Pestóhakkhleifur með mozzarella og sólþurrkuðum tómötum.


 

IMG_3212Flestir kannast við að grípa hvað oftast í kjúkling og nautahakk þegar kemur að innkaupum og eldamennsku. Hvort tveggja er jú á góðu verði og svo eru líka ótal leiðir sem hægt er að nota til þess að gera skemmtilegar uppskriftir úr þessum hráefnum.
Um daginn prófaði ég mig áfram með ljúffengt Jamie Oliver pestó og sólþurrkaða tómata ásamt nautahakki og útkoman var réttur sem okkur öllum í fjölskyldunni fannst hrikalega góður.  Tilvalinn og gómsætur helgarréttur að mínu mati! 🙂

Uppskrift:

  • 900 g nautahakk
  • 2 egg
  • ¾ dl brauðmylsna
  • ½  krukka (ca. 100 g) Jamie Oliver rautt pestó
  • salt & pipar
  • sojasósa

Fylling:

  • 5-8 st Jamie Oliver sólþurrkaðir tómatar
  • 120 g mozzarella ostakúla
  • 1 tsk oregano krydd
  • 1 tsk basiliku krydd
  • salt & pipar

Sósa:

  • ½ krukka Jamie Oliver rautt pestó
  • 2.5 dl rjómi eða matreiðslurjómi 

IMG_3211

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Eldfast mót smurt að innan. Hakki blandað vel saman við egg, brauðmylsnu og pestó, kryddað með salti og pipar. Hakkið er mótað í aflangan ferning. Mozzarella osturinn er skorin í litla bita og sólþurrkaðir tómatar saxaðir smátt. Þessu er blandað saman í skál með oregano kryddi og basiliku kryddi ásamt salti og pipar. Fyllingunni er dreift í miðjuna á hakkið og hleifnum lokað þétt. Gott er að smyrja hann með sojasósu. Hleifurinn er settur í ofn í eldföstu móti við 180 gráður í 30-40 mínútur (það er í lagi þó svo að hleifurinn opnist á meðan eldun stendur). Borið fram með t.d. hrísgrjónum, grænmeti og pestórjómasósu.

Sósan: rjómi og pestó hrært saman í pott og hitað. 

IMG_3230IMG_3237

Pizza með hakkbotni


Pizza með nautahakksbotniÞar sem að einn af fjölskyldumeðlimunum hallast að lágkolvetna lífsstílnum (LKL) hef ég reynt að elda mat sem hentar slíkum lífsstíl undanfarið. Þegar ég var að skoða uppskriftir á netinu rakst ég á útgáfu að „pizzu“ sem ekki bara hljómaði afar girnilega heldur smellpassaði við LKL. Ég prófaði að útfæra svoleiðis rétt í kvöld og við vorum öll ákaflega hrifin af útkomunni.  Þetta er mjög einfaldur réttur að útbúa sem fellur bæði fullorðnum og börnum vel í geð. Í uppskriftinni gef ég upp kryddið Chili Explosion. Þetta er krydd sem ég kynntist í Svíþjóð (Til í Bónus hér á landi og líklega fleiri verslunum) og mér finnst ómissandi í matargerð, ég nota það bæði fyrir kjöt, fisk, eggjakökur, grillað brauð og bara flest allt!  Þetta er blanda af chili, tómötum, papriku, sinnepsfræjum og svörtum pipar og mér finnst það mildara en hreinar chiliflögur – mæli með að þið prófið! Chili Explotion

Uppskrift f. ca. 4

  • 8-900 g. nautahakk
  • 2 egg
  • 4 stór hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • væn lúka af ferskri steinselju, söxuð smátt
  • salt og pipar
  • chili explosion
  • sveppir, skornir í sneiðar
  • rauð paprika, skorin í bita
  • ca 400 g góð pastasósa (ég notaði Premium Hunts pasta sauce með Herbs & Garlic)
  • 2 kúlur ferskur mozzarella (2×125 g), skorin í sneiðar
  • parmesan ostur, rifinn eða hefðbundinn rifinn ostur (líka hægt að nota eingöngu mozzarella kúlurnar)

Ofn hitaður í 220 gráður. Hakk er sett í skál ásamt eggjum, hvítlauk, steinselju og kryddað með salti, pipar og chili explosion kryddi (eða öðru góðu kryddi) og blandað vel saman með höndunum. Hakkinu er því næst skipt i tvennt og sett í sitt hvort kökuformið sem er ca. 24 cm. (ég notaði silikon kökuform). Þetta gerði ég til að rétturinn yrði sem líkastur pizzu en það er líka hægt að nota eldfast mót. Hakkinu er þrýst ofan í formið þannig að það þekji botninn, gott er að hafa kantana aðeins þykkari en miðjuna.IMG_3223 Þá er pastasósunni dreift yfir hakkið og því næst sveppum og papriku.IMG_3225 Að lokum er rifnum parmesan eða rifnum osti dreift yfir ef vill og mozzarella sneiðunum raðað yfir.

