Fetaostabuff í rjómasósu með karamelluseruðum lauki


img_4261

Ég tók eftir því um daginn að gömul uppskrift héðan af Eldhússögum er farin á flug á Facebook, Ostafylltur kjöthleifur, henni hefur verið deilt nokkur þúsund sinnum upp á síðkastið. Ég hef ekki búið til þennan rétt í nokkur ár, mundi ekkert hvernig hann bragðaðist og lék forvitni á að vita hvers vegna uppskriftin væri orðin svona vinsæl. Varla gat það verið vegna myndanna því þær eru ekkert voðalega girnilegar, það er nefnilega frekar erfitt að taka girnilegar nautahakksmyndir! 🙂  Ég prófaði að elda þennan rétt í kvöld og það rifjaðist upp hversu góður hann er en ekki síður hversu einfaldur hann er. Ég gerði mér lífið enn auðveldara og sleppti lauknum í hakkinu, kryddaði bara meira í staðinn. Sósan er ægilega góð en ég bætti um betur og setti nautakraft í sósuna sem mér fannst gera mikið, ég uppfærði uppskriftina og bætti inn nautakraftinum.

Nautahakk er svo sniðugt því það er hægt að elda svo ótal mismunandi rétti úr því. Um daginn gerði ég þessi fetaostabuff með hrikalega góðri lauksósu, ég elska svona heimilismat eða ”husmanskost” eins og Svíarnir kalla hann! 🙂

img_4262

Uppskrift:

  • 800 g nautahakk
  • smör til steikingar
  • 1 egg
  • 2/3 dl brauðmylsna
  • 2-3 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 tsk oreganokrydd
  • 150 g fetaostur (kubbur)
  • 2 msk fersk blaðsteinselja, söxuð smátt
  • salt og pipar

Sósa:

  • 2 – 3 gulir laukar, skorinn í sneiðar
  • ca. 30 g smjör
  • 2 msk hveiti
  • 3 dl vatn
  • 3 dl rjómi
  • salt og pipar

Ofn hitaður í 160 gráður. Hráefnunum fyrir buffin er blandað vel saman í höndunum og mótuð ca.7 buff. Smjör brætt á pönnu og buffin steikt vel báðum megin þar til góð steikingarhúð hefur náðst. Þá er buffin færð yfir í eldfast mót og sett inn í 170 gráðu heitan ofn á meðan sósan er útbúin. Smjörinu fyrir sósuna er því næst bætt út á sömu pönnu. Þá er laukurinn steiktur á pönnunni við fremur lágan til meðalhita í minnst 15-20 mínútur (því lengur því betra), hrært reglulega í lauknum. Því næst er hveitinu sáldrað yfir laukinn og vökvanum bætt út í smátt og smátt á meðan hitinn er hækkaður undir pönnunni og hrært stöðugt. Kryddað með salti og pipar. Ef sósan er of þunn er hún þykkt með sósujafnara.

Buffin eru borin fram með lauksósunni, soðnum kartöflum eða kartöflumús, grænmeti og góðri sultu.

img_4266img_4259

Hakkhleifur fylltur með beikoni, döðlum og fetaosti


img_4167

Síðastliðið sumar fór ég í fyrsta sinn í 17 sortir og smakkaði allskonar gúmmelaði bollakökur. Þar sem ég sat og naut hvers bita renndi ég augunum yfir afgreiðsluborðið og fannst hver kakan þar annarri girnilegri. Ég ákvað að leggja fljótt leið mína aftur í 17 sortir og prófa einhverja góða köku. Þegar við vorum með sænska gesti hjá okkur um daginn var aldeilis gott tilefni að bjóða upp á ljúffenga köku því svo vildi til að þau áttu brúðkaupsafmæli og fengu sama dag þær fréttir að þau væru orðin íbúðareigendur. Við skáluðum fyrst yfir góðum kvöldverði.

img_3825

Því næst reiddi ég fram þessa glæsilegu köku úr 17 sortum, súkklaðiköku með saltkaramellu og poprocks.

img_3829img_3831img_3859

Hrikalega góð kaka og sænsku gestirnir okkar áttu ekki orð yfir þessari dásemdarköku! 🙂

img_3836img_3844

Ég mæli með því að þið smakkið á þessum gómsætu hnallþórum hjá 17 sortum!

