Fetaostabuff í rjómasósu með karamelluseruðum lauki


img_4261

Ég tók eftir því um daginn að gömul uppskrift héðan af Eldhússögum er farin á flug á Facebook, Ostafylltur kjöthleifur, henni hefur verið deilt nokkur þúsund sinnum upp á síðkastið. Ég hef ekki búið til þennan rétt í nokkur ár, mundi ekkert hvernig hann bragðaðist og lék forvitni á að vita hvers vegna uppskriftin væri orðin svona vinsæl. Varla gat það verið vegna myndanna því þær eru ekkert voðalega girnilegar, það er nefnilega frekar erfitt að taka girnilegar nautahakksmyndir! 🙂  Ég prófaði að elda þennan rétt í kvöld og það rifjaðist upp hversu góður hann er en ekki síður hversu einfaldur hann er. Ég gerði mér lífið enn auðveldara og sleppti lauknum í hakkinu, kryddaði bara meira í staðinn. Sósan er ægilega góð en ég bætti um betur og setti nautakraft í sósuna sem mér fannst gera mikið, ég uppfærði uppskriftina og bætti inn nautakraftinum.

Nautahakk er svo sniðugt því það er hægt að elda svo ótal mismunandi rétti úr því. Um daginn gerði ég þessi fetaostabuff með hrikalega góðri lauksósu, ég elska svona heimilismat eða ”husmanskost” eins og Svíarnir kalla hann! 🙂

img_4262

Uppskrift:

  • 800 g nautahakk
  • smör til steikingar
  • 1 egg
  • 2/3 dl brauðmylsna
  • 2-3 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 tsk oreganokrydd
  • 150 g fetaostur (kubbur)
  • 2 msk fersk blaðsteinselja, söxuð smátt
  • salt og pipar

Sósa:

  • 2 – 3 gulir laukar, skorinn í sneiðar
  • ca. 30 g smjör
  • 2 msk hveiti
  • 3 dl vatn
  • 3 dl rjómi
  • salt og pipar

Ofn hitaður í 160 gráður. Hráefnunum fyrir buffin er blandað vel saman í höndunum og mótuð ca.7 buff. Smjör brætt á pönnu og buffin steikt vel báðum megin þar til góð steikingarhúð hefur náðst. Þá er buffin færð yfir í eldfast mót og sett inn í 170 gráðu heitan ofn á meðan sósan er útbúin. Smjörinu fyrir sósuna er því næst bætt út á sömu pönnu. Þá er laukurinn steiktur á pönnunni við fremur lágan til meðalhita í minnst 15-20 mínútur (því lengur því betra), hrært reglulega í lauknum. Því næst er hveitinu sáldrað yfir laukinn og vökvanum bætt út í smátt og smátt á meðan hitinn er hækkaður undir pönnunni og hrært stöðugt. Kryddað með salti og pipar. Ef sósan er of þunn er hún þykkt með sósujafnara.

Buffin eru borin fram með lauksósunni, soðnum kartöflum eða kartöflumús, grænmeti og góðri sultu.

img_4266img_4259

Nautahakksrúlla með mozzarella, tómötum og basilku


Nautahakksrúlla með mozzarella, tómötum og basiliku

Ég ætlaði að setja þessa uppskrift inn fyrr í vikunni en þurfti að leysa úr dálitlu vandamáli áður. Vandamál sem var fyrirsjáanlegt um leið og ég eignaðist nýju Canon EOS 7D myndavélina mína sem er dásamleg í alla staði. Ég var samt ekkert svo glöð þegar ég sá að í þessum vélum er ný tegund af minniskortum sem passa ekki í kortalesarann á tölvunni. Ég vissi að fyrr en seinna myndi ég mæta því vandamáli að finna ekki snúruna á milli myndavélar og tölvu og það var einmitt það sem gerðist núna í vikunni. Snúran týndist, aðrar snúrur virkuðu ekki, og ég gat ekki sett myndirnar inn á tölvuna. Ótrúlega pirrandi því ég var einmitt svo spennt að deila með mér þessari uppskrift. Það væri gaman að heyra frá þeim sem eru með svipaðar myndavélar hvort að utanáliggjandi kortalesarar séu kannski málið?