IMG_3233 Gott að krydda að lokum með heitu pizzakryddi. Sett inn í ofn við 220 gráður í 20-25 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og nautahakkið er eldað í gegn.

IMG_3245 IMG_3251 IMG_3260

Hakkréttur með pizzuívafi og makkarónu uppstúf


Ég sá þessa uppskrift á sænskri uppskriftasíðu. Í raun heitir hún eitthvað í líkingu við ,,kjöthleifur með pizzuáleggi“ en mér fannst það svo óspennandi nafn. Það er bara ekkert gourmet við matarheitið ,,kjöthleifur“ finnst mér! Reyndar er kannski ekkert gourmet heldur við hakkrétt! En þegar ég las uppskriftina af þessum rétti var ég þess fullviss að hann væri góður en það kom í ljós að hann var enn betri en ég hafði ímyndað mér!

Ég velti því fyrir mér hvað ég ætti að hafa með þessum rétti. Á sænsku síðunni var mælt með pasta en ég sá fyrir mér að það yrði eitthvað svo þurrt. Reyndar kom svo í ljós að það kemur talsvert mikil sósa af þessum rétti þannig að venjulegt pasta er örugglega reglulega gott með. En krakkarnir, og þá sérstaklega Ósk, hafa talað um það lengi að þau langaði í ,,stuvade makaroner“, það eru makkarónur soðnar niður í mjólk. Þetta er einn af þjóðarréttum Svía og afar vinsælt meðlæti með til dæmis kjötbollum. Þegar Ósk var lítil þá fékk hún að borða í stofunni á föstudögum yfir sænska barnaefninu ,,Bolibompa“ en á föstudögum voru alltaf þættir úr sögum Astridar Lindgren. Föstudagsrétturinn hennar Óskar á þessum árum var alltaf kjötbollur með makkarónu uppstúf og stemmningin í litlu stofunni okkar í Stokkhólmi gat ekki orðið sænskari en á þessum kvöldum.

Ég lagaði því makkarónu uppstúf með réttinum, börnunum öllum til mikillar gleði og Ósk fór aftur í tímann við að bragða á þeim! Ég hélt að sjálfur rétturinn væri meira fyrir börnin en okkur fullorðnu en vá hvað hann var góður! Ægilega einfaldur og fljótgerður réttur sem allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir af. Ég mæli virkilega með honum!

Uppskrift f. ca 4

Kjöthleifur:

  • 600 g nautahakk
  • 1 egg
  • 1 dl brauðmylsna
  • 1.5 dl mjólk
  • 1/2-1 laukur, saxaður smátt (ég notaði rauðlauk)
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 tsk oregano
  • 2 tsk salt

Tómatsósa og pizzuálegg:

  • 2 dl niðursoðnir fínmaukaðir tómatar (passerade tomater)
  • 1/2-1 laukur, saxaður fínt (ég notaði rauðlauk)
  • 1 hvítlauksrif, saxað
  • 2 tsk timjan
  • 2 tsk pizzakrydd (ég notaði heitt pizzakrydd frá pottagöldrum, það er frekar sterkt)
  • sykur
  • salt og pipar
  • 2 dl ferskur mozzarella ostur, skorin í bita
  • 150 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 50 g reykt skinka, skorin í bita

Aðferð:

Blandið saman öllu hráefninu í kjöthleifinn og þrýstið honum ofan í eldfast mót. Steikið lauk og hvítlauk í ólífuolíu þar til laukurinn verður mjúkur. Bætið þá við tómatmaukinu auk krydda og látið blönduna malla í 3 mínútur. Smakkið svo til með sykri, salti og pipar. Hellið blöndunni á hakkið, stráið sveppum og skinku yfir og síðast mozzarella ostinum. Bakið í ofni við 200 gráður í ca. 25 mínútur. Gott að bera fram með réttinum pasta eða kartöflumús auk salats.

Makkarónu uppstúf:

  • 4 dl makkarónur
  • 8 dl mjólk
  • 1 msk smjör
  • salt
  • pipar
  • múskat

Mjólk er hellt í pott og suðan látin koma varlega upp. Makkarónum bætt út í ásamt kryddi og látið malla á fremur lágum hita í ca. 20 mínútur eða þar til makkarónurnar eru tilbúnar og mjólkin ekki lengur í fljótandi formi. Þá er smjörinu bætt út og hrært þar til það er bráðnað. Á meðan suðutíma stendur þarf að hræra vel og reglulega í makkarónunum og gæta þess að mjólkin brenni ekki við.