En ef ég vík þá að uppskrift dagsins. Mér finnst afar gaman að gera tilraunir með nautahakk og búa til eitthvað gott úr því. Mér finnst sömuleiðis voðalega gott að blanda saman fetaosti, döðlum og beikoni og nota það óspart tilraunum mínum. Hérna gerði ég tilraun með að blanda slíku gúmmelaði saman við nautahakk og útkoman kom skemmtilega á óvart. Öll fjölskyldan var sammála um að þessi tilraun hefði heppnast feykivel og ég mæli með því að þið prófið! 🙂

img_4188

Uppskrift:

  • 600-700 g nautahakk
  • ½ lítill laukur, fínhakkaður
  • 1 egg
  • ½ dl brauðmylsna
  • ½ dl mjólk
  • salt og pipar
  • annað krydd eftir smekk
  • 180 g beikon, skorið í bita
  • 1 meðalstór rauðlaukur, saxaður smátt
  • 120 g döðlur, saxaðar fremur smátt
  • 180 g fetaostur (fetaostakubbur)
  • salt & pipar
  • chiliflögur
  • 1 dós tómatar í dós (ca. 411 g)
  • 1 1/2 msk tómatmauk
  • 1 1/2 tsk paprikukrydd
  • chili krydd eða annað gott krydd

Ofn hitaður í 200 gráður. Laukurinn steiktur á pönnu þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er hann veiddur af pönnunni og bætt saman við hakkið, eggið, brauðmylsnuna, mjólk og krydd, allt blandað vel saman. Helmingurinn af kjötblöndunni er settur ofan í smurt eldfast mót og mótað í hleif. Rauf gerð eftir endilöngum hleifnum. Beikonið er því næst steikt á pönnu. Þegar það nálgast að verða stökkt er rauðlauk og döðlum bætt út á pönnuna og allt steikt í ca. 3 mínútur. Að lokum er fetaosturinn mulinn út á pönnuna og öllu blandað saman. Ca. 1/2-1/3 af blöndunni er tekinn af pönnunni og hleifurinn fylltur með henni. Restinni af kjötblöndunni er lögð ofan á og hleifurinn mótaður og gerður vel þéttur svo blandan leki ekki út. Gott er að smyrja kjöthleifinn með bræddu smjöri. Því næst er tómötum í dós bætt á pönnuna út í restina af döðlu- og beikonblönduna. Þá er tómatmauki, paprikukryddi og chilikryddi bætt út í og leyft að malla í 3-4 mínutur. Að lokum er tómatmaukblöndunni yfir og í kringum kjöthleifinn. Hitað í ofni við 200 gráður í um það bil 25-30 mínútur eða þar til hleifurinn hefur eldast í gegn. Borið fram með t.d. sætkartöflumús eða hrísgrjónum og aioli sósu.

Einföld aioli sósa:

  • 1 dl majónes
  • 3 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 msk sítrónusafi
  • salt og pipar

Öllu blandað vel saman og kælt vel áður en borið fram.

img_4219

 

Lasagna í uppáhaldi


IMG_3517Ég er með nokkrar uppskriftir að lasagna hér á síðunni en ég hef enn ekki sett inn uppskriftina sem ég nota yfirleitt. Venjulega hefur maður ekkert of mikinn tíma til að elda kvöldmat og mörgum finnst lasagna tímafrekur réttur. Þessa útgáfu nota ég hvað oftast en hún er rosalega fljótleg en að sama skapi afar vinsæl á þessu heimili. Lykilatriðin í uppskriftinni eru kryddin eða það finnst mér allavega, mér finnst afar gott að hafa lasagna vel kryddað. Galdurinn á bakvið hversu fljótlegt það er, er að rjómaostasósan er sáraeinföld en voðalega góð og svo þarf ekkert að skera niður fyrir réttinn. Ef þið setjið það fyrir ykkur að það sé tímafrekt að gera lasagna þá hvet ég ykkur til að prófa þessa uppskrift.

