5 mínútna Dumle súkklaðikaka í bolla


IMG_8150

Gleðilegt ár kæru lesendur! Í upphafi nýs árs setjum við okkur oftar en ekki ótal markmið sem snúast um hollara mataræði, meiri hreyfingu og betri lífshætti. Með þessari uppskrift er ég sannarlega ekki leggja lóð mín á þá vogarskál, síður en svo! 🙂 Það ríkir enn Dumle æði hér á síðunni minni eftir að ég útbjó nokkrar slíkar uppskriftir seint á síðasta ári og enn á ég eftir að birta nokkrar þeirrar. Ég sá þessa uppskrift á fleiri en einum sænskum uppskriftavef og hafði satt best að segja ekki mikla trú á því að kakan væri sérstaklega góð, þetta væri of einfalt til að vera satt. En ég hafði sannarlega rangt fyrir mér, þessi kaka er alltof góð! Svo góð að ég er núna að reyna að gleyma að ég geti á hverju kvöldi búið mér til ljúffenga köku á 5 mínútum! 🙂

IMG_8158

Uppskrift:

·      4 msk hveiti

·      4 msk sykur

·      3 msk kakó

·      50 g smjör, brætt

·      2 msk mjólk

·      1 egg

·      4 Dumle molar

Öllu blandað saman fyrir utan Dumle molana og deiginu skipt í tvo bolla. Dumle molarnir eru skornir í tvennt og fjórum molum þrýst ofan í deigið í hvorn bolla. Bakað í örbylgjuofni í um það bil 50 sekúndur við hæsta styrk (ath. að tíminn er misjafnt eftir ofnum). IMG_8153

Dumle ostakaka


 Dumle ostakaka
Líklega eru fleiri en ég farnir að velta fyrir sér hvað eigi að hafa í matinn á gamlárskvöld. Við verðum stór hópur heima hjá foreldrum mínum og fögnum áramótunum saman. Ég mun sjá um forréttinn og eftirréttinn. Mamma ætlar að hafa kalkúnabringur í aðalrétt þar sem meðlætið verður fengið héðan. Kalkúnabringurnar ætlum við að hægelda en ég prófaði það um daginn þegar ég var með jólasaumaklúbb. Bringurnar urðu einstaklega meyrar og góðar við slíka eldun.
Mér finnst alltaf sérstaklega gaman að búa til eftirrétti og hér set ég inn uppskrift að ljúffengri ostaköku sem myndi sóma sér vel á veisluborðinu á gamlárskvöld. Ég er satt að segja ofsalega ánægð með þessa ostaköku sem ég þróaði þegar ég tók að mér að gera uppskriftir úr Dumle súkkulaðihúðuðu karamellunum. Mér finnst ostakökur æðislegar og þessi fer beint á topplistann! Ég prófaði hana í matarboði um daginn og það heyrðust stunur frá fólki, það er alltaf góðs viti! 🙂
IMG_8106

Uppskrift:

 Botn:

 ·      200 g Lu Bastogne duo kex

·      70 g smjör, brætt

·      1 msk hunang

 Ostakaka:

 ·      400 g philiadelphia rjómaostur

·      2 egg

·      1 dós sýrður rjómi (36%) 180 g

·      ½  dl sykur

·      200 g dökkt Dumle (ca 20 molar)

·      2 msk rjómi (+ þeyttur rjómi til að bera fram með kökunni)

·      Hindber eða önnur ber til skreytingar

 Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið ásamt hunanginu. Sett í smurt bökunarform með lausum botni, blöndunni þrýst ofan í botninn. Sett í kæli á meðan ostakökublandan er útbúin.

Dumle molarnir eru bræddir yfir vatnsbaði ásamt rjómanum og kælt lítillega. Rjómaostur, sýrður rjómi og sykur sett í skál og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við, einu í senn, þeytt vel á milli en þó ekki mjög lengi. Í lokin er bræddu Dumle bætt út í og blandað vel saman við rjómaostablönduna með sleikju. Blöndunni er því næst hellt yfir botninn og bakað við 175 gráður í um það bil 30-35 mínútur Að því loknu er kakan látin kólna og sett að síðustu inn í ísskáp í nokkra tíma, helst yfir nóttu, áður en hún er borin fram. Gjarnan skreytt með hindberjum og sigtuðum flórsykri og borin fram með þeyttum rjóma.

Fallega stellið er af tegundinni Green gate og fæst hér.

IMG_8110IMG_8115 IMG_8111

Salthnetuterta með Dumle karamellukremi‏


Salthnetuterta með Dumle karamellukremi Ég verð að deila með ykkur uppskrift að svo dásamlega góðri tertu. Ég fór með hana í stórt fjölskylduboð um daginn og þar var fólk hreinlega að missa sig yfir þessar tertu. Ég er að baka hana aftur núna í kvöld og ætla að fara með hana á kökuhlaðborð í skóla barnanna á morgun. Ég er meira að segja að hugsa um að baka hana aftur fyrir aðventuboð á sunnudaginn. Ég náði nefnilega bara að smakka örlítinn bita af þessari ljúffengu tertu í boðinu um daginn og er búin að dreyma um að baka hana aftur við fyrsta tækifæri. Ég held að ég geti fullyrt að þessi tertuuppskrift sé alveg skotheld! 🙂 IMG_8083 Uppskrift:

  • 4 eggjahvítur (lítil egg)
  •  3 dl sykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1 tsk lyftiduft
  • 160 g Ültje salthnetur
  • 80 g Ritz kex

Dumle krem:

  • 60 g smjör
  • 1 poki dökkt Dumle (110 g) eða orginal
  • 4 eggjarauður

Ofan á kökuna:

  • 3 dl rjómi
  • 40 g Ültje salthnetur, saxaðar gróft
  • nokkrir Dumle molar, skornir eða klipptir í þrennt.

IMG_8072

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur stífþeyttar og sykrinum bætt út í smátt og smátt. Salthnetur og Ritzkex mulið smátt í matvinnsluvél og bætt út í marengsinn með sleikju ásamt vanillusykri og lyftidufti. Deiginu er hellt í 24 cm smellu- eða silíkonform. Bakað í ofni við 180 gráður í um það bil 25-30 mínútur.

Smjör er sett í pott og brætt við meðalháan hita. Dumle molum er bætt út í og allt látið bráðna, kælt lítillega. Eggjarauður eru þeyttar ljósar og léttar og bræddu Dumleblöndunni bætt út í. Kakan er sett á kökudisk og Dumlekreminu dreift yfir kökuna. Að lokum er rjóminn þeyttur og honum dreift yfir kökuna. Skreytt með gróft söxuðum salthnetum og niðurskornum Dumle karamellum. Salthnetuterta með Dumle karamellukremiIMG_8084