Fyrsta aðventuhelgin að renna upp, dásamlegt! Það verður margt um að vera hjá okkur um helgina, meðal annars piparkökumálun og kransagerð. En það er ekki úr vegi að byrja helgina á gómsætum hamborgurum sem passa vel við föstudagskvöld. Ég datt niður á skemmtilegt blogg Svía sem bloggar bara um hamborgara! Hann býr bæði til sína eigin hamborgara í allskonar útfærslum en tekur líka út hamborgara á veitingastöðum. Til dæmis fór hann til New York í viku og borðaði mismunandi hamborgara í öll mál alla vikuna! Þegar ég renndi í gegnum bloggið hans sá ég allskonar spennandi uppskriftir af hamborgurum sem mig langar að prófa en þessi mexíkóski var svo girnilegur að ég varð að prófa hann samdægurs! Að sjálfsögðu grilluðum við hamborgarana, þeir verða svo miklu betri og mér finnst hægt að grilla allt árið um kring, nema kannski ef það er mikið frost eða ofankoma. Ég bjó til eigið guacamole og tómatsalsa en svo notuðum við líka tilbúið salsa sem var gott að nota til að bleyta aðeins upp í hamborgarabrauðinu þar sem að tilbúið salsa er með meiri tómatsósu en heimatilbúið. Þessir hamborgarar voru svo gómsætir eða eins og Ósk sagði eftir fyrsta bitann, ,,ég er í hamborgarahimni!“ 🙂 Næst ætla ég að prófa að búa sjálf til hamborgara, blanda nautahakki og mexókóskum kryddum saman, það er örugglega enn betra.
Tómatsalsa:
- 2-3 stórir tómatar
- 1 lítill rauðlaukur
- 2 hvítlauksrif
- 1-2 tsk fínsaxað rautt chili (eða eftir smekk)
- 1/2 lime
- 1-2 tsk ólífuolía
- 2 tsk tómatpúrra
- örlítill sykur
- salt og pipar
- ferskt kóríander eftir smekk
Tómatar skornir mjög smátt. Laukur og hvítlaukur saxað mjög smátt. Blandað saman í skál. Fínsöxuðu chili, safa úr límónuni, ólífuolía, tómatpúrra og sykur sett út í ásamt kóríander. Blandað vel. Smakkað til með pipar, salti og jafnvel meira af öðru hráefni, t.d. chili, limesafa, lauk eða öðru slíku ef með þarf. Gott að setja plast yfir skálina og geyma í dálitla stund í ísskáp áður en salsað er borið fram.
Guacamole uppskrift
- 2 vel þroskuð avókadó, skorin í litla bita
- 2 stórir tómatar, skornir mjög smátt
- 1-2 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt (má sleppa)
- 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
- 1-2 fersk rauð chili, kjarnhreinsuð og söxuð smátt
- safi úr einni límónu (lime)
- 1-2 búnt ferskt kóríander, saxað smátt
- 1/2 tsk salt
Öllum hráefnunum blandað í skál, henni lokað þétt með plastfilmu og geymd í ísskáp í minnst korter áður en hún er borin fram. Ef útbúa á guacamole með lengri fyrirvara getur verið leiðinlegt hvað maukið verður brúnt. Tvennt er hægt að gera til að koma í veg fyrir það. Það er að dreifa lime-safa vel yfir maukið og geyma avókadó steinana í maukinu.
- Hamborgarar (ég notaði 120 gramma)
- burrito kryddmix
- Hamborgarabrauð
- ostur (ég notaði Maribó ost)
- kál
- nachos
- Thick ‘n Chunky salsa