IMG_3506

Athugið að þetta er stór uppskrift, hún passar í tvö meðalstór eldföst mót. En það er stórsniðugt að búa til lasagna í tvö form og frysta annað þeirra (ég frysti það óeldað). Framtíðar-þið eigið eftir að þakka fortíðar-ykkur þegar þið takið lasagnaformið út úr frysti að morgni og getið gætt ykkur á gómsætu lasagna í kvöldmatinn, fyrirhafnarlaust! 🙂

Uppskrift (ath! Passar í tvö meðalstór eldföst mót):

Kjötsósa:

  • 1 kiló nautahakk
  • 4 dósir niðursoðnir tómatar, ca. 400 g (ég nota yfirleitt mismunandi bragðbætta tómata, t.d. með hvítlauk, chili og basiliku)
  • 1 tsk kjötkraftur
  • 1 tsk heitt pizzakrydd frá Pottagöldum
  • 1 tsk basiliku krydd
  • 1 tsk oregano krydd
  • 1/2 tsk hvítlaukskrydd (t.d ítalskt hvítlaukskrydd frá Pottagöldrum)
  • salt og pipar
  • lasagna plötur
  • 370 g rifinn ostur

Ostasósa: 

  • 400 g rjómaostur
  • 2-3 dl mjólk
  • 1 askja rifinn piparostur (100 g), hægt að nota venjulegan rifinn ost
  • salt og pipar

Aðferð

Ofn hitaður í 200 gráður. Nautahakkið steikt á pönnu og kryddað. Tómötum í dós bætt út í og látið malla á meðan ostasósan er útbúin. Rjómaosturinn látin bráðna í potti við meðalhita. Mjólk, rifnum piparosti og kryddum hrært út í.

Lasagna sett saman: Fyrst er ostasósa sett á botninn á smurðu eldföstu móti. Því næst er lasagna plötum raðað yfir og svo er kjötsósunni dreift yfir lasagnaplöturnar. Endurtekið á meðan hráefni endast. Endað á ostasósunni og að lokum er rifnum osti dreift yfir.

Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 25 mínútur. Berið fram með góðu brauði og salati.

IMG_3503IMG_3519

 

Pestóhakkhleifur með mozzarella og sólþurrkuðum tómötum.


 

IMG_3212Flestir kannast við að grípa hvað oftast í kjúkling og nautahakk þegar kemur að innkaupum og eldamennsku. Hvort tveggja er jú á góðu verði og svo eru líka ótal leiðir sem hægt er að nota til þess að gera skemmtilegar uppskriftir úr þessum hráefnum.
Um daginn prófaði ég mig áfram með ljúffengt Jamie Oliver pestó og sólþurrkaða tómata ásamt nautahakki og útkoman var réttur sem okkur öllum í fjölskyldunni fannst hrikalega góður.  Tilvalinn og gómsætur helgarréttur að mínu mati! 🙂

Uppskrift:

  • 900 g nautahakk
  • 2 egg
  • ¾ dl brauðmylsna
  • ½  krukka (ca. 100 g) Jamie Oliver rautt pestó
  • salt & pipar
  • sojasósa

Fylling:

  • 5-8 st Jamie Oliver sólþurrkaðir tómatar
  • 120 g mozzarella ostakúla
  • 1 tsk oregano krydd
  • 1 tsk basiliku krydd
  • salt & pipar

Sósa:

  • ½ krukka Jamie Oliver rautt pestó
  • 2.5 dl rjómi eða matreiðslurjómi 

IMG_3211

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Eldfast mót smurt að innan. Hakki blandað vel saman við egg, brauðmylsnu og pestó, kryddað með salti og pipar. Hakkið er mótað í aflangan ferning. Mozzarella osturinn er skorin í litla bita og sólþurrkaðir tómatar saxaðir smátt. Þessu er blandað saman í skál með oregano kryddi og basiliku kryddi ásamt salti og pipar. Fyllingunni er dreift í miðjuna á hakkið og hleifnum lokað þétt. Gott er að smyrja hann með sojasósu. Hleifurinn er settur í ofn í eldföstu móti við 180 gráður í 30-40 mínútur (það er í lagi þó svo að hleifurinn opnist á meðan eldun stendur). Borið fram með t.d. hrísgrjónum, grænmeti og pestórjómasósu.

Sósan: rjómi og pestó hrært saman í pott og hitað. 

IMG_3230IMG_3237

Pönnukaka með nautahakki


Nautahakk í pönnuköku

Það er alltaf gaman að elda nautahakk á nýjan hátt. Þessi nautahakksfyllta pönnukaka sló í gegn hér heima, sérstaklega hjá krökkunum. Það er líka svo skemmtilegt við hana að það er hægt að breyta innihaldinu eftir veðrum og vindum. T.d. er hægt að nota afgang af taco-hakki inn í pönnukökuna. Ekki er verra að bæta við soðnum hrísgrjónum út í hakkið og þá gjarnan nýta afgangs hrísgrjón.

          Pönnukaka:

  • 2,5 dl hveiti
  • 6 dl mjólk
  • 3 egg
  • 1 tsk lyftiduft
  • ½ tsk salt

Hakkfylling:

  • 500 g nautahakk
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • 250 g sveppir, sneiddir
  • 3 msk chilisósa (t.d. Heinz chili sauce)
  • 1/2 msk sojasósa
  • 1/2 msk balsamik edik
  • 1 dl sýrður rjómi eða rjómaostur
  • 1-2 tsk oregano
  • 1/2 tsk nautakraftur
  • salt og pipar
  • ca. 150 g rifinn ostur
  • Smjör og/eða olía til steikingar

Ofn hitaður í 225 gráður. Hveiti og salt sett í skál og um það bil helmingnum af mjólkinni hrært út í þar til deigið verður slétt. Þá er restinni af mjólkinni bætt við og að síðustu er eggjum bætt út í, einu í senn. Deiginu hellt í vel smurða ofnskúffu og bakað við 225 gráður í ca. 25 mínútur.

Laukur er steiktur á pönnu þar til hann hefur mýkst, þá er sveppum og hvítlauki bætt út á pönnuna og steikt í stutta stund í viðbót. Því næst er hakkið sett á pönnuna og allt steikt. Að lokum er chili sósu, sojasósu, balsamediki og sýrðum rjóma eða rjómaosti bætt á pönnuna og allt kryddað eftir smekk. Látið malla í 5-10 mínútur við vægan hita. Rétt áður en hakkið er tilbúið er rifna ostinum bætt út í. Þá er hakkinu dreift yfir pönnukökuna og henni rúllað upp. Borið fram með salati.

IMG_8739

Lasagna frá Eldum rétt


Lasagna frá Eldum réttFrábær öskudagur er að kvöldi kominn. Í ár var í fyrsta sinn hálfur skóladagur hjá krökkunum og í kjölfar þess var ákveðið að þau fengju að ganga í hús í hverfinu til þess að syngja og fá sælgæti að launum en sú hefð hefur ekki verið í hverfinu okkar hingað til. Þrátt fyrir að það hafi kyngt niður snjó gengu börnin glöð og kát á milli húsa og sungu og mörg heimili tóku þátt. Það má með sanni segja að þetta hafi gengið ákaflega vel og vonandi verður þetta að hefð í hverfinu. Nú er svo komið að einungis yngsta barnið mitt klæðist búningi, hin eru vaxin upp úr því. Jóhanna Inga mín ákvað fyrir löngu að hún vildi vera frelsisstyttan – enda getur hún ekki beðið eftir því að sjá hana í raun næsta sumar. Ég pantaði búning að utan og skottan var afar sátt við útkomuna.

