Mexíkóskur hamborgari með tómatsalsa og guacamole


IMG_1226Fyrsta aðventuhelgin að renna upp, dásamlegt! Það verður margt um að vera hjá okkur um helgina, meðal annars piparkökumálun og kransagerð. En það er ekki úr vegi að byrja helgina á gómsætum hamborgurum sem passa vel við föstudagskvöld. Ég datt niður á skemmtilegt blogg Svía sem bloggar bara um hamborgara! Hann býr bæði til sína eigin hamborgara í allskonar útfærslum en tekur líka út hamborgara á veitingastöðum. Til dæmis fór hann til New York í viku og borðaði mismunandi hamborgara í öll mál alla vikuna! Þegar ég renndi í gegnum bloggið hans sá ég allskonar spennandi uppskriftir af hamborgurum sem mig langar að prófa en þessi mexíkóski var svo girnilegur að ég varð að prófa hann samdægurs! Að sjálfsögðu grilluðum við hamborgarana, þeir verða svo miklu betri og mér finnst hægt að grilla allt árið um kring, nema kannski ef það er mikið frost eða ofankoma. Ég bjó til eigið guacamole og tómatsalsa en svo notuðum við líka tilbúið salsa sem var gott að nota til að bleyta aðeins upp í hamborgarabrauðinu þar sem að tilbúið salsa er með meiri tómatsósu en heimatilbúið. Þessir hamborgarar voru svo gómsætir eða eins og Ósk sagði eftir fyrsta bitann, ,,ég er í hamborgarahimni!“ 🙂 Næst ætla ég að prófa að búa sjálf til hamborgara, blanda nautahakki og mexókóskum kryddum saman, það er örugglega enn betra.

Tómatsalsa:

  • 2-3 stórir tómatar
  • 1 lítill rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1-2 tsk fínsaxað rautt chili (eða eftir smekk)
  • 1/2 lime
  • 1-2 tsk ólífuolía
  • 2 tsk tómatpúrra
  • örlítill sykur
  • salt og pipar
  • ferskt kóríander eftir smekk

IMG_1206

Tómatar skornir mjög smátt. Laukur og hvítlaukur saxað mjög smátt. Blandað saman í skál. Fínsöxuðu chili, safa úr límónuni, ólífuolía, tómatpúrra og sykur sett út í ásamt kóríander. Blandað vel. Smakkað til með pipar, salti og jafnvel meira af öðru hráefni, t.d. chili, limesafa, lauk eða öðru slíku ef með þarf. Gott að setja plast yfir skálina og geyma í dálitla stund í ísskáp áður en salsað er borið fram.

Guacamole uppskrift

  • 2 vel þroskuð avókadó, skorin í litla bita
  • 2 stórir tómatar, skornir mjög smátt
  • 1-2 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt (má sleppa)
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1-2 fersk rauð chili, kjarnhreinsuð og söxuð smátt
  • safi úr einni límónu (lime)
  • 1-2 búnt ferskt kóríander, saxað smátt
  • 1/2 tsk salt

IMG_7254

Öllum hráefnunum blandað í skál, henni lokað þétt með plastfilmu og geymd í ísskáp í minnst korter áður en hún er borin fram. Ef útbúa á guacamole með lengri fyrirvara getur verið leiðinlegt hvað maukið verður brúnt. Tvennt er hægt að gera til að koma í veg fyrir það. Það er að dreifa lime-safa vel yfir maukið og geyma avókadó steinana í maukinu.

  • Hamborgarar (ég notaði 120 gramma)
  • burrito kryddmix
  • Hamborgarabrauð
  • ostur (ég notaði Maribó ost)
  • kál
  • nachos
  • Thick ‘n Chunky salsa

Hamborgarar kryddaðir með burrito kryddmixi, því næst eru þeir grillaðir með osti. Thick ‘n Chunky salsa borið á báða helminga hamborgarbrauðsins. Þá er sett vel af káli, því næst fullt af guacamole, svo er það nachos, hamborgarinn kemur ofan á og loks nóg af tómatsalsa.

