Rjómalagaður kjúklingapottréttur


Rjómalagaður kjúklingapottrétturÞessi pottréttur er frábærlega bragðgóður og mikið lostæti. Það er einstaklega einfalt að búa hann til, allt fer á pönnuna og hér um bil eldar sig sjálft. Þetta er tilvalinn laugardagsréttur. Hvítvínsflaskan opnuð fyrir matargerðina og svo er hægt að njóta þess að dreypa á restinni af víninu með matnum. 🙂

Rjómalagaður kjúklingapottréttur f. 3-4

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry, skornar í bita
  • ólífuolía til steikingar
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1 dós niðursoðnir tómatar með basiliku og oregano frá Hunts (411 g)
  • 2 msk fljótandi kjúklingakraftur frá Oscars
  • 1½ dl hvítvín (eða mysa)
  • 3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 1 tsk þurrkuð basilika
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk paprikukrydd
  • salt & pipar

IMG_6651

Kjúklingurinn kryddaður með salti og pipar. Laukurinn er steiktur á pönnu þar til hann er mjúkur. Því næst er kjúklingi og sveppum bætt út á pönnuna og steikt þar til hvort tveggja hefur tekið góðan lit. Þá er tómötunum, kjúklingakraftinum, hvítvíninu, rjómanum og kryddunum bætt út í og látið malla í ca. 10-15 mínútum. Smakkað til og kryddað meira við þörfum. Borið fram með góðu salati og hrísgrjónum, gott er að blanda Tilda basmati hrísgrjónunum við Tilda vilt hrísgrjón.

IMG_6647

Kjúklingur með basiliku/klettasalatspestói og mozzarella


IMG_6187Í gærmorgun var seinni hluti myndartökunnar sem ég pantaði hjá Lalla ljósmyndara. Í apríl tók hann frábærar myndir af fermingardrengnum okkar og í gær var komið að því að taka myndir af stúdínunni. Elfar og Alexander skutust úr vinnunni og Lalli byrjaði á því að taka nokkrar fjölskyldumyndir af okkur öllum saman. Við vorum mjög heppin því að ákkurat á þessum tímapunkti stytti upp og það sást meira að segja til sólar. Myndirnar voru allar teknar úti, mér finnst útimyndir alltaf koma langbest út. Ég er spennt að fá allar þessar ljósmyndir og er þegar byrjuð á því að vinna að nýjum myndavegg á heimilinu.

Í fyrrakvöld fékk ég hugmynd að kjúklingarétti sem ég ákvað að framkvæma. Ég var svo sem ekkert að finna upp hjólið, heimatilbúið pestó, pastasósa og mozzarella – það þarf nú mikið til þess að útkoman klikki þegar þessi hráefni koma saman. En ég verð samt að segja að útkoman varð enn betri en ég bjóst við, þetta er hrikalega góður réttur sem ég hvet ykkur til að prófa! Heimatilbúið pestó er svo svakalega gott og hérna blandaði ég saman basiliku og klettasalati sem mér finnst gera pestóið að extra miklu lostæti. Það er vissulega hægt að nota tilbúið pestó en heimatilbúið er fljótgert og þúsundfalt betra. Ég notaði kjúklingalundirnar frá Rose Poultry og þær eru svo rosalega meyrar og mjúkar! Ég vann kjúklingabækling fyrir Innnes sem flytur þennan kjúkling inn og eftir að hafa prófað kjúklinginn frá þeim þá nota ég satt að segja varla annan kjúkling, mér finnst hann langbragðbestur og ofsalega meyr. Kannski setja sumir fyrir sig að kjúklingurinn sé frosinn en mér finnst það ekkert mál. Ég tók ég kjúklingalundirnar (fékk þær í versluninni Iceland) út úr frystinum skömmu áður en ég byrjaði að elda, tók mesta frostið úr þeim við lágan hita í örbylgjuofninum (þannig að kjötið byrji samt ekki að eldast), lundirnar þiðnuðu á örskömmum tíma og voru bókstaflega mjúkar eins og smjör í réttinum! Varðandi kjúklingabæklinginn þá er hann að finna rafrænt hér, auk þess er hann í flestum matvöruverslunum (þó ekki Nettó). Ef þið hafið ekki fundið bæklinginn enn og viljið frekar prentað eintak í stað rafræns, hafið þá samband við mig í gegnum netfangið mitt eða í gegnum skilaboð á Facebook.

Uppskrift f. ca. 3:

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry
  • salt og pipar
  • ca. 200 ml (hálf krukka) pastasósa frá Hunt’s með hvítlauk og kryddjurtum – garlic & herbs (kemur í 396 ml glerkrukkum)
  • 1 mozzarellaostur (kúlan í bláu pokunum, 125 g)

Pestó (líka hægt að flýta fyrir og nota 1 krukku af pestói frá Jamie Oliver):

  • 50 g klettasalat
  • ca. 1 box fersk basilika (30 g)
  • 1 dl graskersfræ (líka hægt að nota furuhnetur eða kasjúhnetur)
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 – 1½ dl ólífuolía
  • 2 dl parmesan ostur, rifinn
  • salt og pipar

Ofn hitaður í 200 gráður og pestóið búið til: Basilikan (allra grófustu stönglarnir ekki notaðir), klettasalat og hvítlaukur er saxað gróft. Graskersfræin eru þurrristuð á pönnu. Öllu blandað saman í skál ásamt parmesan ostinum og mixað í blender eða með töfrasprota. Ólífuolíunni blandað út í mjórri bunu þar til pestóið er orðið hæfilega þykkt. Smakkað til með salti og pipar. IMG_6174 Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og lagður í eldfast mót. Því næst er pestóinu dreift jafnt yfir kjúklinginn og þá pastasósunni. Mozzarellaosturinn er skorinn í þunnar sneiðar og þær lagðar yfir pastasósuna. Bakað í ofni í ca. 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með góðu salati, gjarnan klettasalati og kokteiltómötum og góðu brauði. Ég bar líka fram með réttinum ofnbakaðar kartöflur og sætkartöflur með ítalskri kryddblöndu en giska á að pasta, kúskús eða hrísgrjón fari jafnvel betur með réttinum. IMG_6176IMG_6178IMG_6183

Teriyaki kjúklingur frá Eldum rétt


IMG_4312Enn ein helgin er liðin. Núna líður senn að fermingu hjá Vilhjálmi mínum og það er að mörgu að huga. Ég er enn ekki alveg búin að ákveða hvað ég mun bjóða upp á í fermingunni, núna er ég að einbeita mér að boðskortunum, fötunum og slíku.

Í gærkvöldi vorum við með matarboð og ég hægeldaði nautalund. Við gæddum okkur á afgöngunum núna í kvöld, kjötið var lungnamjúkt og gómsætt, alveg finnst mér nauðsynlegt að gæða mér á góðri nautasteik öðru hvoru! Teriyaki kjúklingur frá Eldum réttEldum rétt“ vikunni lauk hjá okkur fyrir helgi og ég þarf að huga að hversdagsmatnum aftur sjálf – lúxusinn er búinn! 🙂 Síðasti rétturinn í hjá Eldum rétt í síðustu viku var ofureinfaldur og ljúffengur Teriyaki kjúklingur. Það var sniðugt í uppskriftinni að hrísgrjónin voru steikt á pönnunni eftir að rétturinn var tekinn af henni. Þannig fengu þau gott bragð og skemmtilega áferð.

IMG_4321

Uppskrift f. 4: 

  • 700 g kjúklingalundir
  • olía
  • salt & pipar
  • 4 dl hrísgrjón
  • 4 meðalstórar gulrætur, skornar í grófa strimla
  • 1 -2 paprikur, skornar í grófa strimla
  • 60 g strengjabaunir, skornar í tvennt
  • 2 laukar, skornir í grófa strimla
  • ca. 2,5 dl Teriyaki sósa

IMG_4309Hrísgrjón eru sett í pott ásamt 8 dl af vatni og smá salti bætt við. Soðið í 12-15 mínútur þar til nánast allt vatn er gufað upp. Þá eru hrísgrjónin tekin af hitanum og látin standa í 3-4 mínútur með lokinu á. Að lokum eru þau skoluð með köldu vatni og lögð til hliðar.

Grænmetið er steikt á pönnu, byrjað á gulrótunum í 1-2 mínútur og svo restinni af grænmetinu bætt út á pönnuna. Steikt í 2-3 mínútur þar til grænmetið fer að brúnast. Kjúklingurinn er saltaður og pipraður. Þá er gert pláss á pönnunni (ef pannan er lítil er grænmetið tekið af á meðan) og kjúklingalundirnar steiktar þar til þær hafa brúnast á öllum hliðum. Að lokum er teriyaki sósunni bætt út á pönnuna með kjúklingnum og grænmetinu og látið krauma í 3-4 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn.  Rétturinn er settur á fat en hrísgrjónunum bætt út á sömu pönnu (án þess að hún sé þvegin á milli) og þau steikt í 2-3 mínútur til viðbótar. Borið fram með því að setja hrísgrjónin á disk og teriyakikjúklinginn ofan á.

IMG_4320

Parmesan- og kryddjurtakjúklingur


Parmesan- og kryddjurtakjúklingur

Mér finnst svo dásamlegt að maí sé runninn upp. Maí og júní eru langbestu mánuðirnir á Íslandi með allri birtunni og gróðrinum sem fer að vakna úr dvala. Ég hlakka mikið til að hefja matjurtaræktunina mína en undanfarin ár hef ég ræktað allskonar salöt, gulrætur, kryddjurtir og fleira.

Einn af mínum uppáhalds kjúklingaréttunum hér á síðunni er ítalski parmesan kjúklingurinn. Ég ákvað að útfæra réttinn á nýjan hátt. Þessi útgáfa er aðeins tímafrekari en ítalski parmesan kjúklingurinn, en sá réttur er nú líka einstaklega fljótlegur. Ég hafði hugsað mér að nota kjúklingalundir því það er fljótlegt að steikja þær en fann þær hvergi. Ég endaði á því að nota kjúklingabringur sem ég skar í þrennt. Rétturinn kom rosalega vel út og er dásamlega ljúffengur. Parmesan ostur, rifinn ostur, ítölsk tómatsósa, brauðteningar og basilika – þetta eru hráefni sem geta bara ekki klikkað með kjúklingi!

IMG_9491

Uppskrift:

  • 1200 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • 100 g rifinn parmesan ostur
  • ca 2 dl rifinn mozzarella ostur
  • 1 poki brauðteningar með osti og lauk (142 gr)
  • ca 20 g fersk basilika, söxuð smátt
  • ca 20 g fersk steinselja, söxuð smátt
  • salt & pipar
  • 2 egg, pískuð saman með gaffli
  • ítölsk tómatsósa með basilku, ca. 6-700 g ((ég notaði sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni)
  • smjör til steikingar

IMG_9461

Ofn hitaður í 200 gráður. Ef notaðar eru kjúklingabringur þá eru þær skornar í þrennt á lengdina. Eggin eru pískuð saman í skál. Brauðteningarnir eru muldir smátt í matvinnsluvél og þeim blandað saman við 1 dl af parmesan ostinum, basilikuna, steinseljuna, salt og pipar. Þá er kjúklingnum velt upp úr eggjablöndunni, síðan brauðteningablöndunni. Því næst er kjúklingurinn steiktur upp úr smjöri á pönnu, á öllum hliðum, við meðalháan hita þar til hann hefur náð góðri steikingarhúð. Þá er kjúklingnum raðað í eldfast mót, tómatsósunni helt yfir kjúklinginn og þá er restinni af parmesan ostinum dreift yfir sósuna ásamt rifna mozzarella ostinum. Bakað í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Síðustu mínúturnar stillti ég á grill til þess að osturinn myndi brúnast vel.

IMG_9460

IMG_9464IMG_9469IMG_9479IMG_9483IMG_9490

Karríkjúklingur með sætum kartöflum


Við erum búin að borða þennan ljúffenga rétt tvö kvöld í röð! Ég eldaði mjög stóran skammt í fyrrakvöld og í gærkvöldi fengum við okkur afganginn snemma og drifum okkur svo í kvöldsund með krakkana. Jemundur minn hvað það var notalegt! Ég er búin að sitja í svo margar vikur og skrifa ritgerðina mína að ég endaði á því að fá þursabit í bakið. Ég hef aldrei fengið svona í bakið áður, það er ákaflega óþægilegt og algjört vesen þegar maður þarf að sitja við tölvu allan daginn. Ég var svo glöð að uppgötva að Árbæjarlaugin er opin til klukkan 22 núna, en þeir voru búnir að draga svo úr opnunartímanum fyrr í ár. Ekki nóg með það heldur var kominn glænýr heitur pottur með allskonar nuddtækjum! Ég kom heim stálslegin og allt önnur í bakinu og krökkunum fannst dásamlegt að fara í kvöldsund. Við ætlum að reyna að gera þetta reglulega.

En að uppskrift dagsins! Mér finnst kjúklingur ákaflega góður, eins er ég afar hrifin af sætum kartöflum og mér finnst karrí mjög gott. Þegar ég fann uppskriftina af þessum rétti var ég viss um að mér myndi líka hann vel. Í réttinum eru fá hráefni en öll þessi ofangreindu sem mér finnst svo góð, hann er mjög einfaldur að matreiða og dásamlega litríkur. Það kom á daginn að mér líkar ekki bara rétturinn, ég elska hann! 🙂 Ég get varla beðið eftir því að búa hann til aftur og er strax farin að hugleiða hverjum ég á að bjóða í mat í þennan rétt! Ég var ekki ein um að falla fyrir þessum rétti, öllum í fjölskyldunni fannst hann ofsalega góður, meira að segja yngstu krökkunum. Ég notaði,,mild curry paste“ sem ég fann í Þinni verslun, ég fann ekkert slíkt á hraðferð minni í gegnum Bónus. Rétturinn var því mjög mildur en einkar bragðgóður. Ég átti ekki nóg af kókosmjólk en hins vegar átti ég rjóma þannig að ég setti ca. 1/3 rjóma í stað kókosmjólkur en það er líka hægt að nota bara kókosmjólk. Þessi réttur minnir dálítið á Massaman curry réttinn sem byggist einmitt upp á kartöflum, kjöti, curry paste, kókosmjólk og fleira hráefni. Sá réttur er ofsalega góður en mér finnst þessi eiginlega betri út af sætu kartöflunum og hann er klárlega mildari og einfaldari að útbúa.

Uppskrift:
  • 800 gr sætar kartöflur
  • 2 msk olía
  • salt og pipar
  • 2-3 msk curry paste (grænt, milt, sterkt – eftir smekk)
  • 1 msk olía
  • 700 gr kjúklingabringur eða lundir
  • 1 dl kröftugt kjúklingasoð (kjúklingakraftur + sjóðandi vatn)
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 límóna (lime), safinn + fínrifinn börkur
  • kóríander, grófsaxað

Bakarofn hitaður í 220 gráður. Sætar kartöflur skrældar, skornar í bita og dreift í ofnskúffu. Olíu, salt og pipar bætt við og hitað við 220 gráður í ca. 20 mínútur. Á meðan er kjúklingurinn skorinn í bita. Olíunni (1 msk) hellt á pönnu og curry paste bætt út á pönnuna. Látið malla í ca. 2 mínútur, hrært í á meðan. Kjúklingabitunum bætt út á pönnuna og steikt þar til þeir hafa náð lit á öllum hliðum. Þá er kókosmjólk, kjúklingasoði, safa og berki frá límónunni bætt út og látið malla í ca. 10 mínútur. Þegar sætu kartöflurnar eru hér um bil eldaðar í gegn er þeim bætt út í kjúklingaréttinn (allt fært í stóran pott ef pannan er of lítil) og leyft að malla með kjúklingnum í nokkrar mínútur í viðbót. Borið fram með hrísgrjónum og fersku kóríander stráð yfir réttinn.