Nautahakksrúlla með beikoni, eplum og sveppum


Nautahakksrúlla með beikoni og eplum

Vinsælasta nautahakksuppskriftin hér á Eldhússögum er nautahakksrúlla með brokkolí og osti. Það er skemmtileg útfærsla á nautahakki og tilbreyting frá hefðbundum nautahakksuppskriftum, en ekki síst, afar góður réttur. Ég hef lengi hugsað mér að gera þessa rúllu í annarri útfærslu og lét verða af því í vikunni. Ég var ekki alveg viss um hvað ég ætlaði að gera en ég byrjaði á því að steikja beikon, lauk og sveppi. Á þeim tímapunkti fékk ég þá hugljómun að nota epli líka. Eplin voru búin þannig að Elfar var sendur út í búð eftir eplum eins og svo oft áður þegar mig vantar skyndilega hráefni í einhvern rétt sem ég er að útbúa. Nautahakksrúllan var rosalega góð, jafnvel betri en sú fyrri. Þessa rúllu er auðvelt að aðlaga að LKL matarræðinu, þá þarf bara að sleppa eplinu og skipta út kartöflumjöli fyrir husk. Sósan er svakalega góð, það má bara ekki sleppa henni! Margir halda að það sé mikið mál að rúlla upp svona nautahakksrúllu en það er ekkert mál og auðvelt að færa hana svo í eldfast mót. Það er allt í lagi þó svo að rúllan opnist aðeins á meðan eldun stendur, hún verður ekkert verri fyrir vikið.

Uppskrift fyrir 3-4:

Hakk:

  • 500 g nautahakk
  • 1 msk kartöflumjöl (2 tsk husk fyrir LKL)
  • 1 egg
  • salt & pipar
  • 1/2 – 1 tsk chili krydd
  • 30 g smjör
  • 2-3 msk soja
  • 1-2 dl rjómi
  • sósujafnari (fyrir LKL er ekki hægt að nota sósujafnara. Til þess að fá þykkari sósu þarf að nota aðeins meiri rjóma og leyfa sósunni að sjóða aðeins niður, þar með þykkist hún. Það er líka hægt að bæta við 2 msk af rjómaosti, það hjálpar til við þykkingu).

Fylling:

  • 180 g beikon, skorið eða klippt í litla bita
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 150 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 lítið grænt epli eða 1/2 stórt, afhýtt og skorið í litla bita (sleppa fyrir LKL)
  • salt & pipar
  • 1 tsk timjan
  • 2 dl rifinn ostur

Ofninn er hitaður í 200 gráður. Nautahakki, kartöflumjöli, salt, pipar og eggi hrært saman í skál. Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.

IMG_9693

Beikon steikt á pönnu þar til það er að verða stökkt, þá er lauknum bætt á pönnuna og steikt í smástund til viðbótar, svo er sveppunum bætt út í. Þetta er steikt í smá stund og í lokin er eplunum bætt við og kryddað. Blöndunni er svo dreift yfir nautahakkið.

IMG_9695

Rifna ostinum er svo dreift yfir beikonblönduna.

IMG_9697

Með hjálp smjörpappírsins er hakkinu rúllað upp eins og rúllutertu. Rúllan er færð yfir í eldfast mót.  Smjör brætt í potti og sojasósu blandað saman við smjörið, blöndunni er hellt yfir rúlluna.

IMG_9701

Hitað í ofni í ca. 35 mínútur við 200 gráður, kannski lengur, fer allt eftir þykkt rúllunnar. Þegar rúllan er elduð í gegn er hún tekin úr eldfasta mótinu og sett undir álpappír. 2-3 dl af vatni er hellt út í eldfasta mótið sem er sett aftur inn í ofninn og hann stilltur á grill. Þegar vökvinn fer að sjóða eftir nokkrar mínútur er honum hellt yfir í pott (ég sigtaði vökvann ofan í pottinn) og 1-2 dl af rjóma hellt út í. Sósan er svo þykkt með sósujafnara. Fyrir LKL er ekki hægt að nota sósujafnara. Til þess að fá þykkari sósu þarf að nota aðeins meiri rjóma og leyfa sósunni að sjóða aðeins niður þar til hún þykkist. Það er líka hægt að bæta við 2 msk af rjómaosti út í sósuna, það hjálpar til við þykkingu. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með hrísgrjónum eða kartöflumús og salati.

