi fiskréttur var ljúffengur. Ég er hins vegar búin að rýna í myndirnar og reyna að muna. Og viti menn, smátt og smátt rifjast þetta upp! Ég ætla því að skrifa niður þessa uppskrift eftir minni, vona að það takist. En fyrst ætla ég að skrifa til gamans hvað ég er búin að borða í dag fram að kvöldmatnum.

Dagurinn byrjaði á AB-mjólk og heimatilbúnu múslí. Ég er með uppskriftina af því hér og í þeirri færslu mæri ég þetta múslí mikið, enda er það dásamlega gott!

IMG_9722

Í hádeginu fékk ég mér svona eggjaköku. Mér finnst eggjakökur svo geggjað góðar og ég fæ mér oftast eina slíka ef ég er heima í hádeginu. Ég er dálítið vanaföst, mér finnst best að hafa í henni brokkolí og sveppi. Svo finnst mér afar gott og eiginlega nauðsynlegt að bera fram með henni Gullost, melónu eða einhvern annan ávöxt og/eða avókadó.

IMG_6897

Í kaffitímanum fékk ég mér gróft brauð, Dinkelbergerbrauð, með skinku, káli, avókadó og kiwi. Ef þið hafið ekki smakkað gróft brauð með skinku, káli og kiwi þá eruð þið að missa af miklu! 🙂

IMG_8815

Sem betur fer þá bjargaði Ali mér algjörlega rétt eftir að við fluttum til Íslands. Í Svíþjóð var skinkan silkiskorin og ljúffeng ofan á brauð. Hér á Íslandi var bara til (og er enn) þykk og hlaupkennd skinka sem okkur finnst alveg óæt. En nokkrum mánuðum eftir að við fluttum til landsins rættist úr þessu skinkuástandi og Ali fór að framleiða silkiskorna skinku, bæði reykta og soðna sem er mun skárri en þessi þykka og hlaupkennda. Langbest er þó skinkan úr Pylsumeistaranum Laugalæk. Ég nota alltaf tækifærið þegar ég fer þar framhjá og kaupi gómsæta, ekta skinku.

IMG_8816

Þetta í glasinu er einn af mínum löstum, kók light! Jamm, ég er kókisti! Ég hef reynt að hætta og var hætt í hálft (leiðinlegt) ár en byrjaði svo aftur. Mér þætti mikið meira töff að við hlið disksins væri glas með ljúffengu latte, það væri smart! En mér finnst kaffi bara svo hrikalega vont, ég get ekki vanist því. Samt vantar mig koffeinið. Hvað á kona að gera í því annað en að fá sér kók light!? Kók er nú samt ekkert alslæmt og ég gerði meira að segja ljúffenga köku eitt sinn úr kóki. Hún var ekki bara skemmtileg í útliti heldur líka safarík og afar bragðgóð!

IMG_9658

Ég get hins vegar gortað mig af því að kókið er líklega það eina óholla sem ég innbyrti í dag. Ég get vel farið í gegnum daginn án sætmetis. En líklega mun ég samt fá mér í kvöld nokkra mola af Marabou súkkulaðinu með hnetum og rúsínum sem ég hef falið vel hér heima! 🙂

En hér kemur fiskuppskriftin góða.

Uppskrift: 

  • 600 g þorskhnakkar
  • 1 msk rósapipar, mulinn
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • safi úr 1/2 sítrónu
  • smjör til steikingar
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 150 g sveppir, niðursneiddir
  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður fínt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 dl hvítvín
  • mozzarella ostur, rifinn
  • 1 egg

IMG_8734

Ofninn er hitaður í 200 gráður og stilltur á grill. Fiskurinn er kryddaður með rósapipar, salti, pipar og sítrónusafanum dreift yfir fiskinn. Fiskurinn er steiktur á pönnu upp úr smjörinu á báðum hliðum þar til hann hefur náð góðum lit á báðum hliðum. Þá er hann tekinn af pönnunni og lagður í smurt eldfast mót. Sveppum, lauk og hvítlauk bætt út á pönnuna. Þetta er steikt í smástund (smjöri bætt við eftir þörfum) og þá er tómötum og hvítvíni bætt út á pönnuna, saltað og piprað. Sósan er látin malla í ca. 10 mínútur. Þá er henni hellt yfir fiskinn.

