Ég sá þessa uppskrift á sænskri uppskriftasíðu. Í raun heitir hún eitthvað í líkingu við ,,kjöthleifur með pizzuáleggi“ en mér fannst það svo óspennandi nafn. Það er bara ekkert gourmet við matarheitið ,,kjöthleifur“ finnst mér! Reyndar er kannski ekkert gourmet heldur við hakkrétt! En þegar ég las uppskriftina af þessum rétti var ég þess fullviss að hann væri góður en það kom í ljós að hann var enn betri en ég hafði ímyndað mér!
Ég velti því fyrir mér hvað ég ætti að hafa með þessum rétti. Á sænsku síðunni var mælt með pasta en ég sá fyrir mér að það yrði eitthvað svo þurrt. Reyndar kom svo í ljós að það kemur talsvert mikil sósa af þessum rétti þannig að venjulegt pasta er örugglega reglulega gott með. En krakkarnir, og þá sérstaklega Ósk, hafa talað um það lengi að þau langaði í ,,stuvade makaroner“, það eru makkarónur soðnar niður í mjólk. Þetta er einn af þjóðarréttum Svía og afar vinsælt meðlæti með til dæmis kjötbollum. Þegar Ósk var lítil þá fékk hún að borða í stofunni á föstudögum yfir sænska barnaefninu ,,Bolibompa“ en á föstudögum voru alltaf þættir úr sögum Astridar Lindgren. Föstudagsrétturinn hennar Óskar á þessum árum var alltaf kjötbollur með makkarónu uppstúf og stemmningin í litlu stofunni okkar í Stokkhólmi gat ekki orðið sænskari en á þessum kvöldum.
Ég lagaði því makkarónu uppstúf með réttinum, börnunum öllum til mikillar gleði og Ósk fór aftur í tímann við að bragða á þeim! Ég hélt að sjálfur rétturinn væri meira fyrir börnin en okkur fullorðnu en vá hvað hann var góður! Ægilega einfaldur og fljótgerður réttur sem allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir af. Ég mæli virkilega með honum!
Uppskrift f. ca 4
Kjöthleifur:
- 600 g nautahakk
- 1 egg
- 1 dl brauðmylsna
- 1.5 dl mjólk
- 1/2-1 laukur, saxaður smátt (ég notaði rauðlauk)
- 1 hvítlauksrif
- 1 tsk oregano
- 2 tsk salt
Tómatsósa og pizzuálegg:
- 2 dl niðursoðnir fínmaukaðir tómatar (passerade tomater)
- 1/2-1 laukur, saxaður fínt (ég notaði rauðlauk)
- 1 hvítlauksrif, saxað
- 2 tsk timjan
- 2 tsk pizzakrydd (ég notaði heitt pizzakrydd frá pottagöldrum, það er frekar sterkt)
- sykur
- salt og pipar
- 2 dl ferskur mozzarella ostur, skorin í bita
- 150 g sveppir, skornir í sneiðar
- 50 g reykt skinka, skorin í bita
Aðferð:
Blandið saman öllu hráefninu í kjöthleifinn og þrýstið honum ofan í eldfast mót. Steikið lauk og hvítlauk í ólífuolíu þar til laukurinn verður mjúkur. Bætið þá við tómatmaukinu auk krydda og látið blönduna malla í 3 mínútur. Smakkið svo til með sykri, salti og pipar. Hellið blöndunni á hakkið, stráið sveppum og skinku yfir og síðast mozzarella ostinum. Bakið í ofni við 200 gráður í ca. 25 mínútur. Gott að bera fram með réttinum pasta eða kartöflumús auk salats.
- 4 dl makkarónur
- 8 dl mjólk
- 1 msk smjör
- salt
- pipar
- múskat
Mjólk er hellt í pott og suðan látin koma varlega upp. Makkarónum bætt út í ásamt kryddi og látið malla á fremur lágum hita í ca. 20 mínútur eða þar til makkarónurnar eru tilbúnar og mjólkin ekki lengur í fljótandi formi. Þá er smjörinu bætt út og hrært þar til það er bráðnað. Á meðan suðutíma stendur þarf að hræra vel og reglulega í makkarónunum og gæta þess að mjólkin brenni ekki við.
Var að enda við að sporðrenna þessum rétti. Vakti mikla lukku hjá okkur hjónum en tók aðeins meiri tíma í undirbúningi en ég hafði reiknað með. Á örugglega eftir hafa hann á borðum fyrir börn, tengdabörn og barnabarn.
Hlakka til að prófa kjúlingarétt frá þér á morgun. Kveðja Rannveig
Frábært að heyra Rannveig! 🙂 Takk fyrir að skilja eftir skilaboð til mín!
Frábær réttur, sló í gegn á heimilinu 🙂
En hvað það gleður mig að heyra Sigurlaug! 🙂
Mjög góður matur. Hafði kartöflumús með. Ætla að hafa meira af skinku næst og svo átti ég ekki alveg nóg af osti til að setja ofan á. Passa það næst.Takk fyrir góðar uppskriftir.
Gaman að heyra Sveinn! Það er örugglega gott að hafa kartöflumús með, ég ætla að prófa það næst! 🙂
Hæ, ég ætla að prufa þennan í kvöld 🙂 hljómar vel… en hvað ertu að setja mikið af múskati???
Já, ég mæli með þessum! 🙂 Ég nota ekki mikið, kannski 1/2-1 teskeið, hef líka sleppt því.
Prófaði aftur þennan rétt og var með stórfjölskylduna í mat. Allir saddir og sælir.
Gaman að heyra það Rannveig! 🙂
Bakvísun: Spaghettípizza með pepperóní | Eldhússögur
Tetta var eldad her um daginn.. Var alveg hreint otrulega gott. Snidugt tetta m makkaronurnar, hugsudum til Osk!!-
Gaman að heyra þetta Halla mín! 🙂
Þessi réttur slóg í gegn og þótti algjört nammi af krökkunum á heimilinu ! 🙂 algjörlega krakka og fullorðinsvænn.
Frábært Sigríður! 🙂 Takk fyrir að skilja eftir góða kveðju!
Búin að gera þennan tvisvar, hrikalega góður og sló svo sannarlega í gegn😀
Frábært að heyra Sigrún mín, takk fyrir að skilja eftir kveðju! 🙂
Sló í gegn hjá fjölskyldunni og makkarónurnar alveg frábærar. Takk fyrir okkur eins og alltaf 🙂