Þar sem að einn af fjölskyldumeðlimunum hallast að lágkolvetna lífsstílnum (LKL) hef ég reynt að elda mat sem hentar slíkum lífsstíl undanfarið. Þegar ég var að skoða uppskriftir á netinu rakst ég á útgáfu að „pizzu“ sem ekki bara hljómaði afar girnilega heldur smellpassaði við LKL. Ég prófaði að útfæra svoleiðis rétt í kvöld og við vorum öll ákaflega hrifin af útkomunni. Þetta er mjög einfaldur réttur að útbúa sem fellur bæði fullorðnum og börnum vel í geð. Í uppskriftinni gef ég upp kryddið Chili Explosion. Þetta er krydd sem ég kynntist í Svíþjóð (Til í Bónus hér á landi og líklega fleiri verslunum) og mér finnst ómissandi í matargerð, ég nota það bæði fyrir kjöt, fisk, eggjakökur, grillað brauð og bara flest allt! Þetta er blanda af chili, tómötum, papriku, sinnepsfræjum og svörtum pipar og mér finnst það mildara en hreinar chiliflögur – mæli með að þið prófið!
Uppskrift f. ca. 4
- 8-900 g. nautahakk
- 2 egg
- 4 stór hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
- væn lúka af ferskri steinselju, söxuð smátt
- salt og pipar
- chili explosion
- sveppir, skornir í sneiðar
- rauð paprika, skorin í bita
- ca 400 g góð pastasósa (ég notaði Premium Hunts pasta sauce með Herbs & Garlic)
- 2 kúlur ferskur mozzarella (2×125 g), skorin í sneiðar
- parmesan ostur, rifinn eða hefðbundinn rifinn ostur (líka hægt að nota eingöngu mozzarella kúlurnar)
Ofn hitaður í 220 gráður. Hakk er sett í skál ásamt eggjum, hvítlauk, steinselju og kryddað með salti, pipar og chili explosion kryddi (eða öðru góðu kryddi) og blandað vel saman með höndunum. Hakkinu er því næst skipt i tvennt og sett í sitt hvort kökuformið sem er ca. 24 cm. (ég notaði silikon kökuform). Þetta gerði ég til að rétturinn yrði sem líkastur pizzu en það er líka hægt að nota eldfast mót. Hakkinu er þrýst ofan í formið þannig að það þekji botninn, gott er að hafa kantana aðeins þykkari en miðjuna. Þá er pastasósunni dreift yfir hakkið og því næst sveppum og papriku.
Að lokum er rifnum parmesan eða rifnum osti dreift yfir ef vill og mozzarella sneiðunum raðað yfir.
Gott að krydda að lokum með heitu pizzakryddi. Sett inn í ofn við 220 gráður í 20-25 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og nautahakkið er eldað í gegn.
Úúúúúffffffff hvað þetta er girnilegt ég og maðurinn minn erum hérna slefandi yfir þessu. Verður pottþétt prófað á næstunni 😉
Gaman að heyra það Halla – ég held að þið verðið ekki svikin af þessum rétti! 🙂
Girnilegur réttur verð að prufa.
Sæl.
Ég prófaði hakkrúlluna en breytti aðeins. Týndi aðeins til, það sem ég átti í ísskapnum, var með bacon, epli, lauk og broccoli. Þetta bragðaðist mjög vel.Mun örugglega elda hana aftur.
Það hljómar vel Alice! Það er einmitt svo skemmtilegt við nautahakksrúlluna að það er hægt að útfæra hana á svo marga vegu! 🙂
Takk fyrir þetta Dröfn. Verður klárlega prófað fljótlega á þessu heimili 😀
Frábært Hólmfríður, vonandi fellur þessi réttur í kramið á þínu heimili! 🙂
Þetta var eitthvað að bíta í. Því miður kláraðist þetta strax, ekkert eftir í dag. Stórgóður biti fyrir bragðlaukana og þar fyrir utan kolvetnissnauður.
Eldaði þennan rétt réttáðan fr´bærlega góður þrátt fyrir Athyglibrest þá vantaði ekkért í hjá mér en ekki alveg í réttri röð ,samt gott
Fjölskyldan södd og sæl eftir þessa dásemdarpizzu, bættum rauðlauk og pepperóní á aðra þeirra kom mjög vel út 🙂
Já, það er einmitt svo sniðugt að prófa allskonar álegg! 🙂
Ertu með blástur á ofninum?
Nei, bara undir- og yfirhita.