IMG_1219

Bananakaka með hvítu súkkulaðikremi


Nú er aðventan að bresta á og fyrsta jólaljósið er komið í gluggann hjá okkur. Ég féll fyrir þessari jólastjörnu í verslun í gær og hengdi hana upp í stofunni um leið og ég kom heim. Nú get ég get ekki beðið eftir því að ná í allt hitt jóladótið um helgina. Elfar er í ljósadeildinni á heimilinu. Hann leggur sig alltaf í lífshættu við að setja seríu í stóra grenitréið okkar sem er líklega orðið einir fimm, sex metrar á hæð eða jafnvel hærra. Nú bar svo við að serían bilaði auk þess sem hann þurfti að skreppa til Svíþjóðar og er svo að fara í nokkra daga til Barcelona á morgun. Ég er því orðin afar óþolinmóð yfir því að fá ljósin í tréið en ég þarf víst að bíða róleg í nokkra daga í viðbót.

Við mæðgur bökuðum þessa sjúklega góðu köku í dag, við mælum virkilega með henni! 🙂 Þetta er kaka sem batnar bara með tímanum, hún er best geymd í kæli yfir nóttu og borin fram daginn eftir.

Uppskrift bananakaka:

  • 2 stórir bananar, mjög vel þroskaðir, stappaðir
  • 100 gr sýrður rjómi
  • 2 stór egg
  • 1 1/2 tsk vanillusykur
  • 170 gr púðursykur
  • 1 dl matarolía
  • 170 gr hveiti
  • 30 gr maizenamjöl
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt

Bakarofn hitaður í 175 gráður (undir og yfirhiti). Smelluform (22-24 cm) smurt að innan. Stappaðir bananar og sýrður rjómi þeytt. Eggjum bætt við einu í senn ásamt vanillusykri. Því næst er púðursykrinum bætt út og hrært í ca. eina mínútu. Svo er olíu bætt við smátt og smátt, þá er hveiti, maizenamjöli, matarsóda, lyftidufti og salti bætt út í og þeytt í smá stund þar til deigið hefur blandast vel saman.

Deiginu hellt í bökunarform og kakan bökuð í miðjum ofninum í ca. 40-45 mínútur við 175 gráður, fer eftir stærð bökunarformsins. Því næst er kakan látin kólna áður en kremið er settt á.

Hvítt súkkulaðikrem:

  • 100 gr hvítt súkkulaði
  • 100 gr. rjómaostur (gjarnan Philadelphia), við stofuhita
  • 30 gr. smjör, skorið í litla bita
  • nokkrir sítrónudropar (má sleppa)

Hvítt súkkulaði brætt við vægan hita yfir vatnsbaði. Þegar súkkulaðið er næstum því bráðnað er það tekið af hitanum og hrært rólega í því þar til það er alveg bráðnað. Nú er það látið kólna þar til það er ekki heitt lengur en þó enn í fljótandi formi. Þá er því helt í skál ásamt restinni af hráefnunum og þeytt þar til kremið er orðið slétt.  Kremið er borið á kalda kökuna. Best er að leyfa kreminu að stífna með því að geyma kökuna í ísskáp.

Kjúklingapasta með ostasósu


Þennan pastarétt geri ég þegar ég vil afla mér vinsælda hjá yngstu krökkunum og ef ég vil vita fyrirfram að þau munu háma í sig kvöldmatinn af bestu lyst! 🙂 Yngstu börnin eru ekki alltaf ánægð með skólamatinn, enda eru skólakokkarnir ekki öfundsverðir af því fjármagni sem þeir hafa úr að spila til þess að búa til mat fyrir mörg hundruð mismatvandna krakka. Þau eru ákaflega hrifin af einum rétti sem skólakokkurinn gerir, það er pasta í ostasósu og Jóhanna hefur kvartað yfir því að ég geri ekki jafngóða ostasósu. Ég tók nú ekki þeirri kvörtun léttvægt og hef verið að þróa ostasósuna þar til að ég sló skólaréttinum við! 😉 Þessi pastaréttur er mjög einfaldur, enda finnst krökkunum best að sleppa öllum óþarfa eins og til dæmis grænmeti! Toppurinn yfir i-ið er að bera fram þennan pastarétt með hvítlauksbrauði.

