Dumle ostakaka


 Dumle ostakaka
Líklega eru fleiri en ég farnir að velta fyrir sér hvað eigi að hafa í matinn á gamlárskvöld. Við verðum stór hópur heima hjá foreldrum mínum og fögnum áramótunum saman. Ég mun sjá um forréttinn og eftirréttinn. Mamma ætlar að hafa kalkúnabringur í aðalrétt þar sem meðlætið verður fengið héðan. Kalkúnabringurnar ætlum við að hægelda en ég prófaði það um daginn þegar ég var með jólasaumaklúbb. Bringurnar urðu einstaklega meyrar og góðar við slíka eldun.
Mér finnst alltaf sérstaklega gaman að búa til eftirrétti og hér set ég inn uppskrift að ljúffengri ostaköku sem myndi sóma sér vel á veisluborðinu á gamlárskvöld. Ég er satt að segja ofsalega ánægð með þessa ostaköku sem ég þróaði þegar ég tók að mér að gera uppskriftir úr Dumle súkkulaðihúðuðu karamellunum. Mér finnst ostakökur æðislegar og þessi fer beint á topplistann! Ég prófaði hana í matarboði um daginn og það heyrðust stunur frá fólki, það er alltaf góðs viti! 🙂
IMG_8106

Uppskrift:

 Botn:

 ·      200 g Lu Bastogne duo kex

·      70 g smjör, brætt

·      1 msk hunang

 Ostakaka:

 ·      400 g philiadelphia rjómaostur

·      2 egg

·      1 dós sýrður rjómi (36%) 180 g

·      ½  dl sykur

·      200 g dökkt Dumle (ca 20 molar)

·      2 msk rjómi (+ þeyttur rjómi til að bera fram með kökunni)

·      Hindber eða önnur ber til skreytingar

 Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið ásamt hunanginu. Sett í smurt bökunarform með lausum botni, blöndunni þrýst ofan í botninn. Sett í kæli á meðan ostakökublandan er útbúin.

Dumle molarnir eru bræddir yfir vatnsbaði ásamt rjómanum og kælt lítillega. Rjómaostur, sýrður rjómi og sykur sett í skál og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við, einu í senn, þeytt vel á milli en þó ekki mjög lengi. Í lokin er bræddu Dumle bætt út í og blandað vel saman við rjómaostablönduna með sleikju. Blöndunni er því næst hellt yfir botninn og bakað við 175 gráður í um það bil 30-35 mínútur Að því loknu er kakan látin kólna og sett að síðustu inn í ísskáp í nokkra tíma, helst yfir nóttu, áður en hún er borin fram. Gjarnan skreytt með hindberjum og sigtuðum flórsykri og borin fram með þeyttum rjóma.

Fallega stellið er af tegundinni Green gate og fæst hér.

IMG_8110IMG_8115 IMG_8111

Bökuð ostakaka með hindberjum


Bökuð ostakaka með hindberjum

Ég hef sett inn nokkrar uppskriftir að ostakökum hingað á síðuna og talað um hver munurinn sé á bökuðum og óbökuðum ostakökum. Uppistaðan í óbökuðum ostakökum er rjómaostur og þeyttur rjómi. Þær eru einungis kældar og því þarf oftast að setja í þær matarlím til að þær haldi forminu. Í bökuðum ostakökum, stundum kallaðar New York ostakökur, er uppistaðan líka rjómaostur, í sumum uppskriftum er að auki sýrður rjómi en sammerkt með þeim öllum er að í þeim eru egg. Bakaðar ostakökur eru, eins og segir sig sjálft, bakaðar í ofni en bornar fram kaldar. Hér prófaði ég mig áfram með bakaða ostaköku með hindberjum. Ég ákvað að nota grunnuppskrift að bakaðri ostaköku, setja í hana hindber auk þess sem ég bjó til hindberjakrem ofan á kökuna. Að þessu sinni notaði ég hindberin ósigtuð, þ.e. þá voru fræin með. En ef maður vill þá er hægt að sigta fræin frá og hafa kremið slétt. Mér fannst þetta koma dásamlega vel út, bökuð ostakaka er svo ofsalega góð! Ekki spillir þegar uppáhaldsberin mín, hindber, ganga í hjónaband með þessari ljúfu köku!

IMG_6977

Uppskrift:

Botn:

  • 300 g Digestive kex (ca. 20 kexkökur)
  • 150 g smjör

Ofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna.