IMG_8736

Eggi er blandað saman við mozzarella ostinn og því næst er honum dreift yfir réttinn. Hitað í ofni sem er stilltur á grill við 200 gráður í um það bil 15 mínútur eða þar til osturinn hefur náð lit og fiskurinn er eldaður í gegn.

IMG_8742

Sætkartöflusúpa með kjúklingi


IMG_8803

Við áttum góða helgi með frábærri fermingarveislu, ljúfum kvöldverði með góðum vinum á veitingastaðnum Mar og sundferð. Svo slökuðum við bara almennt vel á í dásamlega veðrinu sem hér hefur verið undanfarið og ekkert lát er á. Ósk er hins vegar á ferðalagi um Þýskaland og Pólland með Versló. Hún er í valáfanga sem heitir Helförin og þau eru að skoða útrýmingarbúðir meðal annars í Auschwitz. Þetta er örugglega einstök upplifun fyrir krakkana.

Ég rak augun í að Snickerskakan hér á síðunni er komin yfir tvö þúsund deilingar, „2K“, það er alveg með ólíkindum! Það er klárt mál að vinsælustu uppskriftirnar á síðunni minni eru alltaf girnilegar kökuuppskriftir. Ég ætla nú samt „bara“ að koma með uppskrift af súpu í dag! Þessi súpa er svolítið skemmtileg því hún er búin til úr kjúklingaleggjum. Grunnurinn er hollur og góður úr meðal annars sætum kartöflum og gulrótum. Þetta er afar bragðgóð og saðsöm súpa sem sló gegn hér heima, við mælum með henni! 🙂

Uppskrift:

  • 6 kjúklingaleggir (ca. 600 g)
  • 1 stór kartafla, afhýdd og skorin í litla bita
  • 2-3 gulrætur, skornar í litla bita
  • 1 gulur laukur, skorin í litla bita
  • 5 hvítlauksrif
  • 1 sæt kartafla (ca. 400 g), afhýdd og skorin í litla bita
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í bita
  • ferskur engifer, ca. 3 cm, skorin í litla bita
  • ca. 1 líter vatn
  • smjör
  • 3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 3 kjúklingatengingar
  • 1 tsk karrí
  • 1 tsk Ground Cumin
  • 1/2 stk hvítlauksduft
  • 1 tsk meiram (marjoram) – krydd
  • 1 tsk oregano
  • salt og pipar

IMG_8799

Góður biti af smjöri bræddur í stórum potti og karrí, cumin og hvítlaukskryddi bætt út í þannig að það steikist í örstutta stund. Þá er kjúklingaleggjunum bætt út í og þeir steiktir í smástund þar til kryddin fara að ilma dásamlega, hrært vel í þeim á meðan. Þá er öllu grænmetinu bætt út í fyrir utan hvítlaukinn og steikt í stutta stund. Því næst er vatni hellt út í pottinn þannig að það nái yfir grænmetið og kjúklinginn, ég notaði ca. 1.2 líter. Þá er hvítlauknum bætt út ásamt engiferbitunum auk þess sem oregano og meiram er bætt út í ásamt kjúklingateningum. Látið malla þar til kjúklingurinn fer að losna af beinunum (þá má bæta við vatni ef súpan verður of þykk).

Þá eru kjúklingaleggirnir veiddir upp úr og kjötið losað frá beinunum og það skorið í minni bita ef með þarf.  Súpan með grænmetinu er maukuð með töfrasprota eða í matvinnsluvél þar til súpan er slétt og bitalaus. Þá er kjúklingabitunum bætt út í ásamt rjómanum og súpunni leyft að malla í smástund í viðbót. Smökkuð til með salti, pipar og fleiri kryddum ef þarf.  Súpan er borin fram með grófsöxuðu kóríander eða steinselju.

IMG_8805

Tíu tillögur af páskamat


páskar1

Núna er páskarnir að bresta á og margir líklega farnir að huga að páskamatnum. Mér finnst páskarnir dásamleg hátíð, laus við kröfur og hefðir. Jólin geta verið svo mislöng, í versta falli bara tveir dagar. Páskarnir eru hins vegar alltaf fimm frábærir frídagar. Það fylgja páskunum engar kvaðir um miklar skreytingar, uppsetningu á útiseríum, jólatrjám og slíku, hvað þá gjafakaup og bakstur. Páskarnir skreyta sig að mestu sjálfir með vorsólinni og Krókusum sem gægjast upp úr moldinni. Glaðlegir páskaungar, heiðgular páskaliljur og túlípanar hér og þar í húsinu ásamt skreyttum páskagreinum að sjálfsögðu … voilà … páskaskreytingarnar eru í höfn! Ekki er verra að þetta er lögboðin „borða mikið súkkulaði“ hátíð, hvernig er ekki hægt að elska slíka hátíð?! 🙂