IMG_4242

Í dag eldaði ég einn rétt til viðbótar frá Eldum rétt. Að þessu sinni var það einfalt og gott lasagna. Ég kemst ekki yfir hvað það er skemmtilegt að elda úr svona fyrirfram tilbúnum skömmtum.

IMG_4279Það er góð tilfinning að nýtingin á hráefninu verður 100%, eldamennskan er barnslega einföld og síðast en ekki síst er verður allt svo skemmtilega skipulagt og snyrtilegt í kringum eldamennskuna þegar eldað er með þessum hætti.

IMG_4293

IMG_4282IMG_4283

Mér finnst gott að krydda lasagna vel og ég bætti því við kryddi sem stóð ekki í upphaflegu uppskriftinni. Þetta lasagna var ekki með ostasósu heldur einungis með lasagnaplötum og kjötsósu. Hins vegar getur verið sniðugt að bæta við kotasælu í uppskriftina í stað ostasósu, það er afar fljótlegt og gerir örugglega góðan rétt enn betri. Annars sá ég á heimasíðu Eldum rétt að þeir eru að fara auka framboðið á réttunum þannig að fljótlega verður hægt að velja úr sex mismunandi réttum fyrir pokann sinn.

Uppskrift f. 4:

  • 12 lasagnaplötur
  • 400 g nautahakk
  • ólífuolía til steikingar
  • 2 gulrætur, skornar smátt
  • 4 hvítlauksrif, pressuð
  • 4 sellerístangir, skornar smátt
  • 2 litlir eða meðalstórir gulir laukar, saxaði smátt
  • niðursoðnir tómatar, 400 g
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1-2 tsk heitt pizzakrydd
  • basilka og/eða oregano krydd
  • salt & pipar
  • fersk steinselja (ca 6 g)
  • 2 tsk rauðvínsedik
  • 1 stór dós kotasæla
  • 100 g rifinn ostur

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Laukur, gulrætur og sellerí steikt upp úr ca. 3 msk af ólífuolíu ásamt hvítlauki í ca. 1-2 mínútur. Þá er hakkinu bætt á pönnuna og steikt þar til það byrjar að brúnast. Þá er rauðvínsediki, tómatmauki, kryddum og niðursoðnum tómötum bætt út á pönnuna og leyft að krauma í 5-10 mínútur. Ríflega helmingurinn af steinseljunni er söxuð smátt og bætt út í. Fyrir þá sem vilja þá er hægt að mauka kjötsósuna með töfrasprota, en ekki of mikið, bara 4-5 púlsa. 3 msk af óífuolíu er sett í botninn á eldföstumóti.

IMG_4296Þá er lasagnaplötum raðað í botninn á forminu (plöturnar brotnar ef með þarf til að þær passi betur), því næst er hluta af hakkinu dreift yfir plöturnar og loks eru nokkrar skeiðar af kotasælu settar yfir hakkið og dreift vel úr því. Þetta er svo endurtekið tvisvar. Að lokum er rifnum osti dreift yfir og hitað í ofni í 20-25 mínútur. Skreytt að síðustu með ferskri steinselju. Borið fram með fersku salati.

