Brownie-kaka með hindberjarjóma í Kökublaði Vikunnar


Kökublað Vikunnar var að koma út, spennandi blað eins og venjulega með allskonar köku uppskriftum, þið sjáið ekki eftir því að fjárfesta í eintaki! 🙂 Ég var beðin um að gefa uppskrift af einni köku sem ég gerði auðvitað með glöðu geði. Ég bakaði Brownieköku með hindberjarjóma. Ástæðan fyrir því var einföld, þessi kaka er himnesk! Súkkulaði og hindber er tvenna sem er ómótstæðileg í mínum huga. Ég get sjaldan horft framhjá uppskriftum sem í er hvort tveggja og ég varð því að prófa þessa köku þegar ég sá hana á sænskri netsíðu. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, þetta varð strax ein af mínum uppáhaldskökum. Þetta er fullkomin blanda af sætu og seigu súkkulaði á móti léttum og frískum hindberjarjóma. Að auki er afar auðvelt að búa kökuna til sem er alltaf kostur. Ég hef gert aðra útfærslu af henni fyrir eftirrétt. Þá baka ég botninn, skipti honum í eftirréttaskálar og set svo hindberjarjómann yfir ásamt þeyttum rjóma og ferskum hindberjum. Þá er komin ljúffengur og fallegur eftirréttur. Myndirnar í blaðinu eru teknar af ljósmyndara Vikunnar, sem sést að störfum hér fyrir neðan, en ég tók myndirnar í þessari færslu.

Ég breytti uppskriftinni (get aldrei hamið mig!) en upphaflega var í hindberjarjómanum pektín sultusykur en þá fannst mér hindberjarjóminn ekki hlaupa nógu vel, hann varð ekki nógu fallegur. Ég breytti því yfir í venjulegan sykur og matarlím, þannig varð kakan miklu fallegri.

Uppskrift

Brownie-botn

  • 120 gr suðusúkkulaði
  • 100 gr smjör
  • 2 1/2 dl sykur
  • 2 egg
  • 1 ½ msk vanillusykur
  • ¼ tsk salt
  • 1 ½ dl hveiti

Hindberjarjómi

  • 300 gr. frosin hindber, afþýdd
  • 1 dl sykur
  • 4 blöð matarlím
  • 2 tsk vanillusykur
  • 3 dl rjómi
  • þeyttur rjómi til skreytingar
  • fersk hindber til skreytingar

Brownie-botn: Bakarofn hitaður í 175°C. Smelluform (ca. 22 cm.) smurt að innan, bökunarpappír sniðinn og klipptur eftir botninum á forminu og lagður ofan á botninn. Súkkulaði og smjör sett í skál og brætt yfir vatnsbaði. Þegar blandan er bráðnuð er hún tekin af hitanum og sykri bætt út í. Hrært þar til blandan er slétt. Eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er vanillusykri og salti hrært út í. Að lokum er hveitið sigtað út í, blandað varlega saman með sleikju og deiginu hellt í formið. Kakan er bökuð við 175°C í um það bil 30 mínútur (athugið að kakan á að vera blaut). Kakan látin kólna. Því næst er smelluforminu smellt af og kökunni hvolft á kökudisk. Þá er auðvelt að fjarlægja bæði botninn á kökuforminu og bökunarpappírinn. Því næst er smelluforminu smellt aftur utan um kökuna á kökusdisknum til þess að halda við hindberjarjómann sem kemur ofan á.

Hindberjarjómi: Hindber maukuð í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Maukinu er síðan hellt í fínt sigti og fræin þannig síuð frá og þeim hent. Matarlímsblöð lögð eitt í einu í skál með vel köldu vatni og látin liggja þar í 5-7 mínútur. Hindberjamauk, sem nú er laust við fræ, er sett í pott ásamt sykrinum og suðan látin koma upp.  Þegar matarlímsblöðin eru orðin mjúk og þykk eru þau tekin upp úr skálinni, vatnið kreist úr þeim og þeim svo bætt út í hindberjamaukið í pottinum og hrært þar til blöðin eru uppleyst. Potturinn er tekinn af hitanum og vanillusykri þá bætt við (vanillusykri má aldrei blanda við sjóðandi vökva, þá verður hann beiskur) , blandan svo látin bíða þar til hún kólnar. Rjóminn þeyttur. Þegar hindberjablandan hefur kólnað er henni blandað saman við þeytta rjómann. Hindberjarjómanum er því næst dreift yfir kaldan brownie-botninn (formið látið sitja áfram utan um kökuna). Kakan kæld í minnst þrjá klukkutíma, gjarnan yfir nóttu. Skreytt með þeyttum rjóma og ferskum hindberjum.