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Við höfum komið upp tveimur páskahefðum. Önnur er kannski svolítið skrítin en hún er sú að við opnum páskaeggin á föstudeginum langa. Okkur fannst svo leiðinlegt að opna ekki páskaeggin fyrr en á páskadag, næst síðasta frídaginn, í stað þess að geta notið þeirra yfir alla páskana. Við ákváðum því að breyta bara hefðinni! Hin hefðin er sú að ég hef páskamatinn í hádeginu á páskadag. Það er eitthvað svo hátíðlegt að borða páskamatinn í hádeginu með páskamessuna í útvarpinu og hækkandi vorsól á lofti fyrir utan gluggann. Það er engin regla hjá mér hvað ég hef í matinn á páskadag. Undanfarin ár hef ég þó haft kalkún, hann er svo góður og svo er ekki síðra að eiga afgang af honum á annan í páskum. Ég hef líka oft haft ýmisskonar lambakjöt og jafnvel grillað nautakjöt en það er þó sjaldgæfara. Í ár verður stórfjölskyldan í mat hjá foreldrum mínum á laugardeginum og við fáum lambakjöt, ég hallast því að því að hafa kalkún á páskadag. Mér finnst líka ofsalega gott að borða góðan fiskrétt á páskunum til þess að vega upp á móti kjötinu. Ég mun örugglega velja einn ljúffengan fiskrétt af listanum hér að neðan og elda hann á föstudaginn langa.

Hér eru tillögur af gómsætum páskamat (í engri sérstakri röð):

IMG_0796

Kalkúnn með brúnuðum kartöflum, sætkartöflumús, gljáðum gulrótum, waldorfsalati, rósakáli með beikoni og himneskri sósu

 

IMG_7407

Hægeldað lambalæri með kartöflum, rjómasósu, grænmeti og sætum kartöflum

 

Roas beef

Roastbeef með bearnaise sósu, kartöflugratíni og spínatsalati með jarðaberjum

 

IMG_7549

Hægeldaður lambahryggur með rauðvínssósu og hunangsgljáðu grænmeti

 

IMG_2352

Grillað lambafille með Hasselback kartöflum, grilluðu grænmeti og sveppasósu

 

Hamborgarhryggur

Gljáður hamborgarhryggur með kóksósu

 

IMG_2678

Grillað nautaribeye með heimagerðri bearnaise sósu og chilikartöflum með papriku

 

IMG_1941

Grilluð sirloin nautasteik með piparsósu

 

IMG_4237

Límónumarineruð laxaspjót með mangó- og avókadósalsa

 

IMG_8244

Ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu

 

IMG_0755

Ofnbakaður humar með heimatilbúnu hvítlaukssmjöri

Límónu/chili kjúklingur með sætum kartöfluteningum og kóríander-kúskúsi


IMG_8586
Ég þarf að taka mig á í skipulaginu. Ég er með myndir og minningar af góðum réttum og kökum sem ég hef útbúið nýlega en ég finn ekki uppskriftirnar! Til dæmis fann ég eina góða kjúklingauppskrift á netinu um daginn, breytti henni heilmikið á meðan ég útbjó réttinn og fannst sjálfsagt að ég myndi hvaða breytingar ég gerði. Núna horfi ég á myndirnar, finn ekki upprunalegu uppskriftina (man ekki einu sinni á hvaða tungumáli hún var) og því síður man ég hvaða breytingar ég gerði! Ég var hins vegar sem betur fer svo forsjál að skrifa niður hvað ég gerði þegar ég eldaði þennan gómsæta kjúklingarétt. Eins og svo oft áður þá laumaði ég sætum kartöflum og kóríander í réttinn, það er bara svo gott! 🙂 Það er ekki óalgengt að fólk líki illa við kóríander, nokkuð sem mér finnst óskiljanlegt! Kóríander gerir flestan mat að hátíðarmat hjá mínum bragðlaukum. En fyrir anti-kóríander fólk þá get ég glatt þá hina sömu með að það verður ekkert afgerandi kóríanderbragð af kúskúsinu, bara gott bragð! Elfari til dæmis líkar ekkert sérlega vel við kóríander en fannst þó þessi réttur afar góður. Það er líka hægt að skipta kóríanderinu út fyrir aðra kryddjurt líkt og basiliku eða blaðasteinselju.
IMG_8575
Uppskrift:

  • 600 g kjúklingabringur
  • 1/2 – 1 sæt kartafla (ca. 300 g)
  • gott kjúklingakrydd
  • salt & pipar
  • 1 msk ólífuolía
  • 6 msk sojasósa
  • 4 msk sykur
  • 1/2 – 1 tsk chili krydd
  • 1 límóna (lime), safinn
  • börkurinn af 1 límónu, finrifinn
  • ferskur kóríander (má sleppa)

Kjúklingurinn er skorinn í bita og kryddaður með kjúklingakryddi, salti og pipar. Sæta kartaflan er skræld og skorin í litla teninga Því næst er hvor tveggja steikt á pönnu í olíunni þar til kjúklingurinn er ekki bleikur lengur og sætu kartöflurnar hér um bil tilbúnar. Þá er kjúklingurinn og kartöflurnar veiddar af pönnunni og lagt til hliðar.
Sojasósu, sykri, chili, límónusafa og límónuberki er hrært saman þar til sykurinn leysist upp. Þá er blöndunni hellt í pott og suðan látin koma upp. Sósan látin malla í 3-4 mínútur þar til hún hefur soðið dálítið niður. Þá er kjúklingnum og sætu kartöflunum bætt út í sósuna og leyft að malla í sósunni í nokkrar mínútur, hrært á meðan til þess að sósan blandist vel við og gefi kjúkling og kartöflum góðan gljáa. Áður en rétturinn er borinn fram er gott að dreifa fersku kóríander yfir hann. Borið fram með kóríander-kúskúsi.

Kóríander-kúskús
  • 500 ml kjúklingasoð
  • 250 g kúskús
  • 30 g ferskt kóríander, saxað
Til þess að útbúa kjúklingasoð er vatn og kjúklingakraftur sett í pott og suðan látin koma upp. Þá er kúskúsi bætt út og potturinn tekinn af hitanum. Látið standa í ca. 5 mínútur. Þá er kóríander blandað út í kúskúsið (hrært vel) og borið fram með kjúklingaréttinum.
IMG_8573

Ofnbakaður lax á spínatbeði með sætum kartöflum


IMG_8722

Ég á litið uppskriftahefti sem Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur gaf út en meðlimir kórsins gefa allir upp eina uppskrift í heftinu. Þar á meðal er að finna afskaplega góða laxauppskrift. Þetta er eiginlega með bestu laxauppskriftum sem ég hef prófað. Þannig að ef ykkur líkar lax og/eða fiskur þá er þetta klárlega réttur sem þið bara verðið að prófa! Ég keypti lax að þessu sinni hjá Fiskikónginum og hann var ofsalega góður. Núna er tilboð hjá Fiskikónginum, hann selur ýmsar tegundir fisks (ekki lax þó) á aðeins 1199 krónur kílóið sem er ótrúlega gott verð. Ég keypti því líka þorskhnakka á tilboði og hlakka til að elda eitthvað spennandi úr þeim á morgun.

Í kvöldfréttunum var frétt um málþing sem snérist um matarleifar og sóun. Ég hef alltaf nýtt mat vel og hendi eiginlega aldrei mat. Reyndar þá erum við líka svo mörg í fjölskyldunni að það eru alltaf einhver börn svöng, það stuðlar að góðri nýtingu matarins! Ísskápshurðin er allavega klárlega sú hurð sem oftast er opnuð á heimilinu! 🙂 Þegar við bjuggum í Stokkhólmi tókum við hjónin alltaf mat með okkur í vinnuna/skóla. Í dag eru það elstu krakkarnir sem eru dugleg að taka með sér afgang í skóla og vinnu. Ég eldaði extra mikið af laxinum í kvöld og það náðist því afgangur fyrir alla fjölskyldumeðlimi (og einn auka sem býr hjá okkur þessa dagana) öllum til mikillar gleði þar sem að laxarétturinn sló í gegn. Já og miðar eru algengir í ísskápnum okkar! Sumir fjölskyldumeðlimir eru búnir að eigna sér hillur, skúffur og slíkt í ísskápnum, þar er maturinn „off limits“. En ef matur er á sameiginlegu svæði þá þarf að merkja hann ef maður vill vera viss um að ganga að honum vísum! 😉 Það er hins vegar bara ein regla sem snýr að mér. Ef einhver finnur súkkulaði í eldhúsinu þá eru 99% líkur á því að ég eigi það! Það má því ALDREI borða súkkulaði án þess að spyrja mig fyrst, þetta gildir bæði um lítil og uppkomin börn sem og eiginmann! 🙂