IMG_4298

Asískar kjötbollur


IMG_3461

Um síðustu helgi hélt stóra stelpan mín upp á tvítugsafmælið sitt. Ég keypti hluta af veitingunum frá Osushi og bjó til eitthvað af þeim sjálf. Það var dálítið vatnsmelónuþema í gangi, við gerðum vatnsmelónu mojito sem var víst ákaflega góður drykkur. Hann er gerður úr Bacardi Melon (romm með vatnsmelónubragði), lime, vatnsmelónu, sírópi og fullt af ferskri myntu – ég set inn uppskriftina hér við tækifæri. Einn af þeim matréttum sem ég bjó til voru kjötbollur með asískri sósu. Ég gerði þær litlar og notaði þær sem smárétt en í raun er ekkert því til fyrirstöðu að búa til máltíð úr þeim og hafa þá til dæmis hrísgrjón með. Myndirnar voru teknar í miklum flýti og eru ekkert til að hrópa húrra fyrir en ekki láta þær fæla ykkur frá! 🙂

Asískar kjötbollurUppskrift (ca. 50 litlar kjötbollur):

  • 900 g nautahakk
  • 2 tsk sesamolía
  • 2.5 dl brauðmylsna
  • 1 tsk engifer (krydd)
  • salt & pipar
  • 2 egg
  • 3-4  hvítlauksrif, pressuð eða skorin smátt
  • 1 búnt vorlaukur (hvíti hlutinn saxaður smátt – græni hlutinn geymdur)
 Sósa:
  • 2 dl Hoisin sósa
  • 4 msk hrísgrjónaedik (rice vinegar)
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 msk sojasósa
  • 1 tsk sesamolía
  • 1 tsk engifer (krydd)
  • Sesam fræ og græni hlutinn af vorlauknum notað til skreytingar.

Ofn hitaður í 200 gráður. Nautahakkið er sett í skál ásamt kryddi, eggjum, brauðmylsnu, hvítlauki og vorlauki, blandað vel saman. Litlar bollur eru mótaðar úr hakkinu og raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 10-12 mínútur eða þar til bollurnar eru tilbúnar.

Á meðan bollurnar eru í ofninum er sósan útbúin. Öllum hráefnunum í sósuna er blandað vel saman. Þegar bollurnar eru tilbúnar er þeim velt upp úr sósunni eða henni hellt yfir bollurnar. Græni hlutinn af vorlauknum er saxaður og dreift yfir ásamt sesamfræjum.

Asískar kjötbollur

Pizza með hakkbotni


Pizza með nautahakksbotniÞar sem að einn af fjölskyldumeðlimunum hallast að lágkolvetna lífsstílnum (LKL) hef ég reynt að elda mat sem hentar slíkum lífsstíl undanfarið. Þegar ég var að skoða uppskriftir á netinu rakst ég á útgáfu að „pizzu“ sem ekki bara hljómaði afar girnilega heldur smellpassaði við LKL. Ég prófaði að útfæra svoleiðis rétt í kvöld og við vorum öll ákaflega hrifin af útkomunni.  Þetta er mjög einfaldur réttur að útbúa sem fellur bæði fullorðnum og börnum vel í geð. Í uppskriftinni gef ég upp kryddið Chili Explosion. Þetta er krydd sem ég kynntist í Svíþjóð (Til í Bónus hér á landi og líklega fleiri verslunum) og mér finnst ómissandi í matargerð, ég nota það bæði fyrir kjöt, fisk, eggjakökur, grillað brauð og bara flest allt!  Þetta er blanda af chili, tómötum, papriku, sinnepsfræjum og svörtum pipar og mér finnst það mildara en hreinar chiliflögur – mæli með að þið prófið! Chili Explotion

Uppskrift f. ca. 4

  • 8-900 g. nautahakk
  • 2 egg
  • 4 stór hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • væn lúka af ferskri steinselju, söxuð smátt
  • salt og pipar
  • chili explosion
  • sveppir, skornir í sneiðar
  • rauð paprika, skorin í bita
  • ca 400 g góð pastasósa (ég notaði Premium Hunts pasta sauce með Herbs & Garlic)
  • 2 kúlur ferskur mozzarella (2×125 g), skorin í sneiðar
  • parmesan ostur, rifinn eða hefðbundinn rifinn ostur (líka hægt að nota eingöngu mozzarella kúlurnar)

Ofn hitaður í 220 gráður. Hakk er sett í skál ásamt eggjum, hvítlauk, steinselju og kryddað með salti, pipar og chili explosion kryddi (eða öðru góðu kryddi) og blandað vel saman með höndunum. Hakkinu er því næst skipt i tvennt og sett í sitt hvort kökuformið sem er ca. 24 cm. (ég notaði silikon kökuform). Þetta gerði ég til að rétturinn yrði sem líkastur pizzu en það er líka hægt að nota eldfast mót. Hakkinu er þrýst ofan í formið þannig að það þekji botninn, gott er að hafa kantana aðeins þykkari en miðjuna.IMG_3223 Þá er pastasósunni dreift yfir hakkið og því næst sveppum og papriku.IMG_3225 Að lokum er rifnum parmesan eða rifnum osti dreift yfir ef vill og mozzarella sneiðunum raðað yfir.

IMG_3233 Gott að krydda að lokum með heitu pizzakryddi. Sett inn í ofn við 220 gráður í 20-25 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og nautahakkið er eldað í gegn.

IMG_3245 IMG_3251 IMG_3260

Mexíkósk nautahakksrúlla


Mexíkósk nautahakksrúlla

Ég gerði enn eina útfærsluna af nautahakksrúllunni vinsælu en þetta kunn vera fjórða útgáfan sem ég set hingað á síðuna.

Þetta byrjaði allt með nautahakksrúllunni með brokkolí og osti.recently-updated121Ég færði mig síðan upp á skaftið og útfærði aðra rúllu með meðal annars beikoni og eplum. IMG_9706Næst ákvað ég að prófa að nota mozzarella, tómata og basiliku í fyllinguna.

IMG_0576

Í vikunni fékk ég þá skyndihugdettu að gera rúlluna mexíkóska. Ég lét ekki sitja við orðin tóm og prófaði að gera slíka rúllu samdægurs. Ég notaði þau hráefni sem ég átti í ísskápnum. Til dæmis datt mér í hug að setja hrísgrjón og maísbaunir í fyllinguna en hafði áhyggjur af því að fyllingin yrði of þurr þannig. Ég átti eitt box af Philadelphia osti með sweet chili og hrærði honum því saman við hrísgrjónin. Mér finnst gott að krydda nautahakkið vel en fólk þarf að meta það sjálft hversu vel kryddað hakkið á að vera, mælieiningarnar hér að neðan er aðeins til viðmiðunnar, ég notaði aðeins meira. Í fyllinguna eru notuð soðin hrísgrjón og það er mjög sniðugt að spara sér tíma og sjóða aukalega hrísgrjón með einhverjum kvöldmatnum, geyma í ísskáp og nota svo í fyllinguna.

Uppskrift:

  • 700 g nautahakk
  • 1/2 tsk chili duft
  • 1/2 tsk paprika
  • 1/2 tsk cumin krydd (broddkúmen) – ath. ekki kúmen
  • 1/2 tsk oregano
  • hnífsoddur cayanne pipar
  • salt & pipar
  • Fyrir þá sem kjósa það heldur þá er hægt að nota tilbúna Burrito kryddblöndu í stað kryddanna hér að ofan
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • ca. 1/4 meðalstór laukur, saxaður mjög smátt
  • 1 egg

Fylling:

  • ca. 2,5 – 3 dl af ósoðnum hrísgrjónum sem eru soðin samkvæmt leiðbeiningum
  • lítil dós gular maísbaunir
  • 1 dós Philadelphia ostur með sweet chili
  • (mér datt í hug eftir á að það hefði líklega verið gott að steikja rauðlauk og bæta í fyllinguna!)

Ofan á rúlluna:

  • 1 krukka salsa (ca. 350 g)
  • rifinn mozzarella ostur

Ofninn er hitaður í 200 gráður. Kryddunum, eggjunum, lauknum og hvítlauknum er blandað vel saman við nautahakkið. Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.

IMG_9693

Soðnum hrísgrjónum, gulum maísbaunum og Philadelphia osti er blandað vel saman og dreift jafnt yfir hakkið. Því næst er rúllunni rúllað upp með hjálp bökunarparppírsins undir hakkinu. IMG_1100Rúllan er færð varlega yfir í eldfast mót eða á bökunarplötu og bökuð í ofni í ca. 20 mínútur. Þá er hún tekin út, salsa sósu hellt yfir rúlluna og rifnum osti dreift yfir. IMG_1102Rúllan er aftur sett inn í ofn og bökuð í um það bil 20 mínútur til viðbótar eða þar til rúllan er elduð í gegn. Ef osturinn fer að dökkna of mikið er hægt að setja álpappír yfir rúlluna undir lokin. Athugið að bökunartíminn er bara til viðmiðunnar, hann fer alfarið eftir því hvernig hakkinu er rúllað út og þá hver þykktin verður á rúllunni. Þykk og stutt rúlla þarf lengri bökunartíma en löng og mjó þarf styttri! 🙂

Borið fram með salsasósu, fersku guacamole og fersku salati. Mitt ferska salat þessa dagana samanstendur af einhverju góðu grænu salati blandað við dásamlega fersku og góðu baunaspírurnar frá Ecospiru. Ég hvet ykkur til að prófa!

IMG_1117

Baunaspírur

Mozzarellafylltar kjötbollur í chili-rjómasósu


IMG_0866

Ég á enn frekar mikið eftir af nautakjötinu sem ég keypti beint af býli síðastliðið vor og er í smá átaki að nýta það góða kjöt. Að þessu sinni horfði ég á girnilegar mozzarellakúlur í ísskápnum og ákvað að sameina þær við nautahakkið sem ég var búin að taka úr frystinum. Eins og svo oft áður þegar ég byrja að vinna með mozzarellaost þá fylgja tómatar og fersk basilika í kjölfarið bara svona ósjálfrátt – það er bara svo góð blanda! Ég átti líka til ljúffenga Philadelphia ostinn með sweet chili en mér finnst bragðbættu Philadelphia ostarnir alltaf gefa ákaflega góðan grunn í sósur. Ég verð að segja að þetta samankurl hjá mér lukkaðist svona ljómandi vel og fjölskyldan var afar ánægð með matinn.

Uppskrift:

  • 1 kíló nautahakkIMG_0855
  • 1 egg
  • 1/2 – 1 tsk chili flögur eða duft (ég notaði chili explosion)
  • grófmalaður pipar
  • salt (ég notaði flögusalt með chili)
  • 1 poki litlar mozzarellakúlur (120g -12 stykki)
  • smjör eða olía til steikingar
  • 1 box Philadelphia ostur með sweet chili (200 g)
  • 3-4 dl léttmjólk eða rjómi – hægt að nota allt þar á milli, t.d. matreiðslurjóma
  • 1/2 -1 dl sweet chili sósa
  • 1 askja kokteiltómatar
  • fersk basilika, söxuð gróft

IMG_0859

Nautahakkinu er blandað vel saman við kryddin og eggið. Því næst eru mótaðar 12 bollur og gerð djúp hola í hverja þeirra. Einni mozzarellakúlu er stungið ofan í hverja bollu og henni lokað þétt og vel. Því næst eru bollurnar steiktar upp úr smjöri og/eða olíu á pönnu á öllum hliðum þar til þær hafa fengið góða steikingarhúð. Þá er Philadelphia ostinum bætt á pönnuna, hann látinn bráðna ásamt mjólkinni/rjómanum. Þá er sósan bragðbætt með sweet chili sósunni, hrært vel saman. Látið malla undir lokið í ca. 10 mínútur, sósan bragðbætt með pipar og/eða salti ef vill. Þá er kokteiltómötum bætt út í sósuna og allt látið malla í smástund eða þar til kjötbollurnar eru eldaðar í gegn. Áður en bollurnar eru bornar fram er ferskri basiliku dreift yfir. Borið fram með hrísgrjónum.

IMG_0913IMG_0885