Ostakaka:

  • 1 dl sykur
  • 1 dl maizenamjöl
  • 2 tsk vanillusykur
  • 600 g rjómaostur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 3 egg
  • 1 dl rjómi
  • 100 gr hvítt súkkulaði
  • 300 g frosin hindber (afþýdd)
  • 2 msk sykur
  • 2 blöð matarlím

IMG_6928

Ofninn lækkaður í 160 gráður. Sykri, maizenamjöli og vanillusykri blandað saman í skál. Sýrðum rjóma og rjómaosti bætt við og þeytt þar til að blandan verður kremkend. Eggjum bætt við og þeytt vel, en þó ekki mjög lengi. Rjómanum smátt og smátt bætt við og þeytt á meðan. Súkkulaði brætt yfir vatnsbaði og bætt út í að lokum. Blöndunni hellt yfir kexbotninn og ca. 10-15 hindberjum stungið ofan í deigið hér og þar. Bakað við 160 gráður í 45-55 mínútur, eða þar til að kakan er bökuð að öllu leiti nema bara dálítið blaut í miðjunni. Þá er slökkt á ofninum og henni leyft að standa í ofninum í allavega hálftíma í viðbót. Notið álpappír yfir kökuna ef hún fer að dökkna mikið þegar líður á bökunartímann. Athugið að ostakakan verður ekki beint stíf þegar hún er tilbúin heldur getur hún ,,dansað” svolítið í miðjunni þó hún sé tilbúin. Síðan sígur kakan dálítið og jafnar sig. Það koma oft sprungur í yfirborðið en það er algengt og skiptir litlu. Ostakan er látin kólna í forminu og hindberjakremið er útbúið. Matrlímið er lagt í skál með köldu vatni í ca. 5 mínútur. Restin af hindberjunum eru sett í pott á samt sykrunum og þau hituð upp, hrært í þeim á meðan með gaffli þar til þau verða að mauki. Þegar blandan er orðin heit er mesta vatnið kramið úr matarlíminu og því bætt út í hindberjablönduna. Þegar blandan hefur kólnað aðeins er dreift úr henni yfir kalda ostakökuna (enn í forminu). Ostakakan látin bíða í ísskáp yfir nóttu eða í minnst 6-8 tíma áður en hún er borin fram.

IMG_7065

Ostakaka með crème brûlée


Ostakaka með creme brulee

Ég er afar hrifin af öllum eftirréttum – nema reyndar ís, ég get alveg lifað án hans. Mér finnst líka gaman að prófa mig áfram með ýmsar samsetningar á eftirréttum sem kannski eru ekki fyrirsjáanlegar. Hér er ég til dæmis með uppskrift af pönnukökum í suffle-formi – ofsalega gott!

IMG_9205

Ég hef líka prófað að gera bakaða ostaköku sameinaða með pecanhnetuböku, ljúffengt!

IMG_7826

Annað dæmi um vel heppnað eftirréttahjónaband er ostakaka, brownie og hindberjakrem, þvílíkt lostæti!

img_7125

Browniekakan með hindberjarjómanum er líka æðisleg og margir hafa sent mér póst vegna hennar, hún sló greinilega í gegn á fleiri heimilum en mínu.

IMG_0594

Að þessu sinni gerði ég bakaða ostaköku sem mér finnst lostæti. Ofan á hana setti ég crème brûlée, nokkuð sem var frábærlega vel heppnað. Crème brûlée þýðir brenndur rjómi og er eftirréttur úr nokkurskonar búðingi með karamelluskel. Búðingurinn er oftast með vanillubragði en stundum er bætt við líkjöri, súkkulaði eða ávöxtum. Karamelluskelin er gerð með því að brenna sykur á yfirborði búðingsins með gasbrennara. Venjulega er crème brûlée borið fram í litlum skálum. Í þessari uppskrift hellti ég Crème brûlée búðingnum yfir ostakökuna – hnossgæti! Til þess að búa til stökka karamelluskel notaði ég gasbrennara sem fæst meðal annars í Kokku og Duka.

IMG_1426

Það er hægt að bjarga sér án hans. Þá er kökunni brugðið inn í ofn á grillstillingu í stutta stund til þess að fá stökka yfirborðið á búðinginn. Ef myndin er af kökusneiðinni er skoðuð vel þá er eins og fyllingin sé þrískipt. Ég er ekki alveg viss en ég held að á meðan bökuninni stóð hafi búðingurinn hálfvegis sokkið ofan í ostakökuna. Það er að röndin í miðjunni sé í raun crème brûlée, ég er samt ekki viss. Kakan var allavega dásamlega góð! 🙂 Það væri gaman að heyra hvernig kakan verður hjá ykkur ef þið prófið þessa uppskrift!

IMG_1468

Ég verð að benda ykkur á snilldar kökuform sem fást í Kokku. Þessi form eru eins og kökudiskar þannig að það er hægt að bera kökurnar fram beint á disknum. Það er frábært fyrir til dæmis ostakökur sem annars getur verið erfitt að færa úr bökunarformi yfir á bökunardisk.

