Ostakaka með crème brûlée


Ostakaka með creme brulee

Ég er afar hrifin af öllum eftirréttum – nema reyndar ís, ég get alveg lifað án hans. Mér finnst líka gaman að prófa mig áfram með ýmsar samsetningar á eftirréttum sem kannski eru ekki fyrirsjáanlegar. Hér er ég til dæmis með uppskrift af pönnukökum í suffle-formi – ofsalega gott!

IMG_9205

Ég hef líka prófað að gera bakaða ostaköku sameinaða með pecanhnetuböku, ljúffengt!

IMG_7826

Annað dæmi um vel heppnað eftirréttahjónaband er ostakaka, brownie og hindberjakrem, þvílíkt lostæti!

img_7125

Browniekakan með hindberjarjómanum er líka æðisleg og margir hafa sent mér póst vegna hennar, hún sló greinilega í gegn á fleiri heimilum en mínu.

IMG_0594

Að þessu sinni gerði ég bakaða ostaköku sem mér finnst lostæti. Ofan á hana setti ég crème brûlée, nokkuð sem var frábærlega vel heppnað. Crème brûlée þýðir brenndur rjómi og er eftirréttur úr nokkurskonar búðingi með karamelluskel. Búðingurinn er oftast með vanillubragði en stundum er bætt við líkjöri, súkkulaði eða ávöxtum. Karamelluskelin er gerð með því að brenna sykur á yfirborði búðingsins með gasbrennara. Venjulega er crème brûlée borið fram í litlum skálum. Í þessari uppskrift hellti ég Crème brûlée búðingnum yfir ostakökuna – hnossgæti! Til þess að búa til stökka karamelluskel notaði ég gasbrennara sem fæst meðal annars í Kokku og Duka.

IMG_1426

Það er hægt að bjarga sér án hans. Þá er kökunni brugðið inn í ofn á grillstillingu í stutta stund til þess að fá stökka yfirborðið á búðinginn. Ef myndin er af kökusneiðinni er skoðuð vel þá er eins og fyllingin sé þrískipt. Ég er ekki alveg viss en ég held að á meðan bökuninni stóð hafi búðingurinn hálfvegis sokkið ofan í ostakökuna. Það er að röndin í miðjunni sé í raun crème brûlée, ég er samt ekki viss. Kakan var allavega dásamlega góð! 🙂 Það væri gaman að heyra hvernig kakan verður hjá ykkur ef þið prófið þessa uppskrift!

IMG_1468

Ég verð að benda ykkur á snilldar kökuform sem fást í Kokku. Þessi form eru eins og kökudiskar þannig að það er hægt að bera kökurnar fram beint á disknum. Það er frábært fyrir til dæmis ostakökur sem annars getur verið erfitt að færa úr bökunarformi yfir á bökunardisk.

2412323

Uppskrift:

Botn
  • 150 g Digestive kex
  • 70 g smjör
  • 60 g púðursykur
  • 1 tsk vanillusykur

Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið, púðursykur og vanillusykur. Sett í smelluform (ca. 24-26 cm) og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu.

Ostakaka:

  • 450 g rjómaostur (ég nota Philadelphia)
  • 60 ml rjómi
  • 2 stór egg
  • 110 g sýrður rjómi
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 msk maízenamjöl (eða kartöflumjöl)
  • 100 g sykur

Ofn stilltur á 150 gráður undir- og yfirhita. Rjómaosturinn þeyttur í hrærivél þar til hann verður mjúkur, ca í 2 mínútur. Þá er rjómanum bætt út í og því næst eggjunum, einu í senn. Að lokum er sýrðum rjóma, vanillusykri og maízenamjöli (eða kartöflumjöli) bætt út í og hrært vel saman í stutta stund. Blöndunni er því næst hellt yfir kexbotninn og bakað í ofni við 150 gráður í um það bil 18-20 mínútur á meðan crème brûlée blandan er búin til.

Crème brûlée:

  • 5 dl rjómi
  • 4 msk sykur + ca. 4 msk sykur til viðbótar fyrir karamelluskel
  • 5 stórar eggjarauður
  • 1 vanillustöng

Eggjarauður þeyttar þar til þær verða ljósar og léttar. Rjóminn settur í pott ásamt 4 msk af sykri og hitað að suðu, þá er potturinn tekinn af hellunni. Rjómablöndunni er svo hellt hægt og varlega út í eggjarauðurnar á meðan þær eru þeyttar á lágum hraða. Vanillustönginn er klofin í tvennt og fræin skafinn innan úr stönginni. Þeim er bætt út í blönduna. Blöndunni er síðan hellt yfir ostakökuna (sem hefur fengið að kólna aðeins eftir að hún kemur út úr ofninum). Kakan er svo bökuð áfram í ofninum í 45 mínútur við 150 gráður. Þegar kakan er tekin úr ofninum er henni leyft að kólna vel. Þá er ca. 4 msk af sykri dreift yfir kökuna og hann brenndur með gasbrennara. Ef ekki er til gasbrennari er hægt að setja kökuna í örfáar mínútur undir heitt grill í bakarofni til þess að brenna sykurinn. Kakan er svo geymd í ísskáp, bragðast best daginn eftir.

IMG_1538

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.