Uppskrift

  • 1 heilsteiktur tilbúinn kjúklingur
  • smjör til steikingar
  • 100 gr rjómaostur
  • 1 piparostur
  • 2 dl rifinn ostur
  • 3 dl matreiðslurjómi
  • 1-2 dl mjólk
  • 1 tsk kjúklingakraftur
  • salt og pipar
  • 500 gr pasta

Pasta soðið eftir leiðbeiningum. Kjötið hreinsað af kjúklingnum og það skorið í litla bita. Því næst er smjörið og kjúklingurinn sett á pönnu, kjúklingurinn saltaður og pipraður og hann síðan steiktur í örskamma stund. Þá er matreiðslurjóma og mjólk hellt út á, piparostur skorinn í litla bita og honum bætt út í ásamt rjómaosti og rifnum osti. Þá er kjúklingakrafti bætt út í. Látið malla á vægum hita og hrært í sósunni öðru hvoru þar til osturinn er bráðnaður. Þá er sósan smökkuð til með kryddi og henni svo blandað saman við pastað. Borið fram með hvítlauksbrauði.

Grænmetislasagna með ostrusósu, engifer og kókos


Þá er helginni að ljúka. Ég hef setið og skrifað ritgerðina mína alla helgina með þó smá hléum. Í gær var Jóhanna að dansa á danssýningu en hún er búin að vera í Hiphop dansi þessa önn. Ég, Inga frænka og mamma mættum og horfðum á, að sjálfsögðu stóð hún sig með sóma stelpan ásamt Gyðu vinkonu sinni. Pabbinn hafði öðrum hnöppum að hneppa því á sama tíma var hann að syngja með Fjallabræðrum á tónleikum í Háskólabíói. Við fórum af danssýningunni á seinni tónleikana og sáum þessa snillinga. Að sjálfsögðu fannst fjölskyldunni okkar maður bera af á sviðinu! 🙂 Við hjónin enduðum svo á bar niðri í bæ með öllum kórnum og hljómsveitinni þar sem staðurinn var tekinn yfir með söng og spili fram á rauða nótt. (myndir af Fjallabræðrum teknar af Kristjáni Söebeck)

Það var því lítið um eldamennsku í gær og deginum áður var snædd pizza. En fyrr í vikunni gerði ég nýjan rétt sem öllum fannst býsna góður. Ég fékk þá uppskrift úr íslensku blaði, aldrei þessu vant, norðlenska blaðinu Vikudagur. Mér fannst uppskriftin hljóma svo ákaflega spennandi að ég varð bara að prófa hana, þetta var ekki líkt neinu lasagna sem ég hef borðað áður! Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, þetta grænmetislasagna var ofsalega gott og það kom mér á óvart hvað það var matarmikið, mér fannst eins og í því væri mikið meira en bara grænmeti. Elfar var sérstaklega hrifinn af þessum rétti, mér skilst að hann sé búinn að auglýsa hann vel í vinnunni sinni og lofa uppskriftinni á bloggið! 🙂 Kókosflögurnar komu  afar vel út fannst mér, næst ætla ég að setja enn meira af þeim. Það lítur kannski út fyrir að vera mörg hráefni í þessum rétti en ekki láta það hræða ykkur, margt af því er eitthvað sem maður á til. Ég notaði til dæmis það grænmeti sem ég fann í ísskápnum og svo átti ég satt besta að segja allt annað hráefni til fyrir utan kókosmjólk og svo vantaði mig meiri ostrusósu. Þetta var því afar ódýr réttur að útbúa.

Uppskrift

  • 3 msk. olía
  • 1 kg blandað grænmeti, skorið í bita t.d. laukur, paprika, blómkál, spergilkál, baunir, kúrbítur, gulrætur, sætar kartöflur eða hvað sem hver vill
  • lasagneblöð
  • rifinn ostur
  • kókosflögur

Ostrusósa

  •  4 dl ostrusósa (oyster sauce)
  • ½ dl tómatssósa
  • ½ dl sætt sinnep
  • 2 msk. balsamik edik
  • 2 msk. hunang
  • 1 msk. paprikuduft
  • ½ msk karrí
  • 1 tsk. rósapipar
  • 2 msk. rifið engifer
  • 5 hvítlauksgeirar
  • ½ chili aldin

Allt hráefnið sett í matvinnsluvél og maukað vel.

Kókossósa

  • 300 ml kókosmjólk
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 tsk. múskat
  • salt
  • pipar
  • sósujafnari

Setjið allt nema sósujafnara í pott og hleypið suðunni upp. Þykkið þá sósuna með sósujafnara.