IMG_8729

Uppskrift:

  • 2 msk ólífuolía
  • 200 g ferskt spínat
  • 700 g laxaflök
  • salt & pipar
  • 1 sæt kartafla (ca. 400 g), rifin gróft
  • 3 gulrætur, rifnar gróft
  • 2 dl kókosmjólk
  • 1 tsk karrímauk
  • 1 msk fiskisósa (fish sauce)
  • 1/2 límóna (lime), safinn
  • 1 tsk hrásykur (eða sykur)

IMG_8715

Ofn er hitaður í 200 gráður, undir- og yfirhita. Ólífuolían er smurð á botninn á stóru eldföstu móti og spínatið lagt í botninn. Laxinn er roðflettur og beinhreinsaður, skorinn í hæfilega stór stykki og þau lögð ofan á spínatið. Þá er laxinn saltaður og pipraður vel. Því næst er sæta kartaflan flysjuð og rifinn gróft, sama er gert við gulræturnar. Þessu er blandað saman og dreift yfir laxinn. Þá er kókosmjólk, karrímauki, fiskisósu, límónusafa og hrásykri blandað saman í skál og hellt yfir sætukartöflurnar/gulræturnar. Bakað í ofni við 200 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til fiskurinn er mátulega eldaður. Borið fram með hrísgrjónum og klettasalati (eða öðru fersku salati).

IMG_8725

Djúpsteiktir kjúklingaleggir með súrsætri sósu og heimagerðu hrásalati


IMG_8640

Við fjölskyldan fórum fyrr í kvöld út í norðurljósaskoðun í fimbulkulda. Himinn var einstaklega fallegur í kvöld, við keyrðum aðeins út fyrir borgina horfðum á frábæra norðurljósasýningu og stjörnubjartan himinn. Yngstu krakkarnir voru afar hrifin, sérstaklega Jóhanna Inga sem er mjög hrifnæm, hún var uppnumin yfir þessu litla kvöldævintýri. Ég er nú engin myndasnillingur en við reyndum að festa á filmu brot af ljósasýningunni. Það er samt ekki hægt að taka almennilega mynd af norðurljósum nema með betri græjum, myndavélastatív og slíku.

IMG_8677

Að allt öðru, þegar ég útskrifaðist um daginn fékk ég margar fallegar og góðar gjafir. Ég fékk nokkrar góðar bækur sem pössuðu mínum bókasmekk einstaklega vel, mínir nánustu þekkja mig greinilega! 🙂 Kannski er það skrítin blanda en ég hef gaman af sögulegum skáldsögum, ævisögum og uppskriftabókum. Ég fékk eina góða uppskriftabók sem ég hlakka til að prófa, Dagbók Elku og ástarljóð Páls Ólafssonar, Ég skal kveða um eina þig alla mína daga. Núna ég að lesa Dagbók Elku af áfergju, frábær bók sem veitir einstaka innsýn í líf alþýðukonu í Reykjavík fyrir einni öld. Ég fékk líka ofsalega fallegan disk og diskakúpu, skreyttan með fallegri slaufu, með heimagerðu konfekti frá Hafliða Ragnarssyni. Frábær hugmynd af fallegri gjöf.

Útskrift7

Núna er allt konfektið löngu búið, mikið var það gott! Nú bíður diskurinn eftir eftir einhverju öðru gúmmelaði eða jafnvel einhverju fallegu páskaskrauti. Kannski fer ég að skoða heimilisblogg og leita mér að  páska-innblæstri! 🙂

