KFC kjúklingur með sætkartöflumús og sinnepsjógúrtsósu


KFC kjúklingur með sætkartöflumús og sinnepsjógúrtsósu

Milli þess sem ég skipulegg fermingarveisluna sem nálgast óðfluga þarf víst fjölskyldan að borða líka. Í kvöld langaði mig að hafa það sem Kaninn kallar ”comfort food”. Ég er ekki hrifin af KFC en samt er eitthvað ávanabindandi við þann kjúkling, allavega fæ ég stundum löngun í KFC þó svo að ég viti innst inni að mér finnist eiginlega ekkert varið í hann – skrítið! Ég gerði í kvöld mikið betri kjúkling sem fær samt að heita KFC – „Kleifarsels Fried Chicken”. Kjúklingurinn var ákaflega meyr og bragðgóður og féll sannarlega vel í kramið hjá öllum í fjölskyldunni. Ég ætlaði að hafa sætkartöflu franskar með kjúklingnum en það breyttist á síðustu stundu í sætkartöflumús, ég er bara með æði fyrir henni þessa dagana! Það er svo lítið mál að búa hana til, að þessu sinni skrældi ég sætkartöflur og skar í bita. Sauð bitana í vatni þar til þeir voru orðnir mjúkir, stappaði og bætti smá naturel Philapelphia osti út í ásamt Philadelphia með sweet chili) og kryddaði með chiliflögum. Það er líka hægt að nota til dæmis smjör í stað rjómaosts.

IMG_4533

Uppskrift:

  • 6 -7  kjúklingabringur (ég nota kjúkling frá Rose Poultry)
  • ca. 24 Ritz kex kökur
  • 2 bollar Corn Flakes
  • 2 msk sesamfræ
  • 1/4 -1/2 tsk cayenne pipar
  • 1 tsk ítölsk hvítlauksblanda frá Pottagöldrum
  • 2 eggjahvítur
  • 1 dós jógúrt án ávaxta
  • 1 msk dijon sinnep
  • 1/2 tsk salt
  • ólífuolía

Ofn er hitaður í 200 gráður. Ofnplata er klædd bökunarpappír og pappírinn smurður eða spreyjaður með ólífuolíu. Kornflex og Ritzkex er mulið í matvinnsluvél og blöndunni síðan blandað saman við cayanne pipar, hvítlaukskryddið og sesamfræin. Í annarri skál er eggjahvítum, dijon sinnepi, jógúrti og salti blandað saman. Kjúklingabringunum er dýft vel ofan í jógúrt blönduna og svo velt upp úr kornfleks-blöndunni þannig að kjötið sé alveg þakið. Kjúklingabringunum er raðað á ofnplötuna, þær penslaðar með smá ólífuolíu og bakaðar í ofni í ca. 30-35 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Athugið að tíminn fer algjörlega eftir stærðinni á bringunum, ef þær eru litlar þarf jafnvel að taka þær út fyrr. Borið fram með sætkartöflu frönskum eða sætkartöflumús og sinnepsjógúrtssósu.

IMG_4539

Sinnepsjógúrtsósa:

  • 1 dós grísk jógúrt
  • ca. 1 msk dijon sinnep
  • ca. 1/2 tsk ítölsk hvítlauksblanda frá Pottagöldrum
  • 1.5 tsk hunang

Öllu blandað vel saman með gaffli eða skeið.

IMG_4532

 

 

 

Glútenlausar vöfflur á vöffludegi


Glútenlausar vöfflur„Þegar ég bjó í Svíþjóð …“ er setning sem ég var staðráðin í að láta ekki hljóma vandræðalega oft eftir að ég flutti heim til íslands eftir 15 ára dvöl þar í landi. Ég veit ekki alveg hvort ég hef staðið við það, ég hef allavega margoft rætt um Svíþjóð og sænskar hefðir hér á blogginu. En það er jú líka ansi margt sem við getum sótt til þessarar frændþjóðar okkar þegar kemur að matargerð. Til dæmis eru Svíar snillingar í að búa sér til hátíðisdaga helgaða matréttum – nokkuð sem við Íslendingar mættum gjarnan taka upp finnst mér.

Svíar halda upp á dag kanelsnúðsins (4. október), dag frönsku súkkulaðikökunnar (7. nóvember) og dag ostakökunnar (14. nóvember). Til að fagna sænsku prinsessutertunni, dugir ekkert minna en heil vika sem er sú síðasta í september. Að auki eru borðaðar saffransbollur (Lussekatter) í kringum Lúsíuhátíðina á aðventunni og svo auðvitað bolludagur (sænskar semlor) sem nær eiginlega yfir mánaðartímabil. Í dag er svo vöffludagurinn – þið verðið að viðurkenna að þetta er dálítil snilld hjá Svíunum!

Það er sniðugt hvernig vöffludagurinn kom til því upphaflega er þetta kristinn dagur, dagur jómfrúarinnar (Vårfrudagen) en þá er þess minnst þegar Gabríel erkiengill boðaði Maríu Mey að hún myndi fæða frelsarann, ég geri ekki ráð fyrir að hún hafi boðið honum upp á vöfflur í tilefni dagsins. Í tímans rás þá breyttist á óútskýranlegan hátt, vegna misheyrnar, misskilnings eða jafnvel bara gríns, nafnið „Vårfrudagen“ í „Våffeldagen“.

IMG_4511

25. mars er því helgaður vöfflum í Svíþjóð og mér sýnist hjá vinum mínum á Instagramminu að svo sé líka í Noregi. Óteljandi girnilegar vöfflumyndir hafa streymt í gegnum símann minn í dag með Instagram og það kom því ekkert annað til greina en að baka vöfflur þegar ég kom heim úr vinnunni.

Ég hef aðeins verið að prófa mig áfram með glútenfrítt brauð og bakkelsi og var því mjög glöð þegar ég sá sænskar Finax vörur, sem ég notaði mikið í Svíþjóð, voru komnar í Hagkaup. Þetta er glútenlaus mjölblanda og gróf mjölblanda. Þessar blöndur er hægt að nota í stað hveitis í flestum uppskriftum. Til dæmis bjó ég til gómsætt glútenlaust brauð um daginn sem var líka gerlaust þar sem ég blandaði saman grófa og fína mjölinu.

IMG_4476 Ég var ekkert smá ánægð með útkomuna á vöfflunum. Hér heima voru nokkur börn sem gæddu sér á vöfflunum og þeim fannst þær meira að segja betri en þessar hefðbundu sem ég hef gert. Vöfflurnar voru afar fljótar að bakast, og urðu stökkar og gómsætar!

IMG_4505

Uppskrift:

  • 4 egg Finax
  • ca. 5 dl mjólk
  • 100 g smjör, brætt
  • 5 dl glutenfri mix frá Finax
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt
  • 2 tsk vanillusykur (eða 1 tsk vanilludropar)

Mjölinu er blandað við lyftiduftið, vanillusykurinn og saltið. Eggin eru aðskilin og eggjarauðunum er hrært út í þurrefnin ásamt helmingnum af mjólkinni. Þá er restinni af mjólkinni bætt út í smátt og smátt. Eggjahvíturnar eru stífþeyttar og því næst blandað varlega út í degið.

IMG_4499 IMG_4505

 

Glútenlausar vöfflur á vöffludegi


Glútenlausar vöfflur„Þegar ég bjó í Svíþjóð …“ er setning sem ég var staðráðin í að láta ekki hljóma vandræðalega oft eftir að ég flutti heim til íslands eftir 15 ára dvöl þar í landi. Ég veit ekki alveg hvort ég hef staðið við það, ég hef allavega margoft rætt um Svíþjóð og sænskar hefðir hér á blogginu. En það er jú líka ansi margt sem við getum sótt til þessarar frændþjóðar okkar þegar kemur að matargerð. Til dæmis eru Svíar snillingar í að búa sér til hátíðisdaga helgaða matréttum – nokkuð sem við Íslendingar mættum gjarnan taka upp finnst mér.

Svíar halda upp á dag kanelsnúðsins (4. október), dag frönsku súkkulaðikökunnar (7. nóvember) og dag ostakökunnar (14. nóvember). Til að fagna sænsku prinsessutertunni, dugir ekkert minna en heil vika sem er sú síðasta í september. Að auki eru borðaðar saffransbollur (Lussekatter) í kringum Lúsíuhátíðina á aðventunni og svo auðvitað bolludagur (sænskar semlor) sem nær eiginlega yfir mánaðartímabil. Í dag er svo vöffludagurinn – þið verðið að viðurkenna að þetta er dálítil snilld hjá Svíunum!

Það er sniðugt hvernig vöffludagurinn kom til því upphaflega er þetta kristinn dagur, dagur jómfrúarinnar (Vårfrudagen) en þá er þess minnst þegar Gabríel erkiengill boðaði Maríu Mey að hún myndi fæða frelsarann, ég geri ekki ráð fyrir að hún hafi boðið honum upp á vöfflur í tilefni dagsins. Í tímans rás þá breyttist á óútskýranlegan hátt, vegna misheyrnar, misskilnings eða jafnvel bara gríns, nafnið „Vårfrudagen“ í „Våffeldagen“.

IMG_4511

25. mars er því helgaður vöfflum í Svíþjóð og mér sýnist hjá vinum mínum á Instagramminu að svo sé líka í Noregi. Óteljandi girnilegar vöfflumyndir hafa streymt í gegnum símann minn í dag með Instagram og það kom því ekkert annað til greina en að baka vöfflur þegar ég kom heim úr vinnunni.

Ég hef aðeins verið að prófa mig áfram með glútenfrítt brauð og bakkelsi og var því mjög glöð þegar ég sá sænskar Finax vörur, sem ég notaði mikið í Svíþjóð, voru komnar í Hagkaup. Þetta er glútenlaus mjölblanda og gróf mjölblanda. Þessar blöndur er hægt að nota í stað hveitis í flestum uppskriftum. Til dæmis bjó ég til gómsætt glútenlaust brauð um daginn sem var líka gerlaust þar sem ég blandaði saman grófa og fína mjölinu.

IMG_4476 Ég var ekkert smá ánægð með útkomuna á vöfflunum. Hér heima voru nokkur börn sem gæddu sér á vöfflunum og þeim fannst þær meira að segja betri en þessar hefðbundu sem ég hef gert. Vöfflurnar voru afar fljótar að bakast, og urðu stökkar og gómsætar!

IMG_4505

Uppskrift:

  • 4 egg Finax
  • ca. 5 dl mjólk
  • 100 g smjör, brætt
  • 5 dl glutenfri mix frá Finax
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt
  • 2 tsk vanillusykur (eða 1 tsk vanilludropar)

Mjölinu er blandað við lyftiduftið, vanillusykurinn og saltið. Eggin eru aðskilin og eggjarauðunum er hrært út í þurrefnin ásamt helmingnum af mjólkinni. Þá er restinni af mjólkinni bætt út í smátt og smátt. Eggjahvíturnar eru stífþeyttar og því næst blandað varlega út í degið.

IMG_4499 IMG_4505

 

Fiskréttur með beikoni, eplum og brie


Fiskréttur með beikoni, eplum og brieÞað er vika liðin síðan ég setti inn uppskrift hér á bloggið en það er ekki þar með sagt að ég hafi verið í fríi frá eldhúsinu, síður en svo. Í dag er ég búin að vera að prófa mig áfram með ýmsa rétti fyrir fermingarveisluna hans Vilhjálms og afraksturinn mun birtast á prenti síðar í vikunni. Að vanda hefur verið nóg að gera þessa helgi sem og aðrar. Í gær fór ég á skemmtilega barna- og unglingabókaráðstefnu í Gerðubergi auk þess sem við fjölskyldan fórum á afmælistónleika í tónskóla barnanna. Í gærkvöldi gisti Jóhanna Inga hjá vinkonu sinni þannig að við hjónin notuðum tækifærið og skruppum í bíó og tókum Vilhjálm með okkur. Lunginn úr deginum í dag fór í matargerð en við mæðgur fórum líka í skemmtilega fimm ára afmælisveislu. Eins og hendi væri veifað er helginni að ljúka og mánudagur á morgun! Mér finnst tilvalið að snæða góðan fisk á mánudögum og mæli með að þið prófið þessa ljúffengu fiskuppskrift á morgun! 🙂

IMG_4204

Uppskrift:

  • 900 g góður hvítur fiskur (ég notaði þorskhnakka)
  • 4 msk hveiti
  • salt & pipar
  • chili krydd (ég notaði chili explosion)
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 3 græn epli, afhýdd og skorin í bita
  • 1 græn paprika, skorin í bita
  • 1 rauðlaukur, skorin í bita
  • ca. 10 sneiðar beikon
  • 200 g brie ostur (t.d. brie-hringur)
  • rifinn ostur

Ofn hitaður í 200 gráður. Fiskurinn er skorinn í hæfilega stóra bita. Salti, pipar og chili kryddi er bætt saman við hveitið og fisknum velt upp úr hveitiblöndunni. Fiskurinn er því næst steiktur á pönnu á báðum hliðum í örstutta stund og raðað í eldfast mót. Beikonið er skorið eða klippt í litla bita og steikt á pönnu þar til það er orðið stökkt. Þá er beikonið veitt af pönnunni. Eplin, laukurinn og paprikan er því næst steikt upp úr beikonfitunni, þegar það er farið að mýkjast þá er brie osturinn brytjaður út á pönnuna og leyft að bráðna svolítið, saltað og piprað eftir smekk.

IMG_4195Beikoninu er svo bætt út á pönnuna og allri blöndunni dreift yfir fiskinn.

IMG_4197Að lokum er rifnum osti stráð yfir réttinn og hann settur í ofn við 200 gráður í 10-15 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.

IMG_4202Þeim sem þykir sósa nauðsynleg verða ekki sviknir af því að bera fram þessa sósu með réttinum:

Jógúrtsósa með fetaosti:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • ca. 100 g fetaostur (ekki í olíu)
  • salt, pipar og smá chilikrydd

Öllu blandað vel saman með gaffli.

Teriyaki kjúklingur frá Eldum rétt


IMG_4312Enn ein helgin er liðin. Núna líður senn að fermingu hjá Vilhjálmi mínum og það er að mörgu að huga. Ég er enn ekki alveg búin að ákveða hvað ég mun bjóða upp á í fermingunni, núna er ég að einbeita mér að boðskortunum, fötunum og slíku.

Í gærkvöldi vorum við með matarboð og ég hægeldaði nautalund. Við gæddum okkur á afgöngunum núna í kvöld, kjötið var lungnamjúkt og gómsætt, alveg finnst mér nauðsynlegt að gæða mér á góðri nautasteik öðru hvoru! Teriyaki kjúklingur frá Eldum réttEldum rétt“ vikunni lauk hjá okkur fyrir helgi og ég þarf að huga að hversdagsmatnum aftur sjálf – lúxusinn er búinn! 🙂 Síðasti rétturinn í hjá Eldum rétt í síðustu viku var ofureinfaldur og ljúffengur Teriyaki kjúklingur. Það var sniðugt í uppskriftinni að hrísgrjónin voru steikt á pönnunni eftir að rétturinn var tekinn af henni. Þannig fengu þau gott bragð og skemmtilega áferð.

IMG_4321

Uppskrift f. 4: 

  • 700 g kjúklingalundir
  • olía
  • salt & pipar
  • 4 dl hrísgrjón
  • 4 meðalstórar gulrætur, skornar í grófa strimla
  • 1 -2 paprikur, skornar í grófa strimla
  • 60 g strengjabaunir, skornar í tvennt
  • 2 laukar, skornir í grófa strimla
  • ca. 2,5 dl Teriyaki sósa

IMG_4309Hrísgrjón eru sett í pott ásamt 8 dl af vatni og smá salti bætt við. Soðið í 12-15 mínútur þar til nánast allt vatn er gufað upp. Þá eru hrísgrjónin tekin af hitanum og látin standa í 3-4 mínútur með lokinu á. Að lokum eru þau skoluð með köldu vatni og lögð til hliðar.

Grænmetið er steikt á pönnu, byrjað á gulrótunum í 1-2 mínútur og svo restinni af grænmetinu bætt út á pönnuna. Steikt í 2-3 mínútur þar til grænmetið fer að brúnast. Kjúklingurinn er saltaður og pipraður. Þá er gert pláss á pönnunni (ef pannan er lítil er grænmetið tekið af á meðan) og kjúklingalundirnar steiktar þar til þær hafa brúnast á öllum hliðum. Að lokum er teriyaki sósunni bætt út á pönnuna með kjúklingnum og grænmetinu og látið krauma í 3-4 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn.  Rétturinn er settur á fat en hrísgrjónunum bætt út á sömu pönnu (án þess að hún sé þvegin á milli) og þau steikt í 2-3 mínútur til viðbótar. Borið fram með því að setja hrísgrjónin á disk og teriyakikjúklinginn ofan á.

IMG_4320

Lasagna frá Eldum rétt


Lasagna frá Eldum réttFrábær öskudagur er að kvöldi kominn. Í ár var í fyrsta sinn hálfur skóladagur hjá krökkunum og í kjölfar þess var ákveðið að þau fengju að ganga í hús í hverfinu til þess að syngja og fá sælgæti að launum en sú hefð hefur ekki verið í hverfinu okkar hingað til. Þrátt fyrir að það hafi kyngt niður snjó gengu börnin glöð og kát á milli húsa og sungu og mörg heimili tóku þátt. Það má með sanni segja að þetta hafi gengið ákaflega vel og vonandi verður þetta að hefð í hverfinu. Nú er svo komið að einungis yngsta barnið mitt klæðist búningi, hin eru vaxin upp úr því. Jóhanna Inga mín ákvað fyrir löngu að hún vildi vera frelsisstyttan – enda getur hún ekki beðið eftir því að sjá hana í raun næsta sumar. Ég pantaði búning að utan og skottan var afar sátt við útkomuna.

IMG_4242

Í dag eldaði ég einn rétt til viðbótar frá Eldum rétt. Að þessu sinni var það einfalt og gott lasagna. Ég kemst ekki yfir hvað það er skemmtilegt að elda úr svona fyrirfram tilbúnum skömmtum.

IMG_4279Það er góð tilfinning að nýtingin á hráefninu verður 100%, eldamennskan er barnslega einföld og síðast en ekki síst er verður allt svo skemmtilega skipulagt og snyrtilegt í kringum eldamennskuna þegar eldað er með þessum hætti.

IMG_4293

IMG_4282IMG_4283

Mér finnst gott að krydda lasagna vel og ég bætti því við kryddi sem stóð ekki í upphaflegu uppskriftinni. Þetta lasagna var ekki með ostasósu heldur einungis með lasagnaplötum og kjötsósu. Hins vegar getur verið sniðugt að bæta við kotasælu í uppskriftina í stað ostasósu, það er afar fljótlegt og gerir örugglega góðan rétt enn betri. Annars sá ég á heimasíðu Eldum rétt að þeir eru að fara auka framboðið á réttunum þannig að fljótlega verður hægt að velja úr sex mismunandi réttum fyrir pokann sinn.

Uppskrift f. 4:

  • 12 lasagnaplötur
  • 400 g nautahakk
  • ólífuolía til steikingar
  • 2 gulrætur, skornar smátt
  • 4 hvítlauksrif, pressuð
  • 4 sellerístangir, skornar smátt
  • 2 litlir eða meðalstórir gulir laukar, saxaði smátt
  • niðursoðnir tómatar, 400 g
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1-2 tsk heitt pizzakrydd
  • basilka og/eða oregano krydd
  • salt & pipar
  • fersk steinselja (ca 6 g)
  • 2 tsk rauðvínsedik
  • 1 stór dós kotasæla
  • 100 g rifinn ostur

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Laukur, gulrætur og sellerí steikt upp úr ca. 3 msk af ólífuolíu ásamt hvítlauki í ca. 1-2 mínútur. Þá er hakkinu bætt á pönnuna og steikt þar til það byrjar að brúnast. Þá er rauðvínsediki, tómatmauki, kryddum og niðursoðnum tómötum bætt út á pönnuna og leyft að krauma í 5-10 mínútur. Ríflega helmingurinn af steinseljunni er söxuð smátt og bætt út í. Fyrir þá sem vilja þá er hægt að mauka kjötsósuna með töfrasprota, en ekki of mikið, bara 4-5 púlsa. 3 msk af óífuolíu er sett í botninn á eldföstumóti.

IMG_4296Þá er lasagnaplötum raðað í botninn á forminu (plöturnar brotnar ef með þarf til að þær passi betur), því næst er hluta af hakkinu dreift yfir plöturnar og loks eru nokkrar skeiðar af kotasælu settar yfir hakkið og dreift vel úr því. Þetta er svo endurtekið tvisvar. Að lokum er rifnum osti dreift yfir og hitað í ofni í 20-25 mínútur. Skreytt að síðustu með ferskri steinselju. Borið fram með fersku salati.

IMG_4298

Bakaður lax með smjörsteiktu kúskús og taragondressingu


Bakaður lax með smjörsteiktu kúskús og taragondressingu Í vor verða komin sex ár frá því að við fluttum heim frá Stokkhólmi eftir 15 ára dvöl í borginni. Þá þegar fyrir sex árum voru Svíar farnir að bjóða upp á sniðuga þjónustu sem var, og er enn, afar vinsæl þar í landi. Þetta er matarpakkaþjónusta þar sem heimili fá send heim hráefni ásamt uppskriftum fyrir kvöldmatinn. Í Svíþjóð hefur þessi þjónusta verið að þróast undanfarinn áratug og nú er svo komið að það er hægt að fá allskonar tegundir af máltíðum, grænmetismáltíðir, barnvænar máltíðir, LKL-máltíðir og fleira. Ég prófaði þetta í Svíþjóð og líkaði vel en hér á Íslandi hefur ekki verið til slík þjónusta fyrr en núna. Ég rakst á fyrirtækið Eldum rétt á Facebook en það fyrirtæki er nýfarið að bjóða upp á þessa þjónustu. Eftir að hafa skoðað heimasíðuna þeirra ákvað ég að slá til og prófa.

IMG_4218

Það eru margir þættir sem þarf að huga að ef svona þjónusta á að ganga upp. Í fyrsta lagi þarf heimasíðan að vera í lagi því hún er fyrsti viðkomustaðurinn. Hráefnið þarf að vera ferskt og gott, passlega skammtað og uppskriftirnar þurfa að vera auðveldar en að sama skapi spennandi og bragðgóðar. Eldum rétt nær strax fullu húsi stiga með ákaflega flotta og notendavæna heimasíðu. Eftir að ég var búin að leggja inn pöntunina, sem var auðvelt, fékk ég greinagóðan og skýran tölvupóst þar sem kom fram hvaða matrétti ég mundi fá, innihaldslýsingu og slíkt.

Ég fékk sendinguna í dag og ég varð satt að segja yfir mig hrifin! Öllum hráefnunum var pakkað afar vel inn, allt skilmerkilega merkt með litum svo auðveldlega sæist hvaða hráefni tilheyrði hvaða uppskriftum.

IMG_4220Síðast en ekki síst var allt hráefnið ákaflega ferskt og spennandi. Ég fékk hráefni í laxarétt, kjúklingarétt og lasagna. Það var mælt með því að byrja á laxaréttinum sem ég og gerði. Það var einstaklega þægilegt og fljótlegt að elda réttinn þar sem allir skammtar voru fyrirfram tilbúnir og auðvelt að fara eftir uppskriftinni.

IMG_4222

Það er tilvalið að leyfa krökkunum að hjálpa til við eldamennskuna þar sem hráefnin og uppskriftirnar eru svo aðgengileg. Það er líka svo sniðugt að nota svona hráefni og uppskriftir sem aðrir hafa fundið til fyrir mann. Þannig neyðist maður til þess að fara út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað nýtt. Það liðu nákvæmlega 20 mínútur frá því að ég hóf eldamennskuna þar til að maturinn var kominn á borðið. Við vorum öll stórhrifin af matnum, hann var frábærlega góður. Ég hafði haft dálitlar áhyggjur af því að skammtarnir væru kannski litlir – við fjölskyldan erum ekki þekkt fyrir að vera matgrönn! 😉 En það voru óþarfa áhyggjur, skammtarnir voru vel útilátnir. Ég hlakka mikið til að elda hina réttina tvo og mér finnst mikið tilhlökkunarefni að einhver annar sé búinn að hafa allt tilbúið fyrir mig – ég þurfi ekkert annað að gera en að vinda mér í eldamennskuna! 🙂

Ég hafði samband við Eldum rétt og fékk leyfi til þess að deila með ykkur þeim uppskriftum sem ég fékk frá þeim. Hér kemur sú fyrsta sem ég eldaði í kvöld, dásamlega góður laxaréttur.

IMG_4221

Uppskrift f. 4:

  • 700 g lax
  • ólífuolía og smjör til steikingar
  • salt og pipar
  • 3 dl kúskús
  • 60 sólþurrkaðir tómatar
  • 2 rauðlaukar
  • 30 g kapers
  • 60 g strengjabaunir
  • 1 sítróna
  • taragondressing (sýrður rjómi, sítrónusafi, graslaukur, balsamik edik, taragon krydd, salt og pipar – öllu blandað saman)

Ofn hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. 8 dl af vatni sett í pott ásamt smá salti og hitað að suðu. Þegar vatnið er byrjað að sjóða er potturinn tekinn af hellunni og kúskús sett út í. Lokið sett á pottinn og hann lagður til hliðar. Laxinn er skolaður og skorinn í hæfilega stóra bita. Olía er hituð á pönnu, laxinn saltaður og pipraður og því næst steiktur í um það bil 2 mínútur á hvorri hlið. Laxinn er lagður í eldfast mót. Strengjabaunirnar eru steiktar í heilu lagi í 1-2 mínútur á pönnunni og settar í mótið með laxinum. Bakað í ofni í 10-12 mínútur.IMG_4223

Á meðan er rauðlaukurinn afhýddur og skorinn smátt ásamt kapers og sólþurrkuðum tómötum og þetta er allt steikt saman á pönnu upp úr 2-3 msk af olíu. Þá er kúskúsinu bætt á pönnuna ásamt 2 msk af smjöri og steikt í 2-3 mínútur til viðbótar.

IMG_4227 Smakkað til með salti, pipar og dálítið af sítrónusafa kreist yfir. Laxinn er svo borinn fram með steikta kúskúsinu, taragondressingunni og sítrónubátum.

IMG_4239