Asískar kjötbollur


IMG_3461

Um síðustu helgi hélt stóra stelpan mín upp á tvítugsafmælið sitt. Ég keypti hluta af veitingunum frá Osushi og bjó til eitthvað af þeim sjálf. Það var dálítið vatnsmelónuþema í gangi, við gerðum vatnsmelónu mojito sem var víst ákaflega góður drykkur. Hann er gerður úr Bacardi Melon (romm með vatnsmelónubragði), lime, vatnsmelónu, sírópi og fullt af ferskri myntu – ég set inn uppskriftina hér við tækifæri. Einn af þeim matréttum sem ég bjó til voru kjötbollur með asískri sósu. Ég gerði þær litlar og notaði þær sem smárétt en í raun er ekkert því til fyrirstöðu að búa til máltíð úr þeim og hafa þá til dæmis hrísgrjón með. Myndirnar voru teknar í miklum flýti og eru ekkert til að hrópa húrra fyrir en ekki láta þær fæla ykkur frá! 🙂

Asískar kjötbollurUppskrift (ca. 50 litlar kjötbollur):

  • 900 g nautahakk
  • 2 tsk sesamolía
  • 2.5 dl brauðmylsna
  • 1 tsk engifer (krydd)
  • salt & pipar
  • 2 egg
  • 3-4  hvítlauksrif, pressuð eða skorin smátt
  • 1 búnt vorlaukur (hvíti hlutinn saxaður smátt – græni hlutinn geymdur)
 Sósa:
  • 2 dl Hoisin sósa
  • 4 msk hrísgrjónaedik (rice vinegar)
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 msk sojasósa
  • 1 tsk sesamolía
  • 1 tsk engifer (krydd)
  • Sesam fræ og græni hlutinn af vorlauknum notað til skreytingar.

Ofn hitaður í 200 gráður. Nautahakkið er sett í skál ásamt kryddi, eggjum, brauðmylsnu, hvítlauki og vorlauki, blandað vel saman. Litlar bollur eru mótaðar úr hakkinu og raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 10-12 mínútur eða þar til bollurnar eru tilbúnar.

Á meðan bollurnar eru í ofninum er sósan útbúin. Öllum hráefnunum í sósuna er blandað vel saman. Þegar bollurnar eru tilbúnar er þeim velt upp úr sósunni eða henni hellt yfir bollurnar. Græni hlutinn af vorlauknum er saxaður og dreift yfir ásamt sesamfræjum.

Asískar kjötbollur

Kjötbollur í tómatsósu


Í gömlu handskrifuðu uppskriftabókinni minni, sem mér er tíðrætt um, er þessi uppskrift af kjötbollum á þriðju blaðsíðu. Þetta er því uppskrift sem hefur fylgt okkur fjölskyldunni frá upphafi og er alltaf jafn vinsæl hjá öllum fjölskyldumeðlimum, sérstaklega krökkunum. Með þessum rétti hef ég hrísgrjón eða kúskús. Ég hef með árunum minnkað kjötbollurnar töluvert, þá þurfa þær styttri eldunartíma. Í upprunalegu uppskriftinni er ekki egg en mér finnst það binda svo vel saman bollurnar að ég bætti því við. Það er mikilvægt að krydda vel hakkið svo að þetta verði kjötbollur sem bragð er að! Í uppskriftinni sem ég gef upp hér að neðan er sama magn og ég nota fyrir fjölskylduna okkar, það er, fyrir sex svanga og ei matgranna, það kláraðist hver einasta bolla hjá okkur! Fyrir þetta magn þarf að nota tvær pönnur til að steikja bollurnar á eða steikja þær í tveimur umferðum.

Uppskrift:

  • 1300 gr nautahakk
  • 2 1/2 dl brauðmylsna eða mulið Ritz kex
  • 1 egg
  • 2-3 dl rifinn ostur
  • salt og pipar
  • gott krydd, t.d. Töfrakrydd frá Pottagöldrum
  • 1 rauðlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 ferna matreiðslurjómi (5 dl)
  • 2 dósir hakkaðir tómatar með basilku
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1/2 dl tómatsósa
  • 1 tsk kjötkraftur
  • 1 msk þurrkuð basilika

Nautahakki, brauðmylsnu, rifnum osti, eggi og kryddi blandað vel saman og mótaðar bollur  á stærð við tómata. Bollurnar eru steiktar í smjöri og/eða olíu á pönnu þar til þær eru vel steiktar á öllum hliðum. Ef pannan er stór er hægt að útbúa sósuna á pönnunni, annars er best að færa bollurnar yfir í stóran pott og útbúa sósuna í honum. Lauknum bætt á pönnuna með bollunum, því næst er rjómanum hellt út á ásamt hökkuðum tómötunum. Að því búnu er tómatpúrru, tómatsósu, kjötkrafti og basiliku bætt út í. Bollurnar látnar malla í sósunni í ca. 10-15 mínútur eða þar til þær eru eldaðar í gegn. Sósan er smökkuð til með kryddi. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskús ásamt salati eða soðnu brokkolí.