2412323

Uppskrift:

Botn
  • 150 g Digestive kex
  • 70 g smjör
  • 60 g púðursykur
  • 1 tsk vanillusykur

Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið, púðursykur og vanillusykur. Sett í smelluform (ca. 24-26 cm) og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu.

Ostakaka:

  • 450 g rjómaostur (ég nota Philadelphia)
  • 60 ml rjómi
  • 2 stór egg
  • 110 g sýrður rjómi
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 msk maízenamjöl (eða kartöflumjöl)
  • 100 g sykur

Ofn stilltur á 150 gráður undir- og yfirhita. Rjómaosturinn þeyttur í hrærivél þar til hann verður mjúkur, ca í 2 mínútur. Þá er rjómanum bætt út í og því næst eggjunum, einu í senn. Að lokum er sýrðum rjóma, vanillusykri og maízenamjöli (eða kartöflumjöli) bætt út í og hrært vel saman í stutta stund. Blöndunni er því næst hellt yfir kexbotninn og bakað í ofni við 150 gráður í um það bil 18-20 mínútur á meðan crème brûlée blandan er búin til.

Crème brûlée:

  • 5 dl rjómi
  • 4 msk sykur + ca. 4 msk sykur til viðbótar fyrir karamelluskel
  • 5 stórar eggjarauður
  • 1 vanillustöng

Eggjarauður þeyttar þar til þær verða ljósar og léttar. Rjóminn settur í pott ásamt 4 msk af sykri og hitað að suðu, þá er potturinn tekinn af hellunni. Rjómablöndunni er svo hellt hægt og varlega út í eggjarauðurnar á meðan þær eru þeyttar á lágum hraða. Vanillustönginn er klofin í tvennt og fræin skafinn innan úr stönginni. Þeim er bætt út í blönduna. Blöndunni er síðan hellt yfir ostakökuna (sem hefur fengið að kólna aðeins eftir að hún kemur út úr ofninum). Kakan er svo bökuð áfram í ofninum í 45 mínútur við 150 gráður. Þegar kakan er tekin úr ofninum er henni leyft að kólna vel. Þá er ca. 4 msk af sykri dreift yfir kökuna og hann brenndur með gasbrennara. Ef ekki er til gasbrennari er hægt að setja kökuna í örfáar mínútur undir heitt grill í bakarofni til þess að brenna sykurinn. Kakan er svo geymd í ísskáp, bragðast best daginn eftir.

IMG_1538

Brownie ostakaka með kasjúhnetum og karamellukremi


Þessi kaka heitir á frummálinu ,,brownie-fudge“ ostakaka. Mér finnst vanta frekar mörg orð yfir hráefni og eldamennsku í íslensku. Til dæmis er ekkert íslenskt orð yfir brownies sem hefur náð fótfestu. Stundum er reyndar notað orðið „brúnkur“. ,,Fudge“ þýðir ljós karamella en mér finnst það alls ekki eins lýsandi orð eins og ,,fudge“. En það er allt að gerast í þessari köku þrátt fyrir skort á íslenskum lýsingarorðum! Brownie, saltar hnetur, ostakaka, karamellukrem … blanda sem getur ekki annað en kitlað bragðlaukana. Það er hægt að nota ósaltar kasjúhnetur eða pekanhnetur en best er að nota saltar. Ég hef reyndar ekki fundið saltar pekanhnetur enn, en það er hægt að kaupa kasjúhnetur saltar.

Ostakökublanda

  • 300 gr Philadelphia ostur
  • ¾ dl sykur
  • 1 tsk vanillusykur

Hrærið saman Philadelphia osti, sykri og vanillusykri þar til blandan verður slétt. Geymið blönduna.

Brownie deig:

  • 2 egg
  • 100 gr smjör
  • 2 dl sykur
  • 3 msk kakó
  • 2 dl hveiti
  • ½ tsk lyftiduft
  • 1 dl kasjúhnetur eða pekanhnetur, saxaðar gróft

Þeytið egg og sykur þar til blandan verður létt og ljós. Setjið smjör og kakó í pott og hitið á vægum hita þar til smjörið er bráðnað og hefur blandast við kakóið, hellið svo smjörblöndunni út í eggjablönduna og hrærið. Sigtið hveiti og lyftiduft út í deigið, bætið við grófsöxuðum hnetunum og blandið varlega saman við.