En allavega, ræðum frekar um mat! Á nokkrum vikum hefur þessi nautahakksrúlla orðið hástökkvari á síðunni minni.

IMG_9626

Uppskriftin hefur verið skoðuð meira en 25 þúsund sinnum, er núna önnur mest skoðaða uppskriftin á Eldhússögum, Snickerskakan hefur þó enn vinninginn en naumlega þó. Það sem er svo skemmtilegt við þessa rúllu er að þarna er komin nýstárleg leið til að elda úr hakki og það er hægt að útfæra rúlluna á svo marga vegu. Ég hef sjálf bara eldað þessa rúllu einu sinni – ég er alltaf svo upptekin við að prófa eitthvað nýtt í eldhúsinu. Ég reyndar gerði aðra útfærslu af rúllunni hér sem var alveg jafngóð og þessi fyrsta, ef ekki betri. Eftir að hafa tekið eftir þvi að nautahakksrúllan tróndi vikum saman á toppnum yfir mest skoðuðu uppskriftirnar hjá mér varð ég ansi spennt að elda hana aftur sjálf og þá í nýrri útfærslu. Að þessu sinni gerði ég rúllu með mozzarella, basiliku og tómötum og maður minn hvað það var gott! Allir í fjölskyldunni borðuðu á sig gat og fannst þetta besta útfærslan hingað til. Þið ættuð að prófa! 🙂

IMG_0576

Uppskrift f 4

  • 600 gr nautahakk
  • 1 msk nautakraftur
  • 1 msk kartöflumjöl (2 msk husk fyrir LKL-vænan rétt)
  • 1 tsk salt
  • pipar
  • 1 egg
  • 125 g mozzarella ostur (kúlan í bláu pokunum) – ekki verra að nota 2 kúlur
  • ca 3 stórir tómatar
  • ca 20 g fersk basilika
  • 2-3 msk sojasósa
  • 30 gr smjör, brætt
  • 1-2 dl rjómi eða mjólk (fyrir LKL er rjómi bestur)
  • 1 msk hveiti eða sósujafnari (sleppa fyrir LKL)
  • 2 tsk rifsberjahlaup (sleppa fyrir LKL)

Ofninn er hitaður í 180 gráður. Nautahakki, nautakrafti, kartöflumjöli, salt, pipar og eggi hrært saman í skál. Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.

IMG_9693

Tómatar eru skornir í tvennt og innvolsið tekið úr þeim – það er ekki notað. Restin af tómötunum eru skornir niður í bita. Mozzarella osturinn er skorinn niður í þunnar sneiðar.  Mozzarella ostinum er raðað á nautahakkið, basilikublöðunum er raðað yfir ostinn. Því næst er tómötunum dreift yfir. Gott er að strá grófmöluðum svörtum pipar yfir allt í restina. Með hjálp smjörpappírsins undir hakkkinu er því rúllað upp eins og rúllutertu.

IMG_0571

Rúllan er færð yfir í eldfast mót.  Bræddu smjöri og sojasósu blandað saman og helt yfir rúlluna. Hitað í ofni í ca. 40-50 mínútur, fer allt eftir þykkt rúllunnar. Þegar rúllan er elduð í gegn er hún tekin úr eldfasta mótinu og sett undir álpappír. 2-3 dl af vatni er hellt út í eldfasta mótið sem er sett aftur inn í ofninn og hann stilltur á grill. Þegar vökvinn fer að sjóða eftir nokkrar mínútur er honum hellt yfir í pott og 1-2 dl af rjóma eða mjólk hellt út í. Sósan er svo þykkt með hveitijafningi (smá vatn og hveiti hrist eða hrært saman) eða sósujafnara. Fyrir LKL- væna sósu er best að nota rjóma og leyfa sósunni að malla dálítið, við það þykkist hún og þá þarf ekki sósujafnara. Það er líka hægt að bæta ca. 2 msk af rjómaosti út í sósuna til að hjálpa til við þykkingu. Rifsberjahlaupi er að lokum bætt út í sósuna (ekki fyrir LKL) og hún smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með til dæmis hrísgrjónum eða blómkálshrísgrjónum* , salati og rifsberjahlaupi.