IMG_8670

Takk Sólveig og Gabríela fyrir fallegu túlípanana í dag! 🙂

En svo ég víki að aðalatriðinu, mat! Síðan ég djúpsteikti fiskinn hennar Gwynnu um daginn hefur mig dagdreymt um að djúpsteikja eitthvað annað, það gekk nefnilega svo óskaplega vel að djúpsteikja fiskinn og hann var svo góður! Ég ákvað um helgina að djúpsteikja kjúklingaleggi. Ég var eitthvað að velkjast með hvað ég ætti að hafa með þessu og endaði á því að hafa hrísgrjón (soðin í kjúklingasoði), heimatilbúið hrásalat og súrsæta sósu í anda asískra veitingastaða. Þetta heppnaðist allt mjög vel og var voðalega gott. Ég skoðaði allskonar uppskriftir og blogg varðandi að djúpsteikja kjúkling. Nanna Rögnvaldar og Læknirinn í eldhúsinu hafa bæði djúpsteikt kjúkling. Ég fór aðra leið en þau, ég forsauð kjúklinginn svo það þyrfti ekki að djúpsteikja hann eins lengi. Þetta er aðferð sem er mikið notuð í amerískum kjúklinga uppskriftum. Það er líka mikilvægt að krydda kjúklinginn vel. Ég notaði mikið af Tabasco sósu, kjúklingum er velt upp úr sósunni sem er blandað við egg, kjúklingurinn verður ekkert sterkur en sósan gefur gott og mikið bragð. Það var mjög gott að sjóða hrísgrjónin upp úr kjúklingasoðinu og kryddi, það gaf þeim afar gott bragð. Hrásalatið er afar einfalt en ofsalega gott, ég er með grunnuppskrift af því hér en að þessu sinni bætti ég líka við gulrótum. Þegar ég djúpsteiki þá er ég alltaf með eldvarnarteppið við hliðina á mér tilbúið til notkunnar!

IMG_8642

Djúpsteiktur kjúklingur:

  • 16 kjúklingaleggir
  • salt & pipar
  • paprikukrydd
  • 2 kjúklingateningar
  • 2 egg
  • 80 ml vatn
  • ca 1/2 flaska Tabasco sósa
  • 300 g hveiti
  • 2 tsk pipar
  • 1 tsk salt
  • 2 tsk hvítlaukskrydd
  • 2 tsk paprikukrydd
  • olía til djúpsteikingar  (ég notaði corn oil frá Wesson úr Kosti)

Vatn er sett í pott sem passar fyrir alla kjúklingaleggina, út í vatnið er blandað vel af salti, pipar og paprikukryddi auk þess sem kjúklingateningarnir eru leystir upp í vatninu. Suðan er látin koma upp og þá er leggjunum bætt út í pottinn og þeir soðnir í ca. 6 mínútur. Þá eru þeir veiddir upp úr pottinum (ekki hella soðvatninu!) og kældir snöggt undir köldu vatni. Soðvatnið er notað til þess að sjóða hrísgrjónin í. Olía er sett í djúpsteikingarpott eða í stóran, víðan pott, (ég notaði alla olíuna úr flöskunni) og hitað upp í ca. 190 gráður. Ef ekki er notaður hitamælir þá er hægt að prófa sig áfram með því að setja lítinn brauðbita ofan í olíuna. Ef hann verður gullinbrúnn fljótt og það „bubblar“ í kringum hann er olían tilbúin. Egg og vatn hrært saman auk Tabasco sósunnar. Í annarri skál er hveiti og kryddum blandað vel saman. Þegar olían er tilbúin er kjúklingaleggjum velt vel upp úr eggjablöndunni og svo hveitiblöndunni. Nokkrir leggir eru djúpsteiktir í einu, passa verður að hafa ekki of þröngt um þá, þess vegna er gott að nota víðan pott. Ég djúpsteikti kjúklingaleggina í ca. 6 mínútur, þá snéri ég leggjunum varlega við og steikti í 6 mínútur í viðbót. Þetta dugði hjá mér en maður verður að prófa sig áfram, skera í einn legg til að kanna hvort að hann er tilbúinn eftir þennan tíma. Kjúklingurinn er svo lagður á eldhúspappír eftir steikingu. Ef maður djúpsteikir kjúklingaleggina í mörgum hollum er hægt að hafa þá inni í ofni við ca. 100 gráður til að halda þeim heitum. Olíun er kæld, hellt aftur í flöskuna og hún geymd á köldum og dimmum stað, hana er hægt að nota nokkrum sinnum til djúpsteikingar.

