Brownie-kaka með hindberjarjóma í Kökublaði Vikunnar


Kökublað Vikunnar var að koma út, spennandi blað eins og venjulega með allskonar köku uppskriftum, þið sjáið ekki eftir því að fjárfesta í eintaki! 🙂 Ég var beðin um að gefa uppskrift af einni köku sem ég gerði auðvitað með glöðu geði. Ég bakaði Brownieköku með hindberjarjóma. Ástæðan fyrir því var einföld, þessi kaka er himnesk! Súkkulaði og hindber er tvenna sem er ómótstæðileg í mínum huga. Ég get sjaldan horft framhjá uppskriftum sem í er hvort tveggja og ég varð því að prófa þessa köku þegar ég sá hana á sænskri netsíðu. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, þetta varð strax ein af mínum uppáhaldskökum. Þetta er fullkomin blanda af sætu og seigu súkkulaði á móti léttum og frískum hindberjarjóma. Að auki er afar auðvelt að búa kökuna til sem er alltaf kostur. Ég hef gert aðra útfærslu af henni fyrir eftirrétt. Þá baka ég botninn, skipti honum í eftirréttaskálar og set svo hindberjarjómann yfir ásamt þeyttum rjóma og ferskum hindberjum. Þá er komin ljúffengur og fallegur eftirréttur. Myndirnar í blaðinu eru teknar af ljósmyndara Vikunnar, sem sést að störfum hér fyrir neðan, en ég tók myndirnar í þessari færslu.

Ég breytti uppskriftinni (get aldrei hamið mig!) en upphaflega var í hindberjarjómanum pektín sultusykur en þá fannst mér hindberjarjóminn ekki hlaupa nógu vel, hann varð ekki nógu fallegur. Ég breytti því yfir í venjulegan sykur og matarlím, þannig varð kakan miklu fallegri.

Uppskrift

Brownie-botn

 • 120 gr suðusúkkulaði
 • 100 gr smjör
 • 2 1/2 dl sykur
 • 2 egg
 • 1 ½ msk vanillusykur
 • ¼ tsk salt
 • 1 ½ dl hveiti

Hindberjarjómi

 • 300 gr. frosin hindber, afþýdd
 • 1 dl sykur
 • 4 blöð matarlím
 • 2 tsk vanillusykur
 • 3 dl rjómi
 • þeyttur rjómi til skreytingar
 • fersk hindber til skreytingar

Brownie-botn: Bakarofn hitaður í 175°C. Smelluform (ca. 22 cm.) smurt að innan, bökunarpappír sniðinn og klipptur eftir botninum á forminu og lagður ofan á botninn. Súkkulaði og smjör sett í skál og brætt yfir vatnsbaði. Þegar blandan er bráðnuð er hún tekin af hitanum og sykri bætt út í. Hrært þar til blandan er slétt. Eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er vanillusykri og salti hrært út í. Að lokum er hveitið sigtað út í, blandað varlega saman með sleikju og deiginu hellt í formið. Kakan er bökuð við 175°C í um það bil 30 mínútur (athugið að kakan á að vera blaut). Kakan látin kólna. Því næst er smelluforminu smellt af og kökunni hvolft á kökudisk. Þá er auðvelt að fjarlægja bæði botninn á kökuforminu og bökunarpappírinn. Því næst er smelluforminu smellt aftur utan um kökuna á kökusdisknum til þess að halda við hindberjarjómann sem kemur ofan á.

Hindberjarjómi: Hindber maukuð í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Maukinu er síðan hellt í fínt sigti og fræin þannig síuð frá og þeim hent. Matarlímsblöð lögð eitt í einu í skál með vel köldu vatni og látin liggja þar í 5-7 mínútur. Hindberjamauk, sem nú er laust við fræ, er sett í pott ásamt sykrinum og suðan látin koma upp.  Þegar matarlímsblöðin eru orðin mjúk og þykk eru þau tekin upp úr skálinni, vatnið kreist úr þeim og þeim svo bætt út í hindberjamaukið í pottinum og hrært þar til blöðin eru uppleyst. Potturinn er tekinn af hitanum og vanillusykri þá bætt við (vanillusykri má aldrei blanda við sjóðandi vökva, þá verður hann beiskur) , blandan svo látin bíða þar til hún kólnar. Rjóminn þeyttur. Þegar hindberjablandan hefur kólnað er henni blandað saman við þeytta rjómann. Hindberjarjómanum er því næst dreift yfir kaldan brownie-botninn (formið látið sitja áfram utan um kökuna). Kakan kæld í minnst þrjá klukkutíma, gjarnan yfir nóttu. Skreytt með þeyttum rjóma og ferskum hindberjum.

36 hugrenningar um “Brownie-kaka með hindberjarjóma í Kökublaði Vikunnar

 1. Ég las fyrst.. 300 gr hindber afhýdd…. ég var ekki alveg að fatta hvernig maður ætti að afhýða hindber.. 😉 ….. en þessi lítur guðdómlega út og ég bara verð að prófa við tækifæri!

 2. Bakvísun: Eftirréttir fyrir gamlárskvöld | Eldhússögur

 3. hæhæ
  ekkert sma god sida hja ther!! eg finn alltaf svo mikid sem eg vil prufa. 🙂
  eg vil bara forvitnast hvernig thessi kaka myndi thola ad fara i frysti med rjomanum i c.a solarhring.
  kh Lovisa

  • Takk fyrir það! 🙂 Ég held að þessi kaka þoli alveg að fara í frysti. En ég held samt að það komi betur út að setja þeytta rjómann á eftir á, það verður allavega fallegra en breytir líklega litlu um bragðið.

