Dumle ostakaka


 Dumle ostakaka
Líklega eru fleiri en ég farnir að velta fyrir sér hvað eigi að hafa í matinn á gamlárskvöld. Við verðum stór hópur heima hjá foreldrum mínum og fögnum áramótunum saman. Ég mun sjá um forréttinn og eftirréttinn. Mamma ætlar að hafa kalkúnabringur í aðalrétt þar sem meðlætið verður fengið héðan. Kalkúnabringurnar ætlum við að hægelda en ég prófaði það um daginn þegar ég var með jólasaumaklúbb. Bringurnar urðu einstaklega meyrar og góðar við slíka eldun.
Mér finnst alltaf sérstaklega gaman að búa til eftirrétti og hér set ég inn uppskrift að ljúffengri ostaköku sem myndi sóma sér vel á veisluborðinu á gamlárskvöld. Ég er satt að segja ofsalega ánægð með þessa ostaköku sem ég þróaði þegar ég tók að mér að gera uppskriftir úr Dumle súkkulaðihúðuðu karamellunum. Mér finnst ostakökur æðislegar og þessi fer beint á topplistann! Ég prófaði hana í matarboði um daginn og það heyrðust stunur frá fólki, það er alltaf góðs viti! 🙂
IMG_8106

Uppskrift:

 Botn:

 ·      200 g Lu Bastogne duo kex

·      70 g smjör, brætt

·      1 msk hunang

 Ostakaka:

 ·      400 g philiadelphia rjómaostur

·      2 egg

·      1 dós sýrður rjómi (36%) 180 g

·      ½  dl sykur

·      200 g dökkt Dumle (ca 20 molar)

·      2 msk rjómi (+ þeyttur rjómi til að bera fram með kökunni)

·      Hindber eða önnur ber til skreytingar

 Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið ásamt hunanginu. Sett í smurt bökunarform með lausum botni, blöndunni þrýst ofan í botninn. Sett í kæli á meðan ostakökublandan er útbúin.

Dumle molarnir eru bræddir yfir vatnsbaði ásamt rjómanum og kælt lítillega. Rjómaostur, sýrður rjómi og sykur sett í skál og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við, einu í senn, þeytt vel á milli en þó ekki mjög lengi. Í lokin er bræddu Dumle bætt út í og blandað vel saman við rjómaostablönduna með sleikju. Blöndunni er því næst hellt yfir botninn og bakað við 175 gráður í um það bil 30-35 mínútur Að því loknu er kakan látin kólna og sett að síðustu inn í ísskáp í nokkra tíma, helst yfir nóttu, áður en hún er borin fram. Gjarnan skreytt með hindberjum og sigtuðum flórsykri og borin fram með þeyttum rjóma.

Fallega stellið er af tegundinni Green gate og fæst hér.

IMG_8110IMG_8115 IMG_8111

9 hugrenningar um “Dumle ostakaka

  1. Kæra Dröfn, ég elska síðuna þína, skrifin þín eru dásamleg og uppskriftirnar eftir því. Takk fyrir að vera svona iðin, dugleg og skapandi. En ég gæti hugsað mér að fá uppskriftina af hægelduðu kalkúnabringunum þínum. Hefurðu hugsað þér að setja hana inn á vefinn?

    • Sæl Þóra og takk fyrir einstaklega hlý orð í minn garð! 🙂 Ég á örugglega eftir að blogga um kalkúnabringurnar en líklega ekki fyrr en eftir áramót.
      En ég krydda bringurnar með kalkúnakryddi og steiki á báðum hliðum (nota vel af smjöri) í stutta stund. Ég blanda saman smá vatni, kalkúnakrafti, kalkúnakryddi og smjöri í pott og hita upp þar til smjörið hefur bráðnað. Þetta set ég í eldfast mót (passa að þessi vökvi þeki vel botninn á eldfasta mótinu). Svo legg ég bringurnar í mótið og hita í ofni við 100 gráður. Ég var með stórar bringur, ca. 1.2 kíló stykkið og þá tók þetta allavega 2 tíma. Það er mjög gott að nota kjöthitamæli og láta bringurnar ná allavega 74 gráða kjarnhita.
      Ég nota uppskriftina hér á síðunni (undir „kalkúnaveisla“) að sósu en í stað þess að nota hálsinn og slíkt sem fylgir heilum kalkúni þá kaupi ég kalkúnagrunn frá Tasty sem ég nota til að sjóða upp með grænmetinu fyrir sósuna. Svo er gott að nýta svolítið af soðinu í eldfasta mótinu fyrir sósuna.
      Gangi þér vel! 🙂

  2. Sæl

    Hvað heldur þú að ein svona kaka dugi fyrir marga? Hversu stórt er formið sem þú notar?

    Kv.
    Rósa 🙂

  3. Sæl Dröfn
    Líst vel á þessa köku. Bý í Svíþjóð og hef ekki séð þessa tegund av Lu kexi sem er í uppskriftinni. Ertu með hugmynd að öðru kexi til að nota í staðinn?
    Takk kærlega fyrir góðar uppskriftir
    kv
    Kolbrún

    • Sæl Arna. Jú, þetta er svokölluð bökuð ostakaka og er því sett í ofn og bökuð.
      Það eru til tvenns konar útfærslur á ostakökum, bakaðar og óbakaðar. Uppistaðan í þessum óbökuðu er rjómaostur og þeyttur rjómi. Þær eru einungis kældar og því þarf oftast að setja í þær matarlím til að þær haldi forminu. Í bökuðum ostakökum, stundum kallaðar New York ostakökur, er uppistaðan líka rjómaostur, í sumum uppskriftum er að auki sýrður rjómi en sammerkt með þeim öllum er að í þeim eru egg. Bakaðar ostakökur eru, eins og segir sig sjálft, bakaðar í ofni en bornar fram kaldar.

      • Takk kærlega fyrir svarið. Ég var ss að gera þessa í gær og hún leit svo klesst út hjá mér og svo var mér sagt að ostakökur væru eiginlega aldrei bakaðar, ég var að gera ostaköku í fyrsta sinn 😉 En bragðið var mjög gott, þarf greinilega bara að æfa mig 🙂 Takk, takk 🙂

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.