IMG_9705

Pönnubuff í grískri tortillu


Pönnubuff í grískri tortillu
Það var fámennt hjá mér í mat eitt kvöldið og ég ákvað að nýta einn nautahakkspakkann frá Mýranauti. Ég kíkti í ísskápinn og setti mér það markmið að búa til eitthvað úr því sem ég átti til. Útkoman var samruni grískrar og mexíkóskar matargerðar sem var bæði afar fljótlegur og afskaplega góður réttur! Reyndar held ég að hvorki Grikkir né Mexíkóar myndu gangast við þessari matargerð. Það er líklega klisjukennt að kalla mat mexíkóskan bara af því notaðar eru tortillur eða grískan bara af því að notaður er fetaostur! 🙂 Burtséð frá því þá finnst mér alltaf svo skemmtilegt að týna fram hráefni sem ég á og reyna að búa til eitthvað gott úr því. Ég held að ástæðan sé tvíþætt, annars vegar finnst mér gott að vera sparsöm og geta nýtt það hráefni sem ég á út í ystu æsar. Hins vegar þá er spennandi að týna fram hráefni, sjá óljóst fyrir sér útkomuna og halda svo af stað í smá óvissuferð. Best er auðvitað þegar útkoman verður vel heppnuð og bragðgóð þó það heppnist auðvitað ekki alltaf. Að þessi sinni var matreiðslan ekki flókin enda þarf hún ekki að vera það til þess að útkoman verði góð!

Uppskrift:
  • 600 g nautahakkhakk
  • 1 egg
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • 1 tsk nautakraftur
  • annað gott kjötkrydd eftir smekk
  • olía og/eða smjör til steikingar
  • 150 g sveppir, niðursneiddir
Öllum hráefnunum er blandað vel saman. Stór kaka er mótuð úr hakkinu og hún sett á pönnuna. Pönnubuffið steikt á annarri hliðinni í nokkrar mínútur. Þegar sú hlið hefur náð góðri steikingarhúð er buffinu skipt í fjóra hluta og því snúið við og steikt þar til það er tilbúið. Þegar búið er að taka buffið af pönnunni er dálitlu smjör og/eða olíu bætt á pönnuna og sveppirnir steiktir.

Sósa:
  • 2 dl grísk jógúrt
  • 100 g fetaostur (fetaostkubbur án olíu)
  • 1 tsk mynta
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • maldon salt
  • grófmalaður pipar
  • 1 msk ólífuolía

Öllu blandað saman fyrir utan ólífuolíuna sem er dreift yfir sósuna eftir að hún hefur verið hrærð saman. Fyrir þá sem vilja sósu án kekkja er hægt að keyra jógúrtina og fetaostinn saman í matvinnsluvél í stutta stund áður en restinni af hráefnunum er bætt út í.

  • tortilla kökur
  • salat
  • gúrka, skorin í bita
  • tómatar, skorinn í bita
  • rauðlaukur, sneiddur þunnt

Tortillakökur eru hitaðar samkvæmt forskrift og borið fram með pönnubuffinu, grænmeti, steiktum sveppum og sósu.