Ofn hitaður í 200 gráður. Steikið grænmetið í olíu á pönnu í ca. 2 mín. Hellið ostrusósunni á pönnuna og látið krauma í aðrar 2 mín. Leggið lasagneblöð í botnin á eldföstu móti. Setjið þunnt lag af kókossósunni yfir lasagneblöðin og dreifið hluta af grænmetinu yfir kókossósuna. Leggið lasagneblöð yfir grænmetið og endurtakið þannig að það verði 3-4 lög af grænmeti. Dreifið rifnum osti yfir. Bakið við 200°C í 20 mín. Þegar 5 mín. eru eftir af eldunartímanum er rétturinn tekinn út og kókosflögum dreift yfir, svo aftur inn í ofninn restina af tímanum. Borið fram með góðu brauði.

Brownie-kaka með hindberjarjóma í Kökublaði Vikunnar


Kökublað Vikunnar var að koma út, spennandi blað eins og venjulega með allskonar köku uppskriftum, þið sjáið ekki eftir því að fjárfesta í eintaki! 🙂 Ég var beðin um að gefa uppskrift af einni köku sem ég gerði auðvitað með glöðu geði. Ég bakaði Brownieköku með hindberjarjóma. Ástæðan fyrir því var einföld, þessi kaka er himnesk! Súkkulaði og hindber er tvenna sem er ómótstæðileg í mínum huga. Ég get sjaldan horft framhjá uppskriftum sem í er hvort tveggja og ég varð því að prófa þessa köku þegar ég sá hana á sænskri netsíðu. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, þetta varð strax ein af mínum uppáhaldskökum. Þetta er fullkomin blanda af sætu og seigu súkkulaði á móti léttum og frískum hindberjarjóma. Að auki er afar auðvelt að búa kökuna til sem er alltaf kostur. Ég hef gert aðra útfærslu af henni fyrir eftirrétt. Þá baka ég botninn, skipti honum í eftirréttaskálar og set svo hindberjarjómann yfir ásamt þeyttum rjóma og ferskum hindberjum. Þá er komin ljúffengur og fallegur eftirréttur. Myndirnar í blaðinu eru teknar af ljósmyndara Vikunnar, sem sést að störfum hér fyrir neðan, en ég tók myndirnar í þessari færslu.

Ég breytti uppskriftinni (get aldrei hamið mig!) en upphaflega var í hindberjarjómanum pektín sultusykur en þá fannst mér hindberjarjóminn ekki hlaupa nógu vel, hann varð ekki nógu fallegur. Ég breytti því yfir í venjulegan sykur og matarlím, þannig varð kakan miklu fallegri.

Uppskrift

Brownie-botn

  • 120 gr suðusúkkulaði
  • 100 gr smjör
  • 2 1/2 dl sykur
  • 2 egg
  • 1 ½ msk vanillusykur
  • ¼ tsk salt
  • 1 ½ dl hveiti

Hindberjarjómi

  • 300 gr. frosin hindber, afþýdd
  • 1 dl sykur
  • 4 blöð matarlím
  • 2 tsk vanillusykur
  • 3 dl rjómi
  • þeyttur rjómi til skreytingar
  • fersk hindber til skreytingar

Brownie-botn: Bakarofn hitaður í 175°C. Smelluform (ca. 22 cm.) smurt að innan, bökunarpappír sniðinn og klipptur eftir botninum á forminu og lagður ofan á botninn. Súkkulaði og smjör sett í skál og brætt yfir vatnsbaði. Þegar blandan er bráðnuð er hún tekin af hitanum og sykri bætt út í. Hrært þar til blandan er slétt. Eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er vanillusykri og salti hrært út í. Að lokum er hveitið sigtað út í, blandað varlega saman með sleikju og deiginu hellt í formið. Kakan er bökuð við 175°C í um það bil 30 mínútur (athugið að kakan á að vera blaut). Kakan látin kólna. Því næst er smelluforminu smellt af og kökunni hvolft á kökudisk. Þá er auðvelt að fjarlægja bæði botninn á kökuforminu og bökunarpappírinn. Því næst er smelluforminu smellt aftur utan um kökuna á kökusdisknum til þess að halda við hindberjarjómann sem kemur ofan á.

