Teriyaki kjúklingur frá Eldum rétt


IMG_4312Enn ein helgin er liðin. Núna líður senn að fermingu hjá Vilhjálmi mínum og það er að mörgu að huga. Ég er enn ekki alveg búin að ákveða hvað ég mun bjóða upp á í fermingunni, núna er ég að einbeita mér að boðskortunum, fötunum og slíku.

Í gærkvöldi vorum við með matarboð og ég hægeldaði nautalund. Við gæddum okkur á afgöngunum núna í kvöld, kjötið var lungnamjúkt og gómsætt, alveg finnst mér nauðsynlegt að gæða mér á góðri nautasteik öðru hvoru! Teriyaki kjúklingur frá Eldum réttEldum rétt“ vikunni lauk hjá okkur fyrir helgi og ég þarf að huga að hversdagsmatnum aftur sjálf – lúxusinn er búinn! 🙂 Síðasti rétturinn í hjá Eldum rétt í síðustu viku var ofureinfaldur og ljúffengur Teriyaki kjúklingur. Það var sniðugt í uppskriftinni að hrísgrjónin voru steikt á pönnunni eftir að rétturinn var tekinn af henni. Þannig fengu þau gott bragð og skemmtilega áferð.

IMG_4321

Uppskrift f. 4: 

  • 700 g kjúklingalundir
  • olía
  • salt & pipar
  • 4 dl hrísgrjón
  • 4 meðalstórar gulrætur, skornar í grófa strimla
  • 1 -2 paprikur, skornar í grófa strimla
  • 60 g strengjabaunir, skornar í tvennt
  • 2 laukar, skornir í grófa strimla
  • ca. 2,5 dl Teriyaki sósa

IMG_4309Hrísgrjón eru sett í pott ásamt 8 dl af vatni og smá salti bætt við. Soðið í 12-15 mínútur þar til nánast allt vatn er gufað upp. Þá eru hrísgrjónin tekin af hitanum og látin standa í 3-4 mínútur með lokinu á. Að lokum eru þau skoluð með köldu vatni og lögð til hliðar.

Grænmetið er steikt á pönnu, byrjað á gulrótunum í 1-2 mínútur og svo restinni af grænmetinu bætt út á pönnuna. Steikt í 2-3 mínútur þar til grænmetið fer að brúnast. Kjúklingurinn er saltaður og pipraður. Þá er gert pláss á pönnunni (ef pannan er lítil er grænmetið tekið af á meðan) og kjúklingalundirnar steiktar þar til þær hafa brúnast á öllum hliðum. Að lokum er teriyaki sósunni bætt út á pönnuna með kjúklingnum og grænmetinu og látið krauma í 3-4 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn.  Rétturinn er settur á fat en hrísgrjónunum bætt út á sömu pönnu (án þess að hún sé þvegin á milli) og þau steikt í 2-3 mínútur til viðbótar. Borið fram með því að setja hrísgrjónin á disk og teriyakikjúklinginn ofan á.

IMG_4320