IMG_8631

Nautahakksrúlla með osti og brokkolí


Ég gerði þennan ljúffenga og sniðuga hakkrétt fyrr í vikunni. Rúllan er skemmtileg tilbreyting frá því sem maður gerir venjulega úr nautahakki og öllum fjölskyldumeðlimum fannst hún ofboðslega góð.  Það er fljótlegt að búa til þessa nautahakksrúllu og svo er henni bara skellt inn í ofn. Mér finnst svoleiðis matur alltaf svo þægilegur, þá getur maður gengið frá í eldhúsinu eða gert eitthvað annað á meðan maturinn eldast. Sósan er frábærlega góð, það má alls ekki sleppa henni. Svo er hægt að leika sér með innihaldið í rúllunni, nota til dæmis rifinn piparost, fetaost eða gráðost í stað venjulegs ostar. Það er líka hægt að nota annað grænmeti líkt og papriku, lauk og/eða sveppi og ekki er verra að bæta við beikoni.

Hér hef ég gert aðrar góðar útfærslur af nautahakksrúllunni:

Nautahakksrúlla með mozzarella, tómötum og basilku

IMG_0576

 

Nautahakksrúlla með beikoni, eplum og sveppum

IMG_9706

 

 

 

 

 

Mexíkósk nautahakksrúlla

IMG_1104

 

 

 

 

 

 

Það er ákaflega einfalt að aðlaga nautahakksrúlluna með osti og brokkolí að LKL – lágkolvetna mataræðinu – og ég setti leiðbeiningar hvernig fara á að því inn í uppskriftina. Fyrir LKL fólk væri sniðugt að bera fram með rúllunni til dæmis blómkálshrísgrjón. Þau eru gerð með því að rífa niður blómkál (ekki stilkana, bara blómin) á grófu rifjárni. Það er svo sett út í sjóðandi vatn sem er saltað (vatnið á rétt að fljóta yfir þau) í 3 mínútur. Það þarf svo að láta leka vel af blómkálshrísgrjónunum, þau eiga að verða alveg vatnslaus, áður en þau eru borin fram. Það er hægt að gera stóran skammt og geyma í ísskáp í nokkra daga.

Uppskrift f. 4

  • 600 gr nautahakk
  • 1 msk nautakraftur
  • 1 msk kartöflumjöl (2 msk husk fyrir LKL-vænan rétt)
  • 1 tsk salt
  • pipar
  • 1 egg
  • 200-300 gr ferskt brokkolí, skorið smátt
  • ½ dl steinselja, söxuð smátt
  • 3-4 dl rifinn ostur
  • 2-3 msk sojasósa
  • 30 gr smjör, brætt
  • 1-2 dl rjómi eða mjólk (fyrir LKL er rjómi bestur)
  • 1 msk hveiti eða sósujafnari (sleppa fyrir LKL)
  • 2 tsk rifsberjahlaup (sleppa fyrir LKL)

Ofninn er hitaður í 180 gráður. Nautahakki, nautakrafti, kartöflumjöli, salt, pipar og eggi hrært saman í skál. Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.

IMG_9693

Brokkolí, steinselju og rifnum osti dreift yfir. Með hjálp smjörpappírsins undir hakkkinu er því rúllað upp eins og rúllutertu. Rúllan er færð yfir í eldfast mót.  Bræddu smjöri og sojasósu blandað saman og helt yfir rúlluna. Hitað í ofni í ca. 40-50 mínútur, fer allt eftir þykkt rúllunnar. Þegar rúllan er elduð í gegn er hún tekin úr eldfasta mótinu og sett undir álpappír. 2-3 dl af vatni er hellt út í eldfasta mótið sem er sett aftur inn í ofninn og hann stilltur á grill. Þegar vökvinn fer að sjóða eftir nokkrar mínútur er honum hellt yfir í pott og 1-2 dl af rjóma eða mjólk hellt út í. Sósan er svo þykkt með hveitijafningi (smá vatn og hveiti hrist eða hrært saman) eða sósujafnara. Fyrir LKL- væna sósu er best að nota rjóma og leyfa sósunni að malla dálítið, við það þykkist hún og þá þarf ekki sósujafnara. Það er líka hægt að bæta ca. 2 msk af rjómaosti út í sósuna til að hjálpa til við þykkingu. Rifsberjahlaupi er að lokum bætt út í sósuna (ekki fyrir LKL) og hún smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með til dæmis kartöflumús (blómkálshrísgrjón fyrir LKL, sjá efst), salati og rifsberjahlaupi.