 4. Sæl
  Ég prufaði þessa köku fyrir áramótin hjá okkur í fjölskyldunni, heppnaðist mjög vel.
  Takk fyrir góða síðu, kem nokkrum sinnum í „heimsókn“ hingað og hef prufað nokkrar uppskritir hjá þér.
  Hef ekki verið fyrir vonbrigðum hingað til.
  Gleðilegt nýtt ár ;o)
  kv Allý

 5. Þegar þú gerir þessar Brownies ertu með ofnin stilltan á undir og yfir hita eða blástur :)?

 6. Ja Dröfn!!! Tetta var joladesertinn hja okkur. Setti i margar litlar skalar og mjög snidugt tvi gat gert a torlaksmessu og svo yurfti bara ad skreyta m rjoma og berjum a adfangadag. Gerdi tetta i des en ta var botninn pinu turr en a afganginn inni frysti…. Vid erum Alltaf Ad gera eh fra sidunni.

 7. Mig langar að þakka þér fyrir þessa uppskrift – hef prófað hana og finnst hún guðdómleg á bragðið og ekki er hún síðri fyrir augun.

 8. Sæl, má ekki alveg eins nota frosin jarðarber í þessa köku??? En fábær síða hjá þér, kíki við nánast daglega 🙂
  Kv. Hrafnhildur

 9. Hefur þú prófað að frysta hana? Heldur þú að það sé hægt að fullklára hana og frysta í heilu lagi?
  kv soffia

  • Ég hef ekki prófað að frysta hana. Eins og ég skrifaði í einhverju svari hér að ofan þá held ég að það sé hægt að frysta hana fullkláraða. Eina sem mögulega gæti verið galli væri útlitið á rjómanum, það yrði kannski ekki eins gott.

 10. Bakvísun: Ostakaka með crème brûlée | Eldhússögur

 11. Sæl og blessuð 😉 þessi er falleg, en ein spurning, eru eggin ekki þeytt áður en súkkulaðismjörinu er bætt við, eins og gert er við Franska súkkulaðiköku ?
  Bestu kveðju, Rúna

  • Jú, það er kannski ekki alveg nógu ljóst hjá mér í textanum en þar stendur: „eggjum bætt út í einu í senn“ en þá er sem sagt eitt egg í einu þeytt saman við blönduna. Þetta er einmitt eins og gert er við franska súkkulaðiköku! 🙂 Gangi þér vel!

 12. Sæl og takk fyrir yndislegt blogg 🙂
  Tekurdu kökuna úr kæli bara rétt ádur en tú berd hana á bord eda læturdu hana standa i stofuhita eitthvad ádur?

  • Takk Hildur! 🙂 Ég tek kökuna bara úr kæli rétt áður en ég ber hana á borð.

   • Ok-tá veit ég tad 🙂 Takk fyrir skjót vidbrögd! Kær kvedja.

 13. gerði þessa svakalegu köku um helgina og fannst flestum hún svakalega góða sumir voru ekki að fíla hindberin en mér fannst hún hreint út sagt frábær takk fyrir flott blogg :)á pottþétt eftir að prófa eitthvað meira

 14. Sæl og takk fyrir frábæra síðu. Þessi kaka er svakalega girnileg. Ég er að spá í þessu með eggin, þú segir „eitt egg í einu þeytt við blönduna.“ Bara til að vera alveg viss, bætiru þá einu eggi í einu út í volga blönduna og handþeytir saman við, eða þeytir þú eggin fyrst?
  K.kv. Ingibjörg

  • Já, fyrst er sykrinum þeytt saman við blönduna og svo eru eggin sett beint út í blönduna, eitt í senn, þeytt á milli. Eggin eru ekki þeytt fyrst. 🙂

 15. Bakvísun: Vinsælustu eftirréttirnir | Eldhússögur

 16. Sæl, hefur það aldrei reynst þér erfitt að taka smelluformið af (þegar kakan er búin að vera í kæli yfir nótt) án þess að skemma útlit hennar?

  Einnig er mín mikið fjólublárri en þín en þá hef ég líklegast bara notað aðeins of mikið af hindberjum.

   • Sæl aftur, núna að tveimur árum liðnum langar mig að gera þess köku aftur en í þetta skiptið sem eftirrétt. Ég sé að þú setur kökuna í skálar þegar þú hefur hana sem eftirrétt. En það sem mig langar að vita er hvað kemuru henni fyrir í mörgum skálum? Við yrðum 9-10. Ég hugsa að þessi uppskrift sé reyndar alveg nóg í 10 skálar. En svo eru eftirréttarskálar misstórar svo kannski erfitt að nota það sem mælikvarða.

    Og skil ég það ekki rétt að þú bakar kökuna fyrst í formi og skerð hana svo til og kemur fyrir í eftirréttarskálunum?

    Bkv. Elísa

 17. Hef bakað þessa 2-3 áður og hún er dásamlega bragðgóð. Ætlaði síðan að gera 3-falda uppskrift og þá fór hindberjarjóminn í algjöra vitleysu…. Henti fyrstu lögun en seinni lögunin varð aðeins skárri (gerði 1 1/2 falda uppskrift í einu). Hefurðu einhverjar skýringar? Fannst eins og lögunin yrði of þunn og að hindberjalögurinn og rjóminn hafi skilið sig:( vona að verði í lagi í fyrró þar sem þetta á að vera kaka í fermingarveislu á morgun!

  • Sæl. Ég veit ekki hvers vegna þetta gerist. Mér dettur helst í hug að þar sem að hindberjamaukið var þrefalt þá hafi það kannski verið of heitt, þ.e. þegar umfangið á maukinu er meira þá eru meiri líkur á að það hafi verið of heitt og það getur látið rjómann skilja sig. Vona að þetta hafi tekist hjá þér núna! 🙂

 18. Bakvísun: Uppskriftir – Running Dinner Iceland

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.