Líklega eru fleiri en ég farnir að velta fyrir sér hvað eigi að hafa í matinn á gamlárskvöld. Við verðum stór hópur heima hjá foreldrum mínum og fögnum áramótunum saman. Ég mun sjá um forréttinn og eftirréttinn. Mamma ætlar að hafa kalkúnabringur í aðalrétt þar sem meðlætið verður fengið
héðan. Kalkúnabringurnar ætlum við að hægelda en ég prófaði það um daginn þegar ég var með jólasaumaklúbb. Bringurnar urðu einstaklega meyrar og góðar við slíka eldun.
Mér finnst alltaf sérstaklega gaman að búa til eftirrétti og hér set ég inn uppskrift að ljúffengri ostaköku sem myndi sóma sér vel á veisluborðinu á gamlárskvöld. Ég er satt að segja ofsalega ánægð með þessa ostaköku sem ég þróaði þegar ég tók að mér að gera uppskriftir úr Dumle súkkulaðihúðuðu karamellunum. Mér finnst ostakökur æðislegar og þessi fer beint á topplistann! Ég prófaði hana í matarboði um daginn og það heyrðust stunur frá fólki, það er alltaf góðs viti! 🙂

Uppskrift:
Botn:
· 200 g Lu Bastogne duo kex
· 70 g smjör, brætt
· 1 msk hunang
Ostakaka:
· 400 g philiadelphia rjómaostur
· 2 egg
· 1 dós sýrður rjómi (36%) 180 g
· ½ dl sykur
· 200 g dökkt Dumle (ca 20 molar)
· 2 msk rjómi (+ þeyttur rjómi til að bera fram með kökunni)
· Hindber eða önnur ber til skreytingar
Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið ásamt hunanginu. Sett í smurt bökunarform með lausum botni, blöndunni þrýst ofan í botninn. Sett í kæli á meðan ostakökublandan er útbúin.
Dumle molarnir eru bræddir yfir vatnsbaði ásamt rjómanum og kælt lítillega. Rjómaostur, sýrður rjómi og sykur sett í skál og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við, einu í senn, þeytt vel á milli en þó ekki mjög lengi. Í lokin er bræddu Dumle bætt út í og blandað vel saman við rjómaostablönduna með sleikju. Blöndunni er því næst hellt yfir botninn og bakað við 175 gráður í um það bil 30-35 mínútur Að því loknu er kakan látin kólna og sett að síðustu inn í ísskáp í nokkra tíma, helst yfir nóttu, áður en hún er borin fram. Gjarnan skreytt með hindberjum og sigtuðum flórsykri og borin fram með þeyttum rjóma.
Fallega stellið er af tegundinni Green gate og fæst hér.