Hakkréttur með pizzuívafi og makkarónu uppstúf


Ég sá þessa uppskrift á sænskri uppskriftasíðu. Í raun heitir hún eitthvað í líkingu við ,,kjöthleifur með pizzuáleggi“ en mér fannst það svo óspennandi nafn. Það er bara ekkert gourmet við matarheitið ,,kjöthleifur“ finnst mér! Reyndar er kannski ekkert gourmet heldur við hakkrétt! En þegar ég las uppskriftina af þessum rétti var ég þess fullviss að hann væri góður en það kom í ljós að hann var enn betri en ég hafði ímyndað mér!

Ég velti því fyrir mér hvað ég ætti að hafa með þessum rétti. Á sænsku síðunni var mælt með pasta en ég sá fyrir mér að það yrði eitthvað svo þurrt. Reyndar kom svo í ljós að það kemur talsvert mikil sósa af þessum rétti þannig að venjulegt pasta er örugglega reglulega gott með. En krakkarnir, og þá sérstaklega Ósk, hafa talað um það lengi að þau langaði í ,,stuvade makaroner“, það eru makkarónur soðnar niður í mjólk. Þetta er einn af þjóðarréttum Svía og afar vinsælt meðlæti með til dæmis kjötbollum. Þegar Ósk var lítil þá fékk hún að borða í stofunni á föstudögum yfir sænska barnaefninu ,,Bolibompa“ en á föstudögum voru alltaf þættir úr sögum Astridar Lindgren. Föstudagsrétturinn hennar Óskar á þessum árum var alltaf kjötbollur með makkarónu uppstúf og stemmningin í litlu stofunni okkar í Stokkhólmi gat ekki orðið sænskari en á þessum kvöldum.

Ég lagaði því makkarónu uppstúf með réttinum, börnunum öllum til mikillar gleði og Ósk fór aftur í tímann við að bragða á þeim! Ég hélt að sjálfur rétturinn væri meira fyrir börnin en okkur fullorðnu en vá hvað hann var góður! Ægilega einfaldur og fljótgerður réttur sem allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir af. Ég mæli virkilega með honum!

Uppskrift f. ca 4

Kjöthleifur:

  • 600 g nautahakk
  • 1 egg
  • 1 dl brauðmylsna
  • 1.5 dl mjólk
  • 1/2-1 laukur, saxaður smátt (ég notaði rauðlauk)
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 tsk oregano
  • 2 tsk salt

Tómatsósa og pizzuálegg:

  • 2 dl niðursoðnir fínmaukaðir tómatar (passerade tomater)
  • 1/2-1 laukur, saxaður fínt (ég notaði rauðlauk)
  • 1 hvítlauksrif, saxað
  • 2 tsk timjan
  • 2 tsk pizzakrydd (ég notaði heitt pizzakrydd frá pottagöldrum, það er frekar sterkt)
  • sykur
  • salt og pipar
  • 2 dl ferskur mozzarella ostur, skorin í bita
  • 150 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 50 g reykt skinka, skorin í bita

Aðferð:

Blandið saman öllu hráefninu í kjöthleifinn og þrýstið honum ofan í eldfast mót. Steikið lauk og hvítlauk í ólífuolíu þar til laukurinn verður mjúkur. Bætið þá við tómatmaukinu auk krydda og látið blönduna malla í 3 mínútur. Smakkið svo til með sykri, salti og pipar. Hellið blöndunni á hakkið, stráið sveppum og skinku yfir og síðast mozzarella ostinum. Bakið í ofni við 200 gráður í ca. 25 mínútur. Gott að bera fram með réttinum pasta eða kartöflumús auk salats.