Hindberjarjómi: Hindber maukuð í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Maukinu er síðan hellt í fínt sigti og fræin þannig síuð frá og þeim hent. Matarlímsblöð lögð eitt í einu í skál með vel köldu vatni og látin liggja þar í 5-7 mínútur. Hindberjamauk, sem nú er laust við fræ, er sett í pott ásamt sykrinum og suðan látin koma upp.  Þegar matarlímsblöðin eru orðin mjúk og þykk eru þau tekin upp úr skálinni, vatnið kreist úr þeim og þeim svo bætt út í hindberjamaukið í pottinum og hrært þar til blöðin eru uppleyst. Potturinn er tekinn af hitanum og vanillusykri þá bætt við (vanillusykri má aldrei blanda við sjóðandi vökva, þá verður hann beiskur) , blandan svo látin bíða þar til hún kólnar. Rjóminn þeyttur. Þegar hindberjablandan hefur kólnað er henni blandað saman við þeytta rjómann. Hindberjarjómanum er því næst dreift yfir kaldan brownie-botninn (formið látið sitja áfram utan um kökuna). Kakan kæld í minnst þrjá klukkutíma, gjarnan yfir nóttu. Skreytt með þeyttum rjóma og ferskum hindberjum.

Karríkjúklingur með sætum kartöflum


Við erum búin að borða þennan ljúffenga rétt tvö kvöld í röð! Ég eldaði mjög stóran skammt í fyrrakvöld og í gærkvöldi fengum við okkur afganginn snemma og drifum okkur svo í kvöldsund með krakkana. Jemundur minn hvað það var notalegt! Ég er búin að sitja í svo margar vikur og skrifa ritgerðina mína að ég endaði á því að fá þursabit í bakið. Ég hef aldrei fengið svona í bakið áður, það er ákaflega óþægilegt og algjört vesen þegar maður þarf að sitja við tölvu allan daginn. Ég var svo glöð að uppgötva að Árbæjarlaugin er opin til klukkan 22 núna, en þeir voru búnir að draga svo úr opnunartímanum fyrr í ár. Ekki nóg með það heldur var kominn glænýr heitur pottur með allskonar nuddtækjum! Ég kom heim stálslegin og allt önnur í bakinu og krökkunum fannst dásamlegt að fara í kvöldsund. Við ætlum að reyna að gera þetta reglulega.

En að uppskrift dagsins! Mér finnst kjúklingur ákaflega góður, eins er ég afar hrifin af sætum kartöflum og mér finnst karrí mjög gott. Þegar ég fann uppskriftina af þessum rétti var ég viss um að mér myndi líka hann vel. Í réttinum eru fá hráefni en öll þessi ofangreindu sem mér finnst svo góð, hann er mjög einfaldur að matreiða og dásamlega litríkur. Það kom á daginn að mér líkar ekki bara rétturinn, ég elska hann! 🙂 Ég get varla beðið eftir því að búa hann til aftur og er strax farin að hugleiða hverjum ég á að bjóða í mat í þennan rétt! Ég var ekki ein um að falla fyrir þessum rétti, öllum í fjölskyldunni fannst hann ofsalega góður, meira að segja yngstu krökkunum. Ég notaði,,mild curry paste“ sem ég fann í Þinni verslun, ég fann ekkert slíkt á hraðferð minni í gegnum Bónus. Rétturinn var því mjög mildur en einkar bragðgóður. Ég átti ekki nóg af kókosmjólk en hins vegar átti ég rjóma þannig að ég setti ca. 1/3 rjóma í stað kókosmjólkur en það er líka hægt að nota bara kókosmjólk. Þessi réttur minnir dálítið á Massaman curry réttinn sem byggist einmitt upp á kartöflum, kjöti, curry paste, kókosmjólk og fleira hráefni. Sá réttur er ofsalega góður en mér finnst þessi eiginlega betri út af sætu kartöflunum og hann er klárlega mildari og einfaldari að útbúa.

Uppskrift:
  • 800 gr sætar kartöflur
  • 2 msk olía
  • salt og pipar
  • 2-3 msk curry paste (grænt, milt, sterkt – eftir smekk)
  • 1 msk olía
  • 700 gr kjúklingabringur eða lundir
  • 1 dl kröftugt kjúklingasoð (kjúklingakraftur + sjóðandi vatn)
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 límóna (lime), safinn + fínrifinn börkur
  • kóríander, grófsaxað