* Þau eru gerð með því að rífa niður blómkál (ekki stilkana, bara blómin) á grófu rifjárni. Það er svo sett út í sjóðandi vatn sem er saltað (vatnið á rétt að fljóta yfir þau) í 3 mínútur. Það þarf svo að láta leka vel af blómkálshrísgrjónunum, þau eiga að verða alveg vatnslaus, áður en þau eru borin fram.

IMG_0585

Chili-hakk í salatvefju


IMG_9033

Ég er býsna spennt yfir þeirri matargerð sem bíður mín næstu vikurnar. Ég pantaði nefnilega 1/4 af nautaskrokk beint frá býli. Ég hef gert það áður og það er svo mikill munur á gæðum kjötsins, sérstaklega nautahakkinu, miðað við það sem er keypt hjá stórmörkuðunum. Ég pantaði kjöt frá Mýranauti. Þeir eru með svo góða þjónustu. Í fyrsta lagi er hægt að biðja um að þau geri hamborgara úr hluta af nautahakkinu gegn mjög vægri greiðslu. Í öðru lagi er hægt að fá snitsel úr klumpinum og flatsteikinni, sem annars nýtist kannski ekki sérlega vel. Í þriðja lagi þá er hægt að panta hakkið og gúllasið í þeim stærðarpakkningum sem maður óskar. Og í fjórða lagi er kjötið keyrt beint heim til manns! Ég fékk kjötið heim rétt fyrir páska og þar leyndust afar girnilegir bitar, nautalund, sirloin steik, ribeye, entrecote og fleira. Ég held að kalkúninn á páskadag sé mögulega að víkja fyrir gómsætri nautasteik! 🙂

IMG_8845IMG_8850

Ég prófaði nautahakkið strax í dag, það var afar ljúffengt. Ég gerði nokkurs konar smárétt eða tapasrétt sem var mjög bragðgóður, skemmtilegt að útbúa og enn skemmtilegra að borða. Frábær og fljótlegur smáréttur með köldum bjór eða sniðugur réttur á hlaðborð. Eins gæti þetta verið góður réttur til að bera fram með fleiri mexíkóskum smáréttum. Ég ákvað að búa til guacamole með þessum rétti, mér fannst það voða gott með, eins bar ég fram með þessu nachos fyrir þá sem vildu dálítið af kolvetnum! 😉 Salatið fæst í Hagkaup, mér finnst það ómissandi með þessum rétti en það er líka hægt að nota venjulegar tortillakökur.

IMG_9036

Uppskrift:

  • 800 g nautahakka
  • salt & pipar
  • olífuolía
  • 1-2 rauður chili
  • 2 hvítlauksrif
  • 5 cm biti af fersku engifer
  • 3 vorlaukar
  • 1 msk sesamolía
  • 1 msk púðursykur
  • 1 tmsk fiskisósa (fish sauce)
  • hýði af 1 límónu (lime)
  • safi frá ½ límónu
  • hjartasalat (fæst m.a. í Hagkaup)
Hakkið steikt á pönnu upp úr ólífuolíunni, saltað og piprað vel. Steikt á fremur háum hita til þess að hakkið nái góðum lit. Þegar hakkið er steikt í gegn er því hellt í sigti þannig að öll fita renni af því.
Chili, hvítlaukur og engifer er fínsaxarð og steikt upp úr sesamolíunni. Þá er sykrinum bætt út á pönnuna og því næst er hakkinu bætt út í ásamt fiskisósunni, límónuhýðinu og límónusafanum. Vorlaukarnir eru saxaðir niður og þeim bætt út í lokin.
IMG_9016
Sósa:
  • 1 tsk púðursykur
  • 1 tsk sojasósa
  • safi frá ½ límónu (lime)
  • ½ chili, saxað
  • 1-2 tsk fiskisósa (fish sauce)
  • ferskt kóríander eftir smekk, saxað (ég notaði 1/2 30 gramma box)
  • 1 msk ólífuolía