Makkarónu uppstúf:

  • 4 dl makkarónur
  • 8 dl mjólk
  • 1 msk smjör
  • salt
  • pipar
  • múskat

Mjólk er hellt í pott og suðan látin koma varlega upp. Makkarónum bætt út í ásamt kryddi og látið malla á fremur lágum hita í ca. 20 mínútur eða þar til makkarónurnar eru tilbúnar og mjólkin ekki lengur í fljótandi formi. Þá er smjörinu bætt út og hrært þar til það er bráðnað. Á meðan suðutíma stendur þarf að hræra vel og reglulega í makkarónunum og gæta þess að mjólkin brenni ekki við.

Brauðhleifur með ítalskri fyllingu


Ég sá þessa uppskrift á sænsku matarbloggi sem ég fylgist reglulega með. Þegar ég prófaði þennan rétt í fyrsta sinn var ég svolítið vantrúuð á að hann væri góður. En annað kom á daginn, rétturinn var voða góður og það sem enn betra var, meira að segja krökkunum fannst þetta góður matur! Það er alltaf jafn ánægjulegt þegar maður dettur niður á kvöldmat sem yngstu krakkarnir fúlsa ekki við! Ég hef prófað að nota allskonar brauðhleifa fyrir þennan rétt, aðallega reyni ég að hafa brauðið frekar stórt og að skorpan sé föst í sér. Ef ég sé stóran og girnilegan brauðhleif úti í búð þá enda ég oft á að hafa þennan rétt um kvöldið. Nettó og Hagkaup eru til dæmis matvöruverslanir sem selja brauð sem ekki er niðursneitt og passa vel fyrir þessa uppskrift. Ef krakkarnir myndu borða sveppi þá myndi ég klárlega bæta þeim við þessa uppskrift. Það myndi passa best að steikja þá með lauknum í upphafi. Innvolsið úr brauðinu er fjarlægt en mér er illa við sóun á mat. Ég legg því stundum innvolsið í lítið eldfast mót, bræði smjör með hvítlauk í og helli yfir, strái svo dálitum osti yfir brauðið að lokum. Þetta hita ég í ofninum þar til osturinn tekur lit og krakkarnir borða af bestu lyst.

Uppskrift f. 4

  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 tsk (eða teningur) kjötkraftur
  • 10 sólþurrkaðir tómatar
  • 6-700 gr nautahakk
  • smjör til steikingar
  • 1 dós niðursoðnir tómatar, gjarnan með basiliku eða hvítlauk
  • vænn skammtur af ferskri basiliku, söxuð (má nota 2 msk af þurrkaðri basiliku)
  • salt og pipar
  • góð kryddblanda með ítölskum kryddum, t.d. Best á allt
  • 1 tsk sykur
  • 1 dl steinlausar ólífur, svartar eða grænar
  • 125 g mozzarella ostur
  • 150 g rifinn ostur, gjarnan bragðsterkur
  • 1 brauðhleifur

Aðferð:

Saxið laukinn smátt, hakkið hvítlaukinn og skerið sólþurrkuðu tómatana í litla bita. Steikið lauk og hvítlauk á pönnu og bætið svo hakkinu og kjötkrafti út í Bætið síðan við niðursoðnum tómötum, sólþurrkuðum tómötum og basilku Látið malla í 10 mínútur og kryddið með ítalskri kryddblöndu, salti, pipar og sykri.

Skerið brauðhleifinn á lengdina þannig að neðri hlutinn sé töluvert hærri en lokið. Takið innvolsið innan úr brauðinu, skiljið eftir ca tveggja cm kant. Yfirleitt tek ég líka aðeins innan úr lokinu. Þegar kjötsósan hefur mallað í 10 mínútur er pannan tekin af hellunni. Mozzarella skorinn í bita og ólífurnar saxaðar gróft. Hvort tveggja er bætt út á pönnuna ásamt rifnum osti. Hrærið ostinum og ólífunum saman við kjötsósuna og hellið svo blöndunni í brauðið. Brauðinu er svo vafið inn í álpappír og bakað inní ofni við 175 gráður í 25-30 mínútur eða þangað til brauðið er vel heitt í gegn. Berið fram með salati.