Bakarofn hitaður í 220 gráður. Sætar kartöflur skrældar, skornar í bita og dreift í ofnskúffu. Olíu, salt og pipar bætt við og hitað við 220 gráður í ca. 20 mínútur. Á meðan er kjúklingurinn skorinn í bita. Olíunni (1 msk) hellt á pönnu og curry paste bætt út á pönnuna. Látið malla í ca. 2 mínútur, hrært í á meðan. Kjúklingabitunum bætt út á pönnuna og steikt þar til þeir hafa náð lit á öllum hliðum. Þá er kókosmjólk, kjúklingasoði, safa og berki frá límónunni bætt út og látið malla í ca. 10 mínútur. Þegar sætu kartöflurnar eru hér um bil eldaðar í gegn er þeim bætt út í kjúklingaréttinn (allt fært í stóran pott ef pannan er of lítil) og leyft að malla með kjúklingnum í nokkrar mínútur í viðbót. Borið fram með hrísgrjónum og fersku kóríander stráð yfir réttinn.

Kladdkaka með banana og sykurpúðum


Kladdkaka er ein vinsælasta kakan í Svíþjóð. ,,Kladd“ þýðir ,,klístrug“ og lýsir því hversu blaut og þétt kakan er. Hún er án lyftidufts/matarsóda, það gefur henni þessa ljúffengu áferð og hún er í raun ekkert ólík brownies kökum. Klassíska kladdkakan er súkkulaðikaka og er oftast nær borin fram með þeyttum rjóma eða ís. Hér er aðeins öðruvísi útgáfa af kladdkökunni. Í hana er búið að bæta banana og sykurpúðum. Ótrúlega góð og djúsí kaka!Ég vissi ekki alveg hvað ég vildi hafa mikið af sykurpúðum og klippti því þá niður í frekar litla bita. Ég held að ég hafi þá stærri og fleiri næst, þeir gefa svo ofsalega gott bragð og áferð.

Uppskrift:
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 100 gr smjör, brætt og kælt dálítið
  • 1/4 tsk salt
  • 1,5 dl hveiti
  • 5 msk kakó
  • 1 banani, maukaður
  • sykurpúðar eftir smekk

Ofn hitaður í 175 gráður (undir og yfirhiti). Egg og sykur hrært saman (ekki þeytt). Hveiti og kakó sigtað út í og ásamt restinni af hráefninu, fyrir utan sykurpúðana. Hrært vel. Smelluform (ca 24 cm) smurt vel og deiginu hellt í formið. Sykurpúðunum stungið ofan í deigið að vild. Bakað við 175 gráður í 30 mínútur. Kakan borin fram volg með þeyttum rjóma eða ís. Líka góð köld!

Spaghettípizza með pepperóní


Ég kom heim aðfaranótt gærdagsins frá Stokkhólmi eftir hafa dvalið þar langa helgi með Önnu Sif vinkonu. Ferðin var löngu plönuð í tilefni stórafmæla okkar en ég hafði þó ráðgert að vera búin með ritgerðina mína áður en ég færi. Bjartsýnin í hámarki hjá mér! Ég er auðvitað langt frá því að vera búin og endaði á því að vinna í ritgerðinni bæði nætur og daga fyrir ferðina. Nóttina áður en við fórum skrifaði ég til kl. 4.30 og átti þá eftir að pakka! Lagði svo af stað út á flugvöll hálftíma seinna. Ég náði þó að klára að skrifa það sem ég hafði ætlað mér og við Anna Sif áttum góða helgi í Stokkhólmi. VIð bjuggum á hóteli í Solna Centrum sem er stór verslunarmiðstöð í hverfinu sem ég bjó í þau 15 ár sem við fjölskyldan bjuggum í borginni. Það var svolítið skrítið að búa í verslunarmiðstöð sem maður þekkti svona vel, svipað eins og ef maður byggi heila helgi í Kringlunni! 🙂 En alveg frábær staðsetning, lobbýið okkar var fjórum skrefum frá H&M!

Svo var neðanjarðarlestarstöð í kjallaranum og það tekur bara 8 mínútur að fara í miðbæinn. Við hittum íslensku vinkonur mínar, sem búa enn í Stokkhólmi, eina kvöldstund og var boðið í gómsætan forrétt, sushi, hvítvín og sænska prinsessutertu! Annars þræddum við búðirnar og afrekuðum að komast út úr mollinu tvo heila daga en þeim eyddum við í miðbænum. Á laugardagskvöldinu fóru við út að borða ,,afmælis“máltíðina á Grill sem er frábær veitingastaður. Ljúffengur matur og ótrúlega skemmtilega innréttaður staður. Honum er skipt upp í nokkra mismunandi þemahluta og óhætt að segja að þeman séu tekin alla leið! Þarna er sirkus hluti, hluti sem er í rococo stíl, annar í frönskum kaffihúsastíl og svo framvegis.