Öllum hráefnunum er blandað vel saman. Hakkið er borið fram í hjartasalatsblöðunum og sósunni dreift yfir.

IMG_9025

Pönnubuff með steinseljusmjöri


IMG_8374Það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér undanfarna daga að ég hef lítið getað sinnt blogginu. Eldhússögur hafa þó lifað sínu eigin lífi á meðan. Í dag kom uppskrift af blogginu í fermingarblaði Fréttablaðsins. Ég gaf uppskrift af kirsuberjakökunni góðu sem er líka hægt er að finna hér. Hér að neðan er alvöru ljósmyndari að störfum! 🙂

IMG_8358

Að auki er bloggið komið í útrás norður í land! 🙂 Eldhússögur eru komnar með fastan uppskriftadálk í N4 dagskrána sem gefin er út vikulega. Fyrsta uppskriftin birtist í blaðinu sem kom út í síðustu viku. En svo ég snúi mér að uppskrift dagsins. Í vikunni bjó ég til þessi girnilegu pönnubuff. Smjörið var ekki sparað í þessari uppskrift en það er nú bara hollt!

Uppskrift f. 4

  • 125 g smjör, við stofuhita
  • 2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
  • ca 30 g steinselja, söxuð smátt
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt
  • 600 g nautahakk
  • 1 lítill laukur, saxaður smátt
  • 2 egg
  • 1 dl rjómi (eða mjólk)
  • ½ msk kartöflumjöl
  • ½ dl brauðmylsna
  • salt & pipar
  • annað gott krydd

IMG_8370

Rjóma, kartöflumjöli og brauðmylsnu er blandað saman í skál og látið þykkna í ca. 10 mínútur. Skarlottulauknum og steinseljunni er blandað við smjörið og sett í ísskáp. Þá er laukurinn steiktur á pönnu þar til hann verður mjúkur og honum síðan blandað saman við hakkið ásamt eggjunum og brauðmylsnublöndunni. Kryddað vel með salti, pipar og öðru góðu kryddi sem hugurinn girnist. Ég notaði blöndu af ítölskum kryddum (steinselja, basilika, timjan og fleiru). Þegar allt hefur blandast vel saman er mótuð bolla úr hakkinu sem flött er út og dálítið af steinseljusmjörinu sett inn i hakkið. Buffinu er þá lokað vel svo að smjörið renni ekki út við steikinguna. Þá eru bollurnar steiktar á pönnu þar til þær eru eldaðar í gegn. Ég bar þær fram með hrísgrjónum, fersku brokkolí og heimagerðri brúnni sósu.

IMG_8372

Beikonvafinn kjöthleifur


IMG_7483Ég fann þessa uppskrift á sænskum vef en endaði á því að breyta henni mjög mikið. Það er einmitt einn kosturinn við uppskriftir á netinu. Þar myndast oft spjall og athugasemdir við uppskriftirnar sem gera það að verkum að maður getur nýtt sér hvernig hinir og þessir hafa betrumbætt uppskriftirnar. Þetta hafa netuppskriftir fram yfir uppskriftabækur finnst mér. Ég les allavega alltaf athugasemdir við netuppskriftir af miklum áhuga. Í þessari uppskrift voru nokkrir sem sögðust hafa bætt við hvítlauk og steinselju við kjöthleifinn en slíkt var ekki í upprunalegu uppskriftinni. Ég gerði það líka auk þess að bæta við fleiri kryddum, nautakrafti og beikoni. Ég átti ekki brauðmylsnu og ristaði því brauð sem ég muldi niður, sem er líka eiginlega betra en að nota brauðmylsnu úr pakka. Kjöthleifurinn var ákaflega safaríkur (eins og sést á myndinni hér fyrir neðan), bragðmikill og góður einnig var sósan ljúffeng. Allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir! 🙂