Hitið bökunarofninn í 180 gráður. Smyrjið bökunarform með lausum botni (gott að nota lítið form, t.d. 20 eða 22 cm). Hellið helmingnum af kökudeiginu í formið og sléttið úr því. Hellið svo varlega ostablöndunni ofan á og sléttið úr henni út í alla kanta. Að lokum er restinni af kökudeginu hellt yfir og dreift vel yfir ostablönduna. Bakið neðarlega í ofninum  við 180 gráður í ca. 30 mínútur. Látið kökuna kólna í forminu.

Karamellukrem

40 gr smjör
1 msk mjólk
1½ dl flórsykur
2 msk kakó
kasjú hnetur eða peacan hnetur til að skreyta með

Bræðið smjör og mjólk saman í potti. Bætið flórsykri og kakó út í. Hrærið og látið malla í 2-3 mínútur. Leyfið kreminu aðeins að kólna og notið síðan sleikju til að dreifa því jafnt yfir kökuna. Skreytið með grófsöxuðum hnetum. Látið kökuna standa í kæli þar til kremið hefur harðnað. Best er að leyfa kökunni að standa í kæli yfir nóttu. Berið fram með þeyttum rjóma.

Ostakaka með mangó og ástaraldin


Ég setti inn um daginn uppskrift af bakaðri ostaköku. Þá talaði ég um að mér þætti þær eiginlega betri en óbakaðar ostakökur en ég veit ekki lengur, ég get bara ekki gert upp á milli þeirra! Ég prófaði nefnilega óbakaða ostaköku með mangó og ástaraldin og hún var afar ljúffeng! Ég sló saman tveimur uppskriftum af ostakökum. Annars vegar úr sænsku kökubókinni Lomelinos Tårtor, sú ostakaka er borin fram frosin og þess vegna ekki með matarlími. Mér finnst hins vegar frekar snúið að bera fram frosnar tertur í veislum, oft eru þær of frosnar og harðar í byrjun veislunnar en orðnar of linar í lokin. Mér fannst hins vegar mjög spennandi í þessari uppskrift hvernig mangói var blandað við sjálfa ostakökuna (já, ég elska mangó!). Hins vegar notaði ég uppskrift af óbakaðri ostaköku (með matarlími) sem borin er fram með ástaraldin (sem mér finnst næstum því jafn gott og mangó!). Þó ég segi sjálf frá þá var ég nú bara býsna ánægð með útkomuna af þessum samankurli úr tveimur uppskriftum!

Stundum, þegar þeyttur rjómi er í uppskrift, finnst fólki óljóst hvaða mælieiningu er um að ræða. Ef í uppskriftinni er einn desilíter rjómi, þeyttur, er það þá óþeyttur desilíter eða þeyttur? Það magn sem gefið er upp í uppskriftum er alltaf óþeyttur rjómi (nema annað sé tekið fram). Í þessari uppskrift er einn peli rjómi og þá er sem sagt verið að tala um einn pela af óþeyttum rjóma sem verður svo auðvitað meira magn að umfangi þegar búið er að þeyta hann.

Uppskrift:

Botn:

  • 250 gr Digestive kex
  • 100 gr smjör
  • 1 msk sykur

Fylling

  • 300 gr Philadelphia rjómaostur
  • 250 gr. ricotta ostur (má nota rjómaost)
  • 1 peli rjómi
  • 50 gr sykur
  • 3 msk appelsínusafi (eða annar safi)
  • 4 stk matarlím
  • 250 gr mangó (ferskt eða frosið)
  • 6 stk ástaraldin (passion fruit)

Aðferð:

  1. Ofn stilltur á 175 gráður. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið og sykur. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna.
  2. Þeytið rjóma og geymið í ísskáp.
  3. Vinnið Philadelphia ost, ricotta ost og sykur þar til osturinn er orðinn mjúkur.
  4. Leggið matarlímsblöðin eitt í einu í skál með vel köldu vatni og látið liggja í 5-10 mínútur. Þegar tíminn er liðinn eru blöðin orðin mjúk og þykk. Takið þau úr vökvanum og kreistið vatnið úr þeim. Hitið ávaxtasafann í potti eða örbylgjuofni, setjið matarlímið út  í heitan vökvann. Hrærið þar til matarlímið hefur bráðnað saman við og hellið matarlímsblöndunni út í ostablönduna. Því næst er þeytta rjómanum bætt út í.
  5. Ef notað er frosið mangó þá er það afþýtt. Mangó er maukað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Blandið mangómaukinu saman við ostablönduna, en bara lauslega þannig að það myndist marmaraáferð í ostablöndunni.
  6. Hellið ostablöndunni yfir kexbotninn og kælið vel í 4-6 tíma, en best er kakan daginn eftir.
  7. Ástaraldin skorin í tvennt, aldinið skafið innan úr þeim og því dreift yfir kökuna áður en hún er borin fram.