IMG_8657

Súrsæt sósa

  •  1 tsk olía
  • 1 msk gulur laukur, saxaður smátt
  • 1 hvítlauksrif, saxað fínt
  • 1 ananas-hringur, skorinn smátt
  • ½ gulrót, skorin í litla teninga
  • 3 dl kjúklingakraftur
  • 1 dl sykur
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 dl hvítvínsedik
  • 3 tsk kartöflumjöl

Olían er hituð í potti og laukurinn steiktur ásamt hvítlauknum í smá stund án þess að hann taki lit þar til laukurinn verður mjúkur og glær. Þá er ananas og gulrótum bætt út í og steitk í stutta stund til viðbótar. Því næst er kjúklingakrafti hellt út í auk tómatpúrrunnar, sykri og hvítvínsedik. Þetta er látið malla í 5 mínútur. Þá er kartöflumjöli hrært út í dálítið vatn og blandað hægt og rólega út í sósuna og hrært í á meðan. Því næst er potturinn tekin af hellunni og sósan smökkuð til með meiri sykri ef þarf, ef hún er of þykk er hún þynnt með ananassafa og/eða vatni.

IMG_8645

Heimatilbúið hrásalat:

  • ca. 1/2 hvítkálshaus
  • 3 gulrætur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • ca 200-300 gr maukaður ananas í dós (án vökvans)
Hvítkálið og gulræturnar er fínsaxað í matvinnsluvél. Ananas og sýrðum rjóma bætt við og öllu hrært saman.
IMG_8648

Cajunkjúklingur með tagliatelle


Cajunkjúklingur með tagliatelle

Mér finnst ótrúlegt að páskarnir séu bráðum að bresta á – jólin voru jú í gær! Ég er með á dagskrá að taka niður jólaseríuna úr þvottahúsglugganum fyrir páska allavega! 🙂 Mér finnst svo dásamlegt að það sé orðið bjart á morgnana og að öðru hvoru koma sólríkir og hlýir dagar inn á milli snjókomunnar! Um helgina ætla ég að kaupa páskaliljur, páskagreinar og aðra vorboða til þess að gera heimilið vorlegt. Ég ætla jafnvel líka í Íkea og skoða nýju vörurnar, það er alltaf svo upplífgandi að sjá pastellitina detta inn á vorin í kertum, púðum og öðrum smávörum.

En ef ég sný mér að matargerðinni þá eldaði ég þennan pastarétt um daginn og hann kom virkilega á óvart. Hann er rosalega bragðgóður og djúsí þó það sé engin rjómi eða slíkt í honum. Fjölskyldan öll var virkilega ánægð með þennan rétt. Hann rífur dálítið í enda bæði í honum cajun krydd og chili (sem hægt er að sleppa) en samt er hann ekki of sterkur, yngstu krakkarnir borðuðu þennan rétt af bestu lyst. Kleifarselsfjölskyldan mælir með þessum!

Uppskrift:

  • 500 g tagliatelle pasta
  • 500 g kjúklingabringur
  • 2 tsk cajun krydd
  • 1 msk olía
  • 1 rauð paprika, skorin í þunna strimla
  • 1 gul paprika, skorin í þunna strimla
  • 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 250 g sveppir, skornir í þunnar sneiðar
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í þunna strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 stórir tómatar, skornir í teninga
  • 240 g kjúklingasoð (sjóðandi vatn + kjúklingakraftur)
  • 80 g mjólk
  • 1 msk hveiti
  • 3 msk rjómaostur
  • grófmalaður svartur pipar og salt

Grænmetið skorið samkvæmt leiðbeiningum. Mjólk, hveiti og rjómaosti er blandað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Kjúklingurinn er skorin í strimla og kryddaður vel með cajun-kryddinu og salti.
Pasta er soðið samkvæmt leiðbeiningum. Á meðan er olía sett á pönnu og kjúklingur steiktur á pönnunni. Þegar kjúklingurinn er steiktur í gegn er hann veiddur af pönnunni og látin bíða. Þá er bætt við dálítilli olíu á pönnuna og paprika, laukur, chili og hvítlaukur steikt í nokkrar mínútur. Því næst er sveppum og tómötum bætt út í og steikt í nokkrar mínútur í viðbót. Kryddað með salti og pipar. Að lokum er kjúklingasoðinu ásamt mjólkurblöndunni bætt út á pönnuna og látið malla á vægum hita í 2-3 mínútur. Þá er kjúklingurinn settur aftur á pönnuna. Öllu er svo blandað vel saman við sjóðandi heitt pasta. Ég bar fram réttinn með fersku kóríander og rifnum parmesan osti. Njótið!img_8457-1