IMG_7485

Uppskrift f. 6:

  • 1 kíló nautahakk
  • 1 gulur laukur, saxaður fínt
  • 3 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 2 egg
  • 1 dl brauðmylsna (ég ristaði brauð þar til það varð dökkt og muldi það niður)
  • 1.5 dl mjólk
  • 1 dl rjómi (hægt að skipta út fyrir mjólk)
  • 2 tsk salt
  • 1 tsk pipar
  • 1 tsk nautakraftur
  • 2 tsk heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum (ég notaði það krydd sem mér fannst henta best, þetta er með chili, hvítlauk og fleiru sem mér fannst passa vel en það er hægt að nota það krydd sem manni hugnast best)
  • ferskar kryddjurtir, saxaðar, t.d. steinselja, basilika og/eða kóríander. Ég átti dálítið af öllum fyrrnefndum kryddjurtum sem voru að verða slappar, tilvalið til að nota í svona rétti. Líka hægt að nota þurrkuð krydd.
  • 50 g smjör
  • 1 msk sojasósa
  • 1 pakki beikon
  • 2.5 dl vatn

IMG_7470

Sósa

  • ca. 30 g smjör
  • soðið frá kjöthleifnum
  • 0,5 – 1 dl hveiti
  • 2-3 dl mjólk eða matreiðslurjómi
  • salt og pipar
  • 1 msk sojasósa
  • 1 tsk nautakraftur
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • matarlitur

IMG_7472
Bakarofn hitaður í 200 gráður. Öllu hráefninu í kjöthleifnum, fyrir utan smjör, sojasósu, beikon og vatn, er blandað vel saman (ég gerði það í höndunum). Stórt eldfast mót smurt að innan og mótaður kjöthleifur ofan í forminu. Smjörið er brætt og sojasósunni bætt út í. Kjöthleifurinn er smurður með soja-smjörblöndunni (allt í lagi þó það leki niður í formið). Því næst er beikoni vafið utan um kjöthleifinn. Vatninu hellt ofan í formið og kjöthleifurinn bakaður við 200 gráður í 50 mínútur. Ef vökvinn minnkar mikið á meðan eldun stendur er gott að bæta dálitlu vatni út í formið.

Þegar ca 10 mínútur eru eftir af eldunartímanum er steikarvökvanum hellt af kjöthleifnum  og hann settur aftur inn í ofn. Fitan er veidd ofan af steikarvökvanum og dálítið af honum settur í pott ásamt smjörinu og það bakað upp með hveitinu. Þá er restinni af steikarvökvanum hellt út í smátt og smátt og hrært í pottinum á meðan. Því næst er mjólkinni/rjómanum bætt út í og sósan krydduð með sojasósu, nautakrafti og rifsberjahlaupi og látin malla um stund. Ef sósan er of þykk er meiri mjólk bætt út í, ef hún er of þunn er hægt að þykkja hana með sósujafnara. Fallegra er að dekkja sósuna með sósulit. Sósan smökuð til með kryddum, sojasósu og rifsberjahlaupi.

IMG_7489
.

Spaghettípizza með pepperóní


Ég kom heim aðfaranótt gærdagsins frá Stokkhólmi eftir hafa dvalið þar langa helgi með Önnu Sif vinkonu. Ferðin var löngu plönuð í tilefni stórafmæla okkar en ég hafði þó ráðgert að vera búin með ritgerðina mína áður en ég færi. Bjartsýnin í hámarki hjá mér! Ég er auðvitað langt frá því að vera búin og endaði á því að vinna í ritgerðinni bæði nætur og daga fyrir ferðina. Nóttina áður en við fórum skrifaði ég til kl. 4.30 og átti þá eftir að pakka! Lagði svo af stað út á flugvöll hálftíma seinna. Ég náði þó að klára að skrifa það sem ég hafði ætlað mér og við Anna Sif áttum góða helgi í Stokkhólmi. VIð bjuggum á hóteli í Solna Centrum sem er stór verslunarmiðstöð í hverfinu sem ég bjó í þau 15 ár sem við fjölskyldan bjuggum í borginni. Það var svolítið skrítið að búa í verslunarmiðstöð sem maður þekkti svona vel, svipað eins og ef maður byggi heila helgi í Kringlunni! 🙂 En alveg frábær staðsetning, lobbýið okkar var fjórum skrefum frá H&M!

Svo var neðanjarðarlestarstöð í kjallaranum og það tekur bara 8 mínútur að fara í miðbæinn. Við hittum íslensku vinkonur mínar, sem búa enn í Stokkhólmi, eina kvöldstund og var boðið í gómsætan forrétt, sushi, hvítvín og sænska prinsessutertu! Annars þræddum við búðirnar og afrekuðum að komast út úr mollinu tvo heila daga en þeim eyddum við í miðbænum. Á laugardagskvöldinu fóru við út að borða ,,afmælis“máltíðina á Grill sem er frábær veitingastaður. Ljúffengur matur og ótrúlega skemmtilega innréttaður staður. Honum er skipt upp í nokkra mismunandi þemahluta og óhætt að segja að þeman séu tekin alla leið! Þarna er sirkus hluti, hluti sem er í rococo stíl, annar í frönskum kaffihúsastíl og svo framvegis.

Við náðum að kaupa fullt af jólagjöfum sem hentaði mér afar vel þar sem ég er sokkin aftur niður í ritgerðarskrif. Ég mun örugglega ekki komast í búðir aftur næstu vikurnar! En hér heima hafði heimilisfaðirinn allt undir stjórn en mér skilst að það hafi lítið verið eldað. Krakkarnir voru samt ekkert ósátt við að fá pizzur, Nings og Subway nokkra daga í röð! 🙂 Í gærkvöldi voru hins vegar bara ég og yngstu krakkarnir heima, Elfar og elstu krakkarnir voru að vinna. Ég ákvað því að leyfa þeim að velja matinn. Þau skoðuðu þetta blogg og langaði mest í hakkrétt með pizzuívafi. En þá mundi Jóhanna eftir svipuðum rétti sem ég gerði síðasta vetur og þeim fannst svo góður, hún vildi endilega að ég myndi gera hann aftur. Ég mundi líka eftir honum en það var fyrir tíma bloggsins og ég mundi ómögulega hvar ég hafði náð í uppskriftina. En þá kom sér vel að ég sendi oft sjálfri mér tölvupóst með linkum á uppskriftir sem ég dett niður á og eftir smá leit fann ég uppskriftina. Ég breytti henni aðeins, í upphaflegu uppskriftinni var spaghettí blandað saman við parmesan ost en ég notaði rifinn piparost í staðinn og fannst það koma enn betur út. Krökkunum fannst þessi réttur æði og ég verð að viðurkenna að mér fannst hann afskaplega góður líka! Ég mun örugglega búa hann til reglulega.

Uppskrift:
  • 400 gr spaghettí, soðið
  • 30 gr smjör
  • 1 askja rifinn piparostur (85 gr)
  • 2 egg
  • 900 gr nautahakk
  • salt og pipar
  • gott kjötkrydd
  • 1 tsk nautakraftur
  • 1/2 laukur, saxaður smátt
  • 1 krukka tómatsósa með basiliku frá Rinaldi (680 gr)
  • rifinn ostur
  • 1 bréf pepperóní
Bakarofn hitaður í 200 gráður. Spaghettí soðið eftir leiðbeiningum og blandað heitu vel saman við smjör, egg og rifinn piparost. Lagt í botninn á stóru eldföstu móti. Laukurinn steiktur á pönnu og nautahakkinu bætt út á pönnuna, kryddað. Hakkið steikt þar til það er eldað í gegn. Þá er því dreift yfir spaghettíið. Því næst er tómatsósunni hellt yfir hakkið. Rifnum osti dreift yfir og pepperóni raðað ofan á. Bakað í ofni í 25 mínútur.

Brauðhleifur með ítalskri fyllingu


Ég sá þessa uppskrift á sænsku matarbloggi sem ég fylgist reglulega með. Þegar ég prófaði þennan rétt í fyrsta sinn var ég svolítið vantrúuð á að hann væri góður. En annað kom á daginn, rétturinn var voða góður og það sem enn betra var, meira að segja krökkunum fannst þetta góður matur! Það er alltaf jafn ánægjulegt þegar maður dettur niður á kvöldmat sem yngstu krakkarnir fúlsa ekki við! Ég hef prófað að nota allskonar brauðhleifa fyrir þennan rétt, aðallega reyni ég að hafa brauðið frekar stórt og að skorpan sé föst í sér. Ef ég sé stóran og girnilegan brauðhleif úti í búð þá enda ég oft á að hafa þennan rétt um kvöldið. Nettó og Hagkaup eru til dæmis matvöruverslanir sem selja brauð sem ekki er niðursneitt og passa vel fyrir þessa uppskrift. Ef krakkarnir myndu borða sveppi þá myndi ég klárlega bæta þeim við þessa uppskrift. Það myndi passa best að steikja þá með lauknum í upphafi. Innvolsið úr brauðinu er fjarlægt en mér er illa við sóun á mat. Ég legg því stundum innvolsið í lítið eldfast mót, bræði smjör með hvítlauk í og helli yfir, strái svo dálitum osti yfir brauðið að lokum. Þetta hita ég í ofninum þar til osturinn tekur lit og krakkarnir borða af bestu lyst.

Uppskrift f. 4

  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 tsk (eða teningur) kjötkraftur
  • 10 sólþurrkaðir tómatar
  • 6-700 gr nautahakk
  • smjör til steikingar
  • 1 dós niðursoðnir tómatar, gjarnan með basiliku eða hvítlauk
  • vænn skammtur af ferskri basiliku, söxuð (má nota 2 msk af þurrkaðri basiliku)
  • salt og pipar
  • góð kryddblanda með ítölskum kryddum, t.d. Best á allt
  • 1 tsk sykur
  • 1 dl steinlausar ólífur, svartar eða grænar
  • 125 g mozzarella ostur
  • 150 g rifinn ostur, gjarnan bragðsterkur
  • 1 brauðhleifur

Aðferð:

Saxið laukinn smátt, hakkið hvítlaukinn og skerið sólþurrkuðu tómatana í litla bita. Steikið lauk og hvítlauk á pönnu og bætið svo hakkinu og kjötkrafti út í Bætið síðan við niðursoðnum tómötum, sólþurrkuðum tómötum og basilku Látið malla í 10 mínútur og kryddið með ítalskri kryddblöndu, salti, pipar og sykri.

Skerið brauðhleifinn á lengdina þannig að neðri hlutinn sé töluvert hærri en lokið. Takið innvolsið innan úr brauðinu, skiljið eftir ca tveggja cm kant. Yfirleitt tek ég líka aðeins innan úr lokinu. Þegar kjötsósan hefur mallað í 10 mínútur er pannan tekin af hellunni. Mozzarella skorinn í bita og ólífurnar saxaðar gróft. Hvort tveggja er bætt út á pönnuna ásamt rifnum osti. Hrærið ostinum og ólífunum saman við kjötsósuna og hellið svo blöndunni í brauðið. Brauðinu er svo vafið inn í álpappír og bakað inní ofni við 175 gráður í 25-30 mínútur eða þangað til brauðið er vel heitt í gegn. Berið fram með salati.