Við náðum að kaupa fullt af jólagjöfum sem hentaði mér afar vel þar sem ég er sokkin aftur niður í ritgerðarskrif. Ég mun örugglega ekki komast í búðir aftur næstu vikurnar! En hér heima hafði heimilisfaðirinn allt undir stjórn en mér skilst að það hafi lítið verið eldað. Krakkarnir voru samt ekkert ósátt við að fá pizzur, Nings og Subway nokkra daga í röð! 🙂 Í gærkvöldi voru hins vegar bara ég og yngstu krakkarnir heima, Elfar og elstu krakkarnir voru að vinna. Ég ákvað því að leyfa þeim að velja matinn. Þau skoðuðu þetta blogg og langaði mest í hakkrétt með pizzuívafi. En þá mundi Jóhanna eftir svipuðum rétti sem ég gerði síðasta vetur og þeim fannst svo góður, hún vildi endilega að ég myndi gera hann aftur. Ég mundi líka eftir honum en það var fyrir tíma bloggsins og ég mundi ómögulega hvar ég hafði náð í uppskriftina. En þá kom sér vel að ég sendi oft sjálfri mér tölvupóst með linkum á uppskriftir sem ég dett niður á og eftir smá leit fann ég uppskriftina. Ég breytti henni aðeins, í upphaflegu uppskriftinni var spaghettí blandað saman við parmesan ost en ég notaði rifinn piparost í staðinn og fannst það koma enn betur út. Krökkunum fannst þessi réttur æði og ég verð að viðurkenna að mér fannst hann afskaplega góður líka! Ég mun örugglega búa hann til reglulega.

Uppskrift:
  • 400 gr spaghettí, soðið
  • 30 gr smjör
  • 1 askja rifinn piparostur (85 gr)
  • 2 egg
  • 900 gr nautahakk
  • salt og pipar
  • gott kjötkrydd
  • 1 tsk nautakraftur
  • 1/2 laukur, saxaður smátt
  • 1 krukka tómatsósa með basiliku frá Rinaldi (680 gr)
  • rifinn ostur
  • 1 bréf pepperóní
Bakarofn hitaður í 200 gráður. Spaghettí soðið eftir leiðbeiningum og blandað heitu vel saman við smjör, egg og rifinn piparost. Lagt í botninn á stóru eldföstu móti. Laukurinn steiktur á pönnu og nautahakkinu bætt út á pönnuna, kryddað. Hakkið steikt þar til það er eldað í gegn. Þá er því dreift yfir spaghettíið. Því næst er tómatsósunni hellt yfir hakkið. Rifnum osti dreift yfir og pepperóni raðað ofan á. Bakað í ofni í 25 mínútur.

Ofnbakaður humar með heimatilbúnu hvítlaukssmjöri


Um síðustu helgi þegar við vorum með kalkúnaveisluna buðum við upp á stóran og girnilegan humar í forrétt. Humar er eitt af því besta sem ég fæ. Þegar maður er með svona eðalgott hráefni í höndunum eins og þessi humar var, þá er mikilvægt að leyfa honum að njóta sín sem best. Mér finnst humar njóta sín best þegar hann er baðaður í gómsætu hvítlaukssmjöri! Til þess að auðvelda gestunum að borða humarinn og líka til að hann líti fallega út á disk, losuðum við hann úr skelinni og lögðum upp á bakið. Þetta er dálítið pill og þolinmæðisvinna. Ég sá auðvitað í hendi mér að slíkt hentaði skurðlækninum mínum vel og hann var settur í það verk! 🙂 Auðvitað leysti hann það verk prýðisvel úr hendi eins og sést á myndunum. Það er lítið mál að búa til hvítlaukssmjörið. Síðan þarf bara að passa að baka humarinn passlega mikið, alls ekki of mikið. Þá er maður komin með ljúffengan forrétt sem fátt slær við. Að sjálfsögðu er líka hægt að hafa svona humar í aðalrétt líka. Þá er um að gera að bera hann fram með nóg af brauði til þess að dýfa í sósuna góðu sem kemur af humrinum. Það er passlegt að bera fram þrjá humra á mann í forrétt en allavega fimm til sex á mann í aðalrétt, jafnvel meira. Uppskriftina fékk ég frá Fiskikónginum.

Hvítlaukssmjör:
  • 1 rauður chilipipar, fræhreinsaður
  • 1 búnt steinselja
  • 2-3 heilir hvítlaukar, afhýddir (já, þú last rétt!), gott að nota solo-hvílaukana sem koma í heilu.
  • 500 g smjör, við stofuhita
  • 1 msk maldonsalt
  • reykt paprikuduft á hnífsoddi
  • svartur pipar úr kvörn
Allt sett saman í matvinnsluvél.
Humar:
  • 2 kg humar, helst stór eða millistór
  • hvítlaukssmjör (sjá uppskrift ofar)
  • 1.5 dl hvítvín
  • 1.5 dl rjómi
  • maldonsalt
  • svartur pipar úr kvörn
Humar sem á að bera fram um kvöldmataleytið er gott að taka úr frysti upp úr hádegi og vinna hann hálffrosin upp úr köldu vatni. Hann þiðnar fljótt og það er ekki gott að hafa hann þiðinn alltof lengi, þá dökknar hann. Humarinn klipptur upp eftir bakinu, svarta röndin hreinsuð úr honum undir köldu rennandi vatni, hann síðan þerraður með viskustykki og kjötið lagt upp á bakið (hann á samt að hanga fastur á halaendanum). Hvítlaukssmjöri makað á humarinn, ekki spara það! Humrinum raðað í eldfast mót, rjóma og hvítvíni hellt yfir (á þessum tímapunkti setti ég plastfilmu yfir formið og geymdi í kæli í 3 tíma þar til að tímabært var að elda humarinn) Grillað í ofni við 225 gráður í u.þ.b 3-4 mínútur. Þegar humarinn er tekinn úr ofninum hefur dálítið af smjörinu bráðnað ofan í hvítvínið og rjómann og myndað ljúffenga sósu. Humarinn borinn fram á disk og sósunni hellt yfir. Nauðsynlegt er að bera fram brauð eða hvítlauksbrauð með humrinum til þess að dýfa ofan í sósuna.
00514Með humrinum mælir Sævar vínþjónn með því að drukkið sé spænska freyðivínið Codorniu Clasico Semi Sec. Það er ljósgult, með meðalfyllingu og hálfsætt. Freyðivínið er ferskt með mjúkan ávöxt, epli og léttristaðan steinefnakeim.

Spaghettí og hakk


Spaghettí og hakk! Einfaldara getur það varla orðið en samt er þetta einn vinsælasti rétturinn á okkar heimili. Ég held áfram með þemað ,,fljótlegir matréttir“ sem er alveg í takti við tímaleysið hjá mér þessa dagana.

Yngri krakkarnir eru svolítið kresin á sósuna í hakkinu. Þeim líkar illa ef í henni eru tómatbitar eða laukabitar. Mér finnst Rinaldi tómatsósurnar ákaflega góðar og nota þannig ,,orginal“ sósu sem ég krydda svo til sjálf. Þegar ég sýð spaghettí set ég vatn í stóran pott og læt suðuna koma upp, þá bæti ég út í ca 2 tsk af salti. Því næst set ég spaghettíið út í. Ég passa að hræra öðru hvort í því þannig að það festist ekki saman. Mikilvægt er að ofsjóða ekki spaghettíið, ,,al dente“ – ,,við tönn“ er málið! Það er, nógu mjúkt til að borða en samt enn þétt í sér.

Uppskrift:

  • 600 gr hakk
  • 1 krukka Rinaldi orginal tómatsósa
  • 2 msk basilika
  • 1 msk oregano
  • 1 tsk nautakraftur
  • 1 msk sojasósa
  • salt og pipar
  • spaghettí

Spaghettí soðið eftir leiðbeiningum. Hakk steikt á pönnu þar til það er steikt í gegn. Þá er sósunni hellt út á pönnuna. Því næst er kjötsósan krydduð með basiliku, oregano, nautakrafti, sojasósu, salti og pipar. Borið fram með dálitlu rifnum osti eða parmesan osti ásamt tómatsósu. Einnig gott að bera fram með réttinu brauð og nota það til þess að hreinsa upp góðu